fimmtudagur, 10. mars 2011
Þvottadagur
Það var stórþvottadagur hjá mér í fyrradag eftir að Hannes kvaddi. Hann sagði mér reyndar að frá því að síðan hann losnaði við mig að heiman hefði hann þvegið eina vél. Ég þefaði varlega að honum og hann virtist í lagi og engin kvörtun hefur enn borist til mín frá heilbrigðiseftirlitinu. En ein vél á mánuði! Þegar ég stýri búinu gengur þvottavélin daginn inn og út og Hannes sem hefur það hlutverk að brjóta saman þurran þvott er alltaf gáttaður yfir magninu. Hann flokkar þvottinn okkar í tvennt. Minn stafli er himinhár en hans yfirleitt sokkarpar og nærur. Ójafnvægið skýrist að hluta til af öllum þessum íþróttafötum og handklæðum sem fylgja mínu sprikli en svo hef ég tendens til að ´fylla vélina´- spara með því að troða í hana næstum hreinum fötum – svona frekar en að hengja þau aftur upp í skáp. Það er ekki beint hægt að kalla mitt starf erfiðisvinnu, þetta er mestan part svona þokkalega hreinlegt skrifstofstarf. Þannig að það má alveg fara tvisvar í sumar flíkur þó ég hafi setið í þeim á stól í 8 tíma í vinnunni. Laga það!
Hér ytra hef ég ekki mikið til skiptanna og því eru þvottar dálítið vandamál – og þetta prinsipp með að fylla vélina gengur bara ekki upp. Þvottavélin er hins vegar rúmgóð og prógrömmin löng og það tekur mig sárt að sjá nokkur sokkapör veltast um klukkutímun saman í tóminu. Svo er vélin svo öflug að það heyrist í henni ekki bara um allt hús, heldur alla Glasgow og eflaust á kyrrum dögum til Edinborgar. Það var því sérstök hamingja að geta tekið af rúmun og fyllt vélina af rúmfötum og handklæðum, hlaupafötum, nærbuxum og sokkum og ég setti meira að segja einu náttfötin mín með í púkkið. Vandinn er hins vegar að þurkka þetta allt.
Daginn sem ég kom á Kennoway Drive fór Bræan landlord með mig út í bakgarð og sýndi mér þar stoltur þvottasnúrur. Allar þessar átt þú sagði hann eins og konungur við gjafvaxta dóttur og benti yfir garðinn og hér máttu hengja þinn þvott. Næstu tvo daga var ég svo með stanslausar áhyggjur af því að eiga ekki klemmur og velti því mikið fyrir mér hvar ég ætti að kaupa þær. Það er skemmst frá því að segja að frá því að Bræan sýndi mér snúrurnar hefur ekki stytt upp að nokkru gagni. Það væri fullt starf fyrir marga að rífa þvottinn inn um leið og það skellur á með skúrum. Klemmurnar eru því enn ókeyptar. Ég nota hins vegar bara gamla trixið. Skrúfa miðstöðina í botn, sett plöggin á sjóðheita ofna og sit sjálf bersössuð í hugglega heitu stímbaði inni í stofu og skrifa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli