miðvikudagur, 16. mars 2011
Hómalón
Dóttlan mín farin aftur heim og skilur eftir sig einmana móður, þúsund tóma plastpoka og undarlega hitakremslykt í stofunni. Við erum búnar að hafa það afar gott saman síðustu daga og dagskráin hefur verið nokkuð einföld. Eftir léttan morgunverð höfum við axlað regnhlífarnar og ætt í gegnum regn eða slyddu í miðbæinn þar sem við höfum að mestu haldið til HM og Primark. Stundum höfum við gert stutt stopp til að setjast á kaffihús eða jafnvel bar til að safna orku en svo haldið áfram þar til okkur hefur verið hent út úr búðum í dagslok. Ég tuða aðeins í dóttlu um nægjusemi og sjálfbæra veröld, hún kaffærir mig í einhverjum óskiljanlegum rökum. Eitt kvöldið var sérstök frétt í BBC Skotland um að hagur landsins væri a vænkast. Við töldum okkur eiga þátt í þeirri upprisu. Á kvöldin höfum við eldað eitthvað í pínulitla eldhúsinu mínu og borið á hitakrem á þreytta fætur og axlir. Í gær bættum við um betur og fengum okkur feisliftmaska og lituðum á okkur hárið.
Og svo voru þessir dagar farnir og enn á ný kominn tími til að strekkja á naflastrengnum sem dóttla hefur lýst sem ofursterkri gúmmíteygju: það má teygja hana dável en að endanum skreppur hún alltaf saman. Ég fylltist svo miklum aðskilnaðarkvíða að ég fylgdi henni í strætó alla leið út á völl. Hún hofði ásökunaraugun á mig þegar að hún setti töskuna sína í tjékkið og í ljós kom að hún vóg aðeins 16 kg. Það þýðir að enn lágu 4 kg ókeypt í Primark.
Tók strætó aftur til Glasgow ein og lítil. Til að nota daginn ákvað ég að fara í bæjarskrifstofuna og borga skattinn minn og láta svo klippa mig sem mér finnst alltaf erfitt dæmi í útlöndum. Gekk illa að finna skattinn en eftir að hafa þvælst hús úr húsi náði ég sambandi við opinberan starfsmann í gegnum dyrasíma sem sagði mig á næstum réttums tað en að það væri allt lokað. Akkuru spurði ég og fékk að vita að í dag eru allt skattafólkið í stafftreining. Nú jæja, prófa aftur síðar í vikunni og fæ þá vonandi vel þjálfað lið til að tala við.
Næsta verkefni var þá klippingin. Þurfti reyndar að kaupa mér skæri um daginn og var lengi vel að velta því fyrir mér hvort ég gæti ekki tekið smá klippingu sjálf. Hætti við það og ákvað að fara til þeirra félaga Tony og Guy sem klipptu mig einu sinni í Oxford þannig að ég þorði ekki út úr húsi í viku ...en varð svo ánægð þegar á leið. Gekk illa að finna þá en þegar það tókst kom í ljós að einföld klipping kostaði rúmar 12 þúsund krónur. Mér fannst það dýrt og kvaddi. Fór heim á mína Dumbartongötu og fékk þar klippingu fyrir helmingi minna fé – en það getur líka verið að ég hafi borgað miðað við gæði.
Ég skil ekki alveg þessar hárgreiðslustofur í útlöndum. Þarna var enginn inni nema ég og fjórar starfsstúlkur. Fyrst kom neminn og klæddi mig úr kápunni og spurði hvort ég væri með hreint hár. Ég sagði já. Hún þríþvoði á mér hárið. Setti mig í stólinn til Carmen sem tók lint í höndina á mér og kynnti sig. Hún spurði svo hvernig hárið á mér væri þegar það væri þurrt. Ég reyndi að lýsa því hvernig hárið á mér var þegar ég gekk inn á stofuna hennar nokkrum mínútum fyrr. Hún spurði hvort það væri liðað. Já sagði ég nokkuð stolt. Við ákváðum saman að halda stílnum en stytta það vel. Hún mundaði skærin og klippti ein fjögur hár af hausnum á mér. Náði svo í hárþurrkuna og byrjað að blása og stílesera með pínulitlum hárbursta. Ég fylltist örvæntingu. Hún náði í alls konar efni og sturtaði í hársvörðinn og hélt áfram að blása. Þetta tók óratíma og mig fór að gruna að Carmen héldi að ég væri komin í greiðslu en ekki klippingu. Sagði því gráti nær: Ætlarðu ekki að klippa mig meira? Hún horfði ströng á mi g og sagðist þurfa að ná í fleiri efni til að textúlæsa hárið. Þannig væri fyrst hægt að klippa það. Svo setti hún fleiri efni í hárið, hitaði sléttujárnið og mundaði af leikni. Eftir mikla textúlæsingu klippti hún aðeins meira, náði í spegil og brosti glöð. Ég sagði meira, hún varð súr, klippti smá meira og náði svo í lakk og lakkaði vel yfir allt. Brosti aftur eins og sól, skrifaði nafið sitt á kort og vonaðist til að ég nyti þess sem eftir væri ferðarinnar. Fór heim með næstum hárið og 6 tegundir af hárpródúkti í því. Jæja ég á þó altént skærin ennþá.
Það er þögn í íbúðinni á Kennoway Drive og ég næ mér í dagatal til að telja dagana þar til ég flýg aftur heim til minna. Þeir eru sem betur fer ekki margir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
yndislegt blogg - hlökkum svo til að fá þig heim.
Naflastrengurinn slitnar seint!
Ragnheiður
Skrifa ummæli