miðvikudagur, 16. febrúar 2011


Eins og ég hef kannski minnst á áður var ég búin að grenja mig inn á tvo háskóla hér í Glasgow áður en ég fór að heiman. Þessi tveir eru afar ólíkir, Strathclyde er hér aðeins austur fyrir miðbæ og er ‚nýlegur háskóli‘ þ.e. hann er ekki nema svona 200 ára gamall. Hann er víst stofnaður fyrir fé sem John nokkur Anderson, heimspekiprófessor, lét eftir sig einmitt í þeim tilgangi að stofna skóla þar sem nemendur gætu lært eitthvað gagnlegt. Hann er að finna í alls konar nútímalegum byggingum sem eru dreifðar yfir nokkrar götur. Kennslmiðstöðin er í húsi sem gæti við fyrstu sýn verið skattstofan og hinum megin við götuna er verið að grafa fyrir nýjum grunni. Glasgow háskóli er hins vegar fjórði elsti háskóli Englands, stofnaður 1451 og er svona á við fíniríin sem ég er vön frá Oxford. Aðalbyggingin er ótrúlega falleg, stendur hátt og er eitt af þeim kennileitum sem ég hef notað til að lóðsa mig aftur heim þegar ég er villt í bænum. Þeir eru líka með sína eigin á sem rennur um háskólalóðina. Kennslumiðstöðin þeirra er líka í sérhúsi eins og sú hjá Strathclyde en þeirra hús er eins og miðaldahöll (sjá mynd)og hér er öryggismaður sem fyglir manni upp teppalagða stiga þar vítt er til veggja og hátt til lofts. Ég er svo snobbuð að ég vildi miklu frekar fá borð og stól í þessari kennslumiðstöð en hinni en kunni ekki við að segja stýrunni frá því svo ég laug einhverju öðru gáfulegu upp. Stýran hefur alveg rosalega mikið að gera og þarf að hlaupa daginn inn og út upp og niður þennan stóra stiga en gaf sér samt tíma til að hlaupa með mig um allt hús og kynna mig fyrir öllum. Ég man að sú fyrsta sem ég hristi spaðann á heitir Heather en eftir það er allt í móðu. Það voru hins vegar allir voða kammó og glaðlegir í framan svo ég hlýt að kynnast þeim betur síðar. Stýran dró mig undir súð þar sem ég hef smáherbergi til að byrja með en á mánudaginn fæ ég risakontórinn hennar (sem hún hafði áður en hún varð aðalstýran). Ég er hálfstressuð yfir þessu flotta herbergi. Ég er líka búin að fá kort til að komast hér inn og út og nafnið mitt er komið á skilti niðri í andyri og þar á ég að ýta á in eða out eftir því hvort ég er hér innandyra eða utan. Mér fannst flott að sjá nafnið mitt þarna. Stýran hljóp svo með mig út á bókasafn til að fá fyrir mig 30 daga bráðabirgðakort. Nú á ég kort með mynd af mér úfinni að brosa út í annað – en það virkaði reyndar ekki þegar ég lét svo reyna á það. Tók samt túr um bókasafnið, fann rekkana mína, settist þar á koll og klappaði á kilina á gömlum vinum sem ég á í hillu heima. Ég bað um að komast á netið og þá urðu allir mjög áhyggjufullir, hristu höfuðið og sögðu að þá yrði ég að fara í gegnum eitserr sem ég skildi strax að var hið versta mál. Eitserr stendur víst fyrir HR sem er Human Resources og þar vinna hægvirk ómenni ef eitthvað er að marka svipinn á nýju vinnufélögunum. Ég þurfti því að fylla út fullt af blöðum fyrir eitserr og haldinn var skyndifundur um hvað væri hægt að gera við skorti mínum á NIN sem reyndist standa fyrir national identiy number. Ég setti inn mína gömlu kennitölu en þau voru efins á svipinn. Í hádeginu rölti ég aftur á bókasafnið og fann tímaritahilluna. Náði mér í tímaritið Teaching in higer education og las snilldargrein eftir Jan Smith – sem vinnur í kennslumiðstöðinni í Strathclyde og hugsaði: Kannski segja umbúðirnar ekki alltaf alla söguna um innihaldið (djúpt ekki satt?). Á eftir ætla ég svo út að drekka víský með Önnu.

Engin ummæli: