sunnudagur, 18. febrúar 2007

Kafli og kjötsúpa


Jæja, var að senda frá mér fyrsta formlega kaflann minn í yfirlestur þó mér þyki hann enn hálfkaraður. En ég er búin að sitja yfir honum síðan ég kom og hafði ætlað mér þrjár vikur til skrifta sem voru allt í einu orðnar fimm. Sá fram á að ritgerðin yrði aldrei neitt annað en þessi eini – ofurofurlangi – kafli svo ég lét hann bara vaða.

Var að hugsa í vikunni sem leið að það væri margt sameiginlegt með maraþonhlaupi og doktorsritgerðinni. Það var þegar ég komst allt í einu á svona gott skrið og textinn spratt fram á síðurnar nokkuð áreynslulaust. Þannig er það mjög sjaldan hjá mér og því miður virðist ekkert samband vera á milli talandans í mér og akademískra skrifa – þá væri ég í góðum málum. En í vikunni þegar allt gekk vel var ég að rifja upp maraþonhlaup fyrir nokkrum árum. Var þar að vinna mig í gegnum Fossvogsdalinn. Búin með svona 25km og Svala hjólaði á eftir mér hughreystandi. Um miðjan Fossvog komst ég á eitthvað undarlegt skrið, miklu hraðara en ég hélt að ég gæti og fannst eins og fæturnir bara hjóluðu áfram og restin af mér fylgdi bara með. Þetta var verulega skemmtileg upplifun en ég vissi þá og þegar að svona myndi ég nú ekki rúlla hlaupið allt í gegn. Og það reyndist heldur betur rétt. En það var þessi sama tilfinning sem datt yfir mig í skrifunum um hríð.

Og það má finna margt annað sameiginlegt með þessum tveimur áhugamálum mínum. Sumt er jákvætt eins og að maður lærir heilmikið bæði á því að skrifa doktorsritgerð og hlaupa maraþon – mest líklega um sjálfan sig. Og hvoru tveggja getur verið ákaflega skemmtilegt. Það eru svona misjafnir kaflar á báðum stöðum og þunglamalegar lotur á milli. Á báðum vígstöðvum koma líka tímar þar sem ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ég yfirhöfuð álpaðist af stað og þó ég eigi eftir að reyna það á eigin skinni held ég að hvoru tveggja sé gaman að ljúka. Helst auðvitað með stæl.

En svo dugar líkingin ekkert sérstaklega vel lengur. Ég fann það á kaflanum góða. Ég gat bara alls ekki séð hvernig ég ætti að ljúka honum – hvenær væri komið nóg. Það er nú yfirleitt nokk á tæru í maraþonhlaupi. Þar fer maður ekki yfir marklínu og hugsar: Ætti ég nú ekki að hlaupa aðeins lengra til að vera alveg viss. Eða snúa við og hlaupa þarna Fossvoginn aðeins betur. Og þó ég geti vel hugsað mér að hlaupa nokkur maraþon í viðbót á æfinni þá er fjarska ólíklegt að ég skrifi fleiri svona ritgerðir.

Annars er skemmtileg helgi að baki. Fór í bæjarráp með Michele í gærmorgun áður ég fór á bókasafnið að lesa skjöl í míkrófilmuformi. Slík skjöl er bara hægt að lesa á lestrarvél sem geymd er í kaldri og lítilli kjallarakompu bókasafnsins. Svo var mér boðið í partý. Margrét og Varði sem skoðuðu fyrir mig herbergið mitt forðum buðu öllum íslenskum námsmönnum í Oxford heim þar sem líffræðingurinn Pálmi eldaði heljarinnar pott af alíslenskri kjötsúpu eftir uppskrift mömmu sinnar. Og flatkökur og hrútspungar með.

Mér fannst nú fallegt af þeim að bjóða gömlu konunni og ákvað að þiggja boðið en fara svo bara snemma heim og leyfa unglingunum að skemmta sér áfram einum. Það má kannski segja að ég hafi komið heim snemma...um fjögur í morgun. Eftir að hafa borðað frábæra kjötsúpu, brauðbúðing, slátur og punga, skálað í rauðvíni, íslensku brennivíni og gini og tónik og séð úrslitin í íslenska júróvísíóinu hélt bara júróvísíonstemmningin áfram með upprifjun frá liðnum áratugum. Minnir að undir morgun hafi Varði gestgjafi skráð niður á blað óskir okkar og væntingar fyrir næsta ár!

Fór svo í dag með Michele í hjólatúr niður með á. Sáum þar róðrakeppni, fugla og fólk og skemmtum okkur vel. Þurfti samt að styðja mig við girðingar til að geta beygt mig niður yfir hjólalásinn minn. Það hefur eitthvað verið að þessari kjötsúpu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

alveg ábyggilega verið kjötsúpan, ekki ginið og brennivínið... Gott að þú hefur einhvern til að dröslast með þér í svona hjólaleiðangra og að sjálfsögðu að skoða alla þessa gullfallegu garða í oxford;)