Við háskólakennarar búum við þann munað að vinna af okkur kennslu sjöunda hvert misseri og fá þá svigrúm og styrk til fara í svokölluð rannsóknarleyfi (óvíst hvað þau fást lengi). Markmiðið er að gefa okkur greyjunum frí frá nemendaamstri til að fleyta áfram rannsóknum okkar til gæfu fyrir mannkynið (eða ekki!). Ef við viljum halda á ókunn mið til að sinna þessum verkefnum fáum við styrk. Og þá mætti ætla að ég hefði valið að liggja með fartölvuna á sólríkri strönd eða sitja í fjallaþorpi á Ítalíu. Sussu nei, ég valdi að finna mér kames hér í kaldri og rakri Glasgowborg. Hér ætla ég að dvelja í tvo mánuði og hef fengið inngöngu í að minnsta kosti tvo háskóla þar sem ég ætla að læra hvernig skoskir styðja sína háskólakennara til að verða betri kennarar og vonandi koma heim fróðari og full af alþjóðlegum kontöktum.
En fyrst er að koma sjálfum sér fyrir og það gekk ekki auðveldlega. Skotar eru augsýnilega ekki fyrir skyndikynni og enginn vildi leigja mér íbúð í minna en 6 mánuði - nema Brian sem á ögurstundu svaraði örvæntingafullri auglýsingu minni af elskusemi. Og ég grét af gleði fram á næsta dag þegar að frænka Brians ákvað að skilja við karlinn sinn og stóð uppi húsnæðislaus. Brian tók blóðið fram yfir mig og núna grét ég enn hærra og meira - af vonbrigðum. Ég bölvaði frænkunni í sand og ösku og skíthælnum manninum hennar enn meira en reyndi samt að síkreta þau aftur saman. Og viti menn það tókst! Daginn fyrir brottför fór frænkan aftur heim í hjónabandsharminn og ég fékk íbúðina og krossaði putta um að hjónabandið héldist þar til ég væri komin í hús. Það hélst og ég er orðin íbúi í Kennoway Drive.
Þó að íbúðin sé fín, fylgir því undarleg tilfinning að horfa út um glugga á heimili sínu og vita ekki hvað maður er staddur í heiminum. Ég er víst í vesturbænum (meira að segja vestast í vesturbænum) sem Brian sagði að væri flottur staður. Í austurbænum búa voðamenni og barðar konur (sagði Brian) og suður fyrir á er heldur ekki gott að búa þó að dóttir Brians búi reyndar en það er af því að hún giftist strák sem fæddist þar suðurfrá. Hann gleymdi að segja mér hverjir búa fyrir norðan. Ég lét duga á fyrsta degi að labba hring um hverfið, drefiði steinvölum til að villast ekki, fann matarbúð og komst aftur heim.
Á öðrum degi þorði ég heldur ekki langt út úr húsi en sem betur fer á ég vinkonu hér sem kom og sótti mig í hádegismat og fór með mig að honum loknum í Ikea - og þar var mín á heimavelli. Fyrir heimsáttvillta er það verulega valdeflandi að vita að á eftir pottadeildinni koma gardínurnar og þar á eftir rúmfötin.
Á þriðja degi (í gær) fór ég i góða skó og hélt út í heiminn. Gekk í alla háskóla í bænum, fann verlsunargötuna og keypti mér kort, hélt áfram niður að ánni Clyde, fór í austur og fann garða og gosbrunna, horfði í norður og horfði í suður og hélt svo vestur sem leið lá meðfram ánni. Það skein á mig sól, það rigndi og það blés og það var dimmt en ég komst heim heil á húfi fimm tímum síðar. Ég var stolt og glöð - þar til ég breiddi úr nýja kortinu og sá að á fimm tímum hafði mér tekist að fara hring sem helst mætti líkja við ummál glasamottu á stóru engi! Ojæja, ég veit að minnsta kosti núna hvar ég er á kortinu - og það er meira en margur veit.
þriðjudagur, 8. febrúar 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli