laugardagur, 24. mars 2007

Bókahátíðin (næstum) að baki


Og ég skemmti mér konunglega á þeim erindum sem ég sótti. Er til dæmis hætt að vera skotin í sálfræðingnum Bruner og búin að finna mér annan til að dáðst að, Colin Dexter pabba Inspector Morse. Hélt reynar að konur á mínum aldri ættu að vera farnar að kíkja á sér yngri menn en ég verð bara hrifnari og hrifnari eftir því sem þeir verða eldri. Það er fyrst þegar þeir fara að líta út eins og rykugar sveskjur að hjartað í mér fer á skeið! Hlustaði á Colin í hádeginu á fimmtudaginn og hann var að fjalla um muninn á bókinni og sjónvarpinu og gerði það á svona einkar ‘lún’ hátt. Hann sagði skemmtilega frá þessum mun t.d. sagði hann marga þykja vænt um bækurnar sínar en taldi ólíklegt að nokkur elskaði sjónvarpið sitt. Við bókmenntahátíðargestir kinkuðum kolli en ég held að það séu nú margir sem elska sjónvarpið sitt ofurheitt. Annað dæmi hans um óljós skil bóka og sjónvarps var þegar hann fór á krá með John Thaw sem lék Morse. Þar sat afgreiðslustúlkan, tvítug yngismær og las bók eftir Colin. Hún færði þeim kollur en mætti svo með bókina sína og spurði kurteislega hvort hann væri til í að árita hana fyrir sig. Colin uppveðraðist allur enda stúlkan ung og falleg og sagði: Alveg sjálfsagt my darling. Og stúlkan svaraði: Ég var ekkert að tala við þig!

Í hádeginu í gær fór ég að hlusta á James Naughty á BBC ræða við Alexander McCall Smith um kveneinkaspæjarastofu númer 1 og starfsmennina þar. Það var líka hið ágætasta erindi og afar gaman að heyra hvernig höfundur hugsar og skrifar bækurnar sínar. Hann var t.d. spurður um tedrykkju frú Ramotswe en hún og aðstoðarspæjarinn Maktusi þurfa reglulega að leggja frá sér verkin og hita sér rauðrunnate. Alexander sagði að þessi tedrykkja öll helgaðist m.a. af því að þegar hann vissi ekki hvað ætti að gerast næst þætti honum gott að láta sögupersónurnar taka sér bara smá tehlé. Það væri líka ákveðin hvíld fyrir okkur lesendur sem myndum alveg fara úr límingunni ef það væri ekki smá hvíldarhlé í bókum. Þeirra er kannski ekki þörf í kveneinkaspæjarasögunum enda brunar tíminn nú ekki beint áfram þar enda skrifaðar í eftirsjá höfundar eftir hægari tímatakti fortíðarinnar.

Endaði svo daginn í gær að fara að hlusta á höfundinn James Attlee kynna bókina sína Isolarion sem er um Cowley Road. James þvældist um götuna með segulband og ræddi við íbúana og verslunareigendurna þar. Þarna heyrði ég margt áhugavert t.d. er herra Taylor sem býr til og selur prestahempurnar einn af fáum í heiminum sem gerir hvorki upp á milli trúabragða né lærðra og leikra. Hann býr sem sagt ekki bara til hempur á kaþólska presta og lútherstrúar presta heldur saumur jafnframt hempur á lögmenn og dómara. Keypti bókina hans og fékk áritaða.

Mér fannst merkilegt að bæði James og Alexander tóku það fram í erindum sínum að þeir væru að skrifa um lítinn hluta af heiminum (Cowley og þorp í Botswana) en í trausti þess að það sem gerðist þær mætti yfirfæra á heiminn allan. Þetta er auðvitað það sem allir rannsakendur m.a. ég - eru að gera. Skoða örlítinn hluta af heiminum í þeirri von að þá þekkinguna megi nota til að skoða og skilja fleiri staði í heiminum.

Sem sagt búið að vera gaman á bókmenntahátíðinni en nú held ég að það sé þörf á að slá aðeins í ritgerðarklárinn minn. Varð ekki eins mikið úr verki og til stóð. Ég hef alltaf svolítið skerta sýn á sjálfa mig. Sé mig sem þessa ofurkonu sem skellir sér á hjólið að hlusta á höfunda og svo ætla ég að hjóla í snarhasti í vinnuna aftur og taka upp fyrri vísindastörf. Raunveruleikinn er að eftir erindið stend ég í rúman hálftíma í röð til að fá áritun. Fer svo í aðra röð að kaupa mér samloku. Hjóla hægt í vinnuna af því það er svo gaman að vera á ferli um bæinn á miðjun degi. Hita mér rauðrunnate í vinnunni og borða brauðið yfir netmogganum. Hugsa aðeins um erindið og laumast svo til að lesa aðeins í nýju bókinni og dáðst að áritunni. Finnst svo eiginlega ekki taka því að byrja því klukkan er orðin svo margt.


En seinna í dag ætla ég að fara og kaupa mér freyðivín - opna það ein á Divinity Road og skála vel og lengi fyrir henni nöfnu minni Ársælsdóttur sem mun á sama tíma lyfta glasi í hópi góðra kvenna í Kópavogi og fagna hálfraraldaráfanganum mikla. Vildi afar gjarnan vera frekar í Kópavoginum.

Engin ummæli: