sunnudagur, 13. maí 2007
Lísa í Undralandi
Mér leið svolítið eins og Lísu í Undralandi þegar ég vaknaði í morgun eftir allt of stuttan svefn. Eins og hún hef ég ekki alveg verið að ná áttum í viðburðunum í kringum mig.
Sat hér heima í rólegheitum á laugardegi þegar að Ingrid leiðbeinandi hringdi í mig upp úr þrjú og bauð mér í sextugsafmælið sitt – þremur tímum síðar. Reikna með að ég hafi ekki verið alveg efst á gestalistanum en engu að síður fallega boðið. Ég var hins vegar fyrir löngu búin að troða mér með í almennilega stemningu hjá íslensku krökkunum hér í Oxford sem forðum buðu mér með í kjötsúpuna. Í því hófi átti að takast á við júróvísíon, kosningar og svo að kveðja Sigurð sem floginn er burt með sína gráðu að gera það gott heima. Þurfti auðvitað drjúgan tíma til svo margra verka svo þau sendu út dagskrá sem hófst með árbíti um hádegisbil.
Boðaði seina komu í gleðskapinn og mætti fyrst með blóm og kort í kampavín til Ingridar sem var svo elskuleg að halda upp á það í gamalli stjörnuskoðunarstöð Green skólans sem reyndist einmitt í næsta nágrenni við Íslendingagleðina. Ég fannst strax fyrir utangáttaeinkennunum þar enda höfðu fæstir gestirnir hugmynd um mína tilvist þó þeir reyndu þessir kurteisustu að spjalla við mig. Sá líka fljótt að hér eru konur á mínum aldri meira og minna í einhvers konar skærlitum silkitúnikkum en ekki brókarlufsum úr Gap og fannst ég dálítið út úr kú í mínum galla.
Kvaddi Ingrid og skokkaði heim til Önnu Stellu og Sigmars sem hýstu þennan hluta Íslendingagleðinnar. Þar voru allir á útopnu að elda þennan líka frábæra kvöldverð sem var sko enginn venjulegur breskur moðsoðningur heldur alvöru gómsætar, grillaðar og fylltar svínalundir, kartöflur og salat og sérvalið gæðarauðvín með. Alvöru íslensk skyrkaka á eftir. Og flögur. Og fullt af alvöru íslensku sælgæti. Jabb – þau kunna á þessu lagið þessir fátæku námsmenn í útlöndum!
Þetta var hins vegar ekkert sældarpartý því ég þurfti ekki bara að fylla út getraunaseðil um júróvísíon heldur tvo seðla um kosninganiðurstöðurnar. Var illa á gati í Júróvísion og hef ekki almennilega náð að fylgjast með þar og var eiginlega litlu skárri í kosningaspánni. Það var heldur ekki auðvelt fyrir félagsvísindakerlingu eins og mig að fara að reikna út prósentur fyrir alla flokka í öllum kjördæmum og þó ég hafi reynt að svindla með því að kíkja á síðustu Gallúpkönnun er ég hrædd um að það þurfi eitthvað að fjölga þingmönnum á þingi ef mínar prósentur eiga að ganga upp. Fegin að koma þessu frá ofan í kornflekskosningakjörkassann.
Kosningavakan sjálf var skemmtileg og vel undirbúin. Við vorum eins og geimferðarstofnun með marga tölvuskjái í gangi og inn á milli var hringt í vini og kunningja á skæpinu til að taka stöðuna í ólíkum kjördæmum. Ég var samt í fyrsta sinn að vaka með fólki sem ég veit ekki hvar stendur allt í pólítíkinni - treysti því að Margrét hafi kosið pabba sinn eins og ég (ekki pabba minn heldur hennar líka). Kunni því ekki við að fagna almennilega þegar að stjórnin féll enda fann ég smá til með Geir Haarde þegar hann sagðist þurfa að segja af sér í fyrramálið. Ég er soddan kóari að mér líður illa þegar að fréttamenn spyrja fallinn stjórnmálamann þrisvar: Og hvernig líður þér svo núna? Og það sjá allir – eða að minnsta kosti ég - að hann er alveg að fara að skæla. Eins gott að ég sat svona yfirveguð eins og hinir því ég var ekki fyrr byrjuð að gleðjast yfir föllnu stjórninni en að hún reis aftur upp frá dauðum – og guð má vita hvert. Og mér fór aftur að líða eins og Lísu og ákvað að fara heim að sofa með barnafólkinu og láta hinum eftir að mynda stjórnina – eða ekki.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli