föstudagur, 25. febrúar 2011
Af eróbikk og öðru erfiði
Þegar ég er í heimahögum er íþróttaiðkun mín í nokkuð föstum skorðum (sem betur fyrir miðað við stöðuna hér ytra). Á mánudögum dregur Steinunn þjálfari mig síðbotna og seina einn Hallgrím eða jafnvel kirkjugarðinn. Hún hvetur mig líka í styttri sprettum og brekkuhlaupum á miðvikudögum. Aðfaranótt þriðjudags og fimmtudags (að mati Hannesar) velti ég mér sofandi fram úr rúminu til að mæta í morgunleikfmi til Ásdísar sem hefur þann einstæða hæfileika að láta eldriborgara eins og mig halda að þeir geti um það bil allt. Á laugardögum tek ég snúning um Nesið ásamt góðum félögum áður en ég mæti í andlega og líkamlega nærandi tíma hjá henni Þórhöllu. En nú eru allar þessar frábæru konur sem venjulega sjá um mig fjarri góðu gamni og ég þarf að finna út úr spriklinu sjálf. Mætti að sjálfsögðu hingað með hlaupadótið mitt en hef ekki verið eins duglega að hlaupa og ég hafði ætlað mér (og nenni ekki að telja upp allar mögulegu afsakanir sem ég hef fyrir því en þær ná frá mjaðmaverkjum upp í veðráttu og villur).
En þegar ég hafði náð áttum hér ytra datt mér í hug að athuga hvort ekki fylgdi íþróttahús þessum flotta háskóla. Og hvort það geri, ekkert smá flott hús og meira að segja tvö þó ég hafi ekki enn fundið hitt. Ég tölti því fyrir viku inn í Stevenson bygginguna og talaði þar við ljúfling með rastalokka. Sagði að ég væri hér í heimsókn fram í byrjun apríl og langaði svo að komast í ræktina. Hann sagði að ég yrði þá að borga. Ég sagði honum að ég ætti fullt af peningum. Hann rukkaði mig um 14 pund fyrir mánuðinn (sem er álíka og ég borga sem ófélagsbundin fyrir einn tíma í World Class), tók enn eina rafræna mynd af mér (þar sem ég er áfram úfin og undarleg) og bjó til handa mér kort sem ég setti kampakát í veskið mitt. Nú er ekki lengur þverfótað þar fyrir kortum.
Á mánudaginn ákvað ég að væri rétti tíminn til að láta reyna á kortið og eftir að hafa lesið mér til um öll 16 prógrömmin sem þarna eru í boði til að temja kroppa ákvað ég að mæta í tótal boddí vörkát í sal ES. Það var ekki hlaupið að því að komast á áfangstað. Ég þurfti að kaupa skápalykil og svo var snúið að finna rétta búningsklefann því að húsið er á sex hæðum með sundlaug í kjallaranum. Fann klefann en stóð svo eins og ringluð gömul kona og gat engan vegin fundið út úr því hvernig ætti að læsa skápnum (hafiði ekki séð svona gamlar og ringlaðar konur í búningsklefunum - kannski ekki þið strákar?). Fékk hjálp við það og fann salinn. Stóð þar feimin eins og gömul kona mætt í hópastarf á Leikskólaborg. Ég hefði sem best getað verið móðir allra þarna nema nokkura. Hefði getað verið verið amma þeirra. Sem betur fer skutust inn í byrjun tímans tvær sem voru svona aðeins farnar að þroskast og ég gat brosað til þeirra og fært mig svona smávegis upp að hliðinni á þeim. Kennarinn var skoskur og þegar talað er með skoskum hreim í míkrafón og andað með um leið er erfitt fyrir auman Íslending að átta sig á hvað á að gera næst. Við völdum okkur lóð að vinna með og til að sýna þessu ungviði að ég gæti nú ýmislegt fann ég mér þyngstu lóðin og sveiflaði þeim upp og niður eins og enginn væri morgundagurinn. Hnussaði og fannst þetta frekar létt allt saman og varð hugsað til minna kvenna heima sem virkilega láta mann finna til tevatnsins (hvað þýðir það nú?). Bætti því við hálftíma hlaupi á bretti sem ég geri aldrei, aldrei, aldrei heima enda er hver mínúta þar fyrir mér eins og ár – og verulega leiðinlegt ár meira að segja.
Á þriðjudginn var ég helaum frá tám upp í háls og komst varla út úr rúminu. Á miðvikudaginn gat ég varla gengið, haltraði í skólann og ákvað að mæta aftur í tíma til að reyna að ná úr mér harðsperrunum. Valdi í þetta sinn korbolls sem felst í því að allir fá stóran bolta og gera alls konar æfingar á honum. Þetta var nokkuð skemmtilegt og ég hélt ég yrði svona eins og selur að leika listir sínar í sædýragarði. Þau ungu lágu þvers og kruss yfir boltann og réttu fætur og hendur rólega upp og niður meðan ég valt hægri og vinsti og var oftar undir boltanum en ofan á. Unglingarnir hlógu að mér – en hey - ég er öllu vön sem kennari á unglingastigi. Fór aftur á brettið og tók eitt ár þar í viðbót – las CCTV in operation skiltið 100000000000 sinnum og reyndi að efla sjálfsagann með því að reyna að horfa ekki á klukkuna (náði 13 sekúndum lengst). Er ekki frá því að þetta hafi aðeins slegið á harðsperrurnar því í gærkvöldi gat ég næstum gengið venjuleg á ný.
Í dag var ég bara kokhraust þegar ég mætti í súmba í stóran sal í fimmtu hæð. Eignaðist vinkonu fyrir utan salinn, finnska stelpu frá Jyveskyla – sagði henni að ég hefði heimsótt bæinn hennar fyrir 12 árum. Þá hefur hún líklega ekki verið fædd. En við brostum til hvor annarar á meðan við reyndum að hrista axlirnar og sveifla mjöðmunum og snerum yfirleitt í aðra átt en allir hinir. Skemmti mér konunglega og hafi unglingarnir hlegið að mér þá hló ég í þetta sinn bara með.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Zumba mun vera mikil gleðiíþrótt, langar að prófa tíma við tækifæri.
Svala
Skrifa ummæli