fimmtudagur, 8. febrúar 2007

Einn kemur þá annar fer



Hápunktar dagsins voru snjórinn og deitið. Snjórinn var fyrirsjáanlegur enda búið að vara við honum í bak og fyrir í sjónvarpinu í gær. Ég var við öllu búin nema þeirri kátínu sem ríkti hér í Oxford í morgunsárið. Michele, samleigjandi varð svo hoppandi glöð að hún ákvað að fara með mér áleiðis í skólann til að skoða bæinn í vetrarham. Ég þorði ekki að hjóla í skólann – finnst það snautlegur dauðdagi að lenda í hjólaslysi á gamalsaldri. Bærinn reyndist alveg gönguferðarinnar virði en okkur sóttist ferðin seint því Michele þurfti að taka myndir víða. Ég smitaðist líka og lét eins og ég hefði aldrei áður séð snjó og tók myndir í gríð og erg. Í Háskólagarðinum höfðu árrisulir búið til snjókarla og ég svo dottin í stemninguna að ég stakk upp á að við byggjum til einn líka. Michele var til í það en vildi samt ekki hafa hann eins stórfenglegan og ég hafði hugsað mér. Svo skildust leiðir og ég skreið í kjallarann minn (dúa) að skrifa.
Síðdegis ákvað ég svo að skella mér á seminar hjá Kennslumiðstöðinni (Institute for Learning). Hafði lengi ætlað þangað í heimsókn og þegar ég sá að Graham Gibbs var með erindi fannst mér rétti tíminn kominn. Graham er bæði bráðskarpur og svona líka mikill sjarmur (reyndar sláandi líkur Rúnari Sigþórs – ég treysti því bara að hann lesi ekki bloggið mitt). Var ekki búin að melda mig en settist í sæti við hliðina á næsta manni sem tók mér ljúflega og við tókum saman tal. Hann reyndist vera í ársleyfi frá Ástralíu þar sem hann sér um Kennslumiðstöðina í Canberra og varð kátur að hitta konu frá Kennslumiðstöð á Íslandi. Lét mig strax fá nafnspjaldið sitt og ég dró í skyndi upp mitt. Hann las vendilega á það og varð eitthvað hissa svo ég kíkti sjálf og sá þá að ég var Jón Bragi Bjarnason (Ph.D.) professor of Biochemistry. Mér varð svolítið um þetta og reif aftur af honum spjaldið og náði í nýtt en allt kom fyrir ekkert. Í veskinu mínu var ég með bunka af nafnspjöldum Jóns Braga. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þau eru þangað komin en verst er að ég er búin að dreifa þeim hingað og þangað. Ég veit að það er enn ólíklegra að Jón Bjarni lesi bloggið mitt en Rúnar Sigþórs en ef alls konar fólk fer að hafa samband við hann til að fá að koma í heimsókn þá er ég (eða alla vegana hann) í vondum málum. Nú en erindið var gott og í lok fundar kvaddi ég Chris sem bauð mér í snatri að koma og fá mér vín og flögur með Kennslumiðstöðvarfólkinu. Þáði það og spjallaði um stund en ákvað svo að fara að koma mér heim samferða konu og Chris fylgdi okkur fram á gang. Þar spurði ég hann hvað hann væri að gera í leyfinu sínu og hann sagðist vera að skrifa bók. Um hvað spurði ég. Nú um acadmics’ curriculum desicion making sagði minn maður si svona. Og fyrir þá sem ekki vita þá er það jafnframt titillinn á doktorsverkefninu mínu. Og þar með féllumst við innilega í akademíska faðma (nei Hannes það er sko ekki venjulegur faðmur heldur svona bökkuðum við aðeins frá hvort öðru, ég lyfti höndum að munni og sagði NÓÓÓÓ!!!! og hann teygði út faðminn og sagði VÁÁÁÁÁÁ! Og hin konan sagði: Nú já, ég held ég fari bara og skilji ykkur tvö eftir). Og ég á sem sagt akademískt deit við Chris í hádeginu á mánudag.
Þegar ég gekk heim var snjórinn næstum horfinn og ekkert eftir af litla snjókarlinum fyrir framan minnismerkið á Bamburystreet nema spjaldið sem hann hélt á áður og á stóð: Endangered specis.

1 ummæli:

aslaug sagði...

Þú ert ótrúleg !!!!