miðvikudagur, 23. febrúar 2011

Út og suður um ekki neitt


Dagurinn í gær var eitthvað óskaplega sundurlaus og skrítinn. Það hefur kannski átt sinn þátt í því að mér gekk engan veginn að sofna í fyrrakvöld og plastíkeaklukkan var löngu orðin þrjú þegar ég síðast mændi stressuð á hana. Veit ekki hvað olli þessu staðbundna svefnleysi. Kannski var það sultur því þegar ég fór fram undir þrjú og fékk mér að borða skánaði þetta allt. Hitt getur líka verið að bókin Ljósa eftir Kristínu Steins sem ég tók með mér sem sparilesningu að heiman hafi haldið fyrir mér vöku. Ég var upp úr miðnætti farin að þjást illilega af meðlíðan með Ljósu og átti afar erfitt með að sleppa hendinni af örlögum hennar. En fyrir vikið var hausinn svolítið ullarlegur þegar ég vaknaði aftur við plastíkeaklukkuna tæpum fjórum tímum síðar. Ég átti deit við Kathy sem er námskrárstelpan hér í Glasgow háskóla en mundi ekki hvort það var kl. 9 eða 10 svo ég ákvað til örggis að vera mætt í fyrra fallinum (auðvitað var svo viðtalið kl. 10 svo ég hefði sem best getað sofið áfram).

Ég lagði af stað fótagangandi í skólann en áttaði mig sem betur fer fljótleg á því að ég hafði gleymt töskunni minni og þurfti því að snúa við aftur og ná í hana. Hélt aftur af stað – einbeitt - því þessi skólaganga var ekki neitt venjulegt rölt heldur hafi skýran tilgang – að finna vettlinginn minn sem ég virðist hafa týnt á leiðinni heim í fyrradag. Þetta er ekki neitt gamanmál því ég held ég hljóti að vera heimsins mesti vettlingatýnari og skil ekki bara hvað veldur. Hugsanlega má skrifa þetta á uppeldið (er það ekki alltaf leið) því sem barn átti ég ömmu sem sat á melunum og prjónaði vettlinga og sokka út í eitt. Plöggin setti hún jafnóðum í kommóðuskúffu. Þegar ég týndi vettlingum var alltaf annað hvort hægt að fara í skúffuna eftir nýprjónuðu pari eða – ef ég týndi bara öðrum - sýna ömmu þann staka og hún var þá ekki lengi að búa til annan eins. Það eru reyndar dálítið mörg ár síðan að amma Guðrún dó - að minnsta kosti feikinógur tími fyrir mig til að færa að taka meiri ábyrgð á vettlingunum. En það er sama hvað ég reyni – þeir bara fara eitthvert. Ég á vettlinga – ýmist pör eða staka - út um allt Ísland - heim og nú líka í Glasgow – margar þúsundir af þeim. Þetta er líklega mitt framlag til alheimsvæðingar. Og þetta er bráðalvarlegt því ég með veiki sem heitir Raynords syndróm og lýsir sér í steindauðum,köldum puttum sem bara verða að vera í vettlingum.
En ég sem sagt gekk þarna í skólanní morgun eins og sporhundur með nefið niður í stétt og fann mjög margt áhugavert. Ég fann t.d. slatta af peningum, barmnælu með fjólubláu blómi, rauða hárspöng, tvær ónýtar regnhlífar, tóbaksklút og þrjá staka vettlinga - en engann sem passaði við minn. Núna veit ég ekki hvort ég á að fara i bæjarleiðangur til að finna nýja eða bara láta duga að ganga um eins og Mækol Jakson þar til fer að vora – hugsa það betur.

Nú en viðtalið við Kathy námskrárkonu var hins vegar skemmtilegt og gagnlegt og eftir það fékk ég að fara á fyrirlestur um mikilvægi samstarfs í háskólum (jájá) og þá fékk ég líka samlokur og djús. Settist svo við skrif en ullinn í hausunum hafði ef eitthvað er bara flækst meira og var eiginlega orðin stálull svo eftir að hafa starað á lyklaborðið í næstum klukkutíma pakkaði ég niður og þrammaði heim. Flest af dótinu sem ég fann í morgun var enn á götunni nema peningarnir voru farnir. Ákvað að gera það sem helst er hægt að gera heilalaust – kíkja í búðir. Af því mér hafði nú gengið nokkuð vel að kaupa peysu í seinnihandarbúð í síðustu viku (sjá fyrri blogg) fannst mér rétt að klára bara þann kafla í dvöl minni hér og fara í allar slíkar á Dumbartonstræti. Þær eru rétt um þúsund. Gaf mér 15 pund til fjárfestinga og kom alsæl heim með kápu, topp, hálsmen og tvær bækur þar af önnur Lonely Planet bók um Ísland á aðeins 2 pund! Kannski skrítið að kaupa þannig bók um sitt eigið heimaland en með í bókinni er eru líka Grænland og Færeyjar og það eru í bili mín uppáhaldslönd. Er ekki frá því að þessi kaupþerapía hafi aðeins slegið á stálulllina en þó ekki meira en svo að þegar ég kom heim taldi ég réttast að skríða bara aftur undir sæng með Ljósu og örlögum hennar.

2 ummæli:

Þóra Björk Hjartardóttir sagði...

Sko, mín amma Guðrún lagði heldur aldrei frá sér prjónana, en samt ....

Nafnlaus sagði...

Ljósa var jóladagsbókin mín, mér fannst hún frábær, skrifuð af svo miklum skilningi og næmi.

Svala