mánudagur, 7. mars 2011
Söknuður
Hef ekki komist í að blogga upp á síðkastið því Hannes kom í heimsókn og truflaði mig. Sótti hann með strætó út á flugvöll á miðvikudaginn og var alsæl að sjá hann aftur eftir mánaðar viðskilnað. Reyndar ekki sælli en svo að ég skildi hann eftir einan í Glasgow daginn eftir á meðan að ég þvældist eftir krókaleiðum til Edinborgar á ráðstefnu. Mér til málsbóta fannst mér ráðstefnan leiðinleg og var eftir fyrsta fyrirlestur komin aftur til hans í huganum.
Þó ég teljist íbúi þá var Hannes auðvitað Íslendingur í útlöndum svo við lögðumst í ferðamennsku og ólifnað. Drukkum gin og tónik á undan hverri máltíð og ég sem var ekki búin að borða sykur í mánuð gúffaði í mig tveimur íslenskum kókosbollum, útlensku Malteser, risaskammti af klísturkaramellubúðingi og ítölskum ís. Hannes tók að sér að kynna mig fyrir hverfisbörunum. Ég er hálfgerð raggeit þegar kemur að því að vappa ein inn á bari en hér á næsta horni eru einir þrír afar lofandi sem ég gjóa alltaf augunum inná þegar ég rölti framhjá á föstudagskvöldum með bókasafnspokann. Við prófuðum þá alla og eignuðumst meira að segja vini á einum sem vildu gefa okkur hund. Þetta var mjög stórmannleg gjöf því hundurinn, af Nýfundnalandskyni, var á stærð við kvígu. Við ákváðum að afþakka gjöfina. Af því að þetta verkefni gekk svo vel prófuðum við fleiri bari. Nú og við horfðum líka á síðustu mínúturnar í nokkrum fótboltaleikjum, borðuðum snilldarmáltíð á Tveimur feitum konum, skoðuðum háskólann, garða, byggingar, gengum göt á sólana, keyptum föt á barnabörnin, fórum á þrjú söfn, nokkur kaffihús og bari og í skoðanatúr með rauða strætónum. Vitum orðið allt um Mackintosh sem er arktiekt en ekki karamella. Í morgun var Hannes tilbúinn í flug aftur heim og ég sendi hann meira að segja með fyrra fallinu á flugvöllin svo ég gæti fundað með kollegum á skæpinu.
Það varð fjarska tómlegt eftir að hann fór. Fimm dagar eru fljótir að líða og líklega hæfilegur tími fyrir par eins og okkur. Mér fannst hann enn bera af öðrum mönnum þegar hann kvaddi og tíminn reyndist bæði of naumur til að taka upp gamlar værur (eins og þegar hann sofnaði í leikhúsinu og nennti ekki að taka sameignina – þetta eru reyndar tvö óskyld tilvik)og plana eitthvað um framtíðina (held að Hannesi þyki værurnar skárri en framtíðarhjal). Hannes náði reynar aldrei að smakka haggis og við gleymdum að drekka víský!
Fór sem betur fer í ferðalag í kennslumiðtöðina í Stirling með Stuart um hádegisbil. Gatt frætt hann um ótalmargt eftir kynnisferðina um helgina (hann sem fer á hverjum degi um M8 brúna hafði ekki hugmynd um að auk hans færu 119.999 aðrir bílar þar um á dag!). En það sló lítið á söknuðinn að sitja og hlusta á einhverjar skoskar kellingar mala um mikilvægi góðrar kennsluhátta svo þegar ég kom aftur til Glasgow leitaði ég uppi flottu hlaupabúðina sem við fórum í á föstudaginn en fundum hvergi á sunnudeginum. Fann hana í dag og þar biðu mín enn hlaupaskórnir sem ég hafði látið taka frá og af því ég var svo sorgmædd bætti ég við hlaupapeysu og toppi. Arkaði með stóran innkaupapoka heim og fann að ég var jú pínulítið glaðari. Hefði samt örugglega þurft í það minnsta buxur og stakk í viðbót til að hætta að sakna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli