föstudagur, 11. maí 2007

Eikibleiki á bak og burtu


Var boðið í undanúrslitajúróvísíonpartý í vesturbæinn í gær til að horfa á Eirík mala þetta. Var svo lengi að finna afmælisgjöf að ég kom ekki heim fyrr en seint og um síðir - rennblaut. Snaraðist í önnur föt og púðraði á mér nefið en þá kom Winifred leigusali og bauð mér að borða með þeim hjónum kvöldmat. Sagðist vera á leið í partý en hún er fylgin sér og áður en ég vissi af var ég komin niður í borðstofu, búin að hestahúsa þessum líka skammti af nýjum spergli með smjör og salti og vodka og var farin að bíða eftir ofnsteikta þorskinum. Eftir hann var svo auðvitað úr mér allur vindur svo ég fór hvergi heldur sat við tölvuna og fylgdist með þar. Missti reyndar af Eiríki en náði samt að verða döpur yfir örlögum þjóðarinnar.
Mér finnst að það eigi að breyta aftur keppninni og leyfa bara öllum að vera með. Þeir hljóta skilja það þessir sem stjórna þessu að það verður allt öðru vísi fyrir mig - og alla hina milljón taparana - að fara í júróvísíonpartý á laugardaginn vitandi að það verður Eiríkslaust með öllu. Það á ekki að ræna fólk einfaldri gleði á þessum síðustu og verstu tímum.

Beið svo spennt eftir því að þurfa að pissa. Þau hjón sögðu að spergilátinu fylgdi alveg sérstök þvaglykt. Ja það er ekki lítið sem ég er búin að læra hér í Oxford.

Engin ummæli: