þriðjudagur, 27. febrúar 2007

Dansað í morgunsárið


Dagurinn í dag eitthvað annað en drunginn í gær. Byrjaði á balli í morgunsárið þar sem við Áslaug vinkona skemmtum okkur innan um gullklæddar glæsimeyjar og borðuðum kökur og allt var svo gaman þar til að danskennarinn (sem var grunsamlega líkur þeim sem kenndi okkur í TKS gömlu dansana í fyrra) fór allt í einu að boða okkur trú öllum til mikillar hrellingar. Létum okkur því hverfa úr Árbænum í rútu en stálum nokkrum kökum í leiðinni. Varð dauðhrædd við þennan draum enda stendur til að hitta Áslaugu og Kristján hennar og ekki síst hann Hannes minn í London núna um helgina og ég bíð spennt eftir því stefnumóti. Hafði strax samband við Slugu sem kíkti í draumráðningarbækur á bókasafninu sínu og sendi mér eftirfarandi um hæl:

...en draumarnir lofa góðu, gull er fyrir einstakri velgengni og það að stela er líka fyrir góðu en ef prestur birtist í draumi táknar það þörf þína fyrir andlegri endurnýjun

Þannig að kannski verður Londonarferðin sú andlega endurnýjun sem ég kannski þarf á að halda. Yfirleitt hef ég komið nokkuð andlega endurnýjuð af vinafundi með Áslaugu og Kristjáni - oftar þó timbruð.

Nú í vinnunni var líka bara svona ljómandi gaman. Byrjaði á því að sjá ljós í kaflanum mínu – ekki LJÓSIÐ – enda það engan veginn tilgangurinn með rannsókninni. Fór svo á seminar um starfendarannsóknir (action research) sem reyndist áhugavert. Ekki bara að umræðuefnið væri spennandi heldur fann ég hvað mér þótti óskaplega gaman að fara úr kjallaranum mínum á meðal manna. Þarna voru mættir kennarar deildarinnar sem ég hef fæsta séð nema tilsýndar á miðvikudagskaffimorgnum og ég varð alveg ærð af kæti að taka þátt í umræðum og fá svo te og kex í hléinu. Varð svo uppnumin að ég spurði tveggja spurninga og sú síðari svo gáfuleg (eða óskýr) að fyrirlesarinn þurfti að hugsa sig lengi um og svaraði svo að líklega yrðum við að leggja niður akademíuna í þeirri mynd sem hún er núna – þannig að þið sjáið hvað mín spurning hefur verið eitthvað einstaklega djúp.

Fór af seminarinu í bókasafnskjallarann að skoða næstu doktorsritgerð á míkrófilmuformi. Rannsakandinn þar er að skoða stöðu ‘bussiness studies’ innan háskólans – veit ekki hvort að það eru viðskiptafræði. En þetta er nú ekki grein sem á góða daga innan akademíunnar – troðið þangað í trássi við æðri fræði og er ímynd markaðshyggju og gróðrastarfsemi og svo stjórnhátta eða markaðsstjórnunar sem öðrum háskólamönnum finnst vera hin verstu inngrip inní háskólastarfið. Meðan að ýmsar rannsóknir hafa svo verið gerðar á góðlegum faggreinum eins og kennslufræði og hjúkrunarfræði vill enginn rannsaka bissnessfræðin því að þau hafa ekki það göfuga markmið að þjóna sjúkum og fávísum og samfélaginu heldur illum markaðsöflunum. Rannsakandinn ákvað að kanna viðhorf háskólakennara sem kenna þessi andstyggðar fræði enda deilir hann þeirri trú með mér að það séu kennararnir sem miklu ráði um markmið og áherslur greinarinnar. Og þegar þarna var komið uppgötvaði ég að tíminn hafði flogið frá mér og ég orðin allt of sein heim svo að ég fæ ekki að vita niðurstöðuna fyrr en seinna.

Fór út að hlaupa með hlaupaklúbbnum og í kvöld mættum við aðeins átta. Það var sko gaman að hlaupa – svolítið rokrassalegt eins og á Nesinu og af því við vorum svo fá gátum við spjallað á milli þess sem að Clive stýrði sprettum. Clive er með þykkan írskan hreim og það finnst mér alveg einstaklega sexý svo ég elti hann eins og tryggur hundur til að ná hverju orði. Eins gott að Hannes er að koma svo ég muni hverjum hjartað slær. Ætli Hannes geti talað með írskum hreim?

Engin ummæli: