fimmtudagur, 22. mars 2007

Að biðja bænirnar sínar


Ég vakna orðið svo snemma að morgni að ég held ekki haus þegar að líða tekur á kvöld og í gærkvöldi gat ég ekkert lesið í einkaspæjaranum og steinsofnaði án þess að biðja bænirnar mínar. Og bara við að skrifa þessa setningu fór ég aðeins að skammast mín fyrir bloggið því einhvern veginn er það nú svo að hjá mér og mínum þykir umræða um bænahald jaðra við argasta klám og mér finnst allt að því dónaskapur að ræða eigin trú. Er um æfina búin að sveiflast til og frá í trúnni og minn trúarpendúll á bæði snertifleti í tímum trúarhita og trúleysis.
Sem börn vorum við guð í nokkuð góðu sambandi og í herbergi okkar Ragnars bróður fór fram mikið helgihald á hverju kvöldi. Þar leiddi ég sem eldri systir bænalestur sem laut afar ströngum reglum. Man ekki reglurnar, en þær snerust um röðina á ótal barnabænum, faðirvorinu og svo almenna predikun um hvern átti að blessa og geyma. Við enduðum dagskrána með því að syngja ójesúbróðirbesti og eftir það mátti alls ekki tala. Stundum datt mamma inn í mæðrasamviskubitið og mætti til okkar á rúmstokkinn að segja kvöldbænir en hún kunni náttúrlega ekki neitt á okkar reglur svo við fórum fyrst kurteislega með henni yfir hennar dagskrá en um leið og hún lokaði dyrunum hófum við okkar eigin alvöru bænaritúal. Á þessum tíma vorum við brósi vikulegir gestir í barnamessu í Laugarneskirkju. Séra Garðar Svavarsson hjólaði um Laugarneshverfið á virkum dögum og sagði okkur nokkra æsispennandi hluta úr næsta kafla framhaldssögunnar en bað okkur að mæta á sunnudaginn til að heyra rest. Við gerðum allt fyrir séra Garðar og þegar hann bað okkur um að syngja: Svara – svara vertu velkominn - svo hátt að þakið lyftist af kirkjunni sat ég á fremsta bekk og æpti út í eitt. Reyndar af því að ég hélt í nokkur ár að við værum að syngja : Svavar, Svavar vertu velkominn - og að þar væri um að ræða pabba séra Garðars sem væri örugglega dáinn en jafnvel væntanlegur til baka- í gegnum þakið.

Um unglingsár hafði trúin alveg fjarað út þrátt fyrir að ég væri sumar eftir sumar að vinna í sumarbúðum Þjóðkirkjunnar þar sem ég fór oft með kvöldbænir og stjórnaði litlum börnum í biblíutímum við að lita jesúmyndir. Eftir að guð hvarf mér tímabundið á unglingsárum höfum við verið í svona on-off sambandi. Ég hef fulla trú á honum (eða henni) en hef aldrei verið almennilega sátt við millistykkið - eða kirkjuna. Mér finnst einhvern veginn eins og Megasi að guð sé í girðingunni amma – í hverdeginum og pólítíkinni og lífinu en ekki svona uppskrúfaður í óskiljanlegri túlkun presta sem geta sumir hverjir ekki talað um hann nema í nefmæltri falsettu sem ég veit ekki í hvaða kúrsi í guðfræðinni er eiginlega kennd (afsakið þetta er næstum ókurteist). En samt er ég nú alltaf að leita og í vetur prófaði ég að fara í Kvennakirkjuna og leist bara vel á. Mér finnst reyndar engu skipta hvort að guð er hann eða hún því fyrir mér hefur hann/hún lítið kyngervi en það er miklu meira gaman í Kvennakirkjunni af því presturinn er frábær og talar með hjartanu og ég á einhvern veginn auðveldara að hrífast og syngja með.
En svo er það þetta bænirnar. Væri ég heima á Hjarðarhagnum myndi ég örugglega ekki fara með bænir á hverju kvöldi. En hér í útlandinu finnst ég mér vera svo fjarri þeim sem mér þykir vænt og finnst ég á einhvern hátt bera ábyrgð á. Svo þetta með bænirnar er svona meira til að koma ábyrgðinni yfir á guð á meðan ég hef ekki tök á að axla hana almennilega. Og fyrst ég er á annað borð að þessu fá hinir og þessir - sem ég ber enga sérstaka ábyrgð á – að fljóta með. Bara svona til öryggis.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Var það kvennakirkjumessan þar sem það var boðið upp á veitingar í lokin?;) já við Skuggi þökkum kærlega fyrir bænirnar!

Nafnlaus sagði...

Las mjög skemmtilegt viðtal við Þórarinn Eldjárn um síðustu helgi í blaði, líklega Blaðinu. Mér finnst alltaf athyglisvert að lesa það sem sá maður lætur sér um munn fara. En hann sagðist vera "trúheftur". Vill ekki leggja mat á annarra manna trú en finnst nánast eigi að lögleiða að menn haldi henni sem einkamáli sínu. Segir menn gjarnan fremja verstu verknaðina í krafti trúar, og trúmál og pólitík eigi aldrei samleið. Við vitum það svosem fyrir en orðir "trúheftur" höfðaði til mín.
Skil hins vegar alveg þetta með ábyrgðina sem þú vilt varpa yfir á guð. Ætli þetta sé ekki vandi flestra kvenna? A.m.k. mæðra? Ég finn mig þurfa að hugsa svona fast til afkomenda minna þegar ég vakna upp um nætur, senda þeim einhverjar verndandi hugsanir. Þetta er eflaust allt sama tóbakið þó ekki sé allt stílað á guð. Eygló mín er farin til Danmerkur í nokkra mánuði, Einar fékk að búa með vinum sínum í Mosfellsbæ í þennan mánuð (fullorðinsleikur) svo ég þarf mikið og fast að hugsa á nóttunni!
Bestu kveðjur, hugsum kannski saman í nótt!
Svala

Nafnlaus sagði...

Sæl Svalan mín - gaman að heyra frá þér - sakna ykkar hlaupvinkvenna minna.
Já auðvitað á þetta að vera einkamál - en samt gaman að pæla í trúnni. Er Eygló farin í skóla í danaveldi? Hvernig gengur lífið hjá þér?
kær kveðja
gg

Nafnlaus sagði...

Hæ aftur!
Eygló var að ljúka BA gráðunni í febrúar og stefnir á MA í fjölmiðlun í haust. Þar eru þó fjöldatakmarkanir svo hún er ekkert örugg með að komast inn. Er með góðan árangur úr BA svo henni er sagt að möguleikar séu góðir. Hún fékk litla námsmannaíbúð á kollegíi á Amager fram á haustið og ætlar að reyna að fóta sig í dönsku, leika sér og finna einhverja vinnu þar sem hún þarf að tala smádönsku og getur unnið fyrir matnum. Hún er bara nýfarin og engin reynsla komin á þetta en hún hefur gott af að prófa.
Annars er allt við það sama, kalt og leiðinlegt veður. Lengsti vetur sem ég man eftir. Mér er búið að vera kalt síðan í september.Bíð bara eftir smá sumri.Vona bara að það komi. Í fyrra var einn sólardagur hér, minnir mig. Þegar við keyrðum austur í rigninguna!
Hafðu það gott, kíki á þig hvern morgunn.
Kveðja,
Svala