föstudagur, 30. mars 2007

Merkilegur morgunn



Merkilegur morgunn. Hjólið mitt hefur eitthvað verið að gera mér lífið leitt og skröltir mikið þannig að í gær þegar ég ákvað að fara í hlaupaklúbbinn var ég hálfhrædd um að það bæri mig ekki þessa 15-20 mínútna leið sem ég þarf að hjóla í klúbbhittingarstaðinn. Hefði ekki þurft að velta þeim vanda mikið fyrir mér því þegar ég ætlaði að opna lásinn brotnaði lykillinn í honum og ég varð að hlaupa eins og landafjandi í hlaupin og aftur heim að þeim loknum. Ákvað að fara með hjólið í viðgerð á leiðinni í skólann sem var ekki auðvelt verk. Setti íþróttatöskuna á bakið en hengdi tölvutöskuna á stýrið og reyndi svo að stýra með annarri hendi og halda uppi afturdekkinu með hinni. Cowley Road hefur aldrei verið svona löng og seinfarin og ég var alveg að gefast upp þegar að ungur maður kom til mín og spurði hvert ég væri eiginlega að burðast með þetta hjól. Mér brá en sagðist alls ekki vera að stela því þó það gæti litið þannig út. Hann var hinn kurteisti og sagði að ég liti alls ekki út fyrir að vera hjólaþjófur þó hann vissi svo sem ekki hvernig þeir litu út. Að minnsta kosti sagðist hann vona að ég fyndi mér þægilegri leiðir við þjófnað ef ég væri í raun slíkur þjófur og ég var sammála þeirri athugasemd. En hann tók svo undir afturdekkið og í sameiningu gekk ferðin mun betur og ég komst áfallalaust í Beeline hjólabúðina og má sækja hjólið aftur klukkan fimm. Og var óskaplega þakklát þessum hjálpsama manni.


Það sem ég var orðin verulega sein fyrir ákvað ég að slá öllu upp í kæruleysi og fara niður í Blackwell bókabúðina og að panta bók. Þar sem ég svo vappa niður High Street sé ég á strætóstoppustöð upp við vegg svartan, flottan bakpoka. Þar sem hann virtist verulega umkomulaus hnippti ég í tvær japanskar konur sem biðu eftir strætó og spurði hvort hann væri þeirra en svo var nú ekki. Stóð þarna um stund og snerist í hringi en kíkti svo í pokann og þar var tölva og peningaveski og vegabréf svo mér var um og ó að skilja hann eftir. Það hékk á honum spjald frá arabísku flugfélagi með neyðarnúmeri en mér fannst hálfasnalegt að fara að hringja í það. Langt í lögreglustöðina en hinum megin við götuna er kaffistofa strætóbílstjóranna svo ég ákvað að fara með bakpokann þangað og athuga hvort hægt væri að finna eigandann í einhverjum vagnanna. Var rétt búin að útskýra þetta allt fyrir umsjónarmanninum þegar að gamall líklega pakistanskur maður kom móður og másandi með ferðastösku á eftir sér og hafi augsýnilega talað við þær japönsku og verið bent á mig. Hann var afar þakklátur að fá aftur pokann sinn og sagðist ætla að muna eftir mér í bænum sínum. Það fannst mér nú góð tilhugsun.


En á leiðinni áfram í vinnuna fór ég að hugsa hvað það þykir sjálfsagt hér að stela. Einu sinni fannst mér það alltaf béuð óheppni ef einhverju var stolið frá mér en hér er maður talinn heppinn ef það er ekki stolið frá manni – kannski ekki mikill setningarmunur en afar mikill hugmyndamunur. Og mér leiðist að búa í þannig hugmyndaheimi og vil fá hinn aftur.


Það merkilega við þessa kannski ómerkilegu sögu er hins vegar að þegar ég komst loks í vinnuna áðan og fór að segja hana Andrew skrifstofufélaga horfði hann á mig með opinn munn og sagði: En varstu aldrei hrædd um að þetta væri sprengja!

Og þá áttaði ég á mig að það er til enn hættulegri heimur sem er – kannski sem betur fer – enn utan míns hugarheims.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað var ég að senda þig svona eina! Jæja ég fer að koma að redda málum... hjálpa þér með páskaeggið og svona

Nafnlaus sagði...

Elsku Íslendingurinn! Hverju okkar dytti svona hræðilegt í hug?
Höldum áfram að vera bláeygðir Íslendingar!
Svala