Núna bara verð ég að segja að heimurinn er sannarlega lítill. Þannig var að fyrir mörgum, mörgum árum var haldin kennslumálráðstefna í Háskólanum og á hana sóttur útlenskur fyrirlesari, David Wilkinson. Hann var hinn ágætasti og hélt erindi um markmið og kennsluaðferðir (sem ég hefði sem best getað haldið nema þá hefði enginn hlustað því ég er náttúrlega ekki útlendingur heima). Þannig stóð svo á að sama kvöld var árshátíð Háskólans haldin og þótti því við hæfi að bjóða aðalfyrirlesaranum á skrallið. Árshátíðin var þá óttalega mikið hjónadæmi svo það var erfitt að finna pláss fyrir staka karla þar til einhverjum datt í hug að við Rannveig Trausta gætum sem best tekið að okkur einhverja slíka. Ég góðviljuð og Rannveig sérfræðingur í jaðarhópum. Á þessum tíma vorum við Hannes svona nýbyrjuð saman og hann reyndar á annarri árshátíð á sama stað í öðrum sal. Ég hafði eitthvað ýja að því að fá að fara yfir til hans en hann tekið því fálega enda ekki alveg viss um hvort hann vildi eiga mig (eða eitthvað!). Nú en David var sem sagt settur á borð með okkur einhleypu rauðhausunum og að auki var viðkvæmum gestakennara frá Kaliforníu plantað í hópinn. Til að hlaupa hratt yfir sögu skemmtum við okkur þremenningarnir svo vel að ljúfi kennarinn varð hræddur og flúði á annað borð. Líklega hafa vínflöskurnar í boði Kennslumálanefndar haft eitthvað að segja en þetta kvöld dansaði ég mig móða í fanginu á David sem var eitthvað öryggislaus í nýju landi og fannst því tryggara að halda fast um botninn á mér. Eitthvað er svo farið að gruggast yfir minningum (kannski var það vínið) en ég man samt að ég kvaddi David og fór heim með Hannesi en veit ekki hvað varð af Rannveigu. Hef svo ekkert heyrt af honum síðar.
Jæja þá kemur seinni hlutinn. Þannig er að hún Michele, samleigjandi minn, er á kennslufræðinámskeiði sem haldið er á vegum Oxford háskóla. Hér ytra þykir ungu háskólafólki það vænlegt til frama að hafa tekið slík námskeið enda fær enginn háskólakennari fastráðningu né framgang nema að hafa slíka þekkingu í farteskinu. Það er erfitt að komast inn á slík námskeið og þeir sem þangað ná telja sig heppna (ætli það sé einhver leið að fá rektor til að lesa bloggið mitt?). Þetta er með talvert öðrum hætti heima þar sem kennslufræðinámskeið er talin fremur fánýt og í mesta lagi fyrir konur og (aðra) kverúlanta. En af því við erum nú að spá í að koma á laggirnar slíku námskeiði heima í haust (ef vindátt er hagstæð) þá er ég afar forvitin um lærdóminn hennar Michele og hún þarf greyið að segja mér nákvæmlega frá öllu sem fer fram á námskeiðinu. Hún var í tíma í gær og þegar ég kom heim rauk ég að venju til að heyra hvernig hefði verið. Hún var alsæl, kunni allt um markmið og fjölgreindakenningar og lét vel af kennaranum. Og hver er hann spurði ég svona að íslenskum sið – og hún hló að þessari spurningu frá konu sem engan þekkir hér en svaraði...nema hvað...David Wilkinson. Og ég gat svarað eins og sannur Íslendingur: Já hann! Já ég hef vangað við hann. Og þá varð Michele kjaftstopp.
1 ummæli:
Snilld! Svona sögur segir bara ein kona sem ég þekki! Áfram með þetta skemmtilega blogg.
Skrifa ummæli