Föstudagur svo sólríkur og fallegur og í dag skömmuðumst við mægður okkar fyrir verslunarmaníu gærdagsins og hófum því daginn menningarlega.
Brugðum okkur upp í turn á kirkju St. Maríu og sáum bæinn ofanfrá. Þaðan á Bodleian bókasafnið sem ku vera afar frægt. Þar gat ég vísað skólaskírteininu mínu og okkur Rönku boðið að stíga inn í galtómt herbergi með steingólfi og bekkjum. Vissum ekkert hvað við áttum að skoða þarna svo við settumst á bekk og biðum um stund áður en við fórum aftur út. Ef þetta var bókasafnið þá er það líklega frægt fyrir að þar er ekki eina einustu bók að finna? Sem eflaust auðveldar bókavörðum lífið.
Hins vegar var heldur betur nóg af bókum á næsta viðkomustað, Stonewell bókabúðinni á Breiðstræti. Hún er undursamleg töfrabúð og ef ég væri Bónusbarn myndi ég kaupa hana og búa í henni það sem eftir væri. Að utan er hún smá en þegar inn er komið opnast endalausir salir og hæðir stútfullir af bókum. Við leituðum uppi íslensku deildina og fundum þá félaga Snorra og Egil og vöktum aðdáun tveggja bókanörda sem voru að skoða Íslendingasögur og hvísluðust á að við værum að tala íslensku. Skoðuðum Lokaða markaðinn áður en Ragnheiður fann verslunina Primark og átti ekki þaðan afturkvæmt fyrr en leið á daginn. Skjögruðum heim með pokana og urðum að leggja okkur eftir bæjarferðina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli