mánudagur, 28. mars 2011
Framboð og eftirspurn
Afar fín helgi að baki. Fékk í heimsókn hana Michele vinkonu mína frá Oxfordárum og lagðist í túrisma í Glasgowborg. Þessi 11 pund sem ég borgaði fyrir sægtsíing túrinn eru farin að margborga sig og ég gat þulið upp fróðleik við hvert horn Michele til mikillar aðdáunar.
Á Buchanangötu (sem er aðalverslunargatan) gengum við óvart inn í langa röð af fólki. Þetta var alvöruröð með köðlum og hlykkjum. Hvað er þetta? spurði Michele. Ég varð að játa vankunnáttu mína en taldi þó sýnt að svona margt fólk færi aldrei í röð nema að það væri eitthvað verulega spennandi að bíða eftir. Ég stakk upp á við Michele að við færum líka því það væri örugglega hægt að fá eitthvað ókeypis við hinn endann. Við stúderuðum þessa röð og fannst verulega erfitt að greina hana. Þarna voru gamlir kallar og kellingar innan um unglinga og foreldra með börn. Það ríkti ákveðin spenna en líka svona gleði þarna. Er þetta ekki bara sósíalinn? spurði Michele. Ég gat nú staðfest eftir allar mínar skattaferðir að sósíalinn í Glasgow er ekki þarna á verslunargötunni. Við ákváðum að geyma röðina og kaupa okkur skó.
Þegar að við komum út úr skóbúðinni var röðin enn jafnlöng en spennan hafði aukist. Á tröppunum fyrir framan röðina stóð maður umkringdur öryggisvörðum og hélt uppi einhverju spjaldi sem margir í röðinni reyndu ákafir að taka mynd af á símana sína. Spjaldið reyndist ipad 2 og allt þetta fólk sem iðaði þarna í langri röð á Buchanangötu var að reyna að kaupa sér einn slíkan. Hvað var bara búinn til einn? spurði ég Michele sem hélt að það væru til fleiri en vissulega ekki nógu margir til að allur heimurinn gæti nálgast sinn ákkúrat á þessum föstudegi. Við Michele ypptum öxlum og héldum áfram að skoða skó.
Þetta leiddi samt hugann að framboði og eftirspurn. Fram til þessa hefur verið miklu meira framboð af mér en eftirspurn í kennslumiðstöðinni við Glasgowháskóla. Nú virðast hins vegar allir vera að átta sig á að ég er á leiðinni heim og hér slást menn blóðugt um síðasta tækifærið til að eiga við mig gefandi samskipti. Fólk veltist um gólfin og rífur í hárið hvert á öðru æpandi: Nú má ÉG fara með henni í mat! Á meðan þau slást sit ég bara sallaróleg og les skoskar greinar um háskólakennslu og segi svo letilega: Ókey hver vann! Í dag var það Jane og hún bauð mér í mat á kampus þar sem kom í ljós að í aðalbyggingunni er bæði þetta huggulega mötuneyti og hátimbruð kapella. Skítt þó ég hafi aldrei fundið mötuneytið og ekkert fengið að borða í tvo mánuði en það hefði nú verið gott að komast í eins og eina messu á dvalartímanum.
Á morgun fer ég svo til Aberdeen að hitta hann Darren sem þar rekur kennslumiðstöðina. Ég fékk veður af því prófessor Martin Oosthuizen frá Nelson Mandela Metropolitian háskólanum (sem ég held að sé í Afríku) ætlaði að mæta í Aberdeen háskólann að ræða um námskrárbreytingar í háskólum. Mér fannst gráupplagt að kíkja á það og skrifaði Darren og bað um að fá að koma í heimsókn á þriðjudegi. Hann tók vel í það en taldi ekki líklegt að ég fengi að vera með í námskrárdæminu. Ég varð hvumsa – af hverju ekki hafa mig með? Og kíkti betur á auglýsinguna. Þar kom í ljós að í stað þess að vera með fyrirlestur þar sem ég hefði getað setið aftarlega og lakkað á mér neglurnar og teiknað eplatré í glósubókina mína vill prófessorinn bara tala við 10 manns og það þurfti að sækja forlega um að komast í þennan útvalda hóp. Og þá kom náttúrulega upp þetta dæmi um framboð og eftirspurn og mér fannst allt í einu afar mikilvægt að fá pláss. Ég sendi bréf á yfirkonu gæðamála sem sá um valið og reyndi að benda henni á mikilvægi þess að hafa með í umræðunum skarpgreindan námskrárfræðing sem væri auk þess kona (kynjakvóti), gömul (aldurskvóti), rauðhærð (minnihlutakvóti) og íslensk (alþjóðavídd, aumingjagæska og guð má vita hvað). Hún féll fyrir þessu og ég var samstundis tekin með í liðið. Var ótrúlega montin þar til ég fékk þátttakendalistann. Ég er þátttakandi númer sjö og og sá síðasti í röðinni. Eftirspurnin var ekki meiri en þetta ... og getur þetta þá verið nokkuð merkilegt?
Farin að hlakka til að komast heim og knúsa köttinn, kallinn og krakkana – ekkert endilega í þessari röð.
fimmtudagur, 24. mars 2011
Sex bleikjur
Ég hef áður skrifað um tilraunir mínar til að tengjast hlaupaklúbbum hér í Glasgow. Á mánudaginn ákvað ég að fara í þriðja sinn hér út í Scotstoun að hitta hlaupanettworkið. Þar hef ég áður hlaupið með skemmtilegum hóp á laugardegi og bondað smá við Alison þjálfara á miðvikudegi. Á mánujdaginn var allt annað fólk en hina dagana tvo. Bara konur. Blíðlegar á svipinn og brostu til mín þegar ég mætti sveitt eftir mína 2 km að heiman. Alison var þarna líka en meira svona í bakgrunninum og mjög skosk kona stýrði æfingunni. Hún horfði alvarleg á okkur og sagði eitthvað í þessa áttina: Jeer gonna do fríííí mæl bút wee pínkís ill dú fooooor. Mér skildist að þetta yrði þriggja mílna hlaup en fjögurra ef ég gerði pínkís. Sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var. Alison sá á mér vandræðasvipinn og spurði: Jeer dún pínkís? Datt í hug að það væri skoska heitið yfir íslenska heitið fartlek sem við hlauparar notum heima til að gera okkur breiða þegar við við leika okkur smá með hraðabreytingar. Svo ég sló til.
Við konurnar hlupum rólega upp Krákugötu (sjá síðasta blogg) og allar nema ég hlupu eins og stelpur.Að hlaupa eins og stelpa er alveg ákveðinn hlaupastíll sem ég er reyndar ekki mjög góð í. Þá hleypur maður svona sætt og pent eins og maður vilji ekki skíta mikið út skóna sína. Kallar geta líka hlaupið eins og stelpur. Eftir um það bil mílu komum við að gatnamótum og þar á horninu var hárgreiðslustofan PINKS. Og þá skildi ég loksins þetta með pínkin. Þau fólust í því að hlaupa svona 200 metra rólega að Pinks, snarbeygja til hægri á hárgreiðsluhorninu og taka á sprett um litla en afar bratta brekku, ganga svo rólega niður skuggsund að Krákugötinni (for health og saftí rísons af því þar er smá möl). Sex sinnum. Mér fannst ótrúlega gaman að gera bleikjur og hefði gjarnan viljað gera fleiri. En sætu konunum fannst þetta meira en nóg og þökkuðu guði fyrir að geta hlaupið jafnsléttu aftur heim í hús. Eins og stelpur.
mánudagur, 21. mars 2011
Kallinn með hattinn
stendur upp við staur
borgar ekki skattinn
því hann á ekki aur!
Það á reyndar ekki við mig að ég eigi ekki aurinn fyrir skattinum en mér hefur gengið bölvanlega að finna skattstofuna til að gjalda keisaranum það sem keisarnas er. Þegar ég mætti á Kennoway Drive með vöðlana af pundum til að borga Bræan landlordi sagði hann mér að ég ætti líka að borga fasteignaskatttinn. Ég var dálítið hissa (og spæld) yfir því en lét ekki á neinu bera. Hann lét svo skattstofuna vita af minni tilvist og þeir sendu mér fallegt bréf þar sem þeir rukkuðu mig um rúm 180 pund fyrir tvo mánuði en buðu mér jafnframt um að sækja um skattalækkun.
Skattalækkunina var hægt að fá af ólíklegustu ástæðum og eftir að hafa lesið mig í gegnum langan lista af alls kyns ógæfu sá ég að ég félli líklega undir það að vera einstæðingur. Það veitti mér 25% afslátt sem ég sótti um í snatri. Heyrði ekki meir frá skattstofunni svo ég ákvað að gera mér ferð í síðustu viku til að gera upp skuldir mínar. Skrifaði blogg um þá árangurslausu leit þar sem ekkert fannst starfsfólkið til að taka við aurunum mínum því allir voru á námskeiði.
Eftir að hafa skoðað reikninginn einu sinni enn sá ég að mitt heimaútibú er ekkert niðrí bæ heldur á Krákugötu og það er gata sem ég geng framhjá á hverjum degi á leiðinni í skólann. Ég ákvað í morgun að nú væri kominn tími til að gera upp. Hékk heima til rúmlega 9 til að gefa staffinu tækifæri til að opna en lagði svo í hann. Gekk sem leið lá hálfa leið upp í háskóla og fann þar Krákugötuna. Hélt af stað upp hana en ákvað að kíkja betur á heimilisfangið til að vera viss um að þetta væri rétta gatan. Jú, jú mikið rétt. Skattstofan var á Krákugötu – númer 841. Ég stóð þá fyrir utan númer 3. Hvað getur ein gata svo sem verið löng hugsaði ég með mér um leið og ég snaraði mér af stað upp á móti hækkandi númerum. Hún getur verið mjööööööög löng. Um 10 leytið var ég komin upp í 133. Við 248 datt mér í hug að banka upp á og biðja um vatn. Um miðjan morgun náði ég upp í 700 og sá að kannski tækist mér að ná á leiðarenda fyrir dagslok. Við 836 endaði gatan. Komst yfir Great Western Road og með aðstoð öskukarla og vegavinnumanna tókst mér að finna smástubb af Krákugötu og þar á milli stillansa var skattstofan. Ef ég hefði tekið tilboði skókaupmannsins á föstudaginn um ísítón skóna (sem toga upp á manni botninn í hverju skrefi) hefði ég verið komin með rasskinnarnar aftan á hálsinn.
Á skattstofunni fór allt í kerfi þegar ég mætti með reikninginn og það þurfti að selflytja mig úr almenningnum í búr númer 7 til að greiða úr mínum málum. Ég fékk vissulega einstæðingsafsláttinn enda sást á mér langar leiðir hvað ég var ein og týnd eftir þessa löngu göngu. Hins vegar reyndist ég ekki nægilega rótgróin hér í Glasgow til að fá að borga skattinn sjálf og hefði þurft að afplána minnst fjóra mánuði í viðbót til að axla þá miklu ábyrgð. Bræan landlord þarf því að sjá um sinn skatt sjálfur en ég er í það minnsta komin með stimplaðan afslátt til að sýna honum þegar hann rukkar mig.
Kvaddi skattstofufólkið með kossum og tók í fyrsta sinn strætó í skólann.
Í fréttum er þetta helst
Það er eitthvað lítið bloggstuð á mér núna. Notalegasta helgi að baki nema hvað mér varð minna úr vinnu en ég hafði áætlað. Það varð líka minna úr hlaupum en til stóð. Sat heima á föstudag að vinna og var svona að hugsa um að fara út að hlaupa síðdegis en ákvað að fara frekar í labbitúr í bæinn og kaupa mér nýja hlaupaskó. Ég er með eina hér ytra sem gegna alhliða hlutverki. Ég nota þá til hlaupa, fer á þeim á fjöll og vappa um þeim í bænum um helgar. En svo nota ég þá líka innanhúss í leikfimi. Þvæ þá yfirleitt á milli tíma en á föstudag gleymdi ég því og dró þá molduga upp úr poka í íþróttahúsinu. Reyndi í laumi að berja af þeim mykjuna inn á klói og hélt það hefði tekist. Fór svo í tótal boddí vorkát og fyrr en varði stóð ég í moldarbing við dýnuna mína. Reyndi laumulega að ýta mestu haugunum undir dýnuna en það varð áberandi.
En nú á ég sem sagt nýja skó og get nýtt hina meira innandyra. Á laugardag fór ég svo í nýju hlaupaskóna mína og nýju hlaupapeysuna mína með pakka á pósthúsið og í matarbúð. Hafði vissulega ætlað að hlaupa á milli þessara tveggja viðvika en það eina sem hljóp var tíminn og hann hljóp frá mér að venju. En ég var ótrúlega flott í nýju fötunum, bæði á pósthúsinu og í Morrisons.
Ég bætti hlaupaleysið upp með ´fjallgöngu´enda að æfa fyrir ægilega ferð heim í maí. Við Anna klifruðum því upp á fjallið Dumpling sem Brian landlord hafði mælt með til æfinga. Hann sagði reyndar að fjallið væri ekki hátt og að það tæki ekki nema klukkutíma að ganga það. Við Anna vorum 10 mínútur upp þessa 146 metra. En útsýnið var ótrúlegt. Þetta er oft frekar spurning um staðstetningu en hæð. Og við horfðum bæði yfir Loch Lomond og allar skosku sveitirnar í hinar áttirnar.
Í gær fannst mér ég stirð og stíf og ákvað að taka 5 km mínihring í Viktoríugarðinn. Þar hef ég oft hlaupið en í þetta sinna ákvað ég að fara heim aðra götu en ég fer vanalega. Sú ákvörðun reyndist 7 km löng því mér tókst eina ferðina enn að snarvillast. Hljóp upp og niður götur, norður og suður hverfi og varð svo glöð að sjá ítalska veitingahúsið Italia við Greit Vestern götuna að ég næstum kyssti það. Þaðan komst ég loksins heim.
Ég keypti hins vegar The Times á laugardaginn og það tekur lungan úr helginni að lesa það ágæta blað. Þessa helgina var svona smá skandínavíuþema í gangi. Hér er verið að sýna Forbrydelsen á BBC sem heitir eitthvað allt annað og enginn heldur vatni yfir Sopie Graaböl sem þykir hafa náð að skapa algjörlega nýja kvennalöggutýpu. Sara Lund löggukona er mærð af því að vera einhverf og ómannblendin, áhugalaus ástkona með lítið sexapíl, slök móðir og frámuna kærulaus og léleg húsmóðir. Hún er eiginlega dáð fyrir að vera dæmigerð ekkikona (karl?). En svo smitar þetta á allt danskt og í blaðinu er bæði talað um færeysku peysuna hennar, Arne Jakobssen stóla og aðra hönnun og viðtal við danska sendiherrann í London um hvers vegna allt er svona gott og flott í danaveldi. Þar vísar sendiherrann í danska húmorinn, danska matinn, danska tryggingakerfið, danskt jafnræði og jafnrétti kynjanna.
Á öðrum stað rak ég svo augun í orðið Ísland og las áfram áköf. Þar var verið að fjalla um einhverja breska skítabræður, fjársvikara og loddara sem eru nú í rannsókn hjá Alvarlegu Fjársvikanefndinni vegna tengsla sinna við Kaupþing og Heiðar Már. Þar var sagt frá sukki og svínaríi og ótrúleg óhófsömu líferni um boð í glæsisnekkjum á suðureyjum. Á myndunum brostu þeir glaðbeittir, rauðir í framan og sveittir með armana utan um litlar, barmmiklarm ljóskur sem þeir hafa örugglega bara verið að passa.
Danmörk – Ísland 14-2.
föstudagur, 18. mars 2011
Á verkfallsdegi
Stundum sit ég hérna heima á Kennoway Drive og vinn en aðra daga sækir að mér einmanaleiki og þá dríf ég mig ´í vinnuna´- fer upp í skóla þar sem ég hef vinnuaðstöðu og hitti ´vinnufélaga´. Í gær var þannig dagur svo ég axlaði leikfimisdótið og hlaupaskóna, ferðatölvuna, bókasafnsbækurnar og nestið og fór í skólann. Fyrir utan aðalbygginguna stóð fullorðið fólk með kröfuspjald. Þetta reyndust vera háskólakennarar í dagsverkfalli. Stoppaði hjá þeim, fékk dreifibréf og spurði út í málin. Háskólar hér eru eins og víðar að bregðast við niðurskurði og ein aðgerðanna er að ráðast á eftirlaunasjóði háskólakennara og þeir ósáttir við það. Ég kvaddi og fór á Kennslumiðstöðina.
Í kennslumiðstöðinni voru allir í verkfalli nema öryggisvörðurinn í andyrinu og svo Vigga yfirkona. Kíkti til hennar til að athuga hvort hún gæti eitthvað aðstoðað mig varðandi bókasafnskortiðð mitt sem er runnið út. Vigga er sérstök, svo einstök að hún kemur mér alltaf á óvart. Og ég sem hélt ég þekkti allar tegundir af fólki. Hún er full af andstæðum og undarlegu drama. Þegar ég bað hana um húsaskjól fyrir löngu sendi hún mér afar hlýlegt bréf og hlakkaði þessi ósköp til að fá mig í hús. Þegar ég mætti sagði hún mér að koma eftir mánuð. Þegar ég þrjóskaðist við lét hún mig fá besta herbergið í húsinu en sagðist jafnframt ekki hafa neitt pláss fyrir mig og þurfa fljótlega að henda mér út því hér væri mikið um að vera og þyrfti að nýta hverja smugu. Síðan þá hef ég ekki séð nokkurn mann á hrakhólum.
Í gær fórnaði hún höndum þegar ég mætti, stökk upp og spurði hvort ég vissi ekki að það væri verkfall. Jú ég sagðist hafa stoppað hjá aðgerðarsinnum en sjálf væri ég ekki í verkfalli hér enda gestur.Ég þorði ekki að spyrja hana hvað hún væri að gera í vinnunni. Ég bað hana um hjálp við að framlengja bókasafnskortið. Hún taldi það vonlaust mál. Hún yrði að hafa samaband við Júlían og gæti ekki verið að biðja hann um að forgangsraða svona smáræði nú þegar hann væri orðinn næsti yfirmaður háskólans. Ég skildi það vel að vararektor hefur annað við tímann að gera en útbúa bókasafnskort fyrir kerlingar að norðan. Ég sagðist þurfa að skila bókasafnsbóknum mínum. Hún bað mig í guðanna bænum að fara ekki á bókasafnið á þessum verkfallsdegi. Eru þau á bókasafninu í verkfalli spurði ég. Nei en Vigga taldi eins víst að háskólakennararnir myndu setja upp víggirðingar og jafnvel slást. Mér varð hugsað til þessara fimm sem stóðu með spjaldið við aðalbygginguna. Þau virtust frekar hættulaus en kannski höfðu þau sent ofbeldisfullu kennarana á bókasafnið. Kvaddi Viggu og kinkaði aftur kolli til öryggismannsins sem passaði okkur tvær fram eftir degi.
Fór i dagslok á bókasafnið að skila bókunum. Kíkti laumulega fyrir horn til að forðast gúttóslaginn en allt virtist með kyrrum kjörum og jafnvel komið smá vorlykt í loftið. Annað hvort voru hættulegu háskólakennararnir í kaffi eða bara farnir heim. Á bókasafninu talaði ég við elskulega stelpu í þjónustugatinu. Sagði henni að aðstoðarrektor væri víst of upptekinn til að búa til nýtt kort handa mér. Hún hló og framlengdi kortið án nokkurra vandræða. Vonandi verður hún einhvern tíma rektor Glasgowháskóla
miðvikudagur, 16. mars 2011
Hómalón
Dóttlan mín farin aftur heim og skilur eftir sig einmana móður, þúsund tóma plastpoka og undarlega hitakremslykt í stofunni. Við erum búnar að hafa það afar gott saman síðustu daga og dagskráin hefur verið nokkuð einföld. Eftir léttan morgunverð höfum við axlað regnhlífarnar og ætt í gegnum regn eða slyddu í miðbæinn þar sem við höfum að mestu haldið til HM og Primark. Stundum höfum við gert stutt stopp til að setjast á kaffihús eða jafnvel bar til að safna orku en svo haldið áfram þar til okkur hefur verið hent út úr búðum í dagslok. Ég tuða aðeins í dóttlu um nægjusemi og sjálfbæra veröld, hún kaffærir mig í einhverjum óskiljanlegum rökum. Eitt kvöldið var sérstök frétt í BBC Skotland um að hagur landsins væri a vænkast. Við töldum okkur eiga þátt í þeirri upprisu. Á kvöldin höfum við eldað eitthvað í pínulitla eldhúsinu mínu og borið á hitakrem á þreytta fætur og axlir. Í gær bættum við um betur og fengum okkur feisliftmaska og lituðum á okkur hárið.
Og svo voru þessir dagar farnir og enn á ný kominn tími til að strekkja á naflastrengnum sem dóttla hefur lýst sem ofursterkri gúmmíteygju: það má teygja hana dável en að endanum skreppur hún alltaf saman. Ég fylltist svo miklum aðskilnaðarkvíða að ég fylgdi henni í strætó alla leið út á völl. Hún hofði ásökunaraugun á mig þegar að hún setti töskuna sína í tjékkið og í ljós kom að hún vóg aðeins 16 kg. Það þýðir að enn lágu 4 kg ókeypt í Primark.
Tók strætó aftur til Glasgow ein og lítil. Til að nota daginn ákvað ég að fara í bæjarskrifstofuna og borga skattinn minn og láta svo klippa mig sem mér finnst alltaf erfitt dæmi í útlöndum. Gekk illa að finna skattinn en eftir að hafa þvælst hús úr húsi náði ég sambandi við opinberan starfsmann í gegnum dyrasíma sem sagði mig á næstum réttums tað en að það væri allt lokað. Akkuru spurði ég og fékk að vita að í dag eru allt skattafólkið í stafftreining. Nú jæja, prófa aftur síðar í vikunni og fæ þá vonandi vel þjálfað lið til að tala við.
Næsta verkefni var þá klippingin. Þurfti reyndar að kaupa mér skæri um daginn og var lengi vel að velta því fyrir mér hvort ég gæti ekki tekið smá klippingu sjálf. Hætti við það og ákvað að fara til þeirra félaga Tony og Guy sem klipptu mig einu sinni í Oxford þannig að ég þorði ekki út úr húsi í viku ...en varð svo ánægð þegar á leið. Gekk illa að finna þá en þegar það tókst kom í ljós að einföld klipping kostaði rúmar 12 þúsund krónur. Mér fannst það dýrt og kvaddi. Fór heim á mína Dumbartongötu og fékk þar klippingu fyrir helmingi minna fé – en það getur líka verið að ég hafi borgað miðað við gæði.
Ég skil ekki alveg þessar hárgreiðslustofur í útlöndum. Þarna var enginn inni nema ég og fjórar starfsstúlkur. Fyrst kom neminn og klæddi mig úr kápunni og spurði hvort ég væri með hreint hár. Ég sagði já. Hún þríþvoði á mér hárið. Setti mig í stólinn til Carmen sem tók lint í höndina á mér og kynnti sig. Hún spurði svo hvernig hárið á mér væri þegar það væri þurrt. Ég reyndi að lýsa því hvernig hárið á mér var þegar ég gekk inn á stofuna hennar nokkrum mínútum fyrr. Hún spurði hvort það væri liðað. Já sagði ég nokkuð stolt. Við ákváðum saman að halda stílnum en stytta það vel. Hún mundaði skærin og klippti ein fjögur hár af hausnum á mér. Náði svo í hárþurrkuna og byrjað að blása og stílesera með pínulitlum hárbursta. Ég fylltist örvæntingu. Hún náði í alls konar efni og sturtaði í hársvörðinn og hélt áfram að blása. Þetta tók óratíma og mig fór að gruna að Carmen héldi að ég væri komin í greiðslu en ekki klippingu. Sagði því gráti nær: Ætlarðu ekki að klippa mig meira? Hún horfði ströng á mi g og sagðist þurfa að ná í fleiri efni til að textúlæsa hárið. Þannig væri fyrst hægt að klippa það. Svo setti hún fleiri efni í hárið, hitaði sléttujárnið og mundaði af leikni. Eftir mikla textúlæsingu klippti hún aðeins meira, náði í spegil og brosti glöð. Ég sagði meira, hún varð súr, klippti smá meira og náði svo í lakk og lakkaði vel yfir allt. Brosti aftur eins og sól, skrifaði nafið sitt á kort og vonaðist til að ég nyti þess sem eftir væri ferðarinnar. Fór heim með næstum hárið og 6 tegundir af hárpródúkti í því. Jæja ég á þó altént skærin ennþá.
Það er þögn í íbúðinni á Kennoway Drive og ég næ mér í dagatal til að telja dagana þar til ég flýg aftur heim til minna. Þeir eru sem betur fer ekki margir.
mánudagur, 14. mars 2011
Öskubuska
Dóttlan mín er komin í helgarheimsókn. Hún lenti um hádegisbil á laugardag og ég tók strætó út á völl að sækja hana. Eftir að hafa knúsast smá og borðað skoskt brauð var okkur ekkert að vanbúnaði. Við settum undir okkur hausinn og héldum út í slyddu og slagveður og örkuðum blautar í fæturna alla leið oní bæ. Dóttlan baugótt og ósofin ljómaði eins og sól þegar í gegnum mugguna fór að grilla í langþráð kennileiti: HM og Primark. Hún var komin heim. Þetta var samt fyrst og fremst könnunarferð fyrir frekari víking. Hún rétt svona skimaði hillur og rekka haukfráum æfðum augum, greip örsnöggt í flíkur og kannaði kostnað og gæði. Umreiknaði úr pundum í aura og áætlaði hagnað. Bætti við vísitölum og áhættukosnaði og kinkaði kolli þokkalega sátt.
Yfirlýst markmið ferðar í dag voru skór. Og skó fann hún. En bara einn. Sá var reyndar á mjög góðu verði. Og flottur. En stakur. Öldruð móðirin skreið örvæntingafull á maganum á milli hillurekka í leit að hinum. Dóttlan talaði við örþreytta og frekar kærulausa starfsmenn. Fyrir þeim var týndur skór ekki endir alheimsins. Þeir söguðu að vísu yes, yes en héldu svo bara áfram að raða í hillur og undirbúa næsta dag. Við hugleiddum ampúteringu. Móðirin skreið áfram um gólfin. Við mægður játuðum okkur sigraðar þegar ljósin í kauphöllinni voru slökkt og öflugir öryggisverðir mættu upp rúllustigana til að henda okkur út.
Fórum heim og borðuðum pasta til að hlaða fyrir næsta dag. Vöknuðum eiturhressar þrátt fyrir skóleysið og hófum daginn á flóamarkaði. Borðuðum líka í fyrrum teppaverksmiðju sem nú hýsir frægt brugghús. Ákváðum að þá væri komið nóg af hámenningu og réðust aftur í innkaup. Dóttlan sem fyrr örugg og ákveðin í fasi, ég alltaf að leita að henni. Það var ekki auðvelt, sérstaklega ekki eftir að hún fór að klæða sig í nýkaupin jafnóður.Var ýmist að leita að stúlku í svartri kápu eða brúnni.
Held að uppskera dagsins hafi verið þokkaleg. Við sátum í það minnsta saman í sófa í gær í nýju náttkjölunum okkar og borðuðum alíslenskt ostapopp.
Það er runninn nýr dagur. Dóttla sefur enn. Hér á stofuborðið sé ég að hún hefur lagt lista yfir það sem enn vantar. Það er strangur dagur framundan.
Að tilheyra hópi
Þegar ég hef brugðið mér af bæ til lengri dvala hefur það verið mitt fyrsta verk að finna mér hlaupaklúbb. Þannig hef ég hlaupið með lókalliði í Álaborg, London og Oxford og náð á hlaupum að kynnast bæði innfæddra siðum og rata á nýjum slóðum. Hér í Glasgow gekk þetta ekki eins auðveldlega fyrir sig. Ég var talsvert að leita fyrst eftir að ég mætti og gúgglaði alls konar möguleg leitarorð en án mikils árangurs. Fann vissulega nokkra klúbba og skoðaði. Einn er upp í háskóla en þar er meðalaldurinn 12 ára og ég kann ekki við að vera byrði á erlendum börnum. Annar var til styrktar samkynhneigðum og þó ég hafi ekkert á móti því að hlaupa með hýrum þá reyndust þau líka öll 12 ára. Svo voru nokkrir hér og þar en allir langt í burtu og ég löt að finna út hvernig ég ætti að komast í úthverfi að hlaupa. Hef því látið nægja að hlaupa ein með sjálfri mér litla hringi hér í nágrenninu. Þó að slík einmenningshlaup séu ekki beint leiðinleg þá þrýtur umræðuefnin fljótt og ég neyðist til að hlaupa í þögninni með sjálfri mér.
Þegar ég var eiginlega farin að hætta að nenna að hlaupa með mér ákvað ég að fara aftur á netið og leita betur. Rekin áfram af örvæntingu gekk þetta betur og ég fann ekki bara klúbb heldur heilt hlaupanetverk Glasgowborgar sem hleypur frá ólíkum bæjarhlutum eftir dögum. Það sem reyndist næst mér er eins og systurfélag trimmklúbbsins míns heima að því leyti að hlaupið er á sömu dögum. Það er líka hægt að verða ársmeðlinur eins og heima en ólíkt því sem ég þekki þarf hér að borga fyrir hvert einstakt hlaup.
Ég ákvað að núna á laugardaginn myndi ég mæta. Var búin að undirbúa mig vel. Hljóp t.d. í íþróttahúsið í vikunni til að athuga hvað ég væri lengi að koma mér á áfangastað og fá frekari upplýsingar um stað og stund. Þvoði líka hlaupaskóna mína og þurrkaði á miðstöðvarofninum. Sá þetta alltaf fyrir mér að ég kæmi hlaupandi léttilega úr Viktoíugarðinum með sólina í bakið og á stéttinni við badmintonhöllina stæði hlaupahópurinn allur, brygði hönd fyrir augun og segði: Nei hver er nú þetta sem kemur þarna svona létt á fæti?
Vaknaði átta á laugardagsmorgni í hörmulegu slydduveðri. Velti fyrir mér að fara bara aftur upp í en gaf ekkert eftir, fór í nýþveginn hlaupagallann, setti pening í vasann og hljóp af stað. Ég var orðin rennandi blaut á vesturhliðinni áður en ég komst út götuna mína. Í Viktóríugarðinum hafði ísköld slyddan læðst niður hálsmálið og meðfram öllum saumum og ég orðin köld inn að beini. Það var enginn fyrir utan badmintonhöllina þegar ég mætti þangað og ég stóð þar heillengi alein og blakaði slyddunni úr augunum (eða voru það tár?)og bölvaði veðrinu og heiminum öllum. Þegar ég var um það bil að fara aftur heim vonsvikin og leið kom kerla á mínum aldri á harðakani út úr höllinni og náði í mig. Upp á stigapalli stóðu fjórir hlauparar og tveir þjálfarar, miðaldra konur. Þær reyndust hinar elskulegu, voru glaðar að fá mig í hópinn og það óð á þeim. Ég skildi fyrst ekki orð af því sem þær sögðu en áttaði mig svo á því að þær voru að útskýra fyrir mér að af health og saftí ríson gætum við ekki farið út að hlaupa í dag. Nú sagði ég. Já það er of hálkt úti til að hlaupa. Ég sagði þeim að ég væri búin að hlaupa rúma 2 km til þeirra og að færið væri fínt. Þær sögðust afar leiðar en útskýrðu að við óbreyttu hlaupararnir skildum ekki nógu vel health og saftí dæmið. Ég varð hugsað til minna þjálfara heima. Ætli þær viti ekkert um health og saftí. Þar er engin miskunn hjá Magnúsi og okkur félögum í trimmklúbbnum er miskunnarlaust þvælt um allan bæ í hvaða veðri og aðstæðum sem er. Þær kalla manndrápsbyli hressandi og biðja okkur í mesta lagi að setja á okkur brodda þegar að allir aðrir eru á slysó fótbrotnir. Þær hefðu kallað þessa slyddu sumarblíðu!
Við óbreyttu kinkuðum kolli, horfðumst í augu og gerðum uppreisn. Kvöddum health og saftí kellingarnar og hlupum sjálf út í slydduna. Ókeypis og eftirlitslaus. Og það var sko gaman. Við möluðum út í eitt og þó það væri á skosku (hjá þeim) eru hlaup nokkuð alþjóðlegt dæmi og orð eins og marthon, injury, asics, 21 k, training og PB gat ég skilið á útlensku. Við hlupum í slyddunni leiðir sem ég hefði aldrei vogað mér, meðfram síkjum, niður stíga, innum húsasund og enduðum kát fyrir framan badmintonhöllina. Þar reyndu þau að læra nafnið mitt og ákváðu að það væri Good Run og hlógu dátt að eigin fyndni. Ég fór heim með 16 km að baki og loforð um að mæta næst með föt til skiptanna svo ég geti farið með þeim í kantínuna að borða eftir hlaup. Sem ég segi, enn og aftur: hlauparar eru bara einstakt fólk!
fimmtudagur, 10. mars 2011
Þvottadagur
Það var stórþvottadagur hjá mér í fyrradag eftir að Hannes kvaddi. Hann sagði mér reyndar að frá því að síðan hann losnaði við mig að heiman hefði hann þvegið eina vél. Ég þefaði varlega að honum og hann virtist í lagi og engin kvörtun hefur enn borist til mín frá heilbrigðiseftirlitinu. En ein vél á mánuði! Þegar ég stýri búinu gengur þvottavélin daginn inn og út og Hannes sem hefur það hlutverk að brjóta saman þurran þvott er alltaf gáttaður yfir magninu. Hann flokkar þvottinn okkar í tvennt. Minn stafli er himinhár en hans yfirleitt sokkarpar og nærur. Ójafnvægið skýrist að hluta til af öllum þessum íþróttafötum og handklæðum sem fylgja mínu sprikli en svo hef ég tendens til að ´fylla vélina´- spara með því að troða í hana næstum hreinum fötum – svona frekar en að hengja þau aftur upp í skáp. Það er ekki beint hægt að kalla mitt starf erfiðisvinnu, þetta er mestan part svona þokkalega hreinlegt skrifstofstarf. Þannig að það má alveg fara tvisvar í sumar flíkur þó ég hafi setið í þeim á stól í 8 tíma í vinnunni. Laga það!
Hér ytra hef ég ekki mikið til skiptanna og því eru þvottar dálítið vandamál – og þetta prinsipp með að fylla vélina gengur bara ekki upp. Þvottavélin er hins vegar rúmgóð og prógrömmin löng og það tekur mig sárt að sjá nokkur sokkapör veltast um klukkutímun saman í tóminu. Svo er vélin svo öflug að það heyrist í henni ekki bara um allt hús, heldur alla Glasgow og eflaust á kyrrum dögum til Edinborgar. Það var því sérstök hamingja að geta tekið af rúmun og fyllt vélina af rúmfötum og handklæðum, hlaupafötum, nærbuxum og sokkum og ég setti meira að segja einu náttfötin mín með í púkkið. Vandinn er hins vegar að þurkka þetta allt.
Daginn sem ég kom á Kennoway Drive fór Bræan landlord með mig út í bakgarð og sýndi mér þar stoltur þvottasnúrur. Allar þessar átt þú sagði hann eins og konungur við gjafvaxta dóttur og benti yfir garðinn og hér máttu hengja þinn þvott. Næstu tvo daga var ég svo með stanslausar áhyggjur af því að eiga ekki klemmur og velti því mikið fyrir mér hvar ég ætti að kaupa þær. Það er skemmst frá því að segja að frá því að Bræan sýndi mér snúrurnar hefur ekki stytt upp að nokkru gagni. Það væri fullt starf fyrir marga að rífa þvottinn inn um leið og það skellur á með skúrum. Klemmurnar eru því enn ókeyptar. Ég nota hins vegar bara gamla trixið. Skrúfa miðstöðina í botn, sett plöggin á sjóðheita ofna og sit sjálf bersössuð í hugglega heitu stímbaði inni í stofu og skrifa.
mánudagur, 7. mars 2011
Söknuður
Hef ekki komist í að blogga upp á síðkastið því Hannes kom í heimsókn og truflaði mig. Sótti hann með strætó út á flugvöll á miðvikudaginn og var alsæl að sjá hann aftur eftir mánaðar viðskilnað. Reyndar ekki sælli en svo að ég skildi hann eftir einan í Glasgow daginn eftir á meðan að ég þvældist eftir krókaleiðum til Edinborgar á ráðstefnu. Mér til málsbóta fannst mér ráðstefnan leiðinleg og var eftir fyrsta fyrirlestur komin aftur til hans í huganum.
Þó ég teljist íbúi þá var Hannes auðvitað Íslendingur í útlöndum svo við lögðumst í ferðamennsku og ólifnað. Drukkum gin og tónik á undan hverri máltíð og ég sem var ekki búin að borða sykur í mánuð gúffaði í mig tveimur íslenskum kókosbollum, útlensku Malteser, risaskammti af klísturkaramellubúðingi og ítölskum ís. Hannes tók að sér að kynna mig fyrir hverfisbörunum. Ég er hálfgerð raggeit þegar kemur að því að vappa ein inn á bari en hér á næsta horni eru einir þrír afar lofandi sem ég gjóa alltaf augunum inná þegar ég rölti framhjá á föstudagskvöldum með bókasafnspokann. Við prófuðum þá alla og eignuðumst meira að segja vini á einum sem vildu gefa okkur hund. Þetta var mjög stórmannleg gjöf því hundurinn, af Nýfundnalandskyni, var á stærð við kvígu. Við ákváðum að afþakka gjöfina. Af því að þetta verkefni gekk svo vel prófuðum við fleiri bari. Nú og við horfðum líka á síðustu mínúturnar í nokkrum fótboltaleikjum, borðuðum snilldarmáltíð á Tveimur feitum konum, skoðuðum háskólann, garða, byggingar, gengum göt á sólana, keyptum föt á barnabörnin, fórum á þrjú söfn, nokkur kaffihús og bari og í skoðanatúr með rauða strætónum. Vitum orðið allt um Mackintosh sem er arktiekt en ekki karamella. Í morgun var Hannes tilbúinn í flug aftur heim og ég sendi hann meira að segja með fyrra fallinu á flugvöllin svo ég gæti fundað með kollegum á skæpinu.
Það varð fjarska tómlegt eftir að hann fór. Fimm dagar eru fljótir að líða og líklega hæfilegur tími fyrir par eins og okkur. Mér fannst hann enn bera af öðrum mönnum þegar hann kvaddi og tíminn reyndist bæði of naumur til að taka upp gamlar værur (eins og þegar hann sofnaði í leikhúsinu og nennti ekki að taka sameignina – þetta eru reyndar tvö óskyld tilvik)og plana eitthvað um framtíðina (held að Hannesi þyki værurnar skárri en framtíðarhjal). Hannes náði reynar aldrei að smakka haggis og við gleymdum að drekka víský!
Fór sem betur fer í ferðalag í kennslumiðtöðina í Stirling með Stuart um hádegisbil. Gatt frætt hann um ótalmargt eftir kynnisferðina um helgina (hann sem fer á hverjum degi um M8 brúna hafði ekki hugmynd um að auk hans færu 119.999 aðrir bílar þar um á dag!). En það sló lítið á söknuðinn að sitja og hlusta á einhverjar skoskar kellingar mala um mikilvægi góðrar kennsluhátta svo þegar ég kom aftur til Glasgow leitaði ég uppi flottu hlaupabúðina sem við fórum í á föstudaginn en fundum hvergi á sunnudeginum. Fann hana í dag og þar biðu mín enn hlaupaskórnir sem ég hafði látið taka frá og af því ég var svo sorgmædd bætti ég við hlaupapeysu og toppi. Arkaði með stóran innkaupapoka heim og fann að ég var jú pínulítið glaðari. Hefði samt örugglega þurft í það minnsta buxur og stakk í viðbót til að hætta að sakna.
miðvikudagur, 2. mars 2011
Danstími
Ég fór í dans í gær eftir að hafa hlaupið 10 km léttileg fyrr um daginn. Ég reyni alltaf þegar ég get að telja öllum trú um að ég sé bara assgoti góð að dansa og guð einn má vita hvað ég væri að gera í dag hefðu foreldarar mínir staðið sína plikt og sett mig í dansskóla. Ég fór einu sinni í Ceroc (sem er svona komdu að dansa) með Michele í Oxford. Þar var dansað í bæjarráðssalnum og á milli dansa tylltum við okkur í rauða plussstóla. Nú vildi Anna endilega fá mig með í skoskt Creoc. Ég lét til leiðast og átti að mæta á Jumpin Jack tuttugu mínútur yfir sjö.
Af því að lífshlaupið var í gangi þegar ég kom hingað út fyrst (og hvert skref talið) hef ég ekki enn tamið mér að fara neitt nema fótgangandi. Þetta er agalegt vesen og ég er hreint út sagt að verða bæði úr mér gengin og illa gengin á göflum. Ég sem sagt strunsaði í bæinn á maraþonhraða sem tók 45 mínútur og mætti á barinn sem var nú dálítið annað umhverfi ég er vön frá Oxford. Þar beið Anna og svo hímdu hér og þar nokkrar sálir sem virtust týndar. Eftir smá stund kom svo Heather á sviðið og reyndi að hressa við mannskapinn sem tókst bærilega og allt í einu fylltist gólfið af pörum.
Það voru – að sjálfsögðu – mun fleiri konur en karlar svo þeir stóðu kyrrir á milli laga en við færðumst reglulega á milli og urðum inn á milli að standa í stiganum og bíða eftir að kæmi að okkur. Þetta var byrjendatími og ég náði að dansanokkur spor í slómósjón við fullt af herrum. Við náðum á hálftíma sporunum fram og aftur, fram og aftur, fram og aftur en sleppa hönd og sveiflast fram hjá herra, eitt skref aftur, eitt skref til hægri, út með hendina, hraður hringur, eitt skref aftur, hönd á öxl á herra (sem allt í einu snýr baki í þig) og láta höndina renna yfir öxlina á honumog sveifla sér aftur fyrir hann, hönd endar í lófa, aukahringur og svo aftur fram og aftur (sko og þetta þurfti ég að borga 7 pund fyrir en þið fáið alveg ókeypis! – reyndar er þetta bara það sem dömurnar gera).
Eftir byrjendatímann mátti æfa sig og þá snaraðist að mér leiguliði (taxi danser) og einhenti mér á dansgólið og sveiflaði mér eins og óður fram og aftur. Ég var skelfingu lostin og alveg eins og þegar ég vangaði í fyrsta sinn í gaggó var lagið sem spilað var undir dansinum gjörsamlega endalaust. Brosti í danslok vandræðalega til mannsins sem fór strax að leita að annri konu að hrella, skjögraði aftur í sætið til Önnu sem var nú komin í stuð og stakk upp á við héldum bara á fram í tímanum sem nú var fyrir meðaljóna. Kláraði vatnið mitt, sá á eftir henni út á gólfið, veifaði bless og labbaði aftur í 45 mínútur heim.
Farin út á flugvöll að sækja Hannes. Í þetta sinn ætla ég samt ekki að ganga.
þriðjudagur, 1. mars 2011
Mæling heimsins
Ég hef þurft að líða fyrir það í gegnum tíðina að vera félagsvísindakona. Það þýðir að ég hef stundum átt í basli með stærðfræðina (féll í landsprófi og svona). Ég var samt stundum látin kenna börnum á Akranesi stærðfræði en það er nú bara enn eitt dæmið um hvernig farið er með landsbyggðina. En nú er þetta held ég allt að breytast og ég farin að sýna slíka raunvísindatakta að þeir fá Einstein til að roðna í gröfinni.
Ég sat sem sagt heima í dag á náttfötunum að vinna og um og eftir kaffitíma ákvað ég að nú væri lag að fara út að hlaupa. Ég vildi ekki fara langt því í kvöld er meiningin að labba niður í bæ á klúbbinn Jumping Jack og æfa Ceroc dansa. Það hef ég áður reynt í fyrri rannsóknarleyfum. Ákvað þess vegna að 10 km væru alveg hæfilegt. En þá versnaði í því. Mig langaði að prófa nýja leið og á risakort af Glasgow og öllum hennar úthverfum - en ekkert til að mæla það með. Sumir (kannski þeir sem eru greindari en ég) hefðu líklega fundiði gúgglemapp á netinu en ég er ekkert fyrir einfaldar lausnir. Ég breiddi fyrst úr risastóra kortinu mínu yfir allt borðið og ákvað að fara í norður – austur – suður og vestur. Ég fann strax mælikvarðann á kortinu en hann var í mílum. Umreiknaði það í snarhasti í kílómetra (ég er orðin dálítið góð í því)og fékk út að hver slíkur væri um 5 sentimetrar á kortinu. Enn vandaðist málið því enn átti ég ekkrt til að mæla með. Gúgglaði reglustiku og viti menn hana er að finna í raunstærð á netinu. Reyndi að mæla kortið fyrst beint með þessari rafrænu reglustiku í tölvunni en það gekk ekki vel og allt var komið í verulega flækju og kuðl. Leit í kring um mig í örvæntingu. Á borðinu fyrir framan mig voru alls konar bækur (flottar af bókasafninu) dagatal, kaffibollinn minn og svo Vasa hrökkbrauð úr Ikea - með osti. Plokkaði ostinn af – og nagaði hrökkbrauðið niður í nákvæmlega 5 sentimetra samkvæmt gúgglureglustikunni og mældi leiðina. Sýndist hún 10 km.
Lagði á minnið helstu götur og hljóp sem leið lá upp götuna mína í norður. Komst svona eins og einn og hálfan kílómetra áður en ég fór að villast. Samkvæmt kortinu átti ég að hlaupa meðfram risastórri sjúkrahúslóð en var allt í einu komin inn á miðja lestrarstöð. Stökk þar í gegnum síðdegisösina og út á götu hinum megin teinanna og ákvað að fá ekki neitt örvæntingakast. Sikksakkaði norður og austur til skiptis, lenti ínn á lóð hjá ókunnu fólki, vinkaði til þeirra og tók strauið aftur út á götu. Rambaði út á hraðbraut og fann þar stuttu síðar leið meðfram á sem ég ákvað að gæti hugsanlega verið Kelvin áin. Eftir um tvo – þrjá kílómetra í viðbót var ég farin að kannast við mig og síðasta spölinn hljóp ég hamingjusöm á áður könnuðum slóðum. Tók smá krók til að forðast umferðarfnykinn á Dumbartongötunni minni og stökk léttilega upp síðustu brekkuna upp að Kennoway 6. Leit á garminn - hann sagði 9:98! Mæling heimsins – pís of keik með Íkea!
sunnudagur, 27. febrúar 2011
Blújín blús
Mér finnast gallabuxur megaflottar – á öllum nema mér. Það eru auðvitað til trilljón snið svo að allir geta fundið sitt rétta – nema ég. Ég hef aldei fundið mínar réttu buxur. Ég á reyndar einar sem mér þykir vænt um og kom með hingað út. En þær eru orðnar meira en áratuga gamlar og verulega hverfandi. Þetta eru einu brækurnar hér í skápnum utan sparibuxurar enda stóð til að nýta dvölina hér ytra í að finna nýjar. Anna á 28 pör af gallabuxum sem smellpassa og hún sagði mér að fara í Gap – þar gætu allir fundið sér gott par. Ég fór í Gap og fékk aðstoð elskulegrar stúlku til að finna það eina rétta. Fyrst vildi hún vita að hvaða lit ég væri að leita – bara svona bláum sagði ég og hún benti mér á bláu hillurnar þar sem var að finna buxur í öllum litbrigðum himinsins. Ég valdi einn. Hún spurði næst hvers konar leggi ég vildi. Bara svona eins og mína eigin sagði ég. Nei viltu frá útvíðar um kálfa, beinar niður, aðþrengdar um kálfa. Bara svona beinar sagði ég. Ókey viltu fá flögrandi um lærin, beinar með lærum eða umfaðmandi um lærin. Bara svona beinar sagði ég enn og aftur. Viltu fá niðursniðnar í mittið eða meðalháar spurði tátan og þarna var ég alveg viss. Ég vil fá þær hátt upp í mittið og helst brókaðar upp undir handveg sagði ég en hún hefur kannski ekki skilið mig. Fór inn í klefa með þessar útvöldu sem sátu flottar á rassi, lærum og leggjum en náðu ekki hálfa leið upp að nafla. Er þetta meðalhátt snið spurði ég stúlkuna sem svaraði játandi og ég velti því fyrir mér hvert hið lága gæti mögulega náð og kvaddi buxnalaus.
Í gær hjálpaði ég henni Önnu að flytja. Ég skottaðist upp og niður 50 tröppur með ótal kassa og poka og bar þá svo upp í nýju íbúðina hennar. Fór aftur í þá gömlu og gerði stórhreingerningu. Kom heim ánægð með dagsverkið en dálítið skítug. Þar ekkert sérstakt var á dagskránni í dag setti ég í vél seint í gærkveldi og þvoði buxurnar mínar einu. Í morgun vakanaði ég við að sólargeisli skreið yfir sængina mína og stuttu seinna hringdi Anna hin nýflutta, var á leið til fjalla með félögum sínum Susi og David og bauð mér með ef ég kæmi mér til hennar í hvelli. Ég stökk á þvottasnúruna og uppgötvaði að gallabuxurnar voru rennblautar. Setti kyndinguna í botn, ofninn á 5 og lagði þær þar á meðan ég gleypti í mig morgunmat. Það stóð gufumökkur upp af buxunum en þær voru enn blautar eftir morgunmatinn. Náði í ferðahárþurrkuna og blés í báðar skálmar og skreið svo í þær rakar og hljóp af stað.
Ég sagði ferðafélögunum mínum frá vandræðum mínum. David sagði ekkert en þær stöllur töldu aldeilis ófært að eiga bara eina brók og Susi hin danska sagði að ég ætti að drífa mig niður í TKMax. Þar væri hægt að fá hátískuvörur síðasta árs á engu verði. Ég sá að Anna var skeptísk. Göngutúrinn var frábær en ég hefði ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af blautum gallabuxum því skoskar heiðar eru vætusamar á þessum tíma árs og það flæddi grimmt í gegnum hlaupaskóna mína (og sem betur fer út aftur) og buxurnar urðu blautar og moldugar upp undir lær.
Komin heim hellti ég úr skónum, koma hita í tærnar og hélt af stað í bæinn að finna TKMax – sem er merkileg megafatasjoppa. Þar fann ég til 14 pör af gallabuxum sem ég dröslaði á eftir mér inn í búningsklefann og mátaði. Eftir 13 var ég gráti næst. Þær síðustu hins vegar pössðu – ókey voru svo sem ekki greit en pössuðu. Ég kíkti á merkimiðann og þær voru á býsna góðu verði. Rak þá augun í leiðbeiningamiða. Þar stóð að þessar buxur væru litaðar með einstökum indígólit – þær mætti því alls ekki þvo heldur setja í þurrhreinsum. Þær ættu það jafnframt til að lita við snertingu og gætu litað húð. Blæ mí (sem þýðir: hvers konar bull er þetta!). Rosa gaman að koma í nýju buxunum í boð og þurfa að biðja húsráðendur um plastpoka undir rassinn! Enn skemmtilegra að hátta sig úr þeim laugunum og hafa bætt á minn náttúrlega náföla húðlit, dimmbláum blæ frá mitti og niðrúr. Ég skilaði öllum buxunum hágrátandi. Á leiðinni út gekk ég, blinduð af tárum, beint á rekkann með svörtum kjólum. Ég get kannski ekki keypt mér gallabuxur en ég er alveg dúndrandi góð í að kaupa mér svarta kjóla. Fór hamingjusöm heim með tvo, annan svona tipsí kokteilkjól sem ég get ekki ímyndað mér við hvaða aðstæður ég ætti að nota og hinn .... ja hann minnti mig svo á íslenskan svörð í vorleysingum – að ég fylltist heimþrá og bara varð að fá hann. Só! Æma materíal görl!
föstudagur, 25. febrúar 2011
Af eróbikk og öðru erfiði
Þegar ég er í heimahögum er íþróttaiðkun mín í nokkuð föstum skorðum (sem betur fyrir miðað við stöðuna hér ytra). Á mánudögum dregur Steinunn þjálfari mig síðbotna og seina einn Hallgrím eða jafnvel kirkjugarðinn. Hún hvetur mig líka í styttri sprettum og brekkuhlaupum á miðvikudögum. Aðfaranótt þriðjudags og fimmtudags (að mati Hannesar) velti ég mér sofandi fram úr rúminu til að mæta í morgunleikfmi til Ásdísar sem hefur þann einstæða hæfileika að láta eldriborgara eins og mig halda að þeir geti um það bil allt. Á laugardögum tek ég snúning um Nesið ásamt góðum félögum áður en ég mæti í andlega og líkamlega nærandi tíma hjá henni Þórhöllu. En nú eru allar þessar frábæru konur sem venjulega sjá um mig fjarri góðu gamni og ég þarf að finna út úr spriklinu sjálf. Mætti að sjálfsögðu hingað með hlaupadótið mitt en hef ekki verið eins duglega að hlaupa og ég hafði ætlað mér (og nenni ekki að telja upp allar mögulegu afsakanir sem ég hef fyrir því en þær ná frá mjaðmaverkjum upp í veðráttu og villur).
En þegar ég hafði náð áttum hér ytra datt mér í hug að athuga hvort ekki fylgdi íþróttahús þessum flotta háskóla. Og hvort það geri, ekkert smá flott hús og meira að segja tvö þó ég hafi ekki enn fundið hitt. Ég tölti því fyrir viku inn í Stevenson bygginguna og talaði þar við ljúfling með rastalokka. Sagði að ég væri hér í heimsókn fram í byrjun apríl og langaði svo að komast í ræktina. Hann sagði að ég yrði þá að borga. Ég sagði honum að ég ætti fullt af peningum. Hann rukkaði mig um 14 pund fyrir mánuðinn (sem er álíka og ég borga sem ófélagsbundin fyrir einn tíma í World Class), tók enn eina rafræna mynd af mér (þar sem ég er áfram úfin og undarleg) og bjó til handa mér kort sem ég setti kampakát í veskið mitt. Nú er ekki lengur þverfótað þar fyrir kortum.
Á mánudaginn ákvað ég að væri rétti tíminn til að láta reyna á kortið og eftir að hafa lesið mér til um öll 16 prógrömmin sem þarna eru í boði til að temja kroppa ákvað ég að mæta í tótal boddí vörkát í sal ES. Það var ekki hlaupið að því að komast á áfangstað. Ég þurfti að kaupa skápalykil og svo var snúið að finna rétta búningsklefann því að húsið er á sex hæðum með sundlaug í kjallaranum. Fann klefann en stóð svo eins og ringluð gömul kona og gat engan vegin fundið út úr því hvernig ætti að læsa skápnum (hafiði ekki séð svona gamlar og ringlaðar konur í búningsklefunum - kannski ekki þið strákar?). Fékk hjálp við það og fann salinn. Stóð þar feimin eins og gömul kona mætt í hópastarf á Leikskólaborg. Ég hefði sem best getað verið móðir allra þarna nema nokkura. Hefði getað verið verið amma þeirra. Sem betur fer skutust inn í byrjun tímans tvær sem voru svona aðeins farnar að þroskast og ég gat brosað til þeirra og fært mig svona smávegis upp að hliðinni á þeim. Kennarinn var skoskur og þegar talað er með skoskum hreim í míkrafón og andað með um leið er erfitt fyrir auman Íslending að átta sig á hvað á að gera næst. Við völdum okkur lóð að vinna með og til að sýna þessu ungviði að ég gæti nú ýmislegt fann ég mér þyngstu lóðin og sveiflaði þeim upp og niður eins og enginn væri morgundagurinn. Hnussaði og fannst þetta frekar létt allt saman og varð hugsað til minna kvenna heima sem virkilega láta mann finna til tevatnsins (hvað þýðir það nú?). Bætti því við hálftíma hlaupi á bretti sem ég geri aldrei, aldrei, aldrei heima enda er hver mínúta þar fyrir mér eins og ár – og verulega leiðinlegt ár meira að segja.
Á þriðjudginn var ég helaum frá tám upp í háls og komst varla út úr rúminu. Á miðvikudaginn gat ég varla gengið, haltraði í skólann og ákvað að mæta aftur í tíma til að reyna að ná úr mér harðsperrunum. Valdi í þetta sinn korbolls sem felst í því að allir fá stóran bolta og gera alls konar æfingar á honum. Þetta var nokkuð skemmtilegt og ég hélt ég yrði svona eins og selur að leika listir sínar í sædýragarði. Þau ungu lágu þvers og kruss yfir boltann og réttu fætur og hendur rólega upp og niður meðan ég valt hægri og vinsti og var oftar undir boltanum en ofan á. Unglingarnir hlógu að mér – en hey - ég er öllu vön sem kennari á unglingastigi. Fór aftur á brettið og tók eitt ár þar í viðbót – las CCTV in operation skiltið 100000000000 sinnum og reyndi að efla sjálfsagann með því að reyna að horfa ekki á klukkuna (náði 13 sekúndum lengst). Er ekki frá því að þetta hafi aðeins slegið á harðsperrurnar því í gærkvöldi gat ég næstum gengið venjuleg á ný.
Í dag var ég bara kokhraust þegar ég mætti í súmba í stóran sal í fimmtu hæð. Eignaðist vinkonu fyrir utan salinn, finnska stelpu frá Jyveskyla – sagði henni að ég hefði heimsótt bæinn hennar fyrir 12 árum. Þá hefur hún líklega ekki verið fædd. En við brostum til hvor annarar á meðan við reyndum að hrista axlirnar og sveifla mjöðmunum og snerum yfirleitt í aðra átt en allir hinir. Skemmti mér konunglega og hafi unglingarnir hlegið að mér þá hló ég í þetta sinn bara með.
miðvikudagur, 23. febrúar 2011
Út og suður um ekki neitt
Dagurinn í gær var eitthvað óskaplega sundurlaus og skrítinn. Það hefur kannski átt sinn þátt í því að mér gekk engan veginn að sofna í fyrrakvöld og plastíkeaklukkan var löngu orðin þrjú þegar ég síðast mændi stressuð á hana. Veit ekki hvað olli þessu staðbundna svefnleysi. Kannski var það sultur því þegar ég fór fram undir þrjú og fékk mér að borða skánaði þetta allt. Hitt getur líka verið að bókin Ljósa eftir Kristínu Steins sem ég tók með mér sem sparilesningu að heiman hafi haldið fyrir mér vöku. Ég var upp úr miðnætti farin að þjást illilega af meðlíðan með Ljósu og átti afar erfitt með að sleppa hendinni af örlögum hennar. En fyrir vikið var hausinn svolítið ullarlegur þegar ég vaknaði aftur við plastíkeaklukkuna tæpum fjórum tímum síðar. Ég átti deit við Kathy sem er námskrárstelpan hér í Glasgow háskóla en mundi ekki hvort það var kl. 9 eða 10 svo ég ákvað til örggis að vera mætt í fyrra fallinum (auðvitað var svo viðtalið kl. 10 svo ég hefði sem best getað sofið áfram).
Ég lagði af stað fótagangandi í skólann en áttaði mig sem betur fer fljótleg á því að ég hafði gleymt töskunni minni og þurfti því að snúa við aftur og ná í hana. Hélt aftur af stað – einbeitt - því þessi skólaganga var ekki neitt venjulegt rölt heldur hafi skýran tilgang – að finna vettlinginn minn sem ég virðist hafa týnt á leiðinni heim í fyrradag. Þetta er ekki neitt gamanmál því ég held ég hljóti að vera heimsins mesti vettlingatýnari og skil ekki bara hvað veldur. Hugsanlega má skrifa þetta á uppeldið (er það ekki alltaf leið) því sem barn átti ég ömmu sem sat á melunum og prjónaði vettlinga og sokka út í eitt. Plöggin setti hún jafnóðum í kommóðuskúffu. Þegar ég týndi vettlingum var alltaf annað hvort hægt að fara í skúffuna eftir nýprjónuðu pari eða – ef ég týndi bara öðrum - sýna ömmu þann staka og hún var þá ekki lengi að búa til annan eins. Það eru reyndar dálítið mörg ár síðan að amma Guðrún dó - að minnsta kosti feikinógur tími fyrir mig til að færa að taka meiri ábyrgð á vettlingunum. En það er sama hvað ég reyni – þeir bara fara eitthvert. Ég á vettlinga – ýmist pör eða staka - út um allt Ísland - heim og nú líka í Glasgow – margar þúsundir af þeim. Þetta er líklega mitt framlag til alheimsvæðingar. Og þetta er bráðalvarlegt því ég með veiki sem heitir Raynords syndróm og lýsir sér í steindauðum,köldum puttum sem bara verða að vera í vettlingum.
En ég sem sagt gekk þarna í skólanní morgun eins og sporhundur með nefið niður í stétt og fann mjög margt áhugavert. Ég fann t.d. slatta af peningum, barmnælu með fjólubláu blómi, rauða hárspöng, tvær ónýtar regnhlífar, tóbaksklút og þrjá staka vettlinga - en engann sem passaði við minn. Núna veit ég ekki hvort ég á að fara i bæjarleiðangur til að finna nýja eða bara láta duga að ganga um eins og Mækol Jakson þar til fer að vora – hugsa það betur.
Nú en viðtalið við Kathy námskrárkonu var hins vegar skemmtilegt og gagnlegt og eftir það fékk ég að fara á fyrirlestur um mikilvægi samstarfs í háskólum (jájá) og þá fékk ég líka samlokur og djús. Settist svo við skrif en ullinn í hausunum hafði ef eitthvað er bara flækst meira og var eiginlega orðin stálull svo eftir að hafa starað á lyklaborðið í næstum klukkutíma pakkaði ég niður og þrammaði heim. Flest af dótinu sem ég fann í morgun var enn á götunni nema peningarnir voru farnir. Ákvað að gera það sem helst er hægt að gera heilalaust – kíkja í búðir. Af því mér hafði nú gengið nokkuð vel að kaupa peysu í seinnihandarbúð í síðustu viku (sjá fyrri blogg) fannst mér rétt að klára bara þann kafla í dvöl minni hér og fara í allar slíkar á Dumbartonstræti. Þær eru rétt um þúsund. Gaf mér 15 pund til fjárfestinga og kom alsæl heim með kápu, topp, hálsmen og tvær bækur þar af önnur Lonely Planet bók um Ísland á aðeins 2 pund! Kannski skrítið að kaupa þannig bók um sitt eigið heimaland en með í bókinni er eru líka Grænland og Færeyjar og það eru í bili mín uppáhaldslönd. Er ekki frá því að þessi kaupþerapía hafi aðeins slegið á stálulllina en þó ekki meira en svo að þegar ég kom heim taldi ég réttast að skríða bara aftur undir sæng með Ljósu og örlögum hennar.
mánudagur, 21. febrúar 2011
Súldasker
Í gamla daga þegar ég var að kenna unglingum upp á Skaga ensku fengum við stundum lánaðar kvikmyndir hjá Námsgagnastofnun til sýna nemendum. Þessar myndir áttu að áhuga barnanna á tungumálinu og áttu það flestar sameiginlegt með klámmyndum (að því að mér er sagt – ekki að ég viti neitt um slíkt af eigin reynslu) að hafa frekar einfaldan söguþráð. Ein þessara mynda var í miklu uppáhaldi hjá mér. Mig minnir að hún hafi heitið Sumarið allt á einum degi (One summer in a day) og gerist í skólabekk í óræðri framtíð eða á annarri plánetu þar sem sólin birtist bara á í örfáa tíma á margra ára fresti. Veröldin er þess vegna öll hin grámóðskulegasta. Og nú er von á sólinni og verið að undirbúa skólabörnin fyrir atburðinn stóra. Þau eiga m.a. að mála myndir af væntanlegri sól en gengur ill að ímynda sér hana svo sólin er líka máluð með gráum litum. Aðalpersónan í bekknum er stúlka sem hefur það fram yfir aðra að hafa séð sólina og áhrif hennar og fyrir vikið finnst hinum krökkunum í bekknum hún merkileg með sig og montin (jenteloven nema hvað!). Þegar stóri dagurinn rennur upp taka ófétin í bekknum sig til og læsa sögupersónuna inní geymslu og steingleyma henni þar. Því fer það svo að meðan krakkarnir í bekknum fá að upplifa sólina, sumarið, litina, fuglasönginn, flugurnar, blómin og trén þarf söguhetjan að láta sér nægja að fylgjast með litlum sólargeisla læðast inn um örsmaán glugga, fikra sig yfir vegginn og deyja að lokum út. Þegar sólin hverfur á ný ranka skólafélagarnir við sér, fyllast skömm, hleypa aðalpersónunni sorgmæddri út og færa henni í sáttarskini þau blóm sem þau höfðu tínt. En fórnin dugar skammt - sólin er farin. Þarna í sögulok var enskukennarinn ég ævinlega farin að hágráta og gat varla spólað til baka fyrir tárum og ekkasogum, unglingunum flestum til allmikillar skemmtunar.
Mér varð hugsað til þessarar myndar þar sem ég þrammaði eftir Dumbartongötunni í morgun, enn einu sinni vopnuð regnhlífinni minni (sem verður líklega að teljast mín bestu kaup hér í Glasgow). Til tilbreytingar var nú reyndar slydda í morgun en ekki þessi hefðbundna rigning. Það er bara þannig að þrátt fyrir nokkuð sterka pollýönnutendensa er næstum ómögulegt finna jákvæðar hliðar á veðrinu í Glasgow. Rigning og grámi ofan á rigningu og gráma. Þoka og súld. Raki og rennbleyta. Blautar tær standard hluti af tilverunni. Hoppípolla bæjarmóttóið. Varúð flóð – á hverju götuhorni.
Í gær fór Anna með mig í langan bíltúr að skoða ‚spectacular‘ útsýnið af vesturströndinni yfir eyjaklasana þar fyrir utan. Þar sást ekki ein einasta eyja. Við klifruðum líka upp í kastala þar sem á að vera víðsýnt í allar áttir. Við rétt svo sáum hvor aðra. Við keyrðum þvernhípta íslenska vegi meðfram strandlínunni. Þar sást engin strönd. Í síðustu viku ætluðum við á landsþekktan útsýnishól. Við fundum hann aldrei í þokunni.
Reyndar ef ég kafa djúpt hefur allt þetta gráa votviðri eina jákvæða hlið. Það er þegar – einstaka sinnum - í gegnum móðu og mistur - ég mikil undur sé - og himnarnir opnast og sólin birtist eins og kraftaverk undan skýjahulunni og allt það gráa hverfur si svona og verður ein allsherjar falleg litaorgía. Og eins og börnin í enskumyndinni forðum fyllist miðaldra kennslukona þvílíkri gleði að hún getur ekki annað en rekið upp gól og tekið létt stuðmannahopp á milli glampandi pollanna. Og þá fer yfirleitt að rigna á ný.
föstudagur, 18. febrúar 2011
Gatan mín, Kennoway Drive, er bara venjuleg smágata en hún liggur svo út á alvörugötu, Dumbarton Road og hana labba ég oft á dag. Dubarton er á margan hátt lík þeim götum sem ég hef búið í nágrenni við í fyrri rannsóknarleyfum (Caledonian í London og Cowley í Oxford). Dumbarton er bráðlifandi og skemmtileg verslunargata þó hún yrði seint talin flott. Þar er að finna nokkrar konubúðir (svona Verðlista), fullt af smábúðum sem selja alls konar smáhluti og verkfæri, nokkur bakarí, eina brennivínsbúð, tvær hreinlætistækjabúðir, þrjár teppabúðir, eina arinbúð, pósthús, nokkur kaffihús, fullt af skyndibitastöðum, nokkrar krár, óteljandi hárgreiðslustofur, apótek, tanngómabúð (ég er ekki að ljúga), spilakassabúllur, mjög margar naglaásetningasjoppur og brúnkustaði - já og svo heilan helling af búðum sem selja föt og annað til styrktar öllu mögulegu. Þarna eru búðir reknar til styrktar Rauða krossinum, smáfuglum, sykursjúkum, fátækum, einfættum, leiðinlegum og guð má vita hvað. Ég hef lítil viðskipti stundað hér á Dumbarton fram til þess utan að fara með pakka í pósthúsið og svo keypti ég einu sinni kveikjara og klósetpappír í einni smávörubúðinni.
EN stuttu eftir ég kom var ég si svona að þramma heim eftir Dumbarton og rak þá augun í gínu úti í glugga í einni gömlufatastyrktarbúðinni. Hún stóð þarna hauslaus í svona líka fallegri svartri peysu með grænu munsti framan á (og reyndar líka með grænt hálsmen og græna hliðartösku - en það kemur þessari sögu ekkert við) og ég vissi ekki fyrr til en ég var orðin svona líka bráðskotin í þessari peysu. Mínar daglegu ferðir fóru nú í að athuga hvort peysan væri enn á sínum stað á þeirri hauslausu. Þegar ég fór að nálgast búðin byrjaði hjartað að slá aðeins hraðar og ég átti það til að andvarpa af feginleik þegar ég sá að hún var þarna ennþá. Hér loka búðir snemma og á götiunni minni setja búðareigendur stálgrindur fyrir alla glugga. Ég fann samt smá glufu á grindinni utan á minni búð og gat þannig fylgst með peysunni eftir lokunartíma.
Á leiðinni í skólann í dag gekk ég enn einu sinni fram hjá búðinni og kinkaði kolli til þeirrar hauslausu, snerist svo hugur, herti upp hugann og fór inn. Í búðinni var skrítin lykt og allt fullt af gömlum fötum, gömlum bókum og gömlu drasli. Búðarkonan var samt frekar ný og óörugg. Ég klifraði yfir haug af pappakössum, náði taki á peysuerminni og spurði: Má ég máta þessa peysu? Búðarkonan varð vandræðaleg en sagðist þurfa að ræða við yfirmann sinn. Ég hékk áfram á peysuerminni en hún hvarf á bak við tjald og kom svo aftur til baka enn vandræðalegri og spurði: Ætlarðu örugglega að kaupa hana? Ég varð þurr í munninum. Ég er ekki sterk í áhættufjárfestingum. Líklega er ég ein af fáum Íslendingum sem tók enga áhættu í góðærinu, keypti engan jeppa, fékk mér aldrei nýtt eldhús, tók aldrei myntkörfulán. Ég andaði rólega, kyngdi óttanum og sagði já. Búðarkonun hvarf aftur fyrir tjaldið að tala við yfirmanninn sem kom svo að vörmu spori og saman smelltu þær handleggjunum af þeirri hauslausu og fyrr en varði stóð ég með peysuna í höndunum. Þrátt fyrir fyrri skuldbindingar fór ég með peysuna í mátunarklefann og þar kom auðvitað í ljós að hún er dálítið ljót, eiginlega of stór, líklega úr akríl og ég lít mjög undarlega út í henni. Ég er kona sem stend við mitt svo ég borgaði þegjandi og hljóðalaust fyrir hana (næstum 800 krónur, fékk ókeypsi poka, þakkaði búðarkonunni fyrir og kvaddi. Þegar ég kom út var sú hauslausa komin í mosagræna vaffhálsmálspeysu. Mér fannst hún ótrúlega flott.
miðvikudagur, 16. febrúar 2011
Eins og ég hef kannski minnst á áður var ég búin að grenja mig inn á tvo háskóla hér í Glasgow áður en ég fór að heiman. Þessi tveir eru afar ólíkir, Strathclyde er hér aðeins austur fyrir miðbæ og er ‚nýlegur háskóli‘ þ.e. hann er ekki nema svona 200 ára gamall. Hann er víst stofnaður fyrir fé sem John nokkur Anderson, heimspekiprófessor, lét eftir sig einmitt í þeim tilgangi að stofna skóla þar sem nemendur gætu lært eitthvað gagnlegt. Hann er að finna í alls konar nútímalegum byggingum sem eru dreifðar yfir nokkrar götur. Kennslmiðstöðin er í húsi sem gæti við fyrstu sýn verið skattstofan og hinum megin við götuna er verið að grafa fyrir nýjum grunni. Glasgow háskóli er hins vegar fjórði elsti háskóli Englands, stofnaður 1451 og er svona á við fíniríin sem ég er vön frá Oxford. Aðalbyggingin er ótrúlega falleg, stendur hátt og er eitt af þeim kennileitum sem ég hef notað til að lóðsa mig aftur heim þegar ég er villt í bænum. Þeir eru líka með sína eigin á sem rennur um háskólalóðina. Kennslumiðstöðin þeirra er líka í sérhúsi eins og sú hjá Strathclyde en þeirra hús er eins og miðaldahöll (sjá mynd)og hér er öryggismaður sem fyglir manni upp teppalagða stiga þar vítt er til veggja og hátt til lofts. Ég er svo snobbuð að ég vildi miklu frekar fá borð og stól í þessari kennslumiðstöð en hinni en kunni ekki við að segja stýrunni frá því svo ég laug einhverju öðru gáfulegu upp. Stýran hefur alveg rosalega mikið að gera og þarf að hlaupa daginn inn og út upp og niður þennan stóra stiga en gaf sér samt tíma til að hlaupa með mig um allt hús og kynna mig fyrir öllum. Ég man að sú fyrsta sem ég hristi spaðann á heitir Heather en eftir það er allt í móðu. Það voru hins vegar allir voða kammó og glaðlegir í framan svo ég hlýt að kynnast þeim betur síðar. Stýran dró mig undir súð þar sem ég hef smáherbergi til að byrja með en á mánudaginn fæ ég risakontórinn hennar (sem hún hafði áður en hún varð aðalstýran). Ég er hálfstressuð yfir þessu flotta herbergi. Ég er líka búin að fá kort til að komast hér inn og út og nafnið mitt er komið á skilti niðri í andyri og þar á ég að ýta á in eða out eftir því hvort ég er hér innandyra eða utan. Mér fannst flott að sjá nafnið mitt þarna. Stýran hljóp svo með mig út á bókasafn til að fá fyrir mig 30 daga bráðabirgðakort. Nú á ég kort með mynd af mér úfinni að brosa út í annað – en það virkaði reyndar ekki þegar ég lét svo reyna á það. Tók samt túr um bókasafnið, fann rekkana mína, settist þar á koll og klappaði á kilina á gömlum vinum sem ég á í hillu heima. Ég bað um að komast á netið og þá urðu allir mjög áhyggjufullir, hristu höfuðið og sögðu að þá yrði ég að fara í gegnum eitserr sem ég skildi strax að var hið versta mál. Eitserr stendur víst fyrir HR sem er Human Resources og þar vinna hægvirk ómenni ef eitthvað er að marka svipinn á nýju vinnufélögunum. Ég þurfti því að fylla út fullt af blöðum fyrir eitserr og haldinn var skyndifundur um hvað væri hægt að gera við skorti mínum á NIN sem reyndist standa fyrir national identiy number. Ég setti inn mína gömlu kennitölu en þau voru efins á svipinn. Í hádeginu rölti ég aftur á bókasafnið og fann tímaritahilluna. Náði mér í tímaritið Teaching in higer education og las snilldargrein eftir Jan Smith – sem vinnur í kennslumiðstöðinni í Strathclyde og hugsaði: Kannski segja umbúðirnar ekki alltaf alla söguna um innihaldið (djúpt ekki satt?). Á eftir ætla ég svo út að drekka víský með Önnu.
þriðjudagur, 15. febrúar 2011
Á rauðu ljósi
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blogga tvær færslur á dag - en það er bara smávegis tengt umferðinni hér í Glasgow sem er að gera mig gráhærða og ég verð að fá að skrifa um. Nei - það er hefur ekkert með það að gera að fólk hér skuli keyra röngu megin á götunni. Maður hefur nú svo sem lent í þeim ósköpum áður og mesta furða að ég skuli enn vera á lífi. Þegar ég þarf að fara yfir götu stend ég iðulega hálf út á akreininni og kíki eftir bílum til vinstri á meðan þeir koma æðandi upp að hægri hliðinni á mér. Í þessi þrjú skipti sem mér hefur verið boðið upp í bíl í vikunni hef ég hiklaust sest inn hægra megin og ekkert skilið í þessu stýri sem tekur allt plássið þar.
Nei, nei það sem er að trufla mig er ótrúlegt seinlæti gangbrautaljósa. Hér tekur svo langan tíma að koma grænt að bíðandi ungabörn nálgast unglingsárin, ungar konur verða miðaldra og gamlir eru bornir til grafar- og rauða ljósið logar enn. Ég hefði sem best getað lesið allar hrunskýrslunar á þeim tíma sem ég notað í að bíða eftir grænu ljósi þessa rúmu viku mína hér ytra. Ekki það að ég sé neitt rosalega að flýta mér eitt eða annað. Vandinn er hins vegar að ég er í Lífshlaupinu og tek nákvæmar mælingar á allri minni hreyfingu sem ég skrái samviskusamlega fyrir liðið mitt á bókasafninu í Stakkhlíð. Og þá stressar mig óneitanlega þessi endalausa bið eftir græna ljósinu þegar ég vappa daginn langan um þvera og endilanga Glasgowborg. Stundum stekk ég aðra leið þegar ég sé hvað verða vill. Í önnur skipti reyni ég að ganga hraustlega í sömu sporum (sbr. morgunleikfimina í útvarpinu) þó það veki furðu sambíðenda minna. Í nokkur skipti hef ég hreinlega áætlað biðtímann og dregið frá heildarhreyfingatímanum. Lokaúrræðið er svo að gefa skít í biðina á grænu og taka lífshlaupið í eiginlegri merkingu - yfir á rauðu.
Fræðileg skrif
Ég kom hingað til Glasgow með fögur fyrirheit um að klára ýmis verkefni og byrja á öðrum nýjum. Tók meðal annars með mér grein sem ég hef lengi verið að reyna að berja saman um Bologanferlið (nei þið þurfið ákkúrat ekkert að vita hvað það er - það hefur ekkert með þessa sögu að gera) en hefur gengið brösuglega með heima. Þar er alltaf eitthvað sem truflar og lítill friður til að sitja við og hugsa. En það er nú einmitt það sem við háskólakennarar fáum svo tækifæri til að gera í þessum rannsóknarleyfum okkar.
Mér gekk reyndar ekkert of vel við greinina til að byrja með hér ytra. Hugurinn eins og hrökkviskata og miklu skemmtilegra að leita uppi pipar og salt og góðar hlaupaleiðir heldur en hanga yfir þessu Bolognakjaftæði. En smátt og smátt fór hugurinn að róast og ég aðeins að gera einbeitt mér. Eins og mér finnst gaman að tala og skrifa alls konar bull eru fræðilegir textar mér erfiðir í smíðum. Ferlið er yfirleitt það sama, ég byrja nokkuð hátimbrað og svo fer allt í strand. Puða áfram og átta mig svo á því að ég skil ekki haus né sporð í viðfangsefninu. Hætti að skrifa og les aftur allt sem aðrir hafa skrifað um efnið. Sest aftur yfir textann, skrifa eitthvað bull, dílíta því jafnóðum. Eitthvað gengur ekki upp og ég fer að efast um ég ráði yfirhöfuð við verkið. Svo einhvern tíma í þessu pirrandi streði gerist eitthvað. Það er kannski ekki eins og þruma eða ljós heldur einhver pínulítil aðkenning af skilningi sem flöktir svona óljóst aftarlega í höfðinu. Nú snýst allt um að halda lífi í þessu litla flökti til að sjá hvort að það muni bera með sér einhverja lausn. Og stundum gerist það, það opnast glufur þar sem áður voru ókleifir veggir og nú er bara gaman að feta sig áfram og þræða stíga sem ég hef aldrei farið áður (svona þar til ég kem að næsta vegg). Í rannsóknarleyfinu gefst kostur á að taka þessa glímu til hins ítrasta og ég verð svo heltekin af efninu að ég vaknaði í nótt við að ég var að segja upp úr svefni: En ef Bolognaferlið væri .... og skammaðist mín smá.
Nú veit ég hreinlega ekki hversu hollt það er að sitja einn með sjálfum sér í útlöndum og hugsa ekki um neitt annað en Bolognaferlið. Það fer smátt og smátt að vanta einhvern strúktúr í daginn. Fyrst hætti ég að mála mig á morgnana, svo hætti ég að fara úr náttfötunum, í dag gleymdi ég að fá mér kaffi. Það stefnir allt í það að ég verði í marslok dregin hér óböðuð og brjáluð út úr húsi, af einherjum í skosku félagsþjónustunni, æpandi: Bolgogna, Bologna!
Svo að allt fari ekki á versta veg er ég búin að herja á Glasgowháskólann að leyfa mér að koma 'í vinnuna'. Hélt reyndar að ég hefði gengið vel frá mínum málum áður en ég lagðist í víking en eitthvað hafa skilaboð skolast til því þegar ég boðaði komu mína í byrjun mánaðar fékk ég bréf til baka frá deildarstýrunni sem bauð mér að kíkja við um hádegisbil þann 28. febrúar. Ég hugsaði minn gang. Skrifaði svo bréf þar sem ég sagðist sitja ein og yfirgefin í leiguíbúð og þyrfti nauðsynlega á því að halda að hitta fólk, fara í kaffi og komast á bókasafn. Hún sagðist ætla að reyna að gera sitt besta og kannski gæti ég komið við þann 24. Ég skrifaði aftur og sagðist ætla að koma með íslenskt súkkulaði. Hún sagði að ég mætti koma á morgun kl. 11.
Ég varð svo kát að ég ákvað í dagslok að ég yrði að fagna þessum sigri (og auðvitað Bolognaferlinu). Vissi ekki alveg hvernig svo ég ákvað að fara í göngutúr og taka tímann á því hvað ég verð lengi að labba í vinnuna á morgun. Það eru 28 mínútur.
sunnudagur, 13. febrúar 2011
Fyrsta vikan að baki
Mæjó, mæjó, komið sunnudagskvöld og ég þar með búin að vera rúma viku í Glasgow. Og tíminn? Já hann hefur vissuleg flogið en samt er líka langt síðan ég staulaðist hér upp töppurnar á Kennoway Drive í fyrsta sinn. En ég er búin að læra margt og mikið á þessari viku ef maður telur vel.
Ég rata orðið næstum blindandi héðan úr vestrinu niður í bæ og til baka. Ég kanna að taka subbinn fram og til baka ef fæturnir eru þreyttir. Ég veit að það er ódýrast að versla í matinn í Morrisons, næst í Sainsbury og langdýrast hjá þeim félögum Marks og Spencer. Ég veit núna að þó að Glasgow sé ekki beint þannig að maður falli í stafi yfir fegurð hennar (fyrirgefðu Glasgow) þá tekur ekki nema 10 mínútur að keyra út í sveit sem er jafnfalleg ef ekki fallegri en íslensk sveit (fyrirgefðu Ísland) og þar eru meira að segja fjöll sem ég gjörþekki að heiman.
Ég veit núna að bæjarbúar hér eru með eindæmum hjálpsamir. Opni ég kortabókina mína niður í bæ eru þeir óðar komnir mér til aðstoðar og það stoppar þá ekkert að hafa ekki hugmynd um hvar þeir sjálfir eru staddir (sumir hafa snúið kortinu á hvolf á meðan þeir eru að leita). Ég veit líka að hitaelementið í mér er einhvern vegin öðru vísi stillt heldur en annrra í bænum. Á meðan ég skelf af kulda í rakanum og rokinu ganga fram hjá mér strákar á þunnum skyrtum og vottar ekki fyrir bláma á vörunum á þeim. Ég veit núna að þessum götum sem ég geng í dag skoppuðu sem börn sjálf Lúlú (to sir with love), Mark Knopler og Alex Ferguson (kannski ekki hönd í hönd þó ég sjái þau þannig fyrir mér).
Og ég veit núna að hún Rugby Love sem stakk handskrifuðum miða inn um bréfalúguna í gær sem á stóð að hún hefi þvegið gluggana hjá mér og að það kostaði 5 pund - er ekki brjáluð - heldur indæl gömul kona sem býr á hæðinni fyrir ofan mig. Hún tók á móti mér í gömlum greiðsluslopp, varð himinlifandi að hitta mig (Íslendinginn) og skrifaði nafnið mitt niður á miða til að geta lært það. Ég þorði hvorki að spyrja hana af hverju hún væri að þvo gluggana mína né hversu oft hún ætlar að þvo þá.
þriðjudagur, 8. febrúar 2011
Að finna höfuðáttir
Við háskólakennarar búum við þann munað að vinna af okkur kennslu sjöunda hvert misseri og fá þá svigrúm og styrk til fara í svokölluð rannsóknarleyfi (óvíst hvað þau fást lengi). Markmiðið er að gefa okkur greyjunum frí frá nemendaamstri til að fleyta áfram rannsóknum okkar til gæfu fyrir mannkynið (eða ekki!). Ef við viljum halda á ókunn mið til að sinna þessum verkefnum fáum við styrk. Og þá mætti ætla að ég hefði valið að liggja með fartölvuna á sólríkri strönd eða sitja í fjallaþorpi á Ítalíu. Sussu nei, ég valdi að finna mér kames hér í kaldri og rakri Glasgowborg. Hér ætla ég að dvelja í tvo mánuði og hef fengið inngöngu í að minnsta kosti tvo háskóla þar sem ég ætla að læra hvernig skoskir styðja sína háskólakennara til að verða betri kennarar og vonandi koma heim fróðari og full af alþjóðlegum kontöktum.
En fyrst er að koma sjálfum sér fyrir og það gekk ekki auðveldlega. Skotar eru augsýnilega ekki fyrir skyndikynni og enginn vildi leigja mér íbúð í minna en 6 mánuði - nema Brian sem á ögurstundu svaraði örvæntingafullri auglýsingu minni af elskusemi. Og ég grét af gleði fram á næsta dag þegar að frænka Brians ákvað að skilja við karlinn sinn og stóð uppi húsnæðislaus. Brian tók blóðið fram yfir mig og núna grét ég enn hærra og meira - af vonbrigðum. Ég bölvaði frænkunni í sand og ösku og skíthælnum manninum hennar enn meira en reyndi samt að síkreta þau aftur saman. Og viti menn það tókst! Daginn fyrir brottför fór frænkan aftur heim í hjónabandsharminn og ég fékk íbúðina og krossaði putta um að hjónabandið héldist þar til ég væri komin í hús. Það hélst og ég er orðin íbúi í Kennoway Drive.
Þó að íbúðin sé fín, fylgir því undarleg tilfinning að horfa út um glugga á heimili sínu og vita ekki hvað maður er staddur í heiminum. Ég er víst í vesturbænum (meira að segja vestast í vesturbænum) sem Brian sagði að væri flottur staður. Í austurbænum búa voðamenni og barðar konur (sagði Brian) og suður fyrir á er heldur ekki gott að búa þó að dóttir Brians búi reyndar en það er af því að hún giftist strák sem fæddist þar suðurfrá. Hann gleymdi að segja mér hverjir búa fyrir norðan. Ég lét duga á fyrsta degi að labba hring um hverfið, drefiði steinvölum til að villast ekki, fann matarbúð og komst aftur heim.
Á öðrum degi þorði ég heldur ekki langt út úr húsi en sem betur fer á ég vinkonu hér sem kom og sótti mig í hádegismat og fór með mig að honum loknum í Ikea - og þar var mín á heimavelli. Fyrir heimsáttvillta er það verulega valdeflandi að vita að á eftir pottadeildinni koma gardínurnar og þar á eftir rúmfötin.
Á þriðja degi (í gær) fór ég i góða skó og hélt út í heiminn. Gekk í alla háskóla í bænum, fann verlsunargötuna og keypti mér kort, hélt áfram niður að ánni Clyde, fór í austur og fann garða og gosbrunna, horfði í norður og horfði í suður og hélt svo vestur sem leið lá meðfram ánni. Það skein á mig sól, það rigndi og það blés og það var dimmt en ég komst heim heil á húfi fimm tímum síðar. Ég var stolt og glöð - þar til ég breiddi úr nýja kortinu og sá að á fimm tímum hafði mér tekist að fara hring sem helst mætti líkja við ummál glasamottu á stóru engi! Ojæja, ég veit að minnsta kosti núna hvar ég er á kortinu - og það er meira en margur veit.
En fyrst er að koma sjálfum sér fyrir og það gekk ekki auðveldlega. Skotar eru augsýnilega ekki fyrir skyndikynni og enginn vildi leigja mér íbúð í minna en 6 mánuði - nema Brian sem á ögurstundu svaraði örvæntingafullri auglýsingu minni af elskusemi. Og ég grét af gleði fram á næsta dag þegar að frænka Brians ákvað að skilja við karlinn sinn og stóð uppi húsnæðislaus. Brian tók blóðið fram yfir mig og núna grét ég enn hærra og meira - af vonbrigðum. Ég bölvaði frænkunni í sand og ösku og skíthælnum manninum hennar enn meira en reyndi samt að síkreta þau aftur saman. Og viti menn það tókst! Daginn fyrir brottför fór frænkan aftur heim í hjónabandsharminn og ég fékk íbúðina og krossaði putta um að hjónabandið héldist þar til ég væri komin í hús. Það hélst og ég er orðin íbúi í Kennoway Drive.
Þó að íbúðin sé fín, fylgir því undarleg tilfinning að horfa út um glugga á heimili sínu og vita ekki hvað maður er staddur í heiminum. Ég er víst í vesturbænum (meira að segja vestast í vesturbænum) sem Brian sagði að væri flottur staður. Í austurbænum búa voðamenni og barðar konur (sagði Brian) og suður fyrir á er heldur ekki gott að búa þó að dóttir Brians búi reyndar en það er af því að hún giftist strák sem fæddist þar suðurfrá. Hann gleymdi að segja mér hverjir búa fyrir norðan. Ég lét duga á fyrsta degi að labba hring um hverfið, drefiði steinvölum til að villast ekki, fann matarbúð og komst aftur heim.
Á öðrum degi þorði ég heldur ekki langt út úr húsi en sem betur fer á ég vinkonu hér sem kom og sótti mig í hádegismat og fór með mig að honum loknum í Ikea - og þar var mín á heimavelli. Fyrir heimsáttvillta er það verulega valdeflandi að vita að á eftir pottadeildinni koma gardínurnar og þar á eftir rúmfötin.
Á þriðja degi (í gær) fór ég i góða skó og hélt út í heiminn. Gekk í alla háskóla í bænum, fann verlsunargötuna og keypti mér kort, hélt áfram niður að ánni Clyde, fór í austur og fann garða og gosbrunna, horfði í norður og horfði í suður og hélt svo vestur sem leið lá meðfram ánni. Það skein á mig sól, það rigndi og það blés og það var dimmt en ég komst heim heil á húfi fimm tímum síðar. Ég var stolt og glöð - þar til ég breiddi úr nýja kortinu og sá að á fimm tímum hafði mér tekist að fara hring sem helst mætti líkja við ummál glasamottu á stóru engi! Ojæja, ég veit að minnsta kosti núna hvar ég er á kortinu - og það er meira en margur veit.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)