þriðjudagur, 3. apríl 2007

Depressjónir



Ég veit að ég á ekki að vera að belgja mig yfir depressjónum og ræða um mínar sem koma – sem betur fer – afar sjaldan og endast venjulega stutt. Enda standa þær depressjónir ekki undir nafni og eru mun frekar í ætt við dagsdepurð og angurværð (sem mér finnst svo fallegt orð og skáldlegt). Það er yfir mér örlítil angurværð – það hljómar vel og lýsir ástandinu á mér í augnablikinu. Angurværðin stafar fyrst og fremst af því að ég er í basli í skrifunum og þar sem þau eru nú u.þ.b. 95% af daglegum athöfnum í vöku (og stundum eru þau líka að lauma sér í draumana) endurspeglar gengið þar svona almenna Nasdaq vísitölu sálarinnar. Angurværðin mín lýsir sér einna best í verulegu andleysi þannig að ég get ekki einu sinni bullað almennilega – og því ekki bloggað. Mér dettur ekkert í hug að segja í símtölum – sem betur fer eru þau ekki mörg og mest frá fólki sem elskar mig og bara tekur mér eins og hverju öðru hundsbiti og í gær settist ég við eldhúsborðið á móti leigusalanum og datt ákkúrat ekkert umræðuefni í hug. Drakk tebollann minn, brosti vandræðalega og stóð svo upp, setti bollann í uppþvottavélina og sagði: Jæja þá er ég farin upp til mín. Hún sagði: Já. Og ég er konan sem þarf yfirleitt að segja svo margar sögur í einu að örþreyttir áheyrendur mega hafa sig alla við að halda megin söguþráðum á lofti. Og oft missi ég þá sjálf og þarf stundum að rekja mig langar leiðir til baka.

Og á morgun ætla kellurnar í deildinni sem borða saman í staffaherberginu í hádeginu að slá saman í matarpúkk og allir búnir að skrifa sig á lista og láta vita hvað þeir ætla að koma með. Ég stóð við listann í gær með pennann á lofti þar til mig var farið að verkja í handlegginn og hugsaði: Hvað ertu búin að elda oft eitthvað í lífinu. Láttu þér nú detta eitthvað í hug! En ekkert gekk.

Í hádeginu í dag skráði ég nafnið mitt á listann en setti spurningarmerki við hvers konar veitingar. Ætli mér sé ekki hollast að hypja mig heim snemma til að ég geti staðið með vonleysissvip fyrir framan hillurnar í Teaco þar til fer að kvölda.


Annars er þriðjudagshlaup í dag. Eftir tímaskiptin um daginn hittist hópurinn nú í Shotover (sem ég veit aldrei hvort er borið fram sjott eða sjút) sem kallar á smá hjólaferðalag hjá mér en á móti kemur að þetta er skemmtilegt útivitarsvæði með alls konar brekkum. Kannski að endrófínið nái að reka úr mér angurværðina.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ dúllan mín. Þekki þessa depurð sem þú setur í svo skemmtileg orð. Eins og mér finnst ótrúlega gaman að vera hérna á Spáni þá held ég hreinlega að þessi mastersritgerð taki bara hrikalega mikið á mann. Hvað þá þitt mikla doktorsverk sem er svona gríðarleg vinna.

Maður reynir eins og maður getur að vera með einhverja sköpun dag eftir dag og viku eftir viku. Síðan er bara eins og maður verði uppurinn. Og ég sé alveg að það er mjög margt að þessari ritgerð minni eins og hún stendur núna en hef einhvernvegin ekki orku í að laga hana í bili. Þannig að það er glæsilegt að það séu að koma páskar svo ég sé komin í eitthvað frí.
Vona þá að andinn komi yfir mig síðar. En það sem ég var nú bara að reyna að koma að mín kæra er að svona hugarsmíð og vinna tekur greinilega bara töluvert af manni svo að það er ekki skrýtið þótt svona depurð komi inn á milli.

Vona að þú með þína miklu og skemmtilegu sköpun og sögugerð hristir þetta af þér og eigir yndislega páska með dóttlunni.

Hjólaði 129 km í gær að mestu til þess að sjá nýja húsið mitt á Spáni sem þú átt náttúrlega eftir að heimsækja okkur í. Risaknús og faðmlag frá vinkonu þinni á Spáni.

Nafnlaus sagði...

Hæ pæ - þér líkt að vera svona uppörfandi og styðjandi. Það er rétt hjá þér að þetta verður stundum dálítið mikið - líka þegar að svona verkefni eru eina viðfangsefnið - þannig að þegar að ekkert gegnur er ekki hægt að segja bara - ókey - nú vinn ég bara í hinu smá stund.
En takk fyrir þetta - líður mun betur í dag - kannski var það hvítvínsglasið í páskamatnum áðan - þar sem rétturinn minn. melónusneiðar með ítalskri skinku, balsmansírópi og parmaseanflyksum sló alveg í gegn!
Hlakka mikið til að koma í innflutningpartýið - verður það ekki örugglega í rúma viku?