Hef ekki verið nógu duglega að blogga þessa síðustu daga. Hef verið svo upptekin af því að kveðja og búin að faðma svo mikið og kyssa að ég endaði með áblástur – sem er ekki akkúrat það sem mig langaði að flytja með mér heim. En hvað gerir maður ekki fyrir gott málefni.
Kvaddi félaga og vini með pulsum á föstudagskvöldið og skemmti mér konunglega þó ekki heyrðist mannsins mál fyrir hávaðasömum hópi á næsta borði. Kvaddi Patrek leigusala með kvöldverði á laugardaginn, kvaddi Ingrid og Julian dómara með kvöldverði á sveitakrá í þorpinu Brill (on the hill), kvaddi hina ítölsku Möru með pastarétti á mánudag, kvaddi staffið í staffaherberginu með kexi sama dag og svo sátum við stöllur Winifred og Michele meirar ásamt hinni rússnesu Natstösju yfr andabringum og súkkulaðiköku í gærkvöldi, skiptumst á gjöfum og vorum til skiptist leiðar og glaðar. Natasja ætlar að taka við herberginu mínu. Rakel í leikfiminni er eiginlega sú eina sem ég kvaddi án þess að bresta í át (þ.e. við borðuðum ekkert á okkar kveðjustund).
Búin að pakka niður í tvær þungar töskur og á síðustu dögum hafa streymt frá mér pakkar með bókum og blöðum á okurverði í gegnum póstinn. Winifred ætlar að keyra mig upp á strætóstöð og Michele fylgir með til að veifa.
Vaknaði samt fyrir allar aldir við fuglana fyrir utan kvistgluggann minn (og eina söngglaða fyllibyttu) og sólin skein svo ég varð bara að skjótast í stuttbuxurnar og hlaupa einn hring og kveðja Isisána. Og hún var að vanda falleg, ræðarar að reyna að vera samtaka í átakinu, gæsirnar og endurnar ennþá sofandi við bakkann svo ég þurfti næstum að hoppa yfir þær sumar. Christ Church skólinn glóði eins og á ljósmynd í sólinni og á bláum himninum sveif hvítur loftbelgur. Ef ég hefði verið í bíómynd hefði verið spiluð hástemmd músik undir – þeir hefðu að minnsta kosti retúserað út mæðina í mér. Þakkaði í huganum Oxford fyrir tímann hérna og lofaði að koma aftur. Og ég er farin heim til minna.
þriðjudagur, 22. maí 2007
fimmtudagur, 17. maí 2007
Aðeins meira um múslima og mat
Súkkulaðibindindið mitt er alveg að fjúka út í veður og vind og það er allt múslimum og Marsfyrirtækinu að kenna. Nýlega tilkynnti súkkulaðifyrirtækið sem sagt að það væri farið að nota eitthvað úr kálfamögum (minnir mig) í súkkulaðigerðina. Snerti mig ekki neitt – ég hef yfirleitt ekki hugmynd um hvaða ullabjakk er í matvörunni sem ég kaupi (nema ég komst reyndar að því við lestur moggans í morgun að það er góð ástæða fyrir meintri andstyggð minni á karrí og chilipipar – hausverkurinn sem þessi krydd veita mér stafar líklega af ofnæmi mínu fyrir leðurlitunarefninu sem notað er í þau – eins gott að ég fæddist ekki sem skór). En vegna þessa kálfadæmis mega múslimir ekki lengur borða neitt nammi búið til af Mars. Zeenat, skrifstofufélagi, safnaði því saman í poka allri þeirra framleiðslu sem fannst heima hjá henni og ef eitthvað er að marka magnið sem kom frá þessari einu múslimafjölskyldu held ég að þeir hjá Mars ættu að hugsa sinn gang. Hún er blessunin búin að dreifa súkkulaðihrúgum á allar hæðir en samt varð eftir hjá okkur í kjallaranum risaplastpoki troðfullur af Twix og Mars. Búin að gera díl við Andrew um að hann sjái um Marsið en ég fái að sitja að Twixinu og það er sko ekki auðvelt að deila herbergi með öllum þessum súkkulaðistykkjum – svo mikið er víst. Ekki síst þegar að Sandra er búin að redda okkur þessum risastóra rafmagnsofni sem dælir sjóðheitu lofti á okkur frá morgni til kvölds þannig að við sitjum nú við skriftir rjóð og sveitt eins og í finnskri sánu. Einhvern veginn verðum við auðvitað að bjarga þessum súkkulöðum frá bráðnun.
Uppstigningadagur
Það er rólegt hér í vinnunni í dag þó að það skýrist ekki af uppstigningadeginum. Þeir kannast lítið við hann hér og ég er hætt að ræða íslenska helgidaga við skrifstofufélagana mína. Það er þá helst að hún Zeenat myndi skilja þessi trúartengsl öll. Hún er múslimi og fer reglulega upp á loft að biðja bænir. Ég er orðin öllu fróðari um hennar trú og venjur. Finnst höfuðklúturinn hennar í fínu lagi og öfunda hana stundum af því að þurfa ekki að baslast neitt með hárið á sér – finnst reynar út í hött að hún megi ekki hjóla í kuflinum (eða hvað það nú heitir). Hún vill gjarnan hreyfa sig meira svo við Sandra sýndum henni háskólaklúbbinn en hún má auðvitað ekki mæta þar í kynjablandaða tíma. Misskildi hana aðeins um daginn þegar hún sagðist þurfa að fara heim til sín um helgar að kenna. Hvað ertu að kenna spurði ég og heyrðist hún segja þolfimi (airobic). Hvatti hana eindregið til fá að kenna slíka tíma fyrir trúarsystur sínar í háskólaklúbbnum og sagðist sjálf ætla að mæta. Kom í ljós að hún er að kenna arabísku (arabic) sem ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á að læra. Bauð henni að koma út að borða með okkur á föstudaginn og var búin að tryggja að hægt væri að fá grænmetispulsur á the Big Bang – en hún má víst ekki sitja innan um sukkara sem vilja rauðvínsglas með matnum þannig að ég verð að kveðja hana á annan hátt. Mikið er ég þakklát fyrir mitt hlustskipti í lífinu – þó hún virðist líka afskaplega sátt við sitt.
Annars er spólan mín hér í Oxford alveg að klárast og rúllar áfram á methraða. Finn að stressið er aðeins að læðast upp að hjartarótum því nú að klára að gera allt sem átti að vera löngu búið gera. Einn liður í því var að draga Michele í danstíma með Pascal í gærkvöldi. Nú er ég orðin ævilangur meðlimur í klúbbnum Ceroc og get hvenær sem er komið aftur og lært meira að dansa í ráðhúsinu. Var eitthvað að tuða yfir því að þurfa að verða meðlimur fyrir eitt kvöld. Stúlkan sagði að það væri af tryggingaástæðum sem mér fannst ekki lofa góðu um framhaldið en hún fullvissaði mig um að dansinn væri með öllu hættulaus. Kom svo í ljós að æviáskriftin kostaði bara tvö pund og fylgdu með piparmyntur (svo maður gæti andað huggulega upp í dansfélagana) og mynddiskur með öllum helstu 'moves'.
Þetta var hin skemmtilegasta reynsla. Við mættum með fyrstu mönnum og mér leið hálf asnalega að sitja á rauðum plussstól upp við vegg í risastórum bæjarráðssalnum. En viti menn, þegar á leið streymdi þangað fólk á öllum aldri og líklega höfum við verðið um eða yfir 60 í dansa. Við fórum í byrjendatíma en vorum held ég einu almennilegu byrjendurnir (Pascal reyndar búin að mæta oft áður). Og svo röðuðum við okkur í þrjár raðir og eftir hvert nýtt spor eða 'move' skiptum við dömurnar um dansherra – sem merkilegt nokk voru þarna í lange baner. Ég dansaði þarna við litla stráka sem ekki var enn sprottin grön og háöldruð gamalmenni og allt þar á milli.
Ceroc er einhvers konar Komdu að dansa og kenna bland af jive og salsa og undir dansinum þeytti alvöru dj skífur af miklum móð. Eftir um klukkutíma æfingu fengum við tíu mínútna frjálsan tíma til að æfa sporin áður en reynsluboltarnir fengu salinn. Sumir í byrjendaliðinu héldu svo áfram með þessum kláru en við almestu aumingjarnir fórum fram á gang í sérkennslu. Að lokum var svo boðið upp á klukkutíma ball en þá fannst okkur Michele komið nóg og kvöddum. Góð hugmynd fyrir ráðhúsið í Reykjavík.
Fleiri verkefni eru svo framundan. Ég þarf að finna leiðir til að koma 1000 kílóum af bókum og pappír í póst heim á leið og skoða hvort ég kem fötunum mínum aftur í töskurnar mínar. Þarf að kveðja hlaupaklúbbinn (geri það í kvöld), Rakel í háskólaleikfiminni (geri það á mánudaginn) og stelpurnar í staffaherberginu (geri það á þriðjudaginn). Á eftir að fara að út að borða með öllum þeim góðu sem ég hef kynnst hér og skráði mig í hlaup á sunnudaginn þó að spáin sé hundleiðinleg og ég eiginlega búin að tapa niður hlaupum.
Winifred er búin að lofa mér aftur herberginu mínu næsta sumar ef ég vil koma í heimsókn. Þá ætlar mamma að koma með.
þriðjudagur, 15. maí 2007
Í kulda og trekki
Ég er flúin í kvistherbergið mitt og sit núna og hamast við að
klára það sem löngu átti að vera búið. Úti rignir eins og hellt væri úr fötu og á skrifstofunni hlægja þau skrifstofufélagar dátt að Íslendingum sem hélst ekki við þar vegna kulda. Gafst upp á að sitja með bláar tær, fingur og varir í ullarsokkum og flíspeysu og reyna að lemja lyklaborðið mér til hita. Það er ekki von að kaflinn mjakist áfram þegar heilinn er jafnfrosinn eins og restin af mér. Kyndingin var tekin af byggingunni fyrir páska og hefur ekki verið sett á aftur þrátt fyrir kulda- og vætutíð. Að opna skrifstofuna er eins og að opna gamlan ísskáp sem er aðeins farinn að gefa sig.
Kvistherbergið er hins vegar notalegt. Niðrí stiga stendur málarinn káti, sveittur og rauður og syngur með útvarpinu og niðri í stofu æfir Winnifred tónskalann á píanóið. Hún er að fara í sinn þriðja píanótíma síðan hún var skólastúlka og er mjög samviskusöm.
Við Bernstein - hinn dáni félagsfræðingur - reynum í sameiningu að púsla saman kafla átta og gengur hægt. Það er ekki auðvelt að skrifa með framliðnum. Úti í bæ situr Michele og rembist við að koma saman lokapartýi fyrir mig þrátt fyrir hógvær mótmæli mín. Hverjum viltu bjóða spyr hún ströng og ég verð eitthvað svo mát. Erum búnar að velja stað en gengur verr að finna stund. Ætlum að ljúka dvölinni með hvelli svo að segja með því að fara á veitingastaðinn The Big Bang sem sérhæfir sig í oxfordskum pulsum og kartöflumús. Orðin pínulítið stressuð yfir alls konar hlutum ein og að ná að ná ekki að klára kaflaskrattann fyrir brottför og finna leið til að bóka öllum bókunum mínum aftur heim á Hjarðarhagann. Ætla að reyna að halda mig við efnið hér undir kvistnum og sendi ykkur heima bara koss.
sunnudagur, 13. maí 2007
Veðurfréttir
Lísa í Undralandi
Mér leið svolítið eins og Lísu í Undralandi þegar ég vaknaði í morgun eftir allt of stuttan svefn. Eins og hún hef ég ekki alveg verið að ná áttum í viðburðunum í kringum mig.
Sat hér heima í rólegheitum á laugardegi þegar að Ingrid leiðbeinandi hringdi í mig upp úr þrjú og bauð mér í sextugsafmælið sitt – þremur tímum síðar. Reikna með að ég hafi ekki verið alveg efst á gestalistanum en engu að síður fallega boðið. Ég var hins vegar fyrir löngu búin að troða mér með í almennilega stemningu hjá íslensku krökkunum hér í Oxford sem forðum buðu mér með í kjötsúpuna. Í því hófi átti að takast á við júróvísíon, kosningar og svo að kveðja Sigurð sem floginn er burt með sína gráðu að gera það gott heima. Þurfti auðvitað drjúgan tíma til svo margra verka svo þau sendu út dagskrá sem hófst með árbíti um hádegisbil.
Boðaði seina komu í gleðskapinn og mætti fyrst með blóm og kort í kampavín til Ingridar sem var svo elskuleg að halda upp á það í gamalli stjörnuskoðunarstöð Green skólans sem reyndist einmitt í næsta nágrenni við Íslendingagleðina. Ég fannst strax fyrir utangáttaeinkennunum þar enda höfðu fæstir gestirnir hugmynd um mína tilvist þó þeir reyndu þessir kurteisustu að spjalla við mig. Sá líka fljótt að hér eru konur á mínum aldri meira og minna í einhvers konar skærlitum silkitúnikkum en ekki brókarlufsum úr Gap og fannst ég dálítið út úr kú í mínum galla.
Kvaddi Ingrid og skokkaði heim til Önnu Stellu og Sigmars sem hýstu þennan hluta Íslendingagleðinnar. Þar voru allir á útopnu að elda þennan líka frábæra kvöldverð sem var sko enginn venjulegur breskur moðsoðningur heldur alvöru gómsætar, grillaðar og fylltar svínalundir, kartöflur og salat og sérvalið gæðarauðvín með. Alvöru íslensk skyrkaka á eftir. Og flögur. Og fullt af alvöru íslensku sælgæti. Jabb – þau kunna á þessu lagið þessir fátæku námsmenn í útlöndum!
Þetta var hins vegar ekkert sældarpartý því ég þurfti ekki bara að fylla út getraunaseðil um júróvísíon heldur tvo seðla um kosninganiðurstöðurnar. Var illa á gati í Júróvísion og hef ekki almennilega náð að fylgjast með þar og var eiginlega litlu skárri í kosningaspánni. Það var heldur ekki auðvelt fyrir félagsvísindakerlingu eins og mig að fara að reikna út prósentur fyrir alla flokka í öllum kjördæmum og þó ég hafi reynt að svindla með því að kíkja á síðustu Gallúpkönnun er ég hrædd um að það þurfi eitthvað að fjölga þingmönnum á þingi ef mínar prósentur eiga að ganga upp. Fegin að koma þessu frá ofan í kornflekskosningakjörkassann.
Kosningavakan sjálf var skemmtileg og vel undirbúin. Við vorum eins og geimferðarstofnun með marga tölvuskjái í gangi og inn á milli var hringt í vini og kunningja á skæpinu til að taka stöðuna í ólíkum kjördæmum. Ég var samt í fyrsta sinn að vaka með fólki sem ég veit ekki hvar stendur allt í pólítíkinni - treysti því að Margrét hafi kosið pabba sinn eins og ég (ekki pabba minn heldur hennar líka). Kunni því ekki við að fagna almennilega þegar að stjórnin féll enda fann ég smá til með Geir Haarde þegar hann sagðist þurfa að segja af sér í fyrramálið. Ég er soddan kóari að mér líður illa þegar að fréttamenn spyrja fallinn stjórnmálamann þrisvar: Og hvernig líður þér svo núna? Og það sjá allir – eða að minnsta kosti ég - að hann er alveg að fara að skæla. Eins gott að ég sat svona yfirveguð eins og hinir því ég var ekki fyrr byrjuð að gleðjast yfir föllnu stjórninni en að hún reis aftur upp frá dauðum – og guð má vita hvert. Og mér fór aftur að líða eins og Lísu og ákvað að fara heim að sofa með barnafólkinu og láta hinum eftir að mynda stjórnina – eða ekki.
föstudagur, 11. maí 2007
Eikibleiki á bak og burtu
Var boðið í undanúrslitajúróvísíonpartý í vesturbæinn í gær til að horfa á Eirík mala þetta. Var svo lengi að finna afmælisgjöf að ég kom ekki heim fyrr en seint og um síðir - rennblaut. Snaraðist í önnur föt og púðraði á mér nefið en þá kom Winifred leigusali og bauð mér að borða með þeim hjónum kvöldmat. Sagðist vera á leið í partý en hún er fylgin sér og áður en ég vissi af var ég komin niður í borðstofu, búin að hestahúsa þessum líka skammti af nýjum spergli með smjör og salti og vodka og var farin að bíða eftir ofnsteikta þorskinum. Eftir hann var svo auðvitað úr mér allur vindur svo ég fór hvergi heldur sat við tölvuna og fylgdist með þar. Missti reyndar af Eiríki en náði samt að verða döpur yfir örlögum þjóðarinnar.
Mér finnst að það eigi að breyta aftur keppninni og leyfa bara öllum að vera með. Þeir hljóta skilja það þessir sem stjórna þessu að það verður allt öðru vísi fyrir mig - og alla hina milljón taparana - að fara í júróvísíonpartý á laugardaginn vitandi að það verður Eiríkslaust með öllu. Það á ekki að ræna fólk einfaldri gleði á þessum síðustu og verstu tímum.
Beið svo spennt eftir því að þurfa að pissa. Þau hjón sögðu að spergilátinu fylgdi alveg sérstök þvaglykt. Ja það er ekki lítið sem ég er búin að læra hér í Oxford.
fimmtudagur, 10. maí 2007
Hvað ætti ég að gefonum?
Fór í bæinn í gær að kaupa afmælisgjöf til að senda heim til Hannesar. Það var heilmikið mál að finna út úr því í allri rigningunni. Og ekkert auðvelt að velja gjöf handa honum.
Fyrst eftir að við fórum að mæna hvort upp í annað gaf ég honum alls konar frumlegar gjafir. Stundum heitfeng eða harmþrungin ljóð – svona eftir því sem við átti hverju sinni. Fyrir fimmtugsafmælið hans lá ég ber að ofan á bekk í dýraspítala út á Jótlandi meðan að Peder dýralæknir reyndi eins og hann gat að taka röngtenmynd af hjartanu á mér. Ætlaði að setja hana í ramma en Peder kunni ekkert á tækið svo hún varð allt of dökk. Ég þurfti að segja Hannesi hvað þetta væri.
Nú er ég komin meira svona út í peysur.
Hannesi finnst heldur ekkert auðvelt að finna gjafir handa mér. Segir að ég kunni ekki nógu vel að meta þær sem ég fæ frá honum – sem er ekki satt. Hann hefur gefið mér ýmsar gjafir sem ég er alsæl með. Hann er líklega að meina sloppinn. Hann gaf mér einu sinni ægilega fallegan vínrauðan silkislopp. Mér fannst hann flottur en hann var svo síður að hann hefði passað betur á konu sem væri þetta um tveir og fjörutíu. Ferðirnar niður í póstkassa eftir Mogganum voru eilífar glæfraferðir og ég sífellt að flækjast í sloppnum og detta á hausinn í stiganum – og vildi náttúrlega lifa lengur fyrst ég var búin að hitta hann.
Nema að hann sé að meina nærfötin? Hann gaf mér nefnilega ein jólin þessi líka dásamlega fallegu nærföt keypt í uppáhaldsnærbuxnabúðinni minni – rétt stærð og allt. Þau eru öll í blúndum – sem mig klæjar svo agalega undan. Og einhvern veginn er ég ekkert sexý í þeim þar sem ég stend og reyni að klóra mér á bakinu á hurðarkörmum. Ég á þau samt í skúffunni minni og þau eru æðisleg.
Svo spurði hann mig eitt árið hvort við værum ennþá í þessu að gefa hvort öðru gjafir sem væru táknrænar – og var eitthvað svo niðurdreginn að ég sagði: Nei- nei alls ekki. Og fékk þá örbylgjuofninn í jólagjöf – svo ég var ekki lengi að breyta því aftur og er fyrir löngu búin að koma honum í skilning um að sérhver gjöf frá honum sé þrungin og sliguð af merkingu.
Vona bara að hann haldi ekki að það sé gagnkvæmt.
miðvikudagur, 9. maí 2007
Ég á lítinn, skrítinn skugga
... í vændum í byrjun nóvembermánaðar. Vil reyndar meina að ég eigi örlítinn hlut í stjúpbarnabarninu Benjamín en af því sá myndarmaður á svo margar góðar alvöruömmur – og afa - hef ég meira setið í aftursætinu í uppeldinu. Þar sem þessi skuggi er væntanlegur í gegnum beinan móðurlegg vonast ég til að fá að sitja frammí og helst auðvitað í bílstjórasætinu - svona stundum.
Ætla samt að reyna allt sem ég get til að verða ekki ein af þessum óþolandi póstmódernískum ömmum sem verða svo æstar í ömmuhlutverkinu að allt hitt sem þær eru gufar hreinlega upp. Ég ætla aldrei að senda neinar myndir, aldrei að tala um hvað þetta barn sé betra en önnur, aldrei að þvinga upp á aðra ævintýrum um aldeilis ómerkilega viðburði í lífi þess (eins og að taka tennur), aldrei að hlaupa kvakandi guðminngóðurhvaðþettaersætt um í barnafatadeildum í útlöndum, aldrei að gefa barninu neinn óþarfa, aldrei að skrópa í vinnunni til að fá að passa smá. Nei ÉG ætla í mesta lagi að leyfa þessu barni að borða súkkulaði eftir að það er búið að bursta.
Krossa putta og vona af öllu hjarta að allt gangi vel og svo ætla ég að halda kúlinu og aldrei segja neinum hvað ég hlakka mikið til.
þriðjudagur, 8. maí 2007
Fátt í fréttum
Það tekur því varla að senda út örlítinn helgarpistil frá óeðlilega langri helgi en látum vaða. Er búin að vera svolítið eins og maur um helgina – eitthvað að baslast fram og aftur með byrgðar en koma samt litlu sem engu í verk.
Fór að lesa á Bodleian bókasafninu eftir hádegi á föstudag og fannst það gaman. Nú fann ég bækurnar sem við dóttla fundum ekki forðum. Var búin að biðja um fullt af þeim í lestrarlán og þær biðu þarna allar eftir mér í alvarlegum hátimbruðum sal sem ég hafði sjálf valið til lesturs. Sat svo fram eftir degi í mjúkum lestrarklið, einstaka hnerri og smá skurk í stólfótum, annars dásamlega andleg þögn yfir stórum lesendahópi. Fékk stórt rautt spjald sem leyfði mér að fara á milli hæða með eina góða og ljósrita og kom hálfpíreygð út í dagsbirtuna aftur í dagslok.
Fór á fyrstu leiksýninguna hér: The Wonderful World of Disscocia og hafði afar gaman af. Hann var ekki eins ánægður feiti kallinn fyrir aftan mig sem rauk út í hlé æpandi: This is absalutely the worst theater I have ever seen! Hélt fyrst hann væri að æpa á mig sem hafði ekkert með þetta að gera en svo sneri hann sér í hringi og æpti þetta á okkur öll áður en hann hvarf rösklega á braut. Kíkti eftir honum eftir hlé en sá ekki. Sat við hliðina á góðlegum, gömlum manni á bekk G en þar sem það voru ekki margir fleiri á okkar bekk færði ég mig kurteislega aðeins frá honum eftir hlé.
Tók því svo rólega á laugardag, hljóp litla hring, fór í bæinn að leita að afmælisgjöf handa Hannesi og kom heim með tvennar sumarbuxur...á mig. Kannski gef ég honum aðrar þeirra. Eldaði lax fyrir okkur Winifred og við opnuðum hvítvínsflösku og dóluðum okkur yfir fiskinum langt fram á kvöld. Michele var með hina þýsku Karen í helgarheimsókn svo ég fékk tækifæri til að rifja upp stúdentsþýskuna – Ich bin Anton Brega geworden sein – og sem betur fer var Gulli þýskukennari fjarri góðu gamni. Hann var viðkvæmur maður og hefði grátið.
Á sunnudaginn fór að þykkna upp og ég hélt að það væri vont veður og sat sem fastast í kvistherberginu og las. Þegar allir voru stokknir úr húsi notaði ég tækifærið og fór í alvörubað með baðolíu og bók og alles. Þetta er munaður sem ég sakna að heiman en hef sjaldan tækifæri til að láta eftir mér hér. Hugsað að ég hafi verið rómversk í fyrra lífi - eða kannski bara froskur. Var boðið í kvölmat til Ingridar og Julians og bakaði því íslenskar pönnukökur og fór með bæði sparirjómadæmið og upprúllaðar. Ljúfasta kvöld með nágrönnum þeirra, skemmtilegum eldri hjónum sem bæði voru komin á eftirlaun. Höfðu bæði verið hjónabandsráðgjafar og þegar ég spurði hvort að þau hefðu unnið saman í þeirri ráðgjöf sagði Jó: Já eftir að ég skildi við manninn minn. Og ég skellihló og hélt að þetta væri brandari en engum öðrum stökk bros á vör.
Í gær tóku Bretar svo út sinn 1. maí. Ætlaði út að hlaupa upp úr átta en þá var þvílík úrhellisrigning að ég ákvað að hinkra við. Sat enn í náttfötunum uppi í kvistherbergi klukkan fimm þegar að Michele kom að reka mig niður í hádegismat svo hún gæti farið að huga að kvöldmat. Var þá búin að lesa nokkrar ritgerðir, skrifa ákkúrat 10 línur í kaflanum mínum en lesa 400 blaðsíður í nýjustu bók Lionel Shriver,The Post-Birthday World. Fannst ekki taka því að fara á fætur þá svo ég sat áfram í náttfötunum til miðnættis og eyddi restinni af deginum í löng skæptöl við mömmu, Hannes og Áslaugu. Af því að samtalstíminn á skæpinu er svo sýnilegur sást að ég hafði eytt tæpum hálfum vinnudegi í spjallað – og naut hverrar mínútu.
fimmtudagur, 3. maí 2007
Aðflug
Í dag eru akkúrat þrjár vikur í heimferð og ég finn að brottförin að farin að læðast upp að mér. Ég hjóla mína vanalegu leið upp og niður hina litríku Cowley Road en í stað þess að láta hugann flakka um heima og geima horfi ég einbeitt á umhverfið og reyni að leggja allt á minnið.
- Ég ætla alltaf að muna eftir henni Syrpu í Unikki búðinni hugsa ég angurvær um leið og ég brosi blíðlega til strákanna í Beeline hjólabúðinni sem eru einmitt í þessu að stilla út öllum hjólunum. Vinka kankvís til strætóbílstjórans sem keyrði mig næstum niður á Magdalenubrúnni í morgun – bráðum verð ég farin og þú verður að finna þér einhvern annan að hræða líftóruna úr – vink-vink og blikk-blikk.
Snýst í hringi í kvistherberginu og velti fyrir mér hvort það sé fræðilegur möguleiki að koma eigunum í tvær töskur eða hvort það er ekki vit að senda sumt heim á undan sér. Ákveð að gefa jakkann minn til Oxfam - hef eiginlega aldrei verið í honum heima.
Panta miða í leikhús þegar að ég uppgötva að ég er búin að vera hér í meira en fjóra mánuði og hef aldrei gefið mér tíma að sjá neitt. Ætla ein og veit ekki hvort ég á að bóka sæti á netinu við hliðina á næsta eða með eitt sæti á milli. Enda við hliðina á einhverjum ókunnugum – vona að hann verði viðkunnanlegur.
Ákveð að taka þátt í Town og Gown hlaupinu 20. maí þar sem almenningur og andans menn streðast saman 10 kílómetrana í þágu góðra málefna. Ég hef þá í minnsta náð einu alvöruhlaupi hérna. Ætla líka að drífa mig í hlaupaklúbbinn í kvöld – var að fá skírteinið þar sem stendur að ég sé meðlimur í Headington Road Runners númer 997. setti það stolt í peningaveskið mitt. Aðeins of fljót á mér samt. Sá sem var númer 1000 fékk kampavín.
Ég verð að muna að breyta fyrirhuguðum síðasta hádegisverði með ástralanum Chris og konunni hans Corinne sem ég hef aldrei áður hitt. Við Chris eigum í vandræðalausu andlegu ástarsambandi um kennsluhætti á háskólastigi sem við ræktum einstöku sinnum með hádegisverði og nú fer því sambandi eins og öðrum hér að ljúka og konan hans ætlar að taka þátt í kveðjustundinni.
Sit í hádegissólinni með samlokuna mína í Háskólagarðinum og hugurinn er í slyddunni heima í stað þess að leita að sannfærandi rannsóknarniðurstöðum til að færa heiminn (eða að minnsta kosti örlitlum hluta hans). Hugsa svo mikið um slydduna að ég brenn á öxlunum og næ mér í ein tuttugu moskítóbit á leggina.
Skoða áköf heimasíðu kennslumiðstöðvarinnar til að athuga hvort ég nái kannski eins og einu góðu seminari. Fátt merkilegt í boði um þessar mundir. Kannski eru þau líka að verða lúin eftir veturinn.
Við Michele erum hættar að segja - eigum við ekki einhvern tíma... - nú spyr hún áhyggjufull: Heldurðu að við náum nokkuð að fara aftur á tælenska staðinn? Og ég svara kúl: Við sjáum bara til með það.
Það styttist í að ég fari að gera allt í síðasta sinn hérna. Hverjum hefði dottið í hug að það tæki mig þrjár vikur og tæpa þrjá tíma að fljúga heim til Íslands?
þriðjudagur, 1. maí 2007
1. maí
Í Oxford er bara einn stétt svo þeir eru ekki að stressa sig yfir að halda upp á alþjóðlegan dag verkalýðsins. Það verður gert næsta mánudag og heitir þá bara ‘bank holiday’. En í morgun vorum við Michele skriðnar í fötin fyrir klukkan fimm og lagðar af stað niður að á hjólandi í fyrstu skímu morgunsins. Ferðinni var heitið niður á Magdalenubrúna sem er nú rétt heima hjá okkur en var vendilega lokuð af og í strangri lögreglugæslu frá klukkan þrjú í nótt. Hjóluðum sem leið lá niður í High Street og blönduðum okkur í mannmergðina sem öll streymdi á Magdalenubrúna. Flestir í balldressum næturinnar, stelpurnar svolítið kuldalegar í sparikjólum og maskarinn aðeins farinn að færast til- sumir ennþá með alkahólið í blóðinu. Aðrir betur búnir og sumir blómum skreyttir. Svo stóðum við í þvögu fyrir neðan Magdalenuskólann g mændum upp á turninn til klukkan sex. Þá þögnuðu allir sem einn, sólin litaði þakskeggin og ljómaði á styttunum, kirkjuklukkum var hringt og svo tók við kórsöngur og morgunbæn. Kórinn söng að lokum fyrstamaílagið, krakkarnir í kringum mig kysstust og óskuðu hvert öðru gleðilegs maís og svo röltu allir í rólegtheitum til baka í High Street og leituðu sér að plássi til að setjast inn og fá sér morgunverð. Enginn hoppaði í ána en það hefur verið vandamál síðustu ár og ástæðan fyrir því að brúnni var lokað núna og við austurbæingar þurftum að taka á okkur krók. Við Michele kysstumst lítið en hjóluðum um bæinn og leituðum uppi vordansara áður við héldum á heimaslóðir. Fórum á Kaffihús Jóa og borðuðum alvöru enskan morgunverð áður við héldum heim og áfram í vinnu. Gaman að upplifa oxfordskan maídag – en er hins vegar alveg að sofna yfir tölvunni núna.
Fram þjáðir menn í þúsund löndum!
PS. Morgunblaðið segir að nokkir apakettir hafi samt sem áður náð að hoppa í ána. http://news.bbc.co.uk/1/hi/england/oxfordshire/6610449.stm
mánudagur, 30. apríl 2007
Hóst og hnerri og brotin sjálfsmynd
Mér finnst algjörlega óviðeigandi að vera með kvef og hálsbólgu í sól og blíðu – þetta eru vetrarveikindi sem eiga hreinlega ekki við á öðrum árstíðum – fussum svei og fari þau systkin hósti og hnerri nú í rass og rófu.
Fór með Michele og hálsbólgunni og Möru vinkonu Michele að punta á laugardaginn. Það var erfitt en mest fyrir sjálfsálitið. Hér hef ég alltaf staðið í þeirri trú að í sambandi okkar Michele sé ég íþróttaálfurinn sem get allt og hún svona meira sófakartaflan. Ég heimtaði því að fá að stjaka og eftir smá kennslustund á bakkanum héldum við þrjár á vit ævintýranna. Þau ævintýri fólust fyrst og fremst í því að ég stímdi á allt og alla sem var að finna á þeirri kílómetralangri leið sem mér tókst með herkjum að skikksakka. Michele og Mara voru ýmist hálfar upp í bátum hjá öðrum bytnuförum, klesstar upp við aldargamla veggi eða geirnegldar inn í tré og runna. Fuglar skræktu á mig og börn hlógu. Var orðin veruleg móð og uppgefin þegar að Michele baust til að taka við og viti menn – hér var kominn endurborinn gondólisti sem stýrði okkur mjúklega á leiðarenda – bara nokkuð hratt. Kom í land með brotna sjálfsmynd sem batnaði nú ekki við það að vakna næsta dag undirlögð í harðsperrum sem Michele kannast hvergi við að finna í eigin kroppi. Ansans árans!
Í gær buðum við Michele svo leigusölum til matarveislu. Hafði lengi staðið til en erfitt að finna stund og stað þar sem allir voru á sama stað á sama tíma. Borðuðum í garðinum og byrjuðum á íslensku brennivíni, þykku úr frystinum og mauluðum með flatkökur með hangikjöti og harðfisk. Þjóðarrétturinn vakti mikla lukku hjá hjónunum sem gáfu nágrönnunum smakk yfir garðvegginn. Michele bauð næst um á lúxembúrgska baunasúpu áður en við skelltum okkur í parmavafinn skötsel með sítrónu- og kaperssósu. Skötuselurinn átti að vera íslenskt dæmi og var góður. Að lokum toppuðum við kvöldverðinn með eftirrétti innfæddra - karamelluklístursbúðingi (Sticky Toffeee Pudding) sem er djúsí kaloríubomba sem ég á eftir að prófa einhvern tíma heima.
Fræðistörfum miðaði því miður lítið en það er mánudagur og því rétti tíminn til að byrja nýtt líf – ekki satt?
laugardagur, 28. apríl 2007
Heilsuleysi
Ég er kona sem verð - sem betur fer afar - sjaldan veik og tek því öllum lasleika óstinnt upp. Búin að vera í mér einhver luðra síðan ég kom að heiman. Hélt fyrst að þetta væri bara afleiðing svefnleysis og útistáelsis sem það hefur líklega verið. En líklega hef ég tekið með mér hálsbólgu og hausverk sem ég vildi að hefði verið tekinn af mér í tollinum. Er því búin að lufast í og úr vinnu, ekkert miðað í skriftum, orðið döpur og leið og fyllst vantrú á eigin getu. Með hroll og hausverk og ekki farið út að hlaupa og pínulítið eitthvað viðkvæm til sálarinnar. Sat í hádeginu í gær með samlokuna mína í staffaherberginu og lærði allt um matarpuntka frá konunum sem eru þyngdareftirlitinu (Weight Watches)og kannski var það þess vegna sem ég endaði vinnudaginn á því að borða 175 grömm af þurrkuðum ávöxtum og hnetum. Veit ekki hvað það eru margir punktar en dugar að minnsta kosti sem nasl til tveggja daga í erfiðum fjallaferðum – svo mikið veit ég. Heima beið svo Michelle með nýju, íslensku pönnukökupönnuna sem ég færði henni frá fróni æst í að vígja hana. Ég fór móð upp í herbergi og náði í pönnukökuuppskriftina frá mömmu sem aldrei bregst og veðraðist öll upp við að sýna Michelle hvernig á að baka alíslenskar pönnukökur. Fannst hún ekki sýna okkar þjóðararfi næga virðingu. Hún vildi fara að bræða á þær ost og gera alls konar hundakúnstir sem ég harðneitaði að taka þátt í.
- Þetta eru íslenskar pönnukökur - sagði ég –og það á að borða þær rúllaðar með sykri og ekki í kvöldmatinn!
Það er ekki nema von að allt sé að fara norður og niður þegar fólk ber ekki lengur virðingu fyrir menningu annarra. Borðuðum þær rúllaðar í kvöldmat og ég offraði með flatkökum og hangikjöti og harðfiski sem Michele sagði að minnti sig á gullfiskafóður. Veit ekki hvað þau er vön að borða heima hjá henni en setti snúðug harðfiskinn inn í skáp og sagði að hún fengi hvort sem er ekki meira.
Drakk þrjá punkta af rauðvíni áður en ég fór að sofa og horfði á skandinavana dæma júróvísíónlögin. Hljómar dálítið dapurt að vera einn á kojufylleríi inni í herbergi á föstudagskvöldi. Kláraði svo að lesa bókina um inspektor Morse í morgun þar sem hann hreinlega dó í rúminu hjá mér. Lewis yfirbugaður af sorg og ég fór að gráta – meira samt yfir Lewis en Morse. Andlát Morse kom svo sem ekki á óvart því undir titlinum stendur: The final inspector Morse mystery. Mér fannst bara svo sorglegt þegar að Morse er að reyna á dánarstundinni að skila kveðju til vinar síns Lewis en hjúkkan heyrir ekki hvað hann er að segja. Fór að segja Michele og Winifred frá endinum í hádeginu og fékk þá aftur tár í augun og varð klökk og þær bara hlógu enda kaldlyndar konur sem ekkert þekktu til þeirra félaga.
En sem sagt eftir að ég var búin að syrgja Morse um stund ákvað ég að segja hálsbólgum og andlegum luðrum stríð á hendur. Stal meyjahári af Michele (hún er nær því að vera það en ég) sem ég kveikti í og hrærði öskunni saman við froskablóð úr garðinum og tók inn með Strepsil og fór svo út að hlaupa – fyrst í peysu og svo ber. Tók þetta með Dressmanntaktinum – hægara en ég hélt að væri hægt (í merkingunni mögulegt) en kom samt móð og sveitt til baka og nú á ég eftir að sjá hvort að heilsan- bæði sú andlega og hin líkamlega – er að koma eða fara. Við Michele erum á leiðinni í róður (eða stjökun) niður á Thames – eigum líka eftir að kaupa fisk í veislu fyrir morgundaginn á markaðnum og gengur illa að skipulegga ferðina. Stakk upp á því að við keyptum fyrst fiskinn og færum með hann á sjó í svona öfuga veiðiferð en hún er hrædd um að það muni slá eitthvað í hann við það.
föstudagur, 27. apríl 2007
Af fuglum og fötum
Ætlaði eiginlega að blogga í dag um fugla. Segja frá því hvernig ég vakna á hverjum morgni – eða kannski nóttu – um fimmleytið á Divinity Road við þessa líka frábæru margradda hljómkviðu. Hef þá legið í áfram, hlustað og velt fyrir mér af hverju þeir fara allir að syngja sem einn á þessum tíma. Hvort að einn vekur annan og svo koll af kolli. Og halda þeir áfram svona allan daginn eða þagna þeir? Næ aldrei að svara þeirri spurningu heldur sofna aftur frá henni ósvarðri. Las svo í Mogganum í gær eða fyrradag um erlenda vísindamenn sem höfðu rannsakað fugla og komust að því að þeir syngja svona á næturnar og í morgunsárið því þá er eini tíminn til að þeir fái að njóta sín í borgarkliðnum. Þeir eru að helga sér svæði og ná sér í maka með kvakinu. Nú get ég sofið áfram róleg á morgnana.
En ég var sem sagt að hugsa um föt í morgun og það kom auðvitað ekki til af góðu. Þegar við Hannes þurfum af einhverjum ástæðum að klæða okkur upp á fer hann í jakkafötin og heldur uppi rauða bindinu og því gráa og segir við mig: Hvort? Gráa – segi ég (enda valdi ég það á sínum tíma). Þegar að mikið stendur til segi ég: Ættirðu ekki að vera í dökkum sokkum? Og hann hlýðir því – eða ekki (eftir því hvernig forhollið hjá okkur er hverju sinni).
Mín uppáklæðning krefst hins vegar margra daga úthugsaðrar og yfirvegaðrar strategíu. Byrjar andlega með því að ég fer í gegnum fataskápinn í huganum og set saman ýmsa möguleika. Útiloka strax sumt en held öðrum möguleikum opnum. Velti fyrir mér fyrirhuguðum aðstæðum og þarfagreini út frá félagslegu sjónarhorni (hverjir verða þarna og hvernig verður stemmningin). Leita svo inn á við í sjálfsígrundun (í hvernig stuði ég þessa dagana). Á síðustu stundu fokkast svo öll plön og strategíur upp – ég ríf allt út úr skápnum – máta og máta –hendi í hrúgu höfnuðum flíkum – dreg þær aftur upp úr hrúgunni og prófa aftur – máta bæði í mínum spegli og dóttlu. Pósa nokkur dæmi fyrir Hannes (sem segir í hvert sinn: Já þetta er flott) og dóttlu sem hallar undir flatt og segir: Já ókey. Sit smá stund á hrúgunni – hætti við að fara - næ áttum – finn sjálfa mig á ný og fer í það sem ég var fyrir löngu búin að ákvað að væri fínt. Er heillengi að hengja aftur upp öll fötin sem ég ætla ekki í.
Og þetta gerist á mínum heimavelli þar sem ég er eins og fiskur í vatni – en hvernig á ég að höndla tilveruna hér – á þurru landi? Horfði á mig í speglinum í morgun og spurði: Hver ertu eiginlega? Með glænýja útlenska og skrítna klippingu – og spáin er sól og 23 stiga hiti – en úti er þoka og skítakuldi og ég með hálsbólgu og kvef. Skápurinn fullur af svörtum fötum sem ég mætti með hingað í janúar. Sumarbuxurnar einu góðu í þvotti. Finnst húðlitar sokkabuxur kellingalegar en dökkbrúnu 80 denin ganga hreinlega ekki. Hlírabolur fellur engan veginn að hálsbólgunni og ég myndi krókna á leiðinni. Kannski get ég orðið svona goth eitthvað í minni svörtu múderingu eða verið eins og háskólstelpunar í götunni sem fara hér um allt í náttbuxunum sínum. Held ég fari kannski frekar í þeim í vinnuna. Ég er hvort sem er hálflasin í dag.
PS Aldrei þessu vant las Hannes bloggið mitt og segir það lygi að hann hafi talið Stikilsberjafinn vera á flatbytnu. Eins og allir vel greindir og lesnir vita var hann á fleka (þ.e.a.s. Finnur).
þriðjudagur, 24. apríl 2007
Ævintýrahelgi að baki
Þriðjudagur og þrumuhelgi að baki. Gat ekki skrifað fyrr því ég er búin að lifa svo tvöföldu lífi að hluta undanfarið að ég var komin með verki í lygagenið sem er samt yfirleitt í ágætri þjálfun. Skil ekki hvernig samráðsfurstar og fjármálaplottarar fara að því að halda kjafti yfir sínum planeringum. En sem sagt, Áslaug vinkona varð hálfrar aldargömul á föstudaginn og hélt upp á það með pompi og prakt. Bauð mér að sjálfsögðu og varð (að sjálfsögðu!) leið þegar ég sagðist ekki komast. Er samt búin að leyfa mér að fylgjast með undirbúningum og eftirvæntingunni og hafði ekki hugmynd um að ég var fyrir löngu búin að kaupa mér flugmiða heim. Og ég bara laug og laug út í eitt og grét næstum í okkar síðasta skæpsamtali á fimmtudaginn þar sem ég óskaðið henni til hamingju fyrirfram. Flaug svo heim um kvöldið alsæl að hitta mitt fólk. Var reyndar alveg búin að gleyma því hvernig er að sofa við hliðina á einhverjum öðrum en sjálfri mér. Og eftir seinkun á seinni flugvél og kjaftagang og kelerí lá ég og starði upp í loftið á Hjarðarhaganum á meðan Hannes hraut dátt við hliðina á mér. Kötturinn – sem ég taldi mig hafa saknað líka – vaknaði svo hálffjögur og vildi út og ég notaði tækifærið og dró sængina inn í stofusófa. Var þar enn vakandi þegar pápi gamli úr ameríku sem gisti hjá okkur um helgina mætti á fætur klukkan fimm – alsæll að fá mig í kompaní yfir morgunkaffinu. Hefði betur keypt mér baugahyljara í fríhöfninni.
Notaði föstudaginn til að kaupa afmælisgjöf fyrir Áslaugu. Langaði bara til að gefa henni bekk með árituðu spjaldi og tókst vel að útvega hvoru tveggja og fá mömmu með í gjöfina og gefa pullur. Reyndi að leggja mig í eftirmiddaginn en gekk brösuglega. Við Kristján maður Áslaugar – sem var með í vitorðinu vonda – vorum búin að velta fyrir okkur mögulegum innkomun mínum í partýið – en enduðum á einföldum leik. Mamma og hennar Hjálmar, Hannes og dóttla mættu á tilskyldum tíma en ég sat út í bíl og beið um stund en mætti svo og fékk að upplifa það að sjá Áslaugu í alvöru missa andlitið. Og það var sko gaman. Veislan hennar frábær og svo gaman að við vildum helst ekki hætta í henni og reyndum að vera eins lengi og við mögulega gátum.
Var enn baugóttari á laugardagsmorgun en varð bara að fara á fætur og út á Nes að hitta félaga í TKS. Þeirra hef ég líka saknað sárlega. Timburmennirnir flugu út á haf þar sem ég hljóp á milli Betu og Þóru og allt var eins og það átti að vera. Ákvað samt að stinga af úr sprettunum og fékk að kyssa marga bless. Hlauparar eru soddan góðmenni og gæðingar. Pabbi pantaði saltfisk í kvöldmat sem við keyptum eftir göngutúr um Öskjuhlíðina þar sem Hannes var dreginn timbraður með. Hann hefur ekki enn séð hlaupaljósið og heldur að það sé betra að sofa úr sér áfengisbölið. Saltfiskurinn reyndist ósaltur en pabbi kurteis kvað hann góðan. Dóttlu fannst skrítið að fá fisk í matinn á laugardagskveldi.
Á sunnudaginn vorum við svo mætt upp úr hádegi í fermingarveislu Hafsteins bróðursonar míns í Grafarvoginum, ófull. Fermingardrengurinn afar myndarlegur og flottur – og það er víst töff en ekki gleymska að girða ekki skyrtuna ofaní fermingarbuxurnar. Sátum og úðuðum í okkur góðum veitingum, spjölluðum við ættingja og hin ættin sló í gegn því hún kann að syngja en ekki við mín megin. Sem betur fór tók faðir fermingabarnsins lagið og lagaði aðeins stöðuna fyrir okkur. Keyrðum heim frænkur og ég fór og kaus til vonar og vara. Fegin að vera í fermingarveislufötunum því mér finnast kosningar hátíðlegar og ef ég ætti hatt frekar en ljótar ullarhúfur þá myndi ég setja hann upp þegar ég nota atkvæðisréttinn. Komum við hjá fimmtugu konunni að skoða afmælisgjafir. Pabbi gamli var ekki búinn að skila sér heim klukkan 10 og við orðin áhyggjufull enda er hann yfirleitt sofnaður fyrir þann tíma. Sá hann fyrir mér sofandi hér og þar um bæinn en hann mætti glaðvakandi til okkur rétt um hálfellefu.
Fundaði með leiðbeinendum mínum á mánudagsmorgun og fannst það gott. Hefur verið boðið og næstum skipað af leiðbeinandanum hér ytra að nota maímánuð í verkefnið og fara ekki heim fyrr en að síðasti kafli er kominn nokkurn vegin í hús. Fór heim með þessi skilaboð til fjölskyldunnar. Hannesi fannst þetta hið besta mál enda las ég eftirfarandi stjörnuspá hans fyrir daginn í dag:Það finnst fátt betra en að friður og samhljómur umfaðmi fjölskylduna þína. Þá flýtur upp úr ástarbikarnum þínum og þú fyrirgefur þeim flest. Ekki skrítið að hann sé sáttur við að ég verði lengur í burtu ef það fylgir brottförinni þessi líka friður og samhljómur! Kötturinn lét sér fátt um finnast en dóttlan mín sat og hágrét móður sína þegar ég sneri til baka eftir gleymdri myndavél. Varð til þess að ég grét líka í flugvélinni.
Á eftir að ræða betur endanlega brottför við heimamenn og notaði daginn í dag að hugsa minn gang og koma mér í samt lag aftur eftir ævintýrahelgi. Ætla að kasta mér kaflann minn enda segir spáin mín eftirfarandi: Innra með þér vex þörf fyrir að sanna þig. En svo bæta þeir við: Þú ert ekki í skapi fyrir megrun eða hreyfingu, svo snúðu þegar að heilanum og hæfileikunum. Og ég sem hélt að mínir hæfileikar fælust m.a. í hlaupunum og ætlaði einmitt að fara út að hlaupa.
fimmtudagur, 19. apríl 2007
Af flatbytnum og fleira
Ef að sólin ætlar að halda þessu áfram fer vatnsbúskapur Breta að verða til vandræða og ég get örugglega aldrei klárað ritgerðina mína. Sit í kjallaranum og mæni út í góða veðrið og finn til hinnar íslensku skyldu að stökkva út í blíðuna. Skammast út í Michele leigufélaga fyrir að sitja inni á góðu degi og dreg hana út í gönguferðir um leið og ég mæti heim úr vinnu. Kaffihús og barir blómstra og þar sitja utandyra hálfber og hálfkennd ungmenni og njóta tilverunnar og puntleigur sprottnar upp alls staðar. Ég á enn eftir að prófa að punta og veit ekki einu sinni hvað slíkur bátur heitir upp á íslensku. Reyndi að rifja upp með Hannesi um daginn hvort að Stiklilsberjafinnur hefði verið á flatbytnu en við vorum ekki viss. Punt er sem sagt svona flatur bátur - kannski bara flatbytna - sem er stjakað með löngu priki og lítur út fyrir að vera hinn skemmtilegasti ferðamáti. Verða að prófa það áður en ég fer heim.
Stalst úr skriftum á kennslufræðinámskeið hjá kennslumiðstöð Oxford háskóla í fyrradag. Bara til að sjá hvernig þeir gera hlutina hér. Námskeiðið var haldið í Pembroke skólanum sem ég vissi ekki alveg hvar var. Hitti svo við innganginn ungan mann sem var einmitt á sömu leið og ég svo við urðum samferða. Hann var Juan frá Barcelóna og þegar ég kynnti mig frá Íslandi horfði hann brosandi á mig og spurði á algjörlega lýtalausri íslensku: Viltu giftast mér? Ég varð kjaftstopp enda þekkti ég ekki manninn en leist samt bara nokkuð vel á hann en áður en ég gat stunið upp svari bætti hann við: Haltu kjafti og rassgat í bala. Líka á svona hljómfagurri og kórréttri íslensku. Ég tók því þannig að hann væri flagari og meinti ekki neitt með bónorðinu. Ansans.
Fór að hitta þær ágætu stöllur, Margréti og Elínu út í háskólagarði þar sem við sátum í sólinni og borðuðum samlokur frá Taylors og gjóuðum augunum á strákana sem voru að spila krikkett í hvítum buxum og vaffhálsmálspeysum. Þær sögðu mér frá því að ungur maður hefði dáið í hjólaslysi í gær þegar að stór öskubíll keyrði á hann á gatnamótum sem við förum allar um reglulega og höfum alltaf talið öruggan umferðarstað. Meðal annars oft stolist yfir á rauðu. Erum hættar því í bili.
þriðjudagur, 17. apríl 2007
Heimsókn í kennslumiðstöð
Mánudagurinn minn var ekki til mæðu en hann var öðruvísi en aðrir. Hafði lengi langað til að heimsækja Kennslumiðstöð þeirra í Oxford Brooks sem er ‘hinn’ háskólinn hér í Oxford. Og hann er í alvöru ‘hinn’ í félagslegri merkingu þess orðs. Þar ganga börnin ekki um í hvítum skyrtum og skikkjum og skólastofur ekki byggðar á miðöldum. Kennsluhættir kannski líkari því sem við þekkjum heima. ‘Hinnið’ felst líka í staðsetningu hans eins og ég komst að raun um þar sem ég hjólaði í 45 mínútur í sólinni að mér fannst hálfa leið til London. Lagði upp í ferðina í mínum besta galla, vel púðruð á nefinu og með gloss og alles en mætti á áfangastað rauð og móð og bullsveitt og þeir sem tóku á móti mér þótti mikilvægast að byrja á því að bera í mig vatn. Fékk að gramsa í bókunum þeirra og skoða það sem þeir hafa gefið út sjálfir af kennsluefni og við ræddum mikilvægi góðrar staðsetningar svona miðstöðva. Þau voru áður staðsett í aðalkampusnum í Oxford en voru flutt í hagræðingarskyni fyrir fjórum árum og hafa ekki séð nokkra sálu síðan – nema þá einhverja furðu- og farfugla eins og mig. Drakk hjá þeim svolítið meira vatn og kvaddi þá með virktum og hjólaði aftur heim.
Heima beið mín það ábyrgðarhlutverk að opna fyrir ræstingakonunum þeim Lynn og Lukku sem koma á Divinty Road yfirleitt á mánudögum. Átti von á þeim upp úr eitt en þær mættu galsvaskar með þúsund hreinsiefni klukkan hálffimm og fóru um húsið eins og hvítur stromsveipur nema að þær skúruðu ekkert hjá okkur Michele á háaloftinu. Ég þorði ekki að kvarta heldur borgaði þeim bara uppsett verð og þær fóru og kvöddu með virktum.
Ástarmál Villa prins voru snarlega tekin úr umræðu fjölmiðlanna í gær eftir sorgaratburðina í Viriginíu og í stað þess mættir í fréttatíma alvarlegir jakkalakkar til að ræða um aðgengi hins almenna ameríkuborgara að vopnum. Í febrúar las ég mjög athyglisverða bók eftir konu að nafni Lionel Shriver. Bókin heitir We need to talk about Kevin og er afar sterk lesning og ég var hálfmiður mín á meðan ég var að lesa hana. Sögumaður er móðir drengs sem situr í fangelsi eftir af að hafa skotið skólafélaga sína og hún rekur sögu hans frá fæðingu og líf fjölskyldunnar í bréfum til fyrrum eiginmanns síns. Bókin er ekki bara sálfræðilega vel gerð heldur hefur höfundur augsýnilega unnið alla undirbúningsvinnu vel og þetta er ein af þessum bókum sem halda áfram að lifa í kollinum á manni löngu eftir síðasta punt. Mér þótti samt merkilegt að sjá Lionel Shriver mætta í fréttatíma í gær – sem sérfræðing í skólaskotárásum - til að útskýra Virgníuatburðinn. Það sýnir kannski hvað skilin á milli raunveruleikans og ímyndunarinnar eru orðin óljós.
sunnudagur, 15. apríl 2007
Helgarblogg
Veðrið heldur áfram að leika við fólk hér í Oxford (og auðvitað aðra nágranna okkar hér í Bretlandi). Helgarplönin voru að skríða áfram með næsta kafla og ýmis önnur verkefni sem aðrir eru að bíða eftir að ég klári. En svo er bara erfitt fyrir auman Íslending að sitja undir súð í 24 stiga hita og sól. Ég hef meira að segja farið út að hlaupa snemma á morgnana til að ná morgunþokunni - annað væri of heitt.
Sat yfir kaflanum mínum til klukkan þrjú í gær en gafst þá upp og fór í mikla skemmtiferð með Michele. Hjóluðum niður að á og áfram út í vestur Oxford þar sem við heimsóttum veitingastaðinn The Fishes. Hafði heyrt um hann í einhverju hádeginu í staffaherberginu og hann reyndist ídeal fyrir svona nestiskonu eins og mig. Staðurinn stendur niður við á í litlu þorpi og þar er hægt að borða venjulega eða fara í lautarferð. Þá pantar maður sé tilboð við barinn og fær svo körfu með köflóttum dúk og veitingum og getur annað hvort tyllt sér á bekki eða fengið lánuð teppi til að sitja á. Sátum í sólinni og borðuðum kalt kjöt, hummus, sólþurrkaða tómata, sveppapaté og brauð og ég lagði á ráðin um svona stað heima – yrði kannski takmarkaður rekstargrunnur.
Hjóluðum sælar og saddar í sólinni í bíó og þó ég hefði vissar efasemdir um ágæti þess að láta sig hverfa inn í myrkrið í blíðunni var tímanum þar afar vel varið. Sáum þýsku myndina The lives of others (heitir örugglega almennilegu þýsku nafni) sem var aldeilis frábær, fróðleg, hlý og mannleg og þeirrar gerðar að maður kemur betri kona út. Ekki spillti fyrir að aðalpersónan var eins og snýtt út úr nefinu á Benedikti Erlingssyni (sem er þó enn myndarlegri!). Eyddi svo kvöldrest í að horfa á söngvakeppni framhaldsskólanna og kjafta við Áslaugu vinkonu á skæpinu. Hún er að verða fimmtug núna síðar í vikunni og á von á 120 gestum í gleðskapinn. Hún er bæði búin að búa til ólífubollur og kaupa undir þær servíettur. Áslaug vinkona mín hefur ítrekað reynt að kenna mér lífsmóttóið: Einfaldaðu líf þitt. Ég vona að hún hafi ekki tekið þetta mottó sitt of alvarlega. Við mamma hennar og nokkrar konur í viðbót höfum smá áhyggjur af afmælinu en ef ég þekki mína rétt á hún eftir að rúlla þessu upp með sóma. Og segja mér síðar nákvæmlega frá öllu sem ég missi af.
Vaknaði inn í enn einn sólardaginn í morgun og varð að fara aftur út að hlaupa stutta Theimshringinn minn. Létt í lund enda hafði ég ekki hugmynd um þá stórviðburði sem dunið höfðu yfir bresku þjóðina. Vilhjálmur prins sagði sem sagt henni Kötu sinni upp í gær og hún er mjög leið en mamma hennar víst enn daprari enda segja blöðin hér að hún sé agalega mikið snobb sem er alls ekki viðeigandi þegar að haft er í huga að hún er bara fyrrverandi flugfreyja. Kata sem er búin að vera kærasta Villa held ég í fimm ár fór eitthvað að setja honum stólinn fyrir dyrnar og fúlast yfir því að hann er alltaf að djamma með hendurnar á brjóstinu á brasilískum pæjum og launskotinn í annarri ljóshærðri - og þá var hann bara ekki til í þetta lengur. Segir eins og satt er að hann sé bara 24 ára strákur og að Kata sé ekki baun skemmtileg lengur.
En þetta hafði ég sem sagt ekki hugmynd um þar sem hljóp meðfram ánni og naut þess að horfa á ræðara spreyta sig inn um endur og svani. Sat svo yfir verkefnum fram eftir degi en gafst upp undir fjögur og dró Michele aftur niður að á í göngutúr. Fundum loksins bakaríið sem er hér í nágrenninu og ég hafði lesið um í bókinni minni um götuna mína. Það er í lítilli hliðargötu, í ofurvenjulegu húsi og er víst rekið af ekkju sem býr bara til venjuleg brauð og selur nágrönnunum. Hún varð eitthvað leið á bakstrinum og ákvað að hætta en nágrannarnir urðu enn leiðari en hún og sendu allir sem einn börnin sín grátandi til hennar að biðja hana um að hætta við að hætta. Lágum á glugganum og fannst ekki mikið til koma en set búðarskiltið með sem mynd. Það sýnir opnunartímann og svo þessa frábæru setningu: Eða þarf til brauðið klárast!
Borðuðum svo kvöldmatinn út í garði.
föstudagur, 13. apríl 2007
Hið fölbláa man
Hvernig er spáin? spurði ég Hannes á Skæpinu í gærkvöldið og hann sagði að von væri á suðlægum áttum og allt upp í átta stiga hita og var kampakátur með blíðuna (þið sjáið hvað gneistar af rómantík á milli okkar!). Ég fékk strax samviskubit yfir mínu veðri og var að hugsa um að þegja yfir því. En svo tók stærilætið yfir og ég stóðst ekki mátið: Helgarspáin hér er glampandi sól og 23 stiga hiti. Já sagði Hannes.
Veit ekki hvort hún á eftir að standast en það hefur engu að síður hlýnað hér verulega og dagarnir góðir. Reyndar þarf maður að búa sig út í daginn eins og í fjallaferð á Íslandi. Vettlingar og ullarsokkar í morgunþokunni sem er ísköld og hlýrabolur fyrir heimferðina síðdegis. Og með veðraskiptunum stóð ég skyndilega frammi fyrir því að afklæðast mínum 70 den sokkabuxum, henda af mér treflinum og týna af mér ullarpeysurnar. Og þá blasir við - jájá – hið fölbláa man. Það er erfitt að lýsa mínum natúrella vetrarhúðlit en kannski er það best gert með undanrennu. Það er þessi blágrágræni glæri tónn – sem setterast jafnvel út í mysulit. En hann er að minnsta kosti ekki mikið augnayndi svona þegar hann kemur fyrst út úr vetrarskápnum.
Ég er ekki mikil ljósakona og á erfiðar minningar frá barnæsku þar sem fölum og mjóum börnum úr Laugarneshverfinu var stefnt vikulega í Laugarnesskólann í ljósaherbergið. Þar lágum við á bekkjum í hrönnum, allsber og aumingjaleg, með kolsvört ljósagleraugu og hvítklædd kona sagði gaf okkur reglulegar skipanir um að snúa. Eins og kjúklingar á teini hlýddum við í einu og öllu þannig að ég brann að minnsta kosti jafnt á öllum hliðum. Það var alltaf einhvers skrítin lykt þarna og það tók mig akkúrat viku að jafna mig af mesta brunanum og þá var kominn tími til að mæta aftur.
Hér virðist vera fátt um drápsljósabekki en í apótekum vella úr hillunum brúnkukrem og froður af öllum gerðum og því ákvað ég um páskana að fjárfesta í mínum fyrsta brúnkubrúsa. Verandi flumbra var valið hvorki vandað né miðað við húðlit þannig að eftir fyrstu tilraun var ég eins og fölur gíraffi. Stórir dökkbrúnir blettir hér og þar og í gegn skein minn blágræni tónn. Sem betur fer er dóttla mun meiri fagurkeri í brúnkufræðum en ég og hjálpaði mér að velja annan brúsa sem ætlaður er fölari fljóðum. Er búin að bera á mig tvisvar og er ekki frá því að ég sé orðin örlítið fallegri.
Jæja, þá er bara að snúa sér aftur að skrifunum. Sendi frá mér kafla á annan í páskum og ætlaði glaðbeitt að vinda mér í næsta. Hef svo bara átt hörmungarskrifdaga sem fara í lítið annað en að snúast í örvæntingafulla hringi bæði fískiskt og andlega. Bar mig illa við Michele sem sagði mér að vera ekki að hugsa of mikið um að byrja á réttu setningunni. Réttu setningunni! Ég er sko löngu hætt að biðja um hana. Nú myndi hvaða setning sem er duga.
þriðjudagur, 10. apríl 2007
Páskaannáll
Þriðji í páskum að klárast og við dóttlan búnar að gera það gott. Vitum samt ekkert hvurt dagarnir hlupu en eldsnemma í fyrramálið á sú yngri að mæta í rútu og hossast í henni út á flugvöll og fljúga svo heim úr sólinni og í hretið.
Við höfum haft það ljómandi gott saman, sofið hlið við hlið, önnur á hermannabedda og herbergið mitt eins og flóttamannabúðir.Vorum búnar að útvega okkur íbúð yfir hátíðarnar en leið svo ljómandi vel hérna á Divinty Road að við fórum hvergi. Ákváðum að taka 5 tíma á dag í próflestur og ritgerðarsamningar en eyða rest í meira spennandi hluti eins og búðarráp og miðbæjarrölt. Veðurguðirnir voru okkur heldur betur hliðhollir og sólin skein og hitinn rauk upp úr öllu valdi og gladdi okkur mikið.
Fékk lánað hjól handa Rönku sem var í fyrstu treg til að stíga á bak og bar við alls konar fyrri áföllum í bernsku en eftir að hafa látið til leiðast hjólaði hún eins og herforingi um allan bæ á vinsti akgrein. Fannst reyndar hjálmurinn ekki passa nægilega vel við skvísuídentitetið en lét sig líka hafa það að bera hann.
Höfum verið heldur slappar í eldamennsku og látið aðra sjá um þá deild. Farið út að borða og prufað portúgalskan, ítalskan og tælenskan mat og að auki heimalagað lambalæri hjá Ingrid umsjónarkennara og hennar manni, Julían héraðsdómara.
Ákváðum að halda páskadaginn sérlega heilagan og læra ekki neitt. Fórum með alíslensku páskaeggin okkar í gönguferð upp í South Park og lágum þar í sólinni og kepptumst við sólina að klára súkkulaðið og samkvæmt Michele sem er með gráðu í næringarfræði settum við líklega ofan í okkur einar 3000 kaloríur af hreinum sykri á sólarhring. Við vorum líka svolítið skrítnar bæði á meðan og á eftir – mest að innan.
Höfum skemmt okkur vel með foreldrum Michele sem er hér líka í páskareisu og mest erum við skotnar í pabbanum Bert sem skilur ekki orð í ensku en hlær engu að síður glaðlega með okkur þegar að tökum vitleysingsköst. Í dag var svo síðasti sjéns að ná í búðir og við lögðumst í víking eftir að hafa setið yfir ritgerðum framan af degi. Spændum upp peysur í lágvöruversluninni Primark þar sem verðlag er lyginni líkast en litum svo aðeins í dýrari búðir til að eyða nú örugglega því sem við spöruðum í þeirri ódýru. Nú ætlar dóttla að gera hetjulega tilraun til að koma kaupfengnum í ferðatöskuna en ef það ekki gengur er bara spurning um að mæta á völlin í nokkrum lögum. Mikið verður nú tómlegt án hennar.
fimmtudagur, 5. apríl 2007
Hinn sanni páskaandi
Góðan dag.
NÚ GENGUR senn í garð helgasti
árstími okkar kristinna manna. Það
er ljóður á ráði að það virðist vera
sem helgistundum fylgi mikil
óráðsía. Á jólunum liggja börnin
organdi og heimta sífellt stærri
pakka, í stað þess að minnast fæðingar
Krists. Á páskunum liggja
börnin organdi í sykursjokki eftir að
hafa graðgað í sig súkkulaði í lítravís.
Ég þoli ekki börn. Sjálf átti ég
erfiða æsku og hagaði mér aldrei
eins og barn. Ég var ekki alin upp
við stanslaust gjafaflóð, heldur var
ég látin vinna fyrir mat mínum og
var reglulega hýdd. Þess ber ég enn
merki. Þá var ég ekki ánægð með
þessa meðferð, en í dag sé ég að hún
var mér fyrir bestu. Ef ekki hefði
verið fyrir umræddar barsmíðar
lægi ég liggjandi í gólfinu organdi á
meiri sykur og gjafir. Þess í stað er
ég þakklát fyrir það sem ég hef og
ætla ekki að borða súkkulaði á páskunum.
Þó má vera að ég fái mér epli.
Og svo eru það fermingarnar. Þegar
ég var yngri þótti það munaður að fá
á annað borð að vera fermdur. Nú
telst enginn maður með mönnum
nema hann fái fermingarveislu fyrir
mörg hundruð þúsund og helst gjafir,
einkum tölvuspil og sælgæti!
Þetta ætti ekki að heita ferming
lengur. Þetta ætti að heita Óráðsía.
Það er að vísu líka nafn á landi en
fermingar gætu einnig kallast það.
Fermingarbörn mæta jafnvel í
veislurnar á gulum limósíum sem
hæfa klámkóngum. Ég vil því skora
á þegna þessa lands að koma með
okkur félögum í Femínistafélagi Íslands
og mótmæla óráðsíunni (fermingunni,
jólum og páskum) fyrir utan
Hallgrímskirkju á Pálmasunnudag.
Hættum að vera gráðug, fáum okkur
eins og einn ávöxt til hátíðabrigða en
lifum annars meinlætalífi! Að lokum
vil ég hrósa Morgunblaðinu fyrir
dálkinn Orð dagsins. Þar er oft að
finna þarfan boðskap á þessum síðustu
og verstu tímum. Knaparnir
fjórir nálgast óðum.
Guðrún Jónsdóttir.
Ja sussum svei! Stóðst ekki mátið eftir að hafa lesið Netmoggann minn í morgun og rekist á þessa ljúfu páskakveðju. Verst að komast ekki með í mótmælin - en ég fæ mér bara páskaepli (bara hálft) í staðið og bíð svo skíthrædd eftir knöpunum fjórum.
Upp er runninn...
Skínandi fallegur skírdagur hér í Oxford. Reyndar vita þeir hér í kringum mig ekkert af honum svo ég geng um eins og trúboði og segi þeim frá síðustu kvöldmáltíðinni sem þeir segja að eigi sér engan sérstakan dag. Þeir kalla líka föstudaginn langa ‘föstudaginn góða’ svo það er ekki von á góðu úr þeirri áttinni. Andrew skrifstofufélagi taldi það mun skynsamlegra að kalla hann langan en góðan – ef maður setti sig í spor þess sem væri á krossinum. Það ku vera aðal verslunardagurinn að vori þannig að heilagleikinn er einhvern veginn minni hér en ég á að venjast. Enda hjólaði ég bara að venju í vinnuna í morgun og sólin skein en þessi 16 stig sem veðurfréttirnar lofuðu í gær eru ekki alveg mætt og það blés köldu inn að beini.
Dóttla situr í þessum skrifuðu orðum í flugvél og nálgast landið óðfluga. Er vonandi að kaupa sælgætiskassann sem ég bað hana um í flugbútíkinni og með lýsið frá Hannesi í ferðtöskunni. Verst ég gleymdi að biðja um meira gulrótarappelsínumarmelaði. Þarf að fara sparlega með rest ef hún á að duga fram í maí.
Angurværðin blásin af og rétturinn minn (melónusneiðar með parmaskinku, balamsýrópi og parmaseanosti) í starfsmannaboðinu þótti til fyrirmyndar. Kaflabjáninn er að taka á sig einhvers konar mynd sem ég get sætt mig við og nú er bara að bretta upp ermar og sjá hvað ég kemst langt með hann áður en ég fer að taka á móti Rönku úr rútunni síðdegis. Hlakka mikið til að faðma hana.
Dóttla situr í þessum skrifuðu orðum í flugvél og nálgast landið óðfluga. Er vonandi að kaupa sælgætiskassann sem ég bað hana um í flugbútíkinni og með lýsið frá Hannesi í ferðtöskunni. Verst ég gleymdi að biðja um meira gulrótarappelsínumarmelaði. Þarf að fara sparlega með rest ef hún á að duga fram í maí.
Angurværðin blásin af og rétturinn minn (melónusneiðar með parmaskinku, balamsýrópi og parmaseanosti) í starfsmannaboðinu þótti til fyrirmyndar. Kaflabjáninn er að taka á sig einhvers konar mynd sem ég get sætt mig við og nú er bara að bretta upp ermar og sjá hvað ég kemst langt með hann áður en ég fer að taka á móti Rönku úr rútunni síðdegis. Hlakka mikið til að faðma hana.
þriðjudagur, 3. apríl 2007
Depressjónir
Ég veit að ég á ekki að vera að belgja mig yfir depressjónum og ræða um mínar sem koma – sem betur fer – afar sjaldan og endast venjulega stutt. Enda standa þær depressjónir ekki undir nafni og eru mun frekar í ætt við dagsdepurð og angurværð (sem mér finnst svo fallegt orð og skáldlegt). Það er yfir mér örlítil angurværð – það hljómar vel og lýsir ástandinu á mér í augnablikinu. Angurværðin stafar fyrst og fremst af því að ég er í basli í skrifunum og þar sem þau eru nú u.þ.b. 95% af daglegum athöfnum í vöku (og stundum eru þau líka að lauma sér í draumana) endurspeglar gengið þar svona almenna Nasdaq vísitölu sálarinnar. Angurværðin mín lýsir sér einna best í verulegu andleysi þannig að ég get ekki einu sinni bullað almennilega – og því ekki bloggað. Mér dettur ekkert í hug að segja í símtölum – sem betur fer eru þau ekki mörg og mest frá fólki sem elskar mig og bara tekur mér eins og hverju öðru hundsbiti og í gær settist ég við eldhúsborðið á móti leigusalanum og datt ákkúrat ekkert umræðuefni í hug. Drakk tebollann minn, brosti vandræðalega og stóð svo upp, setti bollann í uppþvottavélina og sagði: Jæja þá er ég farin upp til mín. Hún sagði: Já. Og ég er konan sem þarf yfirleitt að segja svo margar sögur í einu að örþreyttir áheyrendur mega hafa sig alla við að halda megin söguþráðum á lofti. Og oft missi ég þá sjálf og þarf stundum að rekja mig langar leiðir til baka.
Og á morgun ætla kellurnar í deildinni sem borða saman í staffaherberginu í hádeginu að slá saman í matarpúkk og allir búnir að skrifa sig á lista og láta vita hvað þeir ætla að koma með. Ég stóð við listann í gær með pennann á lofti þar til mig var farið að verkja í handlegginn og hugsaði: Hvað ertu búin að elda oft eitthvað í lífinu. Láttu þér nú detta eitthvað í hug! En ekkert gekk.
Í hádeginu í dag skráði ég nafnið mitt á listann en setti spurningarmerki við hvers konar veitingar. Ætli mér sé ekki hollast að hypja mig heim snemma til að ég geti staðið með vonleysissvip fyrir framan hillurnar í Teaco þar til fer að kvölda.
Annars er þriðjudagshlaup í dag. Eftir tímaskiptin um daginn hittist hópurinn nú í Shotover (sem ég veit aldrei hvort er borið fram sjott eða sjút) sem kallar á smá hjólaferðalag hjá mér en á móti kemur að þetta er skemmtilegt útivitarsvæði með alls konar brekkum. Kannski að endrófínið nái að reka úr mér angurværðina.
föstudagur, 30. mars 2007
Merkilegur morgunn
Merkilegur morgunn. Hjólið mitt hefur eitthvað verið að gera mér lífið leitt og skröltir mikið þannig að í gær þegar ég ákvað að fara í hlaupaklúbbinn var ég hálfhrædd um að það bæri mig ekki þessa 15-20 mínútna leið sem ég þarf að hjóla í klúbbhittingarstaðinn. Hefði ekki þurft að velta þeim vanda mikið fyrir mér því þegar ég ætlaði að opna lásinn brotnaði lykillinn í honum og ég varð að hlaupa eins og landafjandi í hlaupin og aftur heim að þeim loknum. Ákvað að fara með hjólið í viðgerð á leiðinni í skólann sem var ekki auðvelt verk. Setti íþróttatöskuna á bakið en hengdi tölvutöskuna á stýrið og reyndi svo að stýra með annarri hendi og halda uppi afturdekkinu með hinni. Cowley Road hefur aldrei verið svona löng og seinfarin og ég var alveg að gefast upp þegar að ungur maður kom til mín og spurði hvert ég væri eiginlega að burðast með þetta hjól. Mér brá en sagðist alls ekki vera að stela því þó það gæti litið þannig út. Hann var hinn kurteisti og sagði að ég liti alls ekki út fyrir að vera hjólaþjófur þó hann vissi svo sem ekki hvernig þeir litu út. Að minnsta kosti sagðist hann vona að ég fyndi mér þægilegri leiðir við þjófnað ef ég væri í raun slíkur þjófur og ég var sammála þeirri athugasemd. En hann tók svo undir afturdekkið og í sameiningu gekk ferðin mun betur og ég komst áfallalaust í Beeline hjólabúðina og má sækja hjólið aftur klukkan fimm. Og var óskaplega þakklát þessum hjálpsama manni.
Það sem ég var orðin verulega sein fyrir ákvað ég að slá öllu upp í kæruleysi og fara niður í Blackwell bókabúðina og að panta bók. Þar sem ég svo vappa niður High Street sé ég á strætóstoppustöð upp við vegg svartan, flottan bakpoka. Þar sem hann virtist verulega umkomulaus hnippti ég í tvær japanskar konur sem biðu eftir strætó og spurði hvort hann væri þeirra en svo var nú ekki. Stóð þarna um stund og snerist í hringi en kíkti svo í pokann og þar var tölva og peningaveski og vegabréf svo mér var um og ó að skilja hann eftir. Það hékk á honum spjald frá arabísku flugfélagi með neyðarnúmeri en mér fannst hálfasnalegt að fara að hringja í það. Langt í lögreglustöðina en hinum megin við götuna er kaffistofa strætóbílstjóranna svo ég ákvað að fara með bakpokann þangað og athuga hvort hægt væri að finna eigandann í einhverjum vagnanna. Var rétt búin að útskýra þetta allt fyrir umsjónarmanninum þegar að gamall líklega pakistanskur maður kom móður og másandi með ferðastösku á eftir sér og hafi augsýnilega talað við þær japönsku og verið bent á mig. Hann var afar þakklátur að fá aftur pokann sinn og sagðist ætla að muna eftir mér í bænum sínum. Það fannst mér nú góð tilhugsun.
En á leiðinni áfram í vinnuna fór ég að hugsa hvað það þykir sjálfsagt hér að stela. Einu sinni fannst mér það alltaf béuð óheppni ef einhverju var stolið frá mér en hér er maður talinn heppinn ef það er ekki stolið frá manni – kannski ekki mikill setningarmunur en afar mikill hugmyndamunur. Og mér leiðist að búa í þannig hugmyndaheimi og vil fá hinn aftur.
Það merkilega við þessa kannski ómerkilegu sögu er hins vegar að þegar ég komst loks í vinnuna áðan og fór að segja hana Andrew skrifstofufélaga horfði hann á mig með opinn munn og sagði: En varstu aldrei hrædd um að þetta væri sprengja!
Og þá áttaði ég á mig að það er til enn hættulegri heimur sem er – kannski sem betur fer – enn utan míns hugarheims.
fimmtudagur, 29. mars 2007
Hugrenningatengls um áhyggjur
Þetta er undarleg færsla sem er tilkomin eftir afar krókótta þanka en þannig er að ég komst í tæri við bók um kennara og kennslu sem lofar afar góðu og ætlaði satt að segja að hafa þennan pistil um kennarastarfið. En sá fljótt að ég þyrfti að undirbúa mig mun betur til að gera því merkisstarfi þau skil sem það verðskuldar og dugar ekki að kasta til höndunum. En í gær sátum við Andrew skrifstofufélagi bak í bak yfir okkar verkefnum og vorum svona í forbífarten að ræða málin yfir öxlina og m.a. að tala um áhyggjur og einhvers staðar í samtalinu fór hann með sínum ástralska framburði að tala um fólk sem væri ‘prone to worry’ - og mér heyrðist hann segja ‘prune to worry’ og sá strax fyrir mér stóra, svarta áhyggjusveskju. Sá þetta alveg fyrir mér – góð og falleg hugsun er eins og safarík plóma en svo hellast áhyggjurnar yfir og hugsunin verður dökk og hrukkótt og steinninn í miðjunni risastór og má alls ekki gleypa. Og já - ég er vissulega áhyggjusveskja og það sem verra er að með genum og uppeldi hef ég komið þessu áfram í hana dóttlu sem getur á köflum verið enn meiri sveskja en móðir hennar. En hvernig tengist þetta svo kennarastarfinu? Jú því þegar ég var að hugsa um kennarastarfið - á undan sveskjunum- fór ég að hugsa um minn eigin kennaraþroska og varð þá hugsað til Ragnheiðar vinkonu minnar Ásgeirs sem ég kenndi með í mörg ár á unglingastiginu. Og hún kenndi mér sko margt en mest þó að vera aðeins minni áhyggjusveskja í kennslu. Eins og allir vita taka unglingar m.a. út sinn þroska með því að prófa sig áfram í tilverunni með mishóflegu uppsteyti við þá sem yfir þeim vilja ráða - eins og kennara. Þannig vaxa þeir og þetta hefði ég átt að vita en ótrúlega oft lét ég plata mig með í leikinn og fór að býsnast yfir einhverjum smámunum. Ragnheiður hafði annað lag á. Þegar að unglingarnir gerðu sitt besta til að ganga fram af okkur hló hún dillandi hlátri og skemmti sér konunglega og sló þar með öll vopn úr höndum uppreisnasinna sem yfirleitt hlógu bara líka. Og mál sem hefðu orðið í mínum meðförum margra tíma núningur og leiðindi gufuðu upp á methraða. Og þar sem ég var að rifja þetta upp fór ég að hugsa að líklega hefði ég verið svo lánsöm í lífinu að eignast vinkonur sem hafa einmitt þennan eiginleika að vera bara alltaf plómur. Áslaug vinkona - sem hefur einmitt þennan hæfileika að geta hlegið að minniháttar málum - hefur ítrekað reynt að kenna mér áhyggjusveskjunni móttóið: Einfaldaður líf þitt. Þetta er gott móttó að lifa eftir og felst bara í svona smá hlutum eins og að kaupa köku í stað þess að baka hana – ef baksturinn veldur þér á þeim tímapunti áhyggjum og hrukkum. Hvar værum við áhyggjusveskjurnar staddar án slíkra vina?
þriðjudagur, 27. mars 2007
Tíminn
Á sunnudaginn breyttu þeir tjallar hér yfir á sumartímann þannig að nú gerist mitt líf klukkutíma fyrr en þeirra sem eru enn heima á Fróni. Aumingja Michell kom það kvöld frá Rotterdam og dáðist mikið að mér á mánudagsmorguninn þegar hún heyrði mig skella útdyrahurðinni löngu fyrir sjö. Svaf sjálf áfram á sínu græna eyra grunlaus um eigið seinlæti.
Mér líkuðu umskiptin reyndar ágætlega þegar ég gekk heim úr vinnunni í gær rétt fyrir 6 í sól og birtu og kvöldið allt í einu orðin almennilegt kvöld með sólsetri en ekki bara myrkri. Hafði farið með hjólið mitt í viðgerð í uppáhaldshjólabúðina á sunnudaginn – það brakaði og brast í pedulunum. Eitthvað áttu þeir við þá en sögðu mér að koma aftur ef allt færi í sama farið og þá þyrfti að skipta um öxul (já ég veit að þetta er hjól en ekki bíll – en maðurinn sagði öxul!).
Það eina sem truflar mig með tímabreytinguna er að ég verð fjarri góðu gamni í haust þegar þeir skila aftur klukkutímanum þannig að ég kem út í mínus þegar upp er staðið. Og á mínum aldri fer hver mínúta að skipta máli.
Í dag var búið að spá gæðaveðri og 17 stiga hita en það var heldur skuggalegt að koma út í þykka þoku í morgun og ég var í fyrsta skipti hálfhrædd að hjóla í skólann. Fannst ég komin í íslenska útilegumannasögu þar sem farartæki og fólk birtist skyndilega úr þokunni. Henni fór ekki að létta fyrr en seinni partinn svo það var sko enginn 17 stiga hiti hér í Oxford í dag og bara af þrjósku sem ég fór ekki í vettlingana mína.
Fór í hádeginu að hitta þær Margréti og Elínu, Íslandskonur og flugustelpur (þær eru báðar að stússast eitthvað með ávaxtaflugur í vinnunni. Margrét að leita að lausn á krabbameini en ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað Elín gerir við sínar karlflugur) og við borðuðum saman hádegismat og lögðum á ráðin með hádegishlaup á fimmtudaginn. Dóttla mín hefur verið í einhverju mömmukasti undanfarið og langað til að koma og heimsækja múttu sína um páskana og lesa fyrir próf. Kærastinn hennar – þessi elska - búinn að splæsa á hana flugmiða sem honum hafði áskotnast. Vandinn samt sá að Michele sambýliskona á von á foreldrum sínum frá Luxeborg um páskana og ég kunni ekki við að fara að bæta við fleiri gestum á stórt heimili. Búin að skoða hótel og gistihús og allt frekar dýrt og dapurlegt. Nú en aumingja Elín hafði einhvern tíma sagt mér í bumbubanatíma í háskólaklúbbnum að þau hjón ætluðu með sína litlu tátu í páskafrí til Frakklands svo ég rauk á hana varnarlausa og falaðist eftir íbúðinni. Elínu þessum ljúfling fannst þetta sjálfsagt mál en lofaði mér samt að ræða þetta við Pálma manninn sinn sem mér heyrðist reyndar á henni að fengi yfirhöfuð litlu að ráða. Vona samt að hann segi já því dóttla er búin að panta flugmiðann og ætlar að mæta með allar sínar óskrifuðu ritgerðir og ólesnu skólabækur og ég verð vonandi komin að næsta kafla og þarf að birgja mig upp af aðferðafræðibókum fyrir fríið. Svo ætlum við að borða saman alíslensk páskaegg frá Nóa.
mánudagur, 26. mars 2007
Mamma beyglar alltaf munninn
Söng Bjartmar minnir mig hér forðum og ástæða þess að mamma beyglaði munninn var að hún var að ‘maskara augun’ fyrir ballferð. Þegar ég var að maskara mín í morgun datt mér í hug maskaraprófið sem ein kollega mín í háskólanum sagði mér frá. Prófið á sér þessa forsögu: Kolleginn ætlaði að biðja manninn sinn um að kaupa fyrir sig maskara í fríhöfninni og komst þá að raun um að maðurinn sem hún taldi hafa horft á sig ótal sinnum í andlitsmálun í gegnum ártuga samband þeirra hafði ekki hugmynd um hvað væri maskari. Hún hélt fyrst að þetta væri einsdæmi en sem sönn félagsvísindakona lagðist hún í rannsóknir og viti menn - það kom í ljós að þar sem hópur karla fékk þessa spurningu– hvað er maskari? – gat yfirleitt enginn svarað því rétt. Við Áslaug vinkona prófuðum þetta á okkar karlasamkundu í London um daginn og sá sem komst einna næst því sagði að þetta væri eitthvað til að smyrja í kringum augun – virkilega hugguleg konan hans! En prófið þetta stelpur næst þegar þið sitjið í karlahópi. Ekki það – eflaust geta þeir svarað í sömu mynt og spurt okkur um heddingar og hornspyrnu. En samt – ég varð alveg steinbit.
Hvílíkt blogg á mánudegi – afsakið.
Hvílíkt blogg á mánudegi – afsakið.
laugardagur, 24. mars 2007
Óskalög kjúklinga
Sit hér ein á háaloftinu á laugardagseftirmiddegi og hugsa til ykkar allra heima sem mér þykir vænt um og sakna sárlega og sendi ykkur eftirfarandi: Sniff - sniff.
Bókahátíðin (næstum) að baki
Og ég skemmti mér konunglega á þeim erindum sem ég sótti. Er til dæmis hætt að vera skotin í sálfræðingnum Bruner og búin að finna mér annan til að dáðst að, Colin Dexter pabba Inspector Morse. Hélt reynar að konur á mínum aldri ættu að vera farnar að kíkja á sér yngri menn en ég verð bara hrifnari og hrifnari eftir því sem þeir verða eldri. Það er fyrst þegar þeir fara að líta út eins og rykugar sveskjur að hjartað í mér fer á skeið! Hlustaði á Colin í hádeginu á fimmtudaginn og hann var að fjalla um muninn á bókinni og sjónvarpinu og gerði það á svona einkar ‘lún’ hátt. Hann sagði skemmtilega frá þessum mun t.d. sagði hann marga þykja vænt um bækurnar sínar en taldi ólíklegt að nokkur elskaði sjónvarpið sitt. Við bókmenntahátíðargestir kinkuðum kolli en ég held að það séu nú margir sem elska sjónvarpið sitt ofurheitt. Annað dæmi hans um óljós skil bóka og sjónvarps var þegar hann fór á krá með John Thaw sem lék Morse. Þar sat afgreiðslustúlkan, tvítug yngismær og las bók eftir Colin. Hún færði þeim kollur en mætti svo með bókina sína og spurði kurteislega hvort hann væri til í að árita hana fyrir sig. Colin uppveðraðist allur enda stúlkan ung og falleg og sagði: Alveg sjálfsagt my darling. Og stúlkan svaraði: Ég var ekkert að tala við þig!
Í hádeginu í gær fór ég að hlusta á James Naughty á BBC ræða við Alexander McCall Smith um kveneinkaspæjarastofu númer 1 og starfsmennina þar. Það var líka hið ágætasta erindi og afar gaman að heyra hvernig höfundur hugsar og skrifar bækurnar sínar. Hann var t.d. spurður um tedrykkju frú Ramotswe en hún og aðstoðarspæjarinn Maktusi þurfa reglulega að leggja frá sér verkin og hita sér rauðrunnate. Alexander sagði að þessi tedrykkja öll helgaðist m.a. af því að þegar hann vissi ekki hvað ætti að gerast næst þætti honum gott að láta sögupersónurnar taka sér bara smá tehlé. Það væri líka ákveðin hvíld fyrir okkur lesendur sem myndum alveg fara úr límingunni ef það væri ekki smá hvíldarhlé í bókum. Þeirra er kannski ekki þörf í kveneinkaspæjarasögunum enda brunar tíminn nú ekki beint áfram þar enda skrifaðar í eftirsjá höfundar eftir hægari tímatakti fortíðarinnar.
Endaði svo daginn í gær að fara að hlusta á höfundinn James Attlee kynna bókina sína Isolarion sem er um Cowley Road. James þvældist um götuna með segulband og ræddi við íbúana og verslunareigendurna þar. Þarna heyrði ég margt áhugavert t.d. er herra Taylor sem býr til og selur prestahempurnar einn af fáum í heiminum sem gerir hvorki upp á milli trúabragða né lærðra og leikra. Hann býr sem sagt ekki bara til hempur á kaþólska presta og lútherstrúar presta heldur saumur jafnframt hempur á lögmenn og dómara. Keypti bókina hans og fékk áritaða.
Mér fannst merkilegt að bæði James og Alexander tóku það fram í erindum sínum að þeir væru að skrifa um lítinn hluta af heiminum (Cowley og þorp í Botswana) en í trausti þess að það sem gerðist þær mætti yfirfæra á heiminn allan. Þetta er auðvitað það sem allir rannsakendur m.a. ég - eru að gera. Skoða örlítinn hluta af heiminum í þeirri von að þá þekkinguna megi nota til að skoða og skilja fleiri staði í heiminum.
Sem sagt búið að vera gaman á bókmenntahátíðinni en nú held ég að það sé þörf á að slá aðeins í ritgerðarklárinn minn. Varð ekki eins mikið úr verki og til stóð. Ég hef alltaf svolítið skerta sýn á sjálfa mig. Sé mig sem þessa ofurkonu sem skellir sér á hjólið að hlusta á höfunda og svo ætla ég að hjóla í snarhasti í vinnuna aftur og taka upp fyrri vísindastörf. Raunveruleikinn er að eftir erindið stend ég í rúman hálftíma í röð til að fá áritun. Fer svo í aðra röð að kaupa mér samloku. Hjóla hægt í vinnuna af því það er svo gaman að vera á ferli um bæinn á miðjun degi. Hita mér rauðrunnate í vinnunni og borða brauðið yfir netmogganum. Hugsa aðeins um erindið og laumast svo til að lesa aðeins í nýju bókinni og dáðst að áritunni. Finnst svo eiginlega ekki taka því að byrja því klukkan er orðin svo margt.
Í hádeginu í gær fór ég að hlusta á James Naughty á BBC ræða við Alexander McCall Smith um kveneinkaspæjarastofu númer 1 og starfsmennina þar. Það var líka hið ágætasta erindi og afar gaman að heyra hvernig höfundur hugsar og skrifar bækurnar sínar. Hann var t.d. spurður um tedrykkju frú Ramotswe en hún og aðstoðarspæjarinn Maktusi þurfa reglulega að leggja frá sér verkin og hita sér rauðrunnate. Alexander sagði að þessi tedrykkja öll helgaðist m.a. af því að þegar hann vissi ekki hvað ætti að gerast næst þætti honum gott að láta sögupersónurnar taka sér bara smá tehlé. Það væri líka ákveðin hvíld fyrir okkur lesendur sem myndum alveg fara úr límingunni ef það væri ekki smá hvíldarhlé í bókum. Þeirra er kannski ekki þörf í kveneinkaspæjarasögunum enda brunar tíminn nú ekki beint áfram þar enda skrifaðar í eftirsjá höfundar eftir hægari tímatakti fortíðarinnar.
Endaði svo daginn í gær að fara að hlusta á höfundinn James Attlee kynna bókina sína Isolarion sem er um Cowley Road. James þvældist um götuna með segulband og ræddi við íbúana og verslunareigendurna þar. Þarna heyrði ég margt áhugavert t.d. er herra Taylor sem býr til og selur prestahempurnar einn af fáum í heiminum sem gerir hvorki upp á milli trúabragða né lærðra og leikra. Hann býr sem sagt ekki bara til hempur á kaþólska presta og lútherstrúar presta heldur saumur jafnframt hempur á lögmenn og dómara. Keypti bókina hans og fékk áritaða.
Mér fannst merkilegt að bæði James og Alexander tóku það fram í erindum sínum að þeir væru að skrifa um lítinn hluta af heiminum (Cowley og þorp í Botswana) en í trausti þess að það sem gerðist þær mætti yfirfæra á heiminn allan. Þetta er auðvitað það sem allir rannsakendur m.a. ég - eru að gera. Skoða örlítinn hluta af heiminum í þeirri von að þá þekkinguna megi nota til að skoða og skilja fleiri staði í heiminum.
Sem sagt búið að vera gaman á bókmenntahátíðinni en nú held ég að það sé þörf á að slá aðeins í ritgerðarklárinn minn. Varð ekki eins mikið úr verki og til stóð. Ég hef alltaf svolítið skerta sýn á sjálfa mig. Sé mig sem þessa ofurkonu sem skellir sér á hjólið að hlusta á höfunda og svo ætla ég að hjóla í snarhasti í vinnuna aftur og taka upp fyrri vísindastörf. Raunveruleikinn er að eftir erindið stend ég í rúman hálftíma í röð til að fá áritun. Fer svo í aðra röð að kaupa mér samloku. Hjóla hægt í vinnuna af því það er svo gaman að vera á ferli um bæinn á miðjun degi. Hita mér rauðrunnate í vinnunni og borða brauðið yfir netmogganum. Hugsa aðeins um erindið og laumast svo til að lesa aðeins í nýju bókinni og dáðst að áritunni. Finnst svo eiginlega ekki taka því að byrja því klukkan er orðin svo margt.
En seinna í dag ætla ég að fara og kaupa mér freyðivín - opna það ein á Divinity Road og skála vel og lengi fyrir henni nöfnu minni Ársælsdóttur sem mun á sama tíma lyfta glasi í hópi góðra kvenna í Kópavogi og fagna hálfraraldaráfanganum mikla. Vildi afar gjarnan vera frekar í Kópavoginum.
fimmtudagur, 22. mars 2007
Að biðja bænirnar sínar
Ég vakna orðið svo snemma að morgni að ég held ekki haus þegar að líða tekur á kvöld og í gærkvöldi gat ég ekkert lesið í einkaspæjaranum og steinsofnaði án þess að biðja bænirnar mínar. Og bara við að skrifa þessa setningu fór ég aðeins að skammast mín fyrir bloggið því einhvern veginn er það nú svo að hjá mér og mínum þykir umræða um bænahald jaðra við argasta klám og mér finnst allt að því dónaskapur að ræða eigin trú. Er um æfina búin að sveiflast til og frá í trúnni og minn trúarpendúll á bæði snertifleti í tímum trúarhita og trúleysis.
Sem börn vorum við guð í nokkuð góðu sambandi og í herbergi okkar Ragnars bróður fór fram mikið helgihald á hverju kvöldi. Þar leiddi ég sem eldri systir bænalestur sem laut afar ströngum reglum. Man ekki reglurnar, en þær snerust um röðina á ótal barnabænum, faðirvorinu og svo almenna predikun um hvern átti að blessa og geyma. Við enduðum dagskrána með því að syngja ójesúbróðirbesti og eftir það mátti alls ekki tala. Stundum datt mamma inn í mæðrasamviskubitið og mætti til okkar á rúmstokkinn að segja kvöldbænir en hún kunni náttúrlega ekki neitt á okkar reglur svo við fórum fyrst kurteislega með henni yfir hennar dagskrá en um leið og hún lokaði dyrunum hófum við okkar eigin alvöru bænaritúal. Á þessum tíma vorum við brósi vikulegir gestir í barnamessu í Laugarneskirkju. Séra Garðar Svavarsson hjólaði um Laugarneshverfið á virkum dögum og sagði okkur nokkra æsispennandi hluta úr næsta kafla framhaldssögunnar en bað okkur að mæta á sunnudaginn til að heyra rest. Við gerðum allt fyrir séra Garðar og þegar hann bað okkur um að syngja: Svara – svara vertu velkominn - svo hátt að þakið lyftist af kirkjunni sat ég á fremsta bekk og æpti út í eitt. Reyndar af því að ég hélt í nokkur ár að við værum að syngja : Svavar, Svavar vertu velkominn - og að þar væri um að ræða pabba séra Garðars sem væri örugglega dáinn en jafnvel væntanlegur til baka- í gegnum þakið.
Um unglingsár hafði trúin alveg fjarað út þrátt fyrir að ég væri sumar eftir sumar að vinna í sumarbúðum Þjóðkirkjunnar þar sem ég fór oft með kvöldbænir og stjórnaði litlum börnum í biblíutímum við að lita jesúmyndir. Eftir að guð hvarf mér tímabundið á unglingsárum höfum við verið í svona on-off sambandi. Ég hef fulla trú á honum (eða henni) en hef aldrei verið almennilega sátt við millistykkið - eða kirkjuna. Mér finnst einhvern veginn eins og Megasi að guð sé í girðingunni amma – í hverdeginum og pólítíkinni og lífinu en ekki svona uppskrúfaður í óskiljanlegri túlkun presta sem geta sumir hverjir ekki talað um hann nema í nefmæltri falsettu sem ég veit ekki í hvaða kúrsi í guðfræðinni er eiginlega kennd (afsakið þetta er næstum ókurteist). En samt er ég nú alltaf að leita og í vetur prófaði ég að fara í Kvennakirkjuna og leist bara vel á. Mér finnst reyndar engu skipta hvort að guð er hann eða hún því fyrir mér hefur hann/hún lítið kyngervi en það er miklu meira gaman í Kvennakirkjunni af því presturinn er frábær og talar með hjartanu og ég á einhvern veginn auðveldara að hrífast og syngja með.
En svo er það þetta bænirnar. Væri ég heima á Hjarðarhagnum myndi ég örugglega ekki fara með bænir á hverju kvöldi. En hér í útlandinu finnst ég mér vera svo fjarri þeim sem mér þykir vænt og finnst ég á einhvern hátt bera ábyrgð á. Svo þetta með bænirnar er svona meira til að koma ábyrgðinni yfir á guð á meðan ég hef ekki tök á að axla hana almennilega. Og fyrst ég er á annað borð að þessu fá hinir og þessir - sem ég ber enga sérstaka ábyrgð á – að fljóta með. Bara svona til öryggis.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)