fimmtudagur, 3. maí 2007

Aðflug


Í dag eru akkúrat þrjár vikur í heimferð og ég finn að brottförin að farin að læðast upp að mér. Ég hjóla mína vanalegu leið upp og niður hina litríku Cowley Road en í stað þess að láta hugann flakka um heima og geima horfi ég einbeitt á umhverfið og reyni að leggja allt á minnið.
- Ég ætla alltaf að muna eftir henni Syrpu í Unikki búðinni hugsa ég angurvær um leið og ég brosi blíðlega til strákanna í Beeline hjólabúðinni sem eru einmitt í þessu að stilla út öllum hjólunum. Vinka kankvís til strætóbílstjórans sem keyrði mig næstum niður á Magdalenubrúnni í morgun – bráðum verð ég farin og þú verður að finna þér einhvern annan að hræða líftóruna úr – vink-vink og blikk-blikk.

Snýst í hringi í kvistherberginu og velti fyrir mér hvort það sé fræðilegur möguleiki að koma eigunum í tvær töskur eða hvort það er ekki vit að senda sumt heim á undan sér. Ákveð að gefa jakkann minn til Oxfam - hef eiginlega aldrei verið í honum heima.

Panta miða í leikhús þegar að ég uppgötva að ég er búin að vera hér í meira en fjóra mánuði og hef aldrei gefið mér tíma að sjá neitt. Ætla ein og veit ekki hvort ég á að bóka sæti á netinu við hliðina á næsta eða með eitt sæti á milli. Enda við hliðina á einhverjum ókunnugum – vona að hann verði viðkunnanlegur.

Ákveð að taka þátt í Town og Gown hlaupinu 20. maí þar sem almenningur og andans menn streðast saman 10 kílómetrana í þágu góðra málefna. Ég hef þá í minnsta náð einu alvöruhlaupi hérna. Ætla líka að drífa mig í hlaupaklúbbinn í kvöld – var að fá skírteinið þar sem stendur að ég sé meðlimur í Headington Road Runners númer 997. setti það stolt í peningaveskið mitt. Aðeins of fljót á mér samt. Sá sem var númer 1000 fékk kampavín.

Ég verð að muna að breyta fyrirhuguðum síðasta hádegisverði með ástralanum Chris og konunni hans Corinne sem ég hef aldrei áður hitt. Við Chris eigum í vandræðalausu andlegu ástarsambandi um kennsluhætti á háskólastigi sem við ræktum einstöku sinnum með hádegisverði og nú fer því sambandi eins og öðrum hér að ljúka og konan hans ætlar að taka þátt í kveðjustundinni.

Sit í hádegissólinni með samlokuna mína í Háskólagarðinum og hugurinn er í slyddunni heima í stað þess að leita að sannfærandi rannsóknarniðurstöðum til að færa heiminn (eða að minnsta kosti örlitlum hluta hans). Hugsa svo mikið um slydduna að ég brenn á öxlunum og næ mér í ein tuttugu moskítóbit á leggina.

Skoða áköf heimasíðu kennslumiðstöðvarinnar til að athuga hvort ég nái kannski eins og einu góðu seminari. Fátt merkilegt í boði um þessar mundir. Kannski eru þau líka að verða lúin eftir veturinn.

Við Michele erum hættar að segja - eigum við ekki einhvern tíma... - nú spyr hún áhyggjufull: Heldurðu að við náum nokkuð að fara aftur á tælenska staðinn? Og ég svara kúl: Við sjáum bara til með það.

Það styttist í að ég fari að gera allt í síðasta sinn hérna. Hverjum hefði dottið í hug að það tæki mig þrjár vikur og tæpa þrjá tíma að fljúga heim til Íslands?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já vá hvað tíminn líður svakalega hratt. Nú er ég búin að vera í rúma 70 daga í útlandinu og á einmitt eftir rúmar þrjár vikur. Svo við verðum heima ekki svo langt á eftir þér en ég fer heim 30 maí. Verð reyndar að leika mér síðustu þrjár vikurnar.

Er farin að kannast við þessa tilfinningu sem þú talar um, ætli ég eigi eftir að fara þarna aftur og gera þetta og hitt með angurværð í huga.

Sérstaklega núna eftir að ákveðið var að fara í hjólaferð fljótlega eftir að Steinar minn kemur en hann kemur á næsta miðvikudag 9 maí. Vá bara nokkrir dagar þangað til. Þá förum við sem sagt til Sevilla og ætlum að hjóla þaðan og við þetta styttist náttúrlega dvöl mín hér í Murcia alveg stórkostlega og það vekur blendnar tilfinningar um leið og ég hlakka náttúrlega til hjólaferðarinnar.

En eins og ég hef haft gaman að því að vera hérna að þá verður líka alveg yndislegt að komast heim og sofa í sínu rúmi, borða íslenskan mat, fara í bústaðinn og hitta liðið sitt náttúrlega.

Knús frá Spáni Þurý

Nafnlaus sagði...

Vá hvað mér finnst þetta vera langar 3 vikur!