þriðjudagur, 6. febrúar 2007

Í London


Stórborgardagur. Fórum snemma til Londo á mánudaginn með hraðrútunni og vorum komnar á hótel upp úr kl. 11 – eftir dálítið labb. Við mæðgur höfum heldur ekki sama viðmið um lengdareiningar þannig að stundum spyr Ragheiður: Er þetta stutt í þinni merkingu eða miðað við venjulegt fólk?


Það var svolítið dimmt yfir í stórborginni og rakt og við borðuðum hádegismatinn inni á stað við Covent Garden. Risahamborgara sem gáfu orku í örstutta sturlun í Hennes og Maurits. Þar sem ferðataskan hennar dóttlu var löngu orðin full ákváðum við að forða okkur annað og skoðuðum múmínur á British Museeum eftir að hafa villst þar um stund.


Einhver búinn að snúa við allri London frá því ég var þar síðast sem gerði ferðir okkar stundum heldur ómarkvissar. Létum líka mæla hvort við værum stressaðar en skildum ekki alveg niðurstöðuna. Fundum hótelið og hvíldum okkur smá innan um heilan árganga af skrýtnum unglingum sem voru ekki mættir á staðinn til að hvíla sig mikið.


Tókum lest niður á West End og sáum þar söngleikinn Mary Poppins. Stúlkan sú er kannski meira tengd minni æsku en Ragnheiðar. Ég á til dæmis dásamlegar minningar um Mary Poppins dúkku með rósahatt, regnhlíf og tösku sem að yngri systkini mín hljóta að hafa séð um að útrýma. Höfðum hins vegar báðar afar gaman af sýningunni og horfðum með opinn munninn á Maríu svífa af sviðinu og upp í loft á leikhúsinu þar sem hún hvarf í buskann. Unglingarnir á hótelinu farnir að öskra þegar við komum heim.

Engin ummæli: