föstudagur, 18. mars 2011
Á verkfallsdegi
Stundum sit ég hérna heima á Kennoway Drive og vinn en aðra daga sækir að mér einmanaleiki og þá dríf ég mig ´í vinnuna´- fer upp í skóla þar sem ég hef vinnuaðstöðu og hitti ´vinnufélaga´. Í gær var þannig dagur svo ég axlaði leikfimisdótið og hlaupaskóna, ferðatölvuna, bókasafnsbækurnar og nestið og fór í skólann. Fyrir utan aðalbygginguna stóð fullorðið fólk með kröfuspjald. Þetta reyndust vera háskólakennarar í dagsverkfalli. Stoppaði hjá þeim, fékk dreifibréf og spurði út í málin. Háskólar hér eru eins og víðar að bregðast við niðurskurði og ein aðgerðanna er að ráðast á eftirlaunasjóði háskólakennara og þeir ósáttir við það. Ég kvaddi og fór á Kennslumiðstöðina.
Í kennslumiðstöðinni voru allir í verkfalli nema öryggisvörðurinn í andyrinu og svo Vigga yfirkona. Kíkti til hennar til að athuga hvort hún gæti eitthvað aðstoðað mig varðandi bókasafnskortiðð mitt sem er runnið út. Vigga er sérstök, svo einstök að hún kemur mér alltaf á óvart. Og ég sem hélt ég þekkti allar tegundir af fólki. Hún er full af andstæðum og undarlegu drama. Þegar ég bað hana um húsaskjól fyrir löngu sendi hún mér afar hlýlegt bréf og hlakkaði þessi ósköp til að fá mig í hús. Þegar ég mætti sagði hún mér að koma eftir mánuð. Þegar ég þrjóskaðist við lét hún mig fá besta herbergið í húsinu en sagðist jafnframt ekki hafa neitt pláss fyrir mig og þurfa fljótlega að henda mér út því hér væri mikið um að vera og þyrfti að nýta hverja smugu. Síðan þá hef ég ekki séð nokkurn mann á hrakhólum.
Í gær fórnaði hún höndum þegar ég mætti, stökk upp og spurði hvort ég vissi ekki að það væri verkfall. Jú ég sagðist hafa stoppað hjá aðgerðarsinnum en sjálf væri ég ekki í verkfalli hér enda gestur.Ég þorði ekki að spyrja hana hvað hún væri að gera í vinnunni. Ég bað hana um hjálp við að framlengja bókasafnskortið. Hún taldi það vonlaust mál. Hún yrði að hafa samaband við Júlían og gæti ekki verið að biðja hann um að forgangsraða svona smáræði nú þegar hann væri orðinn næsti yfirmaður háskólans. Ég skildi það vel að vararektor hefur annað við tímann að gera en útbúa bókasafnskort fyrir kerlingar að norðan. Ég sagðist þurfa að skila bókasafnsbóknum mínum. Hún bað mig í guðanna bænum að fara ekki á bókasafnið á þessum verkfallsdegi. Eru þau á bókasafninu í verkfalli spurði ég. Nei en Vigga taldi eins víst að háskólakennararnir myndu setja upp víggirðingar og jafnvel slást. Mér varð hugsað til þessara fimm sem stóðu með spjaldið við aðalbygginguna. Þau virtust frekar hættulaus en kannski höfðu þau sent ofbeldisfullu kennarana á bókasafnið. Kvaddi Viggu og kinkaði aftur kolli til öryggismannsins sem passaði okkur tvær fram eftir degi.
Fór i dagslok á bókasafnið að skila bókunum. Kíkti laumulega fyrir horn til að forðast gúttóslaginn en allt virtist með kyrrum kjörum og jafnvel komið smá vorlykt í loftið. Annað hvort voru hættulegu háskólakennararnir í kaffi eða bara farnir heim. Á bókasafninu talaði ég við elskulega stelpu í þjónustugatinu. Sagði henni að aðstoðarrektor væri víst of upptekinn til að búa til nýtt kort handa mér. Hún hló og framlengdi kortið án nokkurra vandræða. Vonandi verður hún einhvern tíma rektor Glasgowháskóla
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli