fimmtudagur, 17. maí 2007
Uppstigningadagur
Það er rólegt hér í vinnunni í dag þó að það skýrist ekki af uppstigningadeginum. Þeir kannast lítið við hann hér og ég er hætt að ræða íslenska helgidaga við skrifstofufélagana mína. Það er þá helst að hún Zeenat myndi skilja þessi trúartengsl öll. Hún er múslimi og fer reglulega upp á loft að biðja bænir. Ég er orðin öllu fróðari um hennar trú og venjur. Finnst höfuðklúturinn hennar í fínu lagi og öfunda hana stundum af því að þurfa ekki að baslast neitt með hárið á sér – finnst reynar út í hött að hún megi ekki hjóla í kuflinum (eða hvað það nú heitir). Hún vill gjarnan hreyfa sig meira svo við Sandra sýndum henni háskólaklúbbinn en hún má auðvitað ekki mæta þar í kynjablandaða tíma. Misskildi hana aðeins um daginn þegar hún sagðist þurfa að fara heim til sín um helgar að kenna. Hvað ertu að kenna spurði ég og heyrðist hún segja þolfimi (airobic). Hvatti hana eindregið til fá að kenna slíka tíma fyrir trúarsystur sínar í háskólaklúbbnum og sagðist sjálf ætla að mæta. Kom í ljós að hún er að kenna arabísku (arabic) sem ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á að læra. Bauð henni að koma út að borða með okkur á föstudaginn og var búin að tryggja að hægt væri að fá grænmetispulsur á the Big Bang – en hún má víst ekki sitja innan um sukkara sem vilja rauðvínsglas með matnum þannig að ég verð að kveðja hana á annan hátt. Mikið er ég þakklát fyrir mitt hlustskipti í lífinu – þó hún virðist líka afskaplega sátt við sitt.
Annars er spólan mín hér í Oxford alveg að klárast og rúllar áfram á methraða. Finn að stressið er aðeins að læðast upp að hjartarótum því nú að klára að gera allt sem átti að vera löngu búið gera. Einn liður í því var að draga Michele í danstíma með Pascal í gærkvöldi. Nú er ég orðin ævilangur meðlimur í klúbbnum Ceroc og get hvenær sem er komið aftur og lært meira að dansa í ráðhúsinu. Var eitthvað að tuða yfir því að þurfa að verða meðlimur fyrir eitt kvöld. Stúlkan sagði að það væri af tryggingaástæðum sem mér fannst ekki lofa góðu um framhaldið en hún fullvissaði mig um að dansinn væri með öllu hættulaus. Kom svo í ljós að æviáskriftin kostaði bara tvö pund og fylgdu með piparmyntur (svo maður gæti andað huggulega upp í dansfélagana) og mynddiskur með öllum helstu 'moves'.
Þetta var hin skemmtilegasta reynsla. Við mættum með fyrstu mönnum og mér leið hálf asnalega að sitja á rauðum plussstól upp við vegg í risastórum bæjarráðssalnum. En viti menn, þegar á leið streymdi þangað fólk á öllum aldri og líklega höfum við verðið um eða yfir 60 í dansa. Við fórum í byrjendatíma en vorum held ég einu almennilegu byrjendurnir (Pascal reyndar búin að mæta oft áður). Og svo röðuðum við okkur í þrjár raðir og eftir hvert nýtt spor eða 'move' skiptum við dömurnar um dansherra – sem merkilegt nokk voru þarna í lange baner. Ég dansaði þarna við litla stráka sem ekki var enn sprottin grön og háöldruð gamalmenni og allt þar á milli.
Ceroc er einhvers konar Komdu að dansa og kenna bland af jive og salsa og undir dansinum þeytti alvöru dj skífur af miklum móð. Eftir um klukkutíma æfingu fengum við tíu mínútna frjálsan tíma til að æfa sporin áður en reynsluboltarnir fengu salinn. Sumir í byrjendaliðinu héldu svo áfram með þessum kláru en við almestu aumingjarnir fórum fram á gang í sérkennslu. Að lokum var svo boðið upp á klukkutíma ball en þá fannst okkur Michele komið nóg og kvöddum. Góð hugmynd fyrir ráðhúsið í Reykjavík.
Fleiri verkefni eru svo framundan. Ég þarf að finna leiðir til að koma 1000 kílóum af bókum og pappír í póst heim á leið og skoða hvort ég kem fötunum mínum aftur í töskurnar mínar. Þarf að kveðja hlaupaklúbbinn (geri það í kvöld), Rakel í háskólaleikfiminni (geri það á mánudaginn) og stelpurnar í staffaherberginu (geri það á þriðjudaginn). Á eftir að fara að út að borða með öllum þeim góðu sem ég hef kynnst hér og skráði mig í hlaup á sunnudaginn þó að spáin sé hundleiðinleg og ég eiginlega búin að tapa niður hlaupum.
Winifred er búin að lofa mér aftur herberginu mínu næsta sumar ef ég vil koma í heimsókn. Þá ætlar mamma að koma með.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli