fimmtudagur, 17. maí 2007

Aðeins meira um múslima og mat



Súkkulaðibindindið mitt er alveg að fjúka út í veður og vind og það er allt múslimum og Marsfyrirtækinu að kenna. Nýlega tilkynnti súkkulaðifyrirtækið sem sagt að það væri farið að nota eitthvað úr kálfamögum (minnir mig) í súkkulaðigerðina. Snerti mig ekki neitt – ég hef yfirleitt ekki hugmynd um hvaða ullabjakk er í matvörunni sem ég kaupi (nema ég komst reyndar að því við lestur moggans í morgun að það er góð ástæða fyrir meintri andstyggð minni á karrí og chilipipar – hausverkurinn sem þessi krydd veita mér stafar líklega af ofnæmi mínu fyrir leðurlitunarefninu sem notað er í þau – eins gott að ég fæddist ekki sem skór). En vegna þessa kálfadæmis mega múslimir ekki lengur borða neitt nammi búið til af Mars. Zeenat, skrifstofufélagi, safnaði því saman í poka allri þeirra framleiðslu sem fannst heima hjá henni og ef eitthvað er að marka magnið sem kom frá þessari einu múslimafjölskyldu held ég að þeir hjá Mars ættu að hugsa sinn gang. Hún er blessunin búin að dreifa súkkulaðihrúgum á allar hæðir en samt varð eftir hjá okkur í kjallaranum risaplastpoki troðfullur af Twix og Mars. Búin að gera díl við Andrew um að hann sjái um Marsið en ég fái að sitja að Twixinu og það er sko ekki auðvelt að deila herbergi með öllum þessum súkkulaðistykkjum – svo mikið er víst. Ekki síst þegar að Sandra er búin að redda okkur þessum risastóra rafmagnsofni sem dælir sjóðheitu lofti á okkur frá morgni til kvölds þannig að við sitjum nú við skriftir rjóð og sveitt eins og í finnskri sánu. Einhvern veginn verðum við auðvitað að bjarga þessum súkkulöðum frá bráðnun.

Engin ummæli: