föstudagur, 23. febrúar 2007

Úr síðustu skúr


Fékk eitthvað skítkast frá Spáni á síðustu færslu um að halda síðunni ekki nógu vel við. Kröfur og kröfur. En klukkan orðin eitt eftir miðnætti og ég komin hjólandi heim úr bænum í þvílíkri rigningaskúr að það lak vatn UPP úr leðurstígvélunum mínum þar sem ég stóð niðri í eldhúsi og spjallaði við leigutakana. Rússarnir nýfarnir úr matarboðinu og höfðu verið bæði góðglaðir og venjulega glaðir.Var sjálf að koma frá ljúfri kvöldstund með þeim Guðrúnu og Kolbrúnu. Guðrún er í rannsóknarleyfi í Warwic háskólanum en í tveggja kvenna rannsóknarfélagi með Kolbrúnu og er fundur þess haldinn nú hér í Oxford. Ég fékk að vera með í félaginu yfir helgina. Veit ekki hvað þær stöllur rannsaka en í kvöld tókum við til sérstakrar skoðunar Cherwell Boathouse veitingastaðinn. Hann stendur – merkilegt nokk – við Cherwell ána og var notalegur þó að við sæjum lítið til árinnar í myrkrinu. Þar borðuðum við endur og naut og fengum á eftir búðing, súkkulaðigrjónagraut og enska osta auk góðra veiga. Ég taldi þeim stöllum svo trú um að það væri örstutt að labba heim – Ránka mín þekkir þær mælistikur mínar – og eftir nokkra tíma gang í mígandi rigningu vorum við bæði við það að drukkna og nafna komin með hælsæri svo ég lét undan og við tókum leigubíl á hótelið þeirra. Hélt ég hefði beðið þar af mér skúrina yfir Vermúth glasi en svo reyndist ekki vera og af því ég kann ekki að hjóla með regnhlíf kom ég heim eins og ‘sundurdreginn hundur’.

Ég er annars búin að nota þessa viku til að leggjast aftur yfir gömlu teoríuna mína og rifja upp kynni mín af Basil Bernstein sem skaffar þann grunn í verkið mitt. Gaman að endurnýja af alvöru þau kynni – nú erum við orðnir soddan böddís að það liggur við að ég kalli hann Benna. Líklega erum við samt í öfugu kynjasambandi – hann ‘talar og talar’ svona textaleg séð og ég skil oft ekki helminginn af því sem hann segir og finnst hann stundum gera heldur flókið mál úr einföldum hlutum. Set mynd af honum með færslunni.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyrðu þetta er allt annað líf að geta fylgst betur með hvað á daga þína drífur. En svo fær maður bara endalausar blautar sögur. Knús Þuríður Ósk Gunnarsdóttir sem talar frá Spáni. (eða var það Kristinn R.Ólafsson sem gerði það) www.thuridur.blog.is

Nafnlaus sagði...

Já það eru til nokkrar vegalengdir í heiminum. t.d. mannleg vegalnegd og svo þín sem er eitthvað far out.. veit ekki hvaðan þú hefur þetta!!

Nafnlaus sagði...

Ætlaði bara að koma með stutta tilkynningu....

Hannes er yndislegur, góður kokkur og fyrirmynd allra karlmanna!

Ragnheiður