mánudagur, 12. febrúar 2007

Í sjálfhverfu reiðileysi


Enn ein helgin mín hér í reiðileysi sem er ástand sem ég kann orðið alveg óskaplega vel við. Kannski af því ég veit að það er ekki viðvarandi og fyrr en varir verð ég komin aftur í mína venjubundnu hringiðu af skyldum og verkefnum. En þangað til nýt ég þess út í ystu æsar að hverfast í kringum sjálfa mig.

Fór í hlaup á laugardagsmorgun í Suðurhliðagarðinn. Það hafði ég reynt áður en þá mætti enginn nema ég svo æfingin var þá frekar í rólegri kantinum. Nú voru hins vegar mættur galvaskur hópur hlaupara og þjálfari sem stakk veifum um allan garð og lét okkur svo spæna upp og niður brekkurnar. Síðasti kaflinn var svo hlaupahringur um garðinn sem er ekki svo stór en hins vegar eitt drullusvað þar sem var afar erfitt að fóta sig og ég kom heim forug upp að enni en harla kát yfir æfingunni.

Sat yfir ritgerðinni minni það sem eftir var laugardagsins og nennti ekki einu sinni út í búð að kaupa í matinn. Var svo boðið í kvöldmat af húsfreyjunni sem eldaði þennan líka góða lax fyrir mig og dóttur sína og tengdason sem voru í helgarheimsókn frá London. Ég splæsti Síríus súkkulaðinu mínu í eftirrétt til að jafna upp ballansinn.

Sunnudagurinn var svo mildur og fallegur og eftir að hafa setið yfir tölvunni meira og minna allan daginn reyndi ég að draga Michele í hjólatúr. Hún er loksin búin að láta hjólalækni háskólans laga hjólið en var samt ekki hnikað upp úr stólnum þar sem hún sat eins og miðaldar hefðarmey og saumaði út í stramma. Hún er að keppast við að klára stærðar útsaumsverk áður en hún fer að heimsækja vini sína í Rotterdam í næsta mánuði en þeir eiga að fá verkið. Fór því bara ein með sjálfri mér rólegan hlaupahring niður með á og aftur upp eftir henni. Talaði við sjálfa mig (í huganum) en fannst ég ekkert sérstaklega skemmtilegur félagsskapur enda fátt nýtt eða óvænt sem bar á góma.

Í gærkvöldi fór ég svo í bíó með Michele og hennar vinkonum að sjá Hugh Grant gera hosur sínar grænar fyrir Drew eitthvað, plöntuvökvunarkonunni sinni sem reynist vera þessi líka drjúgi lagatextahöfundur. Myndin var svo þunnur þrettándi að ég gat ekki einu sinni borðað poppkornið mitt með henni. Prófaði samt að loka stundum öðru auganu og gá hvort ég gæti ekki þannig fókuserað bara á Huga án þess að sjá stelpugæsina um leið en það dugði ekki til.

Fór snemma í rúmið með stórsálfræðingnum Jerome Bruner. Var að frétta að það er von á honum í deildina þann 13. mars þar sem hann á að afhjúpa málverk af sjálfum sér í bygginunni minni sem mun eftir það heita Jerome Bruner House og svo ætlar hann að halda erindi. Vegna komunnar er verið að endurnýja samkomuherbergið, mála hurðir, setja nýtt teppi og rauða Ikea leðursófa og starfsmenn upprifnir yfir framkvæmdum. Ég ákvað að leggja mitt af mörkum og láta loks verða af því að lesa bókina hans Culture of Education sem ég er búin að eiga nær ólesna heima í hillu í yfir þrjú ár. Bruner er kannski ekki eins áferðarfallegur og Hugh Grant – og þó - eiginlega svolítið líkur Derrik- en hann er óneitanlegri innihaldsríkari.

Átti mitt akademíska stefnumót við Chris Trevitt í hádeginu í dag og við bárum saman bækur okkar um það hvernig háskólakennarar skipuleggja kennslu sína og ærðumst alveg af kæti og spenningi yfir viðfangsefninu. Það þarf ekki mikið til að gleðja einfaldar sálir.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl mín kæra.
Ég sé að ýmislegt hefur á daga þína drifið í útlandinu. Þú skrifar jafn skemmtilega og þú talar :-). Er sjálf að fara út næsta þriðjudag svo að það fer ansi mikið að styttast í þetta. Gott að sjá að þú hefur hjól til að ferðast á og komin í hlaupahóp auðvitað. Vonandi gengur námið líka vel hjá þér vinkona. Hafðu það náttúrlega sem allra best. Þurý

Nafnlaus sagði...

Takk elskuleg. Ég set ritgerðina í algjöran forgang og ætla því líklega ekki að taka tilboði um að vera með í sveit í cross-country hlaupi næsta laugardag! En þar spilar líka inní að ég á hvorki takkaskó né broddaskó. En gangi þér vel í útlandinu kellingin mín og sendu mér bréf og leyfðu mér að fylgjast með þér.
gg

Nafnlaus sagði...

Þura, þú veist að blogg er upplýsingaskylda hvers manns sem erlendis dvelur um langri tíma. Líka okkar sem ekki erum sömu sögumenn og Guðrún!