sunnudagur, 27. febrúar 2011

Blújín blús


Mér finnast gallabuxur megaflottar – á öllum nema mér. Það eru auðvitað til trilljón snið svo að allir geta fundið sitt rétta – nema ég. Ég hef aldei fundið mínar réttu buxur. Ég á reyndar einar sem mér þykir vænt um og kom með hingað út. En þær eru orðnar meira en áratuga gamlar og verulega hverfandi. Þetta eru einu brækurnar hér í skápnum utan sparibuxurar enda stóð til að nýta dvölina hér ytra í að finna nýjar. Anna á 28 pör af gallabuxum sem smellpassa og hún sagði mér að fara í Gap – þar gætu allir fundið sér gott par. Ég fór í Gap og fékk aðstoð elskulegrar stúlku til að finna það eina rétta. Fyrst vildi hún vita að hvaða lit ég væri að leita – bara svona bláum sagði ég og hún benti mér á bláu hillurnar þar sem var að finna buxur í öllum litbrigðum himinsins. Ég valdi einn. Hún spurði næst hvers konar leggi ég vildi. Bara svona eins og mína eigin sagði ég. Nei viltu frá útvíðar um kálfa, beinar niður, aðþrengdar um kálfa. Bara svona beinar sagði ég. Ókey viltu fá flögrandi um lærin, beinar með lærum eða umfaðmandi um lærin. Bara svona beinar sagði ég enn og aftur. Viltu fá niðursniðnar í mittið eða meðalháar spurði tátan og þarna var ég alveg viss. Ég vil fá þær hátt upp í mittið og helst brókaðar upp undir handveg sagði ég en hún hefur kannski ekki skilið mig. Fór inn í klefa með þessar útvöldu sem sátu flottar á rassi, lærum og leggjum en náðu ekki hálfa leið upp að nafla. Er þetta meðalhátt snið spurði ég stúlkuna sem svaraði játandi og ég velti því fyrir mér hvert hið lága gæti mögulega náð og kvaddi buxnalaus.

Í gær hjálpaði ég henni Önnu að flytja. Ég skottaðist upp og niður 50 tröppur með ótal kassa og poka og bar þá svo upp í nýju íbúðina hennar. Fór aftur í þá gömlu og gerði stórhreingerningu. Kom heim ánægð með dagsverkið en dálítið skítug. Þar ekkert sérstakt var á dagskránni í dag setti ég í vél seint í gærkveldi og þvoði buxurnar mínar einu. Í morgun vakanaði ég við að sólargeisli skreið yfir sængina mína og stuttu seinna hringdi Anna hin nýflutta, var á leið til fjalla með félögum sínum Susi og David og bauð mér með ef ég kæmi mér til hennar í hvelli. Ég stökk á þvottasnúruna og uppgötvaði að gallabuxurnar voru rennblautar. Setti kyndinguna í botn, ofninn á 5 og lagði þær þar á meðan ég gleypti í mig morgunmat. Það stóð gufumökkur upp af buxunum en þær voru enn blautar eftir morgunmatinn. Náði í ferðahárþurrkuna og blés í báðar skálmar og skreið svo í þær rakar og hljóp af stað.

Ég sagði ferðafélögunum mínum frá vandræðum mínum. David sagði ekkert en þær stöllur töldu aldeilis ófært að eiga bara eina brók og Susi hin danska sagði að ég ætti að drífa mig niður í TKMax. Þar væri hægt að fá hátískuvörur síðasta árs á engu verði. Ég sá að Anna var skeptísk. Göngutúrinn var frábær en ég hefði ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af blautum gallabuxum því skoskar heiðar eru vætusamar á þessum tíma árs og það flæddi grimmt í gegnum hlaupaskóna mína (og sem betur fer út aftur) og buxurnar urðu blautar og moldugar upp undir lær.

Komin heim hellti ég úr skónum, koma hita í tærnar og hélt af stað í bæinn að finna TKMax – sem er merkileg megafatasjoppa. Þar fann ég til 14 pör af gallabuxum sem ég dröslaði á eftir mér inn í búningsklefann og mátaði. Eftir 13 var ég gráti næst. Þær síðustu hins vegar pössðu – ókey voru svo sem ekki greit en pössuðu. Ég kíkti á merkimiðann og þær voru á býsna góðu verði. Rak þá augun í leiðbeiningamiða. Þar stóð að þessar buxur væru litaðar með einstökum indígólit – þær mætti því alls ekki þvo heldur setja í þurrhreinsum. Þær ættu það jafnframt til að lita við snertingu og gætu litað húð. Blæ mí (sem þýðir: hvers konar bull er þetta!). Rosa gaman að koma í nýju buxunum í boð og þurfa að biðja húsráðendur um plastpoka undir rassinn! Enn skemmtilegra að hátta sig úr þeim laugunum og hafa bætt á minn náttúrlega náföla húðlit, dimmbláum blæ frá mitti og niðrúr. Ég skilaði öllum buxunum hágrátandi. Á leiðinni út gekk ég, blinduð af tárum, beint á rekkann með svörtum kjólum. Ég get kannski ekki keypt mér gallabuxur en ég er alveg dúndrandi góð í að kaupa mér svarta kjóla. Fór hamingjusöm heim með tvo, annan svona tipsí kokteilkjól sem ég get ekki ímyndað mér við hvaða aðstæður ég ætti að nota og hinn .... ja hann minnti mig svo á íslenskan svörð í vorleysingum – að ég fylltist heimþrá og bara varð að fá hann. Só! Æma materíal görl!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég fer með þig í gallabuxnaleiðangur mútta mín.. no worries

Ragnheiður

Nafnlaus sagði...

Ég get bara ekki með nokkrum móti skilið hvað þú ert að þvælast í kennslu og slíku þegar þú gætir verið að gera nóbelsverkin handa mér og öðrum sem gaman hafa af þínu mikla ímyndunarafli. Knús á þig vinkona í útlandinu. Vona að þú finnir nýjar gallabuxur handa þér. Þurý

Nafnlaus sagði...

Þú ert fyndin, Guðrún!

Svala

Sigurborg sagði...

Yndisleg ertu Guðrún mín!