þriðjudagur, 27. mars 2007

Tíminn


Á sunnudaginn breyttu þeir tjallar hér yfir á sumartímann þannig að nú gerist mitt líf klukkutíma fyrr en þeirra sem eru enn heima á Fróni. Aumingja Michell kom það kvöld frá Rotterdam og dáðist mikið að mér á mánudagsmorguninn þegar hún heyrði mig skella útdyrahurðinni löngu fyrir sjö. Svaf sjálf áfram á sínu græna eyra grunlaus um eigið seinlæti.
Mér líkuðu umskiptin reyndar ágætlega þegar ég gekk heim úr vinnunni í gær rétt fyrir 6 í sól og birtu og kvöldið allt í einu orðin almennilegt kvöld með sólsetri en ekki bara myrkri. Hafði farið með hjólið mitt í viðgerð í uppáhaldshjólabúðina á sunnudaginn – það brakaði og brast í pedulunum. Eitthvað áttu þeir við þá en sögðu mér að koma aftur ef allt færi í sama farið og þá þyrfti að skipta um öxul (já ég veit að þetta er hjól en ekki bíll – en maðurinn sagði öxul!).
Það eina sem truflar mig með tímabreytinguna er að ég verð fjarri góðu gamni í haust þegar þeir skila aftur klukkutímanum þannig að ég kem út í mínus þegar upp er staðið. Og á mínum aldri fer hver mínúta að skipta máli.
Í dag var búið að spá gæðaveðri og 17 stiga hita en það var heldur skuggalegt að koma út í þykka þoku í morgun og ég var í fyrsta skipti hálfhrædd að hjóla í skólann. Fannst ég komin í íslenska útilegumannasögu þar sem farartæki og fólk birtist skyndilega úr þokunni. Henni fór ekki að létta fyrr en seinni partinn svo það var sko enginn 17 stiga hiti hér í Oxford í dag og bara af þrjósku sem ég fór ekki í vettlingana mína.
Fór í hádeginu að hitta þær Margréti og Elínu, Íslandskonur og flugustelpur (þær eru báðar að stússast eitthvað með ávaxtaflugur í vinnunni. Margrét að leita að lausn á krabbameini en ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað Elín gerir við sínar karlflugur) og við borðuðum saman hádegismat og lögðum á ráðin með hádegishlaup á fimmtudaginn. Dóttla mín hefur verið í einhverju mömmukasti undanfarið og langað til að koma og heimsækja múttu sína um páskana og lesa fyrir próf. Kærastinn hennar – þessi elska - búinn að splæsa á hana flugmiða sem honum hafði áskotnast. Vandinn samt sá að Michele sambýliskona á von á foreldrum sínum frá Luxeborg um páskana og ég kunni ekki við að fara að bæta við fleiri gestum á stórt heimili. Búin að skoða hótel og gistihús og allt frekar dýrt og dapurlegt. Nú en aumingja Elín hafði einhvern tíma sagt mér í bumbubanatíma í háskólaklúbbnum að þau hjón ætluðu með sína litlu tátu í páskafrí til Frakklands svo ég rauk á hana varnarlausa og falaðist eftir íbúðinni. Elínu þessum ljúfling fannst þetta sjálfsagt mál en lofaði mér samt að ræða þetta við Pálma manninn sinn sem mér heyrðist reyndar á henni að fengi yfirhöfuð litlu að ráða. Vona samt að hann segi já því dóttla er búin að panta flugmiðann og ætlar að mæta með allar sínar óskrifuðu ritgerðir og ólesnu skólabækur og ég verð vonandi komin að næsta kafla og þarf að birgja mig upp af aðferðafræðibókum fyrir fríið. Svo ætlum við að borða saman alíslensk páskaegg frá Nóa.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hehehe þetta verða geggjaðir páskar:)

Nafnlaus sagði...

Frábært innlegg hjá þér ein leiðinlegt að veðrið hjá þér sé svona. Hjá mér er líka þungskýjað en það hefur haldist þurrt. Minn vinnustaður er hérna úti í horni í íbúðinni minni. Reyndar því miður ekki verið mikið gert í því horni síðustu viku. En fyrir vikið þarf ég ekki að ferðast neitt út frekar en ég vil fyrr en í spænskuna.

En ég kom hér inn sérstaklega mín kæra til að þakka fyrir innleggið í hjólreiðaverkefnið mitt sem gaf mér bara töluverða orku og varð til þess að ég ákvað hreinlega að senda meil með fyrirspurn á allt borgarráðið. Hugsaði með mér að þau væru búin að samþykkja þessi markmið um hjólasamgöngur og þá er bara að sýna fram á hvernig það muni vera gert því annars eru þau bara að segja að á vegum borgarinnar séu gerð mjög vönduð skjöl um það sem væri kannski gaman að hafa en ætla ekkert að gera það síðan.

Svo er náttúrlega frábært að heyra hvernig aðstæður eru annarsstaðar. Skil ekki hvað ég var að hugsa að fara ekki til Kaupmannahafnar að gera verkefnið. Það hefði ábyggilega gefið mér þvílíka innspýtingu. Knús Þurý

Nafnlaus sagði...

Jú takk.....fæ netfangid hjá henni á morgun.