mánudagur, 21. mars 2011

Í fréttum er þetta helst


Það er eitthvað lítið bloggstuð á mér núna. Notalegasta helgi að baki nema hvað mér varð minna úr vinnu en ég hafði áætlað. Það varð líka minna úr hlaupum en til stóð. Sat heima á föstudag að vinna og var svona að hugsa um að fara út að hlaupa síðdegis en ákvað að fara frekar í labbitúr í bæinn og kaupa mér nýja hlaupaskó. Ég er með eina hér ytra sem gegna alhliða hlutverki. Ég nota þá til hlaupa, fer á þeim á fjöll og vappa um þeim í bænum um helgar. En svo nota ég þá líka innanhúss í leikfimi. Þvæ þá yfirleitt á milli tíma en á föstudag gleymdi ég því og dró þá molduga upp úr poka í íþróttahúsinu. Reyndi í laumi að berja af þeim mykjuna inn á klói og hélt það hefði tekist. Fór svo í tótal boddí vorkát og fyrr en varði stóð ég í moldarbing við dýnuna mína. Reyndi laumulega að ýta mestu haugunum undir dýnuna en það varð áberandi.

En nú á ég sem sagt nýja skó og get nýtt hina meira innandyra. Á laugardag fór ég svo í nýju hlaupaskóna mína og nýju hlaupapeysuna mína með pakka á pósthúsið og í matarbúð. Hafði vissulega ætlað að hlaupa á milli þessara tveggja viðvika en það eina sem hljóp var tíminn og hann hljóp frá mér að venju. En ég var ótrúlega flott í nýju fötunum, bæði á pósthúsinu og í Morrisons.

Ég bætti hlaupaleysið upp með ´fjallgöngu´enda að æfa fyrir ægilega ferð heim í maí. Við Anna klifruðum því upp á fjallið Dumpling sem Brian landlord hafði mælt með til æfinga. Hann sagði reyndar að fjallið væri ekki hátt og að það tæki ekki nema klukkutíma að ganga það. Við Anna vorum 10 mínútur upp þessa 146 metra. En útsýnið var ótrúlegt. Þetta er oft frekar spurning um staðstetningu en hæð. Og við horfðum bæði yfir Loch Lomond og allar skosku sveitirnar í hinar áttirnar.

Í gær fannst mér ég stirð og stíf og ákvað að taka 5 km mínihring í Viktoríugarðinn. Þar hef ég oft hlaupið en í þetta sinna ákvað ég að fara heim aðra götu en ég fer vanalega. Sú ákvörðun reyndist 7 km löng því mér tókst eina ferðina enn að snarvillast. Hljóp upp og niður götur, norður og suður hverfi og varð svo glöð að sjá ítalska veitingahúsið Italia við Greit Vestern götuna að ég næstum kyssti það. Þaðan komst ég loksins heim.

Ég keypti hins vegar The Times á laugardaginn og það tekur lungan úr helginni að lesa það ágæta blað. Þessa helgina var svona smá skandínavíuþema í gangi. Hér er verið að sýna Forbrydelsen á BBC sem heitir eitthvað allt annað og enginn heldur vatni yfir Sopie Graaböl sem þykir hafa náð að skapa algjörlega nýja kvennalöggutýpu. Sara Lund löggukona er mærð af því að vera einhverf og ómannblendin, áhugalaus ástkona með lítið sexapíl, slök móðir og frámuna kærulaus og léleg húsmóðir. Hún er eiginlega dáð fyrir að vera dæmigerð ekkikona (karl?). En svo smitar þetta á allt danskt og í blaðinu er bæði talað um færeysku peysuna hennar, Arne Jakobssen stóla og aðra hönnun og viðtal við danska sendiherrann í London um hvers vegna allt er svona gott og flott í danaveldi. Þar vísar sendiherrann í danska húmorinn, danska matinn, danska tryggingakerfið, danskt jafnræði og jafnrétti kynjanna.

Á öðrum stað rak ég svo augun í orðið Ísland og las áfram áköf. Þar var verið að fjalla um einhverja breska skítabræður, fjársvikara og loddara sem eru nú í rannsókn hjá Alvarlegu Fjársvikanefndinni vegna tengsla sinna við Kaupþing og Heiðar Már. Þar var sagt frá sukki og svínaríi og ótrúleg óhófsömu líferni um boð í glæsisnekkjum á suðureyjum. Á myndunum brostu þeir glaðbeittir, rauðir í framan og sveittir með armana utan um litlar, barmmiklarm ljóskur sem þeir hafa örugglega bara verið að passa.
Danmörk – Ísland 14-2.

Engin ummæli: