fimmtudagur, 10. maí 2007
Hvað ætti ég að gefonum?
Fór í bæinn í gær að kaupa afmælisgjöf til að senda heim til Hannesar. Það var heilmikið mál að finna út úr því í allri rigningunni. Og ekkert auðvelt að velja gjöf handa honum.
Fyrst eftir að við fórum að mæna hvort upp í annað gaf ég honum alls konar frumlegar gjafir. Stundum heitfeng eða harmþrungin ljóð – svona eftir því sem við átti hverju sinni. Fyrir fimmtugsafmælið hans lá ég ber að ofan á bekk í dýraspítala út á Jótlandi meðan að Peder dýralæknir reyndi eins og hann gat að taka röngtenmynd af hjartanu á mér. Ætlaði að setja hana í ramma en Peder kunni ekkert á tækið svo hún varð allt of dökk. Ég þurfti að segja Hannesi hvað þetta væri.
Nú er ég komin meira svona út í peysur.
Hannesi finnst heldur ekkert auðvelt að finna gjafir handa mér. Segir að ég kunni ekki nógu vel að meta þær sem ég fæ frá honum – sem er ekki satt. Hann hefur gefið mér ýmsar gjafir sem ég er alsæl með. Hann er líklega að meina sloppinn. Hann gaf mér einu sinni ægilega fallegan vínrauðan silkislopp. Mér fannst hann flottur en hann var svo síður að hann hefði passað betur á konu sem væri þetta um tveir og fjörutíu. Ferðirnar niður í póstkassa eftir Mogganum voru eilífar glæfraferðir og ég sífellt að flækjast í sloppnum og detta á hausinn í stiganum – og vildi náttúrlega lifa lengur fyrst ég var búin að hitta hann.
Nema að hann sé að meina nærfötin? Hann gaf mér nefnilega ein jólin þessi líka dásamlega fallegu nærföt keypt í uppáhaldsnærbuxnabúðinni minni – rétt stærð og allt. Þau eru öll í blúndum – sem mig klæjar svo agalega undan. Og einhvern veginn er ég ekkert sexý í þeim þar sem ég stend og reyni að klóra mér á bakinu á hurðarkörmum. Ég á þau samt í skúffunni minni og þau eru æðisleg.
Svo spurði hann mig eitt árið hvort við værum ennþá í þessu að gefa hvort öðru gjafir sem væru táknrænar – og var eitthvað svo niðurdreginn að ég sagði: Nei- nei alls ekki. Og fékk þá örbylgjuofninn í jólagjöf – svo ég var ekki lengi að breyta því aftur og er fyrir löngu búin að koma honum í skilning um að sérhver gjöf frá honum sé þrungin og sliguð af merkingu.
Vona bara að hann haldi ekki að það sé gagnkvæmt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli