mánudagur, 28. mars 2011
Framboð og eftirspurn
Afar fín helgi að baki. Fékk í heimsókn hana Michele vinkonu mína frá Oxfordárum og lagðist í túrisma í Glasgowborg. Þessi 11 pund sem ég borgaði fyrir sægtsíing túrinn eru farin að margborga sig og ég gat þulið upp fróðleik við hvert horn Michele til mikillar aðdáunar.
Á Buchanangötu (sem er aðalverslunargatan) gengum við óvart inn í langa röð af fólki. Þetta var alvöruröð með köðlum og hlykkjum. Hvað er þetta? spurði Michele. Ég varð að játa vankunnáttu mína en taldi þó sýnt að svona margt fólk færi aldrei í röð nema að það væri eitthvað verulega spennandi að bíða eftir. Ég stakk upp á við Michele að við færum líka því það væri örugglega hægt að fá eitthvað ókeypis við hinn endann. Við stúderuðum þessa röð og fannst verulega erfitt að greina hana. Þarna voru gamlir kallar og kellingar innan um unglinga og foreldra með börn. Það ríkti ákveðin spenna en líka svona gleði þarna. Er þetta ekki bara sósíalinn? spurði Michele. Ég gat nú staðfest eftir allar mínar skattaferðir að sósíalinn í Glasgow er ekki þarna á verslunargötunni. Við ákváðum að geyma röðina og kaupa okkur skó.
Þegar að við komum út úr skóbúðinni var röðin enn jafnlöng en spennan hafði aukist. Á tröppunum fyrir framan röðina stóð maður umkringdur öryggisvörðum og hélt uppi einhverju spjaldi sem margir í röðinni reyndu ákafir að taka mynd af á símana sína. Spjaldið reyndist ipad 2 og allt þetta fólk sem iðaði þarna í langri röð á Buchanangötu var að reyna að kaupa sér einn slíkan. Hvað var bara búinn til einn? spurði ég Michele sem hélt að það væru til fleiri en vissulega ekki nógu margir til að allur heimurinn gæti nálgast sinn ákkúrat á þessum föstudegi. Við Michele ypptum öxlum og héldum áfram að skoða skó.
Þetta leiddi samt hugann að framboði og eftirspurn. Fram til þessa hefur verið miklu meira framboð af mér en eftirspurn í kennslumiðstöðinni við Glasgowháskóla. Nú virðast hins vegar allir vera að átta sig á að ég er á leiðinni heim og hér slást menn blóðugt um síðasta tækifærið til að eiga við mig gefandi samskipti. Fólk veltist um gólfin og rífur í hárið hvert á öðru æpandi: Nú má ÉG fara með henni í mat! Á meðan þau slást sit ég bara sallaróleg og les skoskar greinar um háskólakennslu og segi svo letilega: Ókey hver vann! Í dag var það Jane og hún bauð mér í mat á kampus þar sem kom í ljós að í aðalbyggingunni er bæði þetta huggulega mötuneyti og hátimbruð kapella. Skítt þó ég hafi aldrei fundið mötuneytið og ekkert fengið að borða í tvo mánuði en það hefði nú verið gott að komast í eins og eina messu á dvalartímanum.
Á morgun fer ég svo til Aberdeen að hitta hann Darren sem þar rekur kennslumiðstöðina. Ég fékk veður af því prófessor Martin Oosthuizen frá Nelson Mandela Metropolitian háskólanum (sem ég held að sé í Afríku) ætlaði að mæta í Aberdeen háskólann að ræða um námskrárbreytingar í háskólum. Mér fannst gráupplagt að kíkja á það og skrifaði Darren og bað um að fá að koma í heimsókn á þriðjudegi. Hann tók vel í það en taldi ekki líklegt að ég fengi að vera með í námskrárdæminu. Ég varð hvumsa – af hverju ekki hafa mig með? Og kíkti betur á auglýsinguna. Þar kom í ljós að í stað þess að vera með fyrirlestur þar sem ég hefði getað setið aftarlega og lakkað á mér neglurnar og teiknað eplatré í glósubókina mína vill prófessorinn bara tala við 10 manns og það þurfti að sækja forlega um að komast í þennan útvalda hóp. Og þá kom náttúrulega upp þetta dæmi um framboð og eftirspurn og mér fannst allt í einu afar mikilvægt að fá pláss. Ég sendi bréf á yfirkonu gæðamála sem sá um valið og reyndi að benda henni á mikilvægi þess að hafa með í umræðunum skarpgreindan námskrárfræðing sem væri auk þess kona (kynjakvóti), gömul (aldurskvóti), rauðhærð (minnihlutakvóti) og íslensk (alþjóðavídd, aumingjagæska og guð má vita hvað). Hún féll fyrir þessu og ég var samstundis tekin með í liðið. Var ótrúlega montin þar til ég fékk þátttakendalistann. Ég er þátttakandi númer sjö og og sá síðasti í röðinni. Eftirspurnin var ekki meiri en þetta ... og getur þetta þá verið nokkuð merkilegt?
Farin að hlakka til að komast heim og knúsa köttinn, kallinn og krakkana – ekkert endilega í þessari röð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli