mánudagur, 21. febrúar 2011
Súldasker
Í gamla daga þegar ég var að kenna unglingum upp á Skaga ensku fengum við stundum lánaðar kvikmyndir hjá Námsgagnastofnun til sýna nemendum. Þessar myndir áttu að áhuga barnanna á tungumálinu og áttu það flestar sameiginlegt með klámmyndum (að því að mér er sagt – ekki að ég viti neitt um slíkt af eigin reynslu) að hafa frekar einfaldan söguþráð. Ein þessara mynda var í miklu uppáhaldi hjá mér. Mig minnir að hún hafi heitið Sumarið allt á einum degi (One summer in a day) og gerist í skólabekk í óræðri framtíð eða á annarri plánetu þar sem sólin birtist bara á í örfáa tíma á margra ára fresti. Veröldin er þess vegna öll hin grámóðskulegasta. Og nú er von á sólinni og verið að undirbúa skólabörnin fyrir atburðinn stóra. Þau eiga m.a. að mála myndir af væntanlegri sól en gengur ill að ímynda sér hana svo sólin er líka máluð með gráum litum. Aðalpersónan í bekknum er stúlka sem hefur það fram yfir aðra að hafa séð sólina og áhrif hennar og fyrir vikið finnst hinum krökkunum í bekknum hún merkileg með sig og montin (jenteloven nema hvað!). Þegar stóri dagurinn rennur upp taka ófétin í bekknum sig til og læsa sögupersónuna inní geymslu og steingleyma henni þar. Því fer það svo að meðan krakkarnir í bekknum fá að upplifa sólina, sumarið, litina, fuglasönginn, flugurnar, blómin og trén þarf söguhetjan að láta sér nægja að fylgjast með litlum sólargeisla læðast inn um örsmaán glugga, fikra sig yfir vegginn og deyja að lokum út. Þegar sólin hverfur á ný ranka skólafélagarnir við sér, fyllast skömm, hleypa aðalpersónunni sorgmæddri út og færa henni í sáttarskini þau blóm sem þau höfðu tínt. En fórnin dugar skammt - sólin er farin. Þarna í sögulok var enskukennarinn ég ævinlega farin að hágráta og gat varla spólað til baka fyrir tárum og ekkasogum, unglingunum flestum til allmikillar skemmtunar.
Mér varð hugsað til þessarar myndar þar sem ég þrammaði eftir Dumbartongötunni í morgun, enn einu sinni vopnuð regnhlífinni minni (sem verður líklega að teljast mín bestu kaup hér í Glasgow). Til tilbreytingar var nú reyndar slydda í morgun en ekki þessi hefðbundna rigning. Það er bara þannig að þrátt fyrir nokkuð sterka pollýönnutendensa er næstum ómögulegt finna jákvæðar hliðar á veðrinu í Glasgow. Rigning og grámi ofan á rigningu og gráma. Þoka og súld. Raki og rennbleyta. Blautar tær standard hluti af tilverunni. Hoppípolla bæjarmóttóið. Varúð flóð – á hverju götuhorni.
Í gær fór Anna með mig í langan bíltúr að skoða ‚spectacular‘ útsýnið af vesturströndinni yfir eyjaklasana þar fyrir utan. Þar sást ekki ein einasta eyja. Við klifruðum líka upp í kastala þar sem á að vera víðsýnt í allar áttir. Við rétt svo sáum hvor aðra. Við keyrðum þvernhípta íslenska vegi meðfram strandlínunni. Þar sást engin strönd. Í síðustu viku ætluðum við á landsþekktan útsýnishól. Við fundum hann aldrei í þokunni.
Reyndar ef ég kafa djúpt hefur allt þetta gráa votviðri eina jákvæða hlið. Það er þegar – einstaka sinnum - í gegnum móðu og mistur - ég mikil undur sé - og himnarnir opnast og sólin birtist eins og kraftaverk undan skýjahulunni og allt það gráa hverfur si svona og verður ein allsherjar falleg litaorgía. Og eins og börnin í enskumyndinni forðum fyllist miðaldra kennslukona þvílíkri gleði að hún getur ekki annað en rekið upp gól og tekið létt stuðmannahopp á milli glampandi pollanna. Og þá fer yfirleitt að rigna á ný.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli