fimmtudagur, 24. mars 2011

Sex bleikjur


Ég hef áður skrifað um tilraunir mínar til að tengjast hlaupaklúbbum hér í Glasgow. Á mánudaginn ákvað ég að fara í þriðja sinn hér út í Scotstoun að hitta hlaupanettworkið. Þar hef ég áður hlaupið með skemmtilegum hóp á laugardegi og bondað smá við Alison þjálfara á miðvikudegi. Á mánujdaginn var allt annað fólk en hina dagana tvo. Bara konur. Blíðlegar á svipinn og brostu til mín þegar ég mætti sveitt eftir mína 2 km að heiman. Alison var þarna líka en meira svona í bakgrunninum og mjög skosk kona stýrði æfingunni. Hún horfði alvarleg á okkur og sagði eitthvað í þessa áttina: Jeer gonna do fríííí mæl bút wee pínkís ill dú fooooor. Mér skildist að þetta yrði þriggja mílna hlaup en fjögurra ef ég gerði pínkís. Sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var. Alison sá á mér vandræðasvipinn og spurði: Jeer dún pínkís? Datt í hug að það væri skoska heitið yfir íslenska heitið fartlek sem við hlauparar notum heima til að gera okkur breiða þegar við við leika okkur smá með hraðabreytingar. Svo ég sló til.

Við konurnar hlupum rólega upp Krákugötu (sjá síðasta blogg) og allar nema ég hlupu eins og stelpur.Að hlaupa eins og stelpa er alveg ákveðinn hlaupastíll sem ég er reyndar ekki mjög góð í. Þá hleypur maður svona sætt og pent eins og maður vilji ekki skíta mikið út skóna sína. Kallar geta líka hlaupið eins og stelpur. Eftir um það bil mílu komum við að gatnamótum og þar á horninu var hárgreiðslustofan PINKS. Og þá skildi ég loksins þetta með pínkin. Þau fólust í því að hlaupa svona 200 metra rólega að Pinks, snarbeygja til hægri á hárgreiðsluhorninu og taka á sprett um litla en afar bratta brekku, ganga svo rólega niður skuggsund að Krákugötinni (for health og saftí rísons af því þar er smá möl). Sex sinnum. Mér fannst ótrúlega gaman að gera bleikjur og hefði gjarnan viljað gera fleiri. En sætu konunum fannst þetta meira en nóg og þökkuðu guði fyrir að geta hlaupið jafnsléttu aftur heim í hús. Eins og stelpur.

Engin ummæli: