fimmtudagur, 5. apríl 2007

Upp er runninn...


Skínandi fallegur skírdagur hér í Oxford. Reyndar vita þeir hér í kringum mig ekkert af honum svo ég geng um eins og trúboði og segi þeim frá síðustu kvöldmáltíðinni sem þeir segja að eigi sér engan sérstakan dag. Þeir kalla líka föstudaginn langa ‘föstudaginn góða’ svo það er ekki von á góðu úr þeirri áttinni. Andrew skrifstofufélagi taldi það mun skynsamlegra að kalla hann langan en góðan – ef maður setti sig í spor þess sem væri á krossinum. Það ku vera aðal verslunardagurinn að vori þannig að heilagleikinn er einhvern veginn minni hér en ég á að venjast. Enda hjólaði ég bara að venju í vinnuna í morgun og sólin skein en þessi 16 stig sem veðurfréttirnar lofuðu í gær eru ekki alveg mætt og það blés köldu inn að beini.

Dóttla situr í þessum skrifuðu orðum í flugvél og nálgast landið óðfluga. Er vonandi að kaupa sælgætiskassann sem ég bað hana um í flugbútíkinni og með lýsið frá Hannesi í ferðtöskunni. Verst ég gleymdi að biðja um meira gulrótarappelsínumarmelaði. Þarf að fara sparlega með rest ef hún á að duga fram í maí.

Angurværðin blásin af og rétturinn minn (melónusneiðar með parmaskinku, balamsýrópi og parmaseanosti) í starfsmannaboðinu þótti til fyrirmyndar. Kaflabjáninn er að taka á sig einhvers konar mynd sem ég get sætt mig við og nú er bara að bretta upp ermar og sjá hvað ég kemst langt með hann áður en ég fer að taka á móti Rönku úr rútunni síðdegis. Hlakka mikið til að faðma hana.

Engin ummæli: