Ég kom hingað til Glasgow með fögur fyrirheit um að klára ýmis verkefni og byrja á öðrum nýjum. Tók meðal annars með mér grein sem ég hef lengi verið að reyna að berja saman um Bologanferlið (nei þið þurfið ákkúrat ekkert að vita hvað það er - það hefur ekkert með þessa sögu að gera) en hefur gengið brösuglega með heima. Þar er alltaf eitthvað sem truflar og lítill friður til að sitja við og hugsa. En það er nú einmitt það sem við háskólakennarar fáum svo tækifæri til að gera í þessum rannsóknarleyfum okkar.
Mér gekk reyndar ekkert of vel við greinina til að byrja með hér ytra. Hugurinn eins og hrökkviskata og miklu skemmtilegra að leita uppi pipar og salt og góðar hlaupaleiðir heldur en hanga yfir þessu Bolognakjaftæði. En smátt og smátt fór hugurinn að róast og ég aðeins að gera einbeitt mér. Eins og mér finnst gaman að tala og skrifa alls konar bull eru fræðilegir textar mér erfiðir í smíðum. Ferlið er yfirleitt það sama, ég byrja nokkuð hátimbrað og svo fer allt í strand. Puða áfram og átta mig svo á því að ég skil ekki haus né sporð í viðfangsefninu. Hætti að skrifa og les aftur allt sem aðrir hafa skrifað um efnið. Sest aftur yfir textann, skrifa eitthvað bull, dílíta því jafnóðum. Eitthvað gengur ekki upp og ég fer að efast um ég ráði yfirhöfuð við verkið. Svo einhvern tíma í þessu pirrandi streði gerist eitthvað. Það er kannski ekki eins og þruma eða ljós heldur einhver pínulítil aðkenning af skilningi sem flöktir svona óljóst aftarlega í höfðinu. Nú snýst allt um að halda lífi í þessu litla flökti til að sjá hvort að það muni bera með sér einhverja lausn. Og stundum gerist það, það opnast glufur þar sem áður voru ókleifir veggir og nú er bara gaman að feta sig áfram og þræða stíga sem ég hef aldrei farið áður (svona þar til ég kem að næsta vegg). Í rannsóknarleyfinu gefst kostur á að taka þessa glímu til hins ítrasta og ég verð svo heltekin af efninu að ég vaknaði í nótt við að ég var að segja upp úr svefni: En ef Bolognaferlið væri .... og skammaðist mín smá.
Nú veit ég hreinlega ekki hversu hollt það er að sitja einn með sjálfum sér í útlöndum og hugsa ekki um neitt annað en Bolognaferlið. Það fer smátt og smátt að vanta einhvern strúktúr í daginn. Fyrst hætti ég að mála mig á morgnana, svo hætti ég að fara úr náttfötunum, í dag gleymdi ég að fá mér kaffi. Það stefnir allt í það að ég verði í marslok dregin hér óböðuð og brjáluð út úr húsi, af einherjum í skosku félagsþjónustunni, æpandi: Bolgogna, Bologna!
Svo að allt fari ekki á versta veg er ég búin að herja á Glasgowháskólann að leyfa mér að koma 'í vinnuna'. Hélt reyndar að ég hefði gengið vel frá mínum málum áður en ég lagðist í víking en eitthvað hafa skilaboð skolast til því þegar ég boðaði komu mína í byrjun mánaðar fékk ég bréf til baka frá deildarstýrunni sem bauð mér að kíkja við um hádegisbil þann 28. febrúar. Ég hugsaði minn gang. Skrifaði svo bréf þar sem ég sagðist sitja ein og yfirgefin í leiguíbúð og þyrfti nauðsynlega á því að halda að hitta fólk, fara í kaffi og komast á bókasafn. Hún sagðist ætla að reyna að gera sitt besta og kannski gæti ég komið við þann 24. Ég skrifaði aftur og sagðist ætla að koma með íslenskt súkkulaði. Hún sagði að ég mætti koma á morgun kl. 11.
Ég varð svo kát að ég ákvað í dagslok að ég yrði að fagna þessum sigri (og auðvitað Bolognaferlinu). Vissi ekki alveg hvernig svo ég ákvað að fara í göngutúr og taka tímann á því hvað ég verð lengi að labba í vinnuna á morgun. Það eru 28 mínútur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli