þriðjudagur, 15. maí 2007

Í kulda og trekki


Ég er flúin í kvistherbergið mitt og sit núna og hamast við að
klára það sem löngu átti að vera búið. Úti rignir eins og hellt væri úr fötu og á skrifstofunni hlægja þau skrifstofufélagar dátt að Íslendingum sem hélst ekki við þar vegna kulda. Gafst upp á að sitja með bláar tær, fingur og varir í ullarsokkum og flíspeysu og reyna að lemja lyklaborðið mér til hita. Það er ekki von að kaflinn mjakist áfram þegar heilinn er jafnfrosinn eins og restin af mér. Kyndingin var tekin af byggingunni fyrir páska og hefur ekki verið sett á aftur þrátt fyrir kulda- og vætutíð. Að opna skrifstofuna er eins og að opna gamlan ísskáp sem er aðeins farinn að gefa sig.

Kvistherbergið er hins vegar notalegt. Niðrí stiga stendur málarinn káti, sveittur og rauður og syngur með útvarpinu og niðri í stofu æfir Winnifred tónskalann á píanóið. Hún er að fara í sinn þriðja píanótíma síðan hún var skólastúlka og er mjög samviskusöm.

Við Bernstein - hinn dáni félagsfræðingur - reynum í sameiningu að púsla saman kafla átta og gengur hægt. Það er ekki auðvelt að skrifa með framliðnum. Úti í bæ situr Michele og rembist við að koma saman lokapartýi fyrir mig þrátt fyrir hógvær mótmæli mín. Hverjum viltu bjóða spyr hún ströng og ég verð eitthvað svo mát. Erum búnar að velja stað en gengur verr að finna stund. Ætlum að ljúka dvölinni með hvelli svo að segja með því að fara á veitingastaðinn The Big Bang sem sérhæfir sig í oxfordskum pulsum og kartöflumús. Orðin pínulítið stressuð yfir alls konar hlutum ein og að ná að ná ekki að klára kaflaskrattann fyrir brottför og finna leið til að bóka öllum bókunum mínum aftur heim á Hjarðarhagann. Ætla að reyna að halda mig við efnið hér undir kvistnum og sendi ykkur heima bara koss.

Engin ummæli: