mánudagur, 14. mars 2011

Öskubuska


Dóttlan mín er komin í helgarheimsókn. Hún lenti um hádegisbil á laugardag og ég tók strætó út á völl að sækja hana. Eftir að hafa knúsast smá og borðað skoskt brauð var okkur ekkert að vanbúnaði. Við settum undir okkur hausinn og héldum út í slyddu og slagveður og örkuðum blautar í fæturna alla leið oní bæ. Dóttlan baugótt og ósofin ljómaði eins og sól þegar í gegnum mugguna fór að grilla í langþráð kennileiti: HM og Primark. Hún var komin heim. Þetta var samt fyrst og fremst könnunarferð fyrir frekari víking. Hún rétt svona skimaði hillur og rekka haukfráum æfðum augum, greip örsnöggt í flíkur og kannaði kostnað og gæði. Umreiknaði úr pundum í aura og áætlaði hagnað. Bætti við vísitölum og áhættukosnaði og kinkaði kolli þokkalega sátt.

Yfirlýst markmið ferðar í dag voru skór. Og skó fann hún. En bara einn. Sá var reyndar á mjög góðu verði. Og flottur. En stakur. Öldruð móðirin skreið örvæntingafull á maganum á milli hillurekka í leit að hinum. Dóttlan talaði við örþreytta og frekar kærulausa starfsmenn. Fyrir þeim var týndur skór ekki endir alheimsins. Þeir söguðu að vísu yes, yes en héldu svo bara áfram að raða í hillur og undirbúa næsta dag. Við hugleiddum ampúteringu. Móðirin skreið áfram um gólfin. Við mægður játuðum okkur sigraðar þegar ljósin í kauphöllinni voru slökkt og öflugir öryggisverðir mættu upp rúllustigana til að henda okkur út.

Fórum heim og borðuðum pasta til að hlaða fyrir næsta dag. Vöknuðum eiturhressar þrátt fyrir skóleysið og hófum daginn á flóamarkaði. Borðuðum líka í fyrrum teppaverksmiðju sem nú hýsir frægt brugghús. Ákváðum að þá væri komið nóg af hámenningu og réðust aftur í innkaup. Dóttlan sem fyrr örugg og ákveðin í fasi, ég alltaf að leita að henni. Það var ekki auðvelt, sérstaklega ekki eftir að hún fór að klæða sig í nýkaupin jafnóður.Var ýmist að leita að stúlku í svartri kápu eða brúnni.

Held að uppskera dagsins hafi verið þokkaleg. Við sátum í það minnsta saman í sófa í gær í nýju náttkjölunum okkar og borðuðum alíslenskt ostapopp.

Það er runninn nýr dagur. Dóttla sefur enn. Hér á stofuborðið sé ég að hún hefur lagt lista yfir það sem enn vantar. Það er strangur dagur framundan.

Engin ummæli: