þriðjudagur, 1. mars 2011
Mæling heimsins
Ég hef þurft að líða fyrir það í gegnum tíðina að vera félagsvísindakona. Það þýðir að ég hef stundum átt í basli með stærðfræðina (féll í landsprófi og svona). Ég var samt stundum látin kenna börnum á Akranesi stærðfræði en það er nú bara enn eitt dæmið um hvernig farið er með landsbyggðina. En nú er þetta held ég allt að breytast og ég farin að sýna slíka raunvísindatakta að þeir fá Einstein til að roðna í gröfinni.
Ég sat sem sagt heima í dag á náttfötunum að vinna og um og eftir kaffitíma ákvað ég að nú væri lag að fara út að hlaupa. Ég vildi ekki fara langt því í kvöld er meiningin að labba niður í bæ á klúbbinn Jumping Jack og æfa Ceroc dansa. Það hef ég áður reynt í fyrri rannsóknarleyfum. Ákvað þess vegna að 10 km væru alveg hæfilegt. En þá versnaði í því. Mig langaði að prófa nýja leið og á risakort af Glasgow og öllum hennar úthverfum - en ekkert til að mæla það með. Sumir (kannski þeir sem eru greindari en ég) hefðu líklega fundiði gúgglemapp á netinu en ég er ekkert fyrir einfaldar lausnir. Ég breiddi fyrst úr risastóra kortinu mínu yfir allt borðið og ákvað að fara í norður – austur – suður og vestur. Ég fann strax mælikvarðann á kortinu en hann var í mílum. Umreiknaði það í snarhasti í kílómetra (ég er orðin dálítið góð í því)og fékk út að hver slíkur væri um 5 sentimetrar á kortinu. Enn vandaðist málið því enn átti ég ekkrt til að mæla með. Gúgglaði reglustiku og viti menn hana er að finna í raunstærð á netinu. Reyndi að mæla kortið fyrst beint með þessari rafrænu reglustiku í tölvunni en það gekk ekki vel og allt var komið í verulega flækju og kuðl. Leit í kring um mig í örvæntingu. Á borðinu fyrir framan mig voru alls konar bækur (flottar af bókasafninu) dagatal, kaffibollinn minn og svo Vasa hrökkbrauð úr Ikea - með osti. Plokkaði ostinn af – og nagaði hrökkbrauðið niður í nákvæmlega 5 sentimetra samkvæmt gúgglureglustikunni og mældi leiðina. Sýndist hún 10 km.
Lagði á minnið helstu götur og hljóp sem leið lá upp götuna mína í norður. Komst svona eins og einn og hálfan kílómetra áður en ég fór að villast. Samkvæmt kortinu átti ég að hlaupa meðfram risastórri sjúkrahúslóð en var allt í einu komin inn á miðja lestrarstöð. Stökk þar í gegnum síðdegisösina og út á götu hinum megin teinanna og ákvað að fá ekki neitt örvæntingakast. Sikksakkaði norður og austur til skiptis, lenti ínn á lóð hjá ókunnu fólki, vinkaði til þeirra og tók strauið aftur út á götu. Rambaði út á hraðbraut og fann þar stuttu síðar leið meðfram á sem ég ákvað að gæti hugsanlega verið Kelvin áin. Eftir um tvo – þrjá kílómetra í viðbót var ég farin að kannast við mig og síðasta spölinn hljóp ég hamingjusöm á áður könnuðum slóðum. Tók smá krók til að forðast umferðarfnykinn á Dumbartongötunni minni og stökk léttilega upp síðustu brekkuna upp að Kennoway 6. Leit á garminn - hann sagði 9:98! Mæling heimsins – pís of keik með Íkea!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli