mánudagur, 21. mars 2011
Kallinn með hattinn
stendur upp við staur
borgar ekki skattinn
því hann á ekki aur!
Það á reyndar ekki við mig að ég eigi ekki aurinn fyrir skattinum en mér hefur gengið bölvanlega að finna skattstofuna til að gjalda keisaranum það sem keisarnas er. Þegar ég mætti á Kennoway Drive með vöðlana af pundum til að borga Bræan landlordi sagði hann mér að ég ætti líka að borga fasteignaskatttinn. Ég var dálítið hissa (og spæld) yfir því en lét ekki á neinu bera. Hann lét svo skattstofuna vita af minni tilvist og þeir sendu mér fallegt bréf þar sem þeir rukkuðu mig um rúm 180 pund fyrir tvo mánuði en buðu mér jafnframt um að sækja um skattalækkun.
Skattalækkunina var hægt að fá af ólíklegustu ástæðum og eftir að hafa lesið mig í gegnum langan lista af alls kyns ógæfu sá ég að ég félli líklega undir það að vera einstæðingur. Það veitti mér 25% afslátt sem ég sótti um í snatri. Heyrði ekki meir frá skattstofunni svo ég ákvað að gera mér ferð í síðustu viku til að gera upp skuldir mínar. Skrifaði blogg um þá árangurslausu leit þar sem ekkert fannst starfsfólkið til að taka við aurunum mínum því allir voru á námskeiði.
Eftir að hafa skoðað reikninginn einu sinni enn sá ég að mitt heimaútibú er ekkert niðrí bæ heldur á Krákugötu og það er gata sem ég geng framhjá á hverjum degi á leiðinni í skólann. Ég ákvað í morgun að nú væri kominn tími til að gera upp. Hékk heima til rúmlega 9 til að gefa staffinu tækifæri til að opna en lagði svo í hann. Gekk sem leið lá hálfa leið upp í háskóla og fann þar Krákugötuna. Hélt af stað upp hana en ákvað að kíkja betur á heimilisfangið til að vera viss um að þetta væri rétta gatan. Jú, jú mikið rétt. Skattstofan var á Krákugötu – númer 841. Ég stóð þá fyrir utan númer 3. Hvað getur ein gata svo sem verið löng hugsaði ég með mér um leið og ég snaraði mér af stað upp á móti hækkandi númerum. Hún getur verið mjööööööög löng. Um 10 leytið var ég komin upp í 133. Við 248 datt mér í hug að banka upp á og biðja um vatn. Um miðjan morgun náði ég upp í 700 og sá að kannski tækist mér að ná á leiðarenda fyrir dagslok. Við 836 endaði gatan. Komst yfir Great Western Road og með aðstoð öskukarla og vegavinnumanna tókst mér að finna smástubb af Krákugötu og þar á milli stillansa var skattstofan. Ef ég hefði tekið tilboði skókaupmannsins á föstudaginn um ísítón skóna (sem toga upp á manni botninn í hverju skrefi) hefði ég verið komin með rasskinnarnar aftan á hálsinn.
Á skattstofunni fór allt í kerfi þegar ég mætti með reikninginn og það þurfti að selflytja mig úr almenningnum í búr númer 7 til að greiða úr mínum málum. Ég fékk vissulega einstæðingsafsláttinn enda sást á mér langar leiðir hvað ég var ein og týnd eftir þessa löngu göngu. Hins vegar reyndist ég ekki nægilega rótgróin hér í Glasgow til að fá að borga skattinn sjálf og hefði þurft að afplána minnst fjóra mánuði í viðbót til að axla þá miklu ábyrgð. Bræan landlord þarf því að sjá um sinn skatt sjálfur en ég er í það minnsta komin með stimplaðan afslátt til að sýna honum þegar hann rukkar mig.
Kvaddi skattstofufólkið með kossum og tók í fyrsta sinn strætó í skólann.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli