miðvikudagur, 28. febrúar 2007

Í strekki og stinningu




Var að sápa mig hér í sturtunni í morgun sem er ekki í frásögur færandi nema að ég rak allt í einu augun í það að sápan sem ég keypti í Boots um daginn er undrasápa sem samkvæmt framleiðendum getur strekkt á mér húðina (firm your skin). Þegar ég hélt svo áfram með morgunverkin kom í ljós að boddílósjónið mitt gerir slíkt hið sama og ekki nóg með það heldur er andlitskremið mitt bæði revitalising og firming. Setti svo í hárið froðu sem auk þess að ýta undir volume sér um að hausinn á mér sé firm. Þannig að meðan ég var að blása á mér hárið var ég að pæla hvað myndi gerast ef ég hætti bara cold turkey í snyrtivörunum. Sá fyrir mér hvernig ég myndi missa allt líkamlegt ytra kontról og breytast í bleikan barbapappamassa sem rúllað sér niður stigann í morgunmat. En þá mundi ég eftir beinunum.

Aðalslúðrið í staffherberginu í dag snerti komu hins heimfræga sálfræðings Bruners sem ég hef bloggað um hér áður. Karlinn sem kominn er vel yfir nírætt ætlar nefnilega að mæta með kærustu eða það sem þau kalla hér kurteislega ‘ladyfriend’. Skipuleggjendur hér töldu að þetta væri einhvers konar hjálparkona fyrir gamla manninn og pöntuðu fyrir þau sitt hvort herbergið á hóteli. En nú er Bruner blessaður búinn að senda skeyti og láta breyta pöntuninni í tveggja manna herbergi. Heyrist þeim konum hér ekki finnast þetta alveg við hæfi en mér finnst þetta frábært. Vona að ég verði virk og kát á þessum vígstöðvum þegar ég verð 92. Veit ekki hvernig mun ganga að koma Hannesi - þá 99 - til. Den tid - den sorg.

Við stöllur á Divinity Road vorum búnar að plana í kvöld mikinn kvöldverð og bjóða í hann leigsölunum okkar. Liggja yfir matreiðslubókum því hjónin vildu endilega eitthvað ekta íslenskt. Ég lenti í smá vanda með þá ósk. Hvað er eiginlega ekta íslenskur matur á tímum alheimsvæðingar? Ekki gat ég farið að súrsa eða slátra svo við fundum nokkurs konar helgidagsútgáfu af fiski í raspi og ég fór í vinnuna í dag með meterslangan innkaupaseðil sem ég ætlaði að nota í Covered Market. Einhver luðra var nú í Michele í morgun sem hélt helst að hún hefði borðað of mikið í gær en hún þurfti svo að koma lasin heim úr vinnunni í dag þannig að við ákváðum að slaufa boðinu að sinni. Við þurfum því að setjast öll niður aftur með dagbækurnar og leita að öðrum hentugum degi á milli Rússlandsferða bóndans, Londonarömmuferða húsfreyju og vísindaerinda Michele. Mín bók er nokkuð eyðileg - sem betur fer.

þriðjudagur, 27. febrúar 2007

Dansað í morgunsárið


Dagurinn í dag eitthvað annað en drunginn í gær. Byrjaði á balli í morgunsárið þar sem við Áslaug vinkona skemmtum okkur innan um gullklæddar glæsimeyjar og borðuðum kökur og allt var svo gaman þar til að danskennarinn (sem var grunsamlega líkur þeim sem kenndi okkur í TKS gömlu dansana í fyrra) fór allt í einu að boða okkur trú öllum til mikillar hrellingar. Létum okkur því hverfa úr Árbænum í rútu en stálum nokkrum kökum í leiðinni. Varð dauðhrædd við þennan draum enda stendur til að hitta Áslaugu og Kristján hennar og ekki síst hann Hannes minn í London núna um helgina og ég bíð spennt eftir því stefnumóti. Hafði strax samband við Slugu sem kíkti í draumráðningarbækur á bókasafninu sínu og sendi mér eftirfarandi um hæl:

...en draumarnir lofa góðu, gull er fyrir einstakri velgengni og það að stela er líka fyrir góðu en ef prestur birtist í draumi táknar það þörf þína fyrir andlegri endurnýjun

Þannig að kannski verður Londonarferðin sú andlega endurnýjun sem ég kannski þarf á að halda. Yfirleitt hef ég komið nokkuð andlega endurnýjuð af vinafundi með Áslaugu og Kristjáni - oftar þó timbruð.

Nú í vinnunni var líka bara svona ljómandi gaman. Byrjaði á því að sjá ljós í kaflanum mínu – ekki LJÓSIÐ – enda það engan veginn tilgangurinn með rannsókninni. Fór svo á seminar um starfendarannsóknir (action research) sem reyndist áhugavert. Ekki bara að umræðuefnið væri spennandi heldur fann ég hvað mér þótti óskaplega gaman að fara úr kjallaranum mínum á meðal manna. Þarna voru mættir kennarar deildarinnar sem ég hef fæsta séð nema tilsýndar á miðvikudagskaffimorgnum og ég varð alveg ærð af kæti að taka þátt í umræðum og fá svo te og kex í hléinu. Varð svo uppnumin að ég spurði tveggja spurninga og sú síðari svo gáfuleg (eða óskýr) að fyrirlesarinn þurfti að hugsa sig lengi um og svaraði svo að líklega yrðum við að leggja niður akademíuna í þeirri mynd sem hún er núna – þannig að þið sjáið hvað mín spurning hefur verið eitthvað einstaklega djúp.

Fór af seminarinu í bókasafnskjallarann að skoða næstu doktorsritgerð á míkrófilmuformi. Rannsakandinn þar er að skoða stöðu ‘bussiness studies’ innan háskólans – veit ekki hvort að það eru viðskiptafræði. En þetta er nú ekki grein sem á góða daga innan akademíunnar – troðið þangað í trássi við æðri fræði og er ímynd markaðshyggju og gróðrastarfsemi og svo stjórnhátta eða markaðsstjórnunar sem öðrum háskólamönnum finnst vera hin verstu inngrip inní háskólastarfið. Meðan að ýmsar rannsóknir hafa svo verið gerðar á góðlegum faggreinum eins og kennslufræði og hjúkrunarfræði vill enginn rannsaka bissnessfræðin því að þau hafa ekki það göfuga markmið að þjóna sjúkum og fávísum og samfélaginu heldur illum markaðsöflunum. Rannsakandinn ákvað að kanna viðhorf háskólakennara sem kenna þessi andstyggðar fræði enda deilir hann þeirri trú með mér að það séu kennararnir sem miklu ráði um markmið og áherslur greinarinnar. Og þegar þarna var komið uppgötvaði ég að tíminn hafði flogið frá mér og ég orðin allt of sein heim svo að ég fæ ekki að vita niðurstöðuna fyrr en seinna.

Fór út að hlaupa með hlaupaklúbbnum og í kvöld mættum við aðeins átta. Það var sko gaman að hlaupa – svolítið rokrassalegt eins og á Nesinu og af því við vorum svo fá gátum við spjallað á milli þess sem að Clive stýrði sprettum. Clive er með þykkan írskan hreim og það finnst mér alveg einstaklega sexý svo ég elti hann eins og tryggur hundur til að ná hverju orði. Eins gott að Hannes er að koma svo ég muni hverjum hjartað slær. Ætli Hannes geti talað með írskum hreim?

mánudagur, 26. febrúar 2007

Mánudagur


Mánudagur er 2. dagur vikunnar og er nafn hans dregið af orðinu mána, eða tungli og var því í upphafi „mánadagur“. Dagurinn er á eftir sunnudegi en á undan þriðjudegi. Dagurinn er fyrsti dagur almennrar vinnuviku og er stundum hataður vegna þess, bæði í gríni og í alvöru.
Eða svo segir á Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu og svo er hægt að skoða hvernig mánudagur er skrifaður á öllum heimsins tungumálum: http://is.wiktionary.org/wiki/m%C3%A1nudagur. Frábært fyrirbæri Wikipedia. Mér finnst sá vefur svo og ‘open source’ hugbúnaður eitthvað svo notaleg fyrirbæri í markaðsóríenteruðum og einstaklingsmiðuðum heimi.

En færslan byrjar svona af því að það er svolítill mánudagur í mér. Kannski situr hann svona þungt í beinunum af því ég er búin að fara út á lífið (þannig séð) og drekka rauðvín öll kvöld helgarinnar? Fór aftur með þær stöllur Guðrúnu og Kolbrúnu út að borða á laugardaginn. Þá voru þær nú reyndar nýkomnar frá því að sofa úr sér og/eða ganga af sér hvítvín hádegissins þannig að þær ættu að vera enn þreyttari en ég í dag. Dró þær með mér í strætó upp í Headington (sem er svona Seljahverfi)og þar svolitla úrúrkróka þar til við fundum Svartakaffi (Café Noir) sem ég hafði reyndar heimsótt áður. Þar áttum við hina dægilegustu kvöldstund, afbragðsmatur og vín og gátum rætt vítt og breytt um allt mögulegt. Tókum svo strætó niður í bæ því ég vildi endilega fara með þær á Turf krána þar sem við Margrét drukkum léttvín forðum en þar var bara búið að loka. Ekki að við gömlu konurnar höfum verið að skrönglast svona lengi í Seljahverfinu heldur lokar barinn á slaginu ellefu. Fengum okkur hestaskál á næsta bar áður en við kvöddumst. Þær stöllur notuðu svo sunnudaginn í að skoða Blenheim höllina og voru kátar með sitt dagsverk en ég sat heima og lærði enda bara með staðbundna nemaáskrift að rannsóknarfélaginu þeirra. Við ákváðum samt að gefast ekki upp á Turfkránni svo við hittumst þar klukkan hálftíu í gærkvöldi yfir bjór og nú var Michele með í för. Fyrir vikið fórum við stöllur hér á Divinity Road óvanalega seint í koju.

Dagurinn í dag leið allt of hratt sem merkti að ég komst ekki hálfa leið með það sem ég vildi gjarnan komast heila – en hvað um það. Fór í leikfimi upp úr hádegi. Fann hér íþróttatíma í Háskólaklúbbnum og prófaði í síðustu viku með þeim árangri að ég gat varla sest á stól eða setu í gær. Stúlkutuðran sem þar stjórnar með brosmildum heraga lét okkur gera hnébeygjur út í eitt og þegar við bættust brekkuhlaup á laugardagsmorgni var minn endalaust aumi gluteus maximus ekki til stórræðanna. Reyndi því að fara sparlega í slíkar æfingar í dag.

En af því þetta er svo leiðinleg bloggfærsla bæti ég hana upp með kvöldmatnum sem hún Michele galdraði fyrir mig upp úr Wagamama uppskriftabókinni og fékk mig alveg til að gleyma óskrifuðum köflum og illa stífum rassvöðvum:

Cha han
200 gr beinlaus kjúklingur (helst af læri)
2 msk yakitori sósa (6 msk. saki (eða þurrt sérrí), 180 ml létt sojasósa. 6 msk. mirin (sætt matreiðslusaki), 1 msk flórsykur)
2 msk olía
8 risarækjur pillaðar
2 msk maísbaunir úr dós (afvökvaðar)
2 msk mangetout (sem eru grænu löngu baunirnar sem baunirnar eru farnar úr) fínt skornar
4 niðursneiddir sveppir
2 vorlaukar skornir í 2 cm bita
2 hræð egg
75 gr soðin hrísgrjón (Thai)
Salt
2 msk sojasósa
(Við Michele höfðum nú bara meira af því sem okkur finnst gott - mér finnst t.d. út í hött að skera niður fjóra sveppi).
Sósan búin til og kjúklingurinn settur út í og látinn marinerast í að minnsta kosti hálftíma. Klukkutími er betri og það á að potast aðeins í hann með puttunum af og til á meðan. Tekinn úr og skorinn í smábita.
Hita wokpönnu og olíu í vel heitt ástand og bæta á hana rækjunum, maískorninu, magetout, sveppum og lauk ásamt kjúklingabitunum og steikja yfir miðlungshita í svona fimm mínútur þar til grænmetið tekur sig og kjúklingurinn er steiktur í gegn. Eggjahrærunnir bætt í og hrærð þar til hún hefur tekið sig (að taka sig er nýtt hjá mér yfir öll uppskriftarorð sem ég kann ekki að þýða - þið finnið út úr því sjálf).
Bætið soðnu grjónunum í og kryddið með salti og sojasósu og hrærið þar til allt er vel hrært og heitt. Sett á tvær skálar og borðað með Michele og prjónum.

föstudagur, 23. febrúar 2007

Úr síðustu skúr


Fékk eitthvað skítkast frá Spáni á síðustu færslu um að halda síðunni ekki nógu vel við. Kröfur og kröfur. En klukkan orðin eitt eftir miðnætti og ég komin hjólandi heim úr bænum í þvílíkri rigningaskúr að það lak vatn UPP úr leðurstígvélunum mínum þar sem ég stóð niðri í eldhúsi og spjallaði við leigutakana. Rússarnir nýfarnir úr matarboðinu og höfðu verið bæði góðglaðir og venjulega glaðir.Var sjálf að koma frá ljúfri kvöldstund með þeim Guðrúnu og Kolbrúnu. Guðrún er í rannsóknarleyfi í Warwic háskólanum en í tveggja kvenna rannsóknarfélagi með Kolbrúnu og er fundur þess haldinn nú hér í Oxford. Ég fékk að vera með í félaginu yfir helgina. Veit ekki hvað þær stöllur rannsaka en í kvöld tókum við til sérstakrar skoðunar Cherwell Boathouse veitingastaðinn. Hann stendur – merkilegt nokk – við Cherwell ána og var notalegur þó að við sæjum lítið til árinnar í myrkrinu. Þar borðuðum við endur og naut og fengum á eftir búðing, súkkulaðigrjónagraut og enska osta auk góðra veiga. Ég taldi þeim stöllum svo trú um að það væri örstutt að labba heim – Ránka mín þekkir þær mælistikur mínar – og eftir nokkra tíma gang í mígandi rigningu vorum við bæði við það að drukkna og nafna komin með hælsæri svo ég lét undan og við tókum leigubíl á hótelið þeirra. Hélt ég hefði beðið þar af mér skúrina yfir Vermúth glasi en svo reyndist ekki vera og af því ég kann ekki að hjóla með regnhlíf kom ég heim eins og ‘sundurdreginn hundur’.

Ég er annars búin að nota þessa viku til að leggjast aftur yfir gömlu teoríuna mína og rifja upp kynni mín af Basil Bernstein sem skaffar þann grunn í verkið mitt. Gaman að endurnýja af alvöru þau kynni – nú erum við orðnir soddan böddís að það liggur við að ég kalli hann Benna. Líklega erum við samt í öfugu kynjasambandi – hann ‘talar og talar’ svona textaleg séð og ég skil oft ekki helminginn af því sem hann segir og finnst hann stundum gera heldur flókið mál úr einföldum hlutum. Set mynd af honum með færslunni.

miðvikudagur, 21. febrúar 2007

Bros,vor og kjarnorka


Allt fremur tíðindalaust af vesturvígstöðvunum. Vaknaði reyndar úrill í morgun sem er ekki minn vani. Gekk illa að sofna í gærkvöldi og með áhyggjur af teoríum og niðurstöðum. Vaknaði svo fyrir allar aldir við ruslakallana sem koma á miðvikudögum og taka flöskur og dagblöð sem eru hér talin eiga samleið í endurvinnslunni. Ekki bætti úr skák að leigusalarnir voru seinir á fætur og lengi að snyrta sig á baðherberginu svo mér gekk illa að komast að með mín morgunverk. En þegar ég hjólaði þungbrýnd niður götuna mínu seri sér við á gatnamótunum svona líka sætur strákur og sagði brosandi út að eyrum eitthvað í þessa áttina: Hæ pæ – ætlarðu að fara hér til hægri? Og það þurfti ekki meira til að gleðja mig.

Þetta tengist reyndar einnarkonu þjóðarátaki mínu hér. Mér fannst nefnilega þegar ég kom hingað fyrst hálfleiðinlegt hvað fólk á götu var eitthvað inní sig og alvarlegt og ákvað að leggja mitt af mörkum til að breyta því. Einsetti mér að brosa til allra sem ég mæti á hjóli og segja góðan daginn (eða kvöldið) við þá sem ég hitti hér á ferli í götunni. Fram til þessa hafa margir brosað til baka en bara tvær gamlar konur og einn strákur heilsað mér. Og þangað til í dag hefur enginn vegfarandi að fyrra bragði bæði brosað og talað við mig. Svo þetta var góð byrjun á degi.

Nú, í dagslok þegar ég fór heim úr skólanum uppgötvaði ég svo að það var bara enn bjart! Og helltist þá ekki yfir mig nema þessi alíslenska ofursæla sem grípur mig á hverju vori þegar að ég uppgötva að - aldrei þessu vant – muni birta og daginn lengja og svo endi þetta allt í vori og sumaryl og endalausri lífshamingju – svona fram á haust. Þetta er svo góð tilfinning eins og allir vita sem hafa séð Ronju ræningjadóttur taka vorópið sitt.

Annars erum við Michele næstum í stofufangelsi í herbergjunum okkar, því hér á Divinity Road stendur mikið til hjá þeim hjónum Winifred og Patrick. Patrick er hagfræðingur og hefur umsjón með bresku margmilljónapunda verkefni í Rússlandi og nágrannalöndum. Þetta er nokkurs konar þróunarverkefni sem felst í því að hjálpa sprengmenntuðum vísindamönnun á kjarnorkugerðarstofum að finna sér eitthvað annað uppbyggilegt til dundurs en að búa til sprengjur. Það uppgötvaðist við tilraunir til að loka slíkum verum að það var lítið um að vera fyrir þessa starfsmenn og frekar en að eiga á hættu að missa þá áfram í sprengjugerð hjá einhverjum óvinlöndum þótti reynandi að finna þeim annað viðurværi. Patrick fer sem sagt í slík ver eða stofnanir og vinnur að því að fá þá sem þar stjórna að leita að nýstárlegum leiðum til að nýta tól og tæki. Og hefur víst tekist býsna vel upp. Þannig er eitt fyrrum kjarnorkubatteríið búið að finna leið til að nota kjarnakljúfa (vona bara að enginn raunvísindamanneskja lesi þetta vel) til að breyta lit á eðalsteinum svo að Hendrikkur Waage þessa heims geti framleitt fagurlitaðari skartgripi. En í kvöld – og á föstudagskvöldið – er von á þessum rússnesku og langtíburstístan yfirmönnum í mat. Helmingurinn kemur í kvöld og hinn helmingurinn á föstudaginn. Þau segja að það sé af því að langtíburstístan fólkið vilji ekki mingla of mikið með hinum – en ég held að það sé aðallega stærðin á borðstofuborðinu þeirra sem ráði því.

Það verður sem sagt fullt hús af gáfuðum raungreina(yfir)körlum hér á eftir og ég var að segja við Michele að ef hún ætlaði sér að eignast barn væri ekki vitlaust fyrir hana að spá í kvöldið í kvöld – bara svona genólógískt séð - og svona út frá stöðu raungreina í heiminum í dag. Vonlaust verk fyrir mig – komin úr barneign og eigandi Hannes í festum heima.

Mér finnst Michele ekki taka nógu vel í þessa hugmynd.

sunnudagur, 18. febrúar 2007

Kafli og kjötsúpa


Jæja, var að senda frá mér fyrsta formlega kaflann minn í yfirlestur þó mér þyki hann enn hálfkaraður. En ég er búin að sitja yfir honum síðan ég kom og hafði ætlað mér þrjár vikur til skrifta sem voru allt í einu orðnar fimm. Sá fram á að ritgerðin yrði aldrei neitt annað en þessi eini – ofurofurlangi – kafli svo ég lét hann bara vaða.

Var að hugsa í vikunni sem leið að það væri margt sameiginlegt með maraþonhlaupi og doktorsritgerðinni. Það var þegar ég komst allt í einu á svona gott skrið og textinn spratt fram á síðurnar nokkuð áreynslulaust. Þannig er það mjög sjaldan hjá mér og því miður virðist ekkert samband vera á milli talandans í mér og akademískra skrifa – þá væri ég í góðum málum. En í vikunni þegar allt gekk vel var ég að rifja upp maraþonhlaup fyrir nokkrum árum. Var þar að vinna mig í gegnum Fossvogsdalinn. Búin með svona 25km og Svala hjólaði á eftir mér hughreystandi. Um miðjan Fossvog komst ég á eitthvað undarlegt skrið, miklu hraðara en ég hélt að ég gæti og fannst eins og fæturnir bara hjóluðu áfram og restin af mér fylgdi bara með. Þetta var verulega skemmtileg upplifun en ég vissi þá og þegar að svona myndi ég nú ekki rúlla hlaupið allt í gegn. Og það reyndist heldur betur rétt. En það var þessi sama tilfinning sem datt yfir mig í skrifunum um hríð.

Og það má finna margt annað sameiginlegt með þessum tveimur áhugamálum mínum. Sumt er jákvætt eins og að maður lærir heilmikið bæði á því að skrifa doktorsritgerð og hlaupa maraþon – mest líklega um sjálfan sig. Og hvoru tveggja getur verið ákaflega skemmtilegt. Það eru svona misjafnir kaflar á báðum stöðum og þunglamalegar lotur á milli. Á báðum vígstöðvum koma líka tímar þar sem ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ég yfirhöfuð álpaðist af stað og þó ég eigi eftir að reyna það á eigin skinni held ég að hvoru tveggja sé gaman að ljúka. Helst auðvitað með stæl.

En svo dugar líkingin ekkert sérstaklega vel lengur. Ég fann það á kaflanum góða. Ég gat bara alls ekki séð hvernig ég ætti að ljúka honum – hvenær væri komið nóg. Það er nú yfirleitt nokk á tæru í maraþonhlaupi. Þar fer maður ekki yfir marklínu og hugsar: Ætti ég nú ekki að hlaupa aðeins lengra til að vera alveg viss. Eða snúa við og hlaupa þarna Fossvoginn aðeins betur. Og þó ég geti vel hugsað mér að hlaupa nokkur maraþon í viðbót á æfinni þá er fjarska ólíklegt að ég skrifi fleiri svona ritgerðir.

Annars er skemmtileg helgi að baki. Fór í bæjarráp með Michele í gærmorgun áður ég fór á bókasafnið að lesa skjöl í míkrófilmuformi. Slík skjöl er bara hægt að lesa á lestrarvél sem geymd er í kaldri og lítilli kjallarakompu bókasafnsins. Svo var mér boðið í partý. Margrét og Varði sem skoðuðu fyrir mig herbergið mitt forðum buðu öllum íslenskum námsmönnum í Oxford heim þar sem líffræðingurinn Pálmi eldaði heljarinnar pott af alíslenskri kjötsúpu eftir uppskrift mömmu sinnar. Og flatkökur og hrútspungar með.

Mér fannst nú fallegt af þeim að bjóða gömlu konunni og ákvað að þiggja boðið en fara svo bara snemma heim og leyfa unglingunum að skemmta sér áfram einum. Það má kannski segja að ég hafi komið heim snemma...um fjögur í morgun. Eftir að hafa borðað frábæra kjötsúpu, brauðbúðing, slátur og punga, skálað í rauðvíni, íslensku brennivíni og gini og tónik og séð úrslitin í íslenska júróvísíóinu hélt bara júróvísíonstemmningin áfram með upprifjun frá liðnum áratugum. Minnir að undir morgun hafi Varði gestgjafi skráð niður á blað óskir okkar og væntingar fyrir næsta ár!

Fór svo í dag með Michele í hjólatúr niður með á. Sáum þar róðrakeppni, fugla og fólk og skemmtum okkur vel. Þurfti samt að styðja mig við girðingar til að geta beygt mig niður yfir hjólalásinn minn. Það hefur eitthvað verið að þessari kjötsúpu.

miðvikudagur, 14. febrúar 2007

Cowley Road


‘Ég get ekkert bloggað’ - vældi ég utan í Hannesi á skæpinu um daginn – ‘Það er ekkert að gerast í mínu lífi!’ Og hann djúpspakur sagði: ‘Láttu ekki svona, þetta er allt bara spurning um sósíal konstrúkt eins og þú veist’ (það er nú ekki skrítið að ég hafi orðið skotin í svona manni). Og þegar ég var að hjóla í skólann í morgun datt mér í hug að það gæti verið gaman að segja aðeins frá götunni minni Cowley Road. Reyndar er hún ekki mín heldur sú sem mín er ‘off’ en um hana fer ég kvölds og morgna á leiðinni til og frá skóla auk þess sem ég vappa um hana um helgar. Ef ég kenndi félagsfræði í framhaldsskóla (eins og Hannes) myndi ég láta nemendur halda til á götunni einn dag til að sjúga í sig félagsfræðina.

Ég fer sjaldan um Cowley Road á miðjum degi en snemma á morgnana og þó sérstaklega síðdegis er það heilmikið ævintýri en um leið svolítið hættulegt. Gatan er þröng og ekki gerð fyrir alla þá umferð sem um hana fer. Það þarf því stundum svolitla hugprýði og heilmikla útsjónarsemi að smeygja sér á milli bíla og strætisvagna, hleypa yfir hana gangandi vegfarendum og forða sér fram hjá flutningabílum sem flytja vörur í hús. Stundum er ég lengur að komast upp götuna en að hjóla það sem af er leiðar upp í vinnu. En stopp á bak við strætó, andandi að mér útblæstrinum, gefst oft ágætt tækifæri til að stúdera mannlífið í götunni.

Gatan liggur sem sagt frá Magdalenubrúnni og eitthvað langt út í buska. Það eru mikil viðbrigði að hjóla úr miðbænum og frá öllum sögufrægu og fallegu húsunum þar, golfgrænum grasvöllum, styttum og söguminjum yfir á Cowley Road. Gatan er litrík enda er hún, ein og sér, látin duga undir allt margmenningarsamfélagið í Oxford. Hér þarf ekki púkka heilu hverfi undir allrahandapakk enda langflestir aðrir í bænum af góðum ættum.


Götuna og næsta nágrenni byggja einkum tveir hópar sem eiga það helst sameiginlegt að vera blankir, þ.e. námsmenn og þeir sem minna mega sín félagslega. Þeir fyrrnefndu líta eflaust á veru sína hér sem tímabundna dvöl á leiðinni til frama en hinir mega búast við að doka við ögn lengur. Flestir eru námsmennirnir úr Oxford Brooks háskólanum sem er alls ekki eins fínn og alvöru Oxfordskólinn og kannski er það þess vegna sem þau æpa svona mikið út á götu um helgarnætur, blessuð börnin.

Þó að íbúarnir séu blankir er Cowley Road miðstöð verslunar og viðskipta og hér má finna allt sem hugurinn girnist - og gott betur en það. Við götubútinn heim til mín er t.d. að finna 5 rakarastofur sem allar bjóða klippingu á afar hagstæðu verði, ótal dagblaðabúðir þar sem hægt er að kaupa auk dagblaða, alls konar smotterí, nokkra pakistanska (held ég) grænmetissala og þrjár skranbúðir þar sem allt fæst, þrjár reiðhjólabúðir (ég fer alltaf í þá sömu því að þar afgreiddi mig svo alúðlegur, krangalegur strákur í fyrstu vikunni hér),útilífsverslun, hljóðfæraverslun, alvöru kjötkaupmann (sem stillir stórri styttu af kjötkaupmanni upp fyrir framan búðargluggann sinn), tölvubúð (sem ég veit af eigin reynslu að er ódýrari en stórverslanirnar niðrí bæ), fornbókabúð sem selur líka gömul frímerki, gólfflísabúð, baðtækjabúð, brasilíska skartgripabúð og aðra enska sem selur nútímalega gullvörur og Bombay Emporium sem selur allra handa vörur (frá Indlandi geri ég ráð fyrir). Sú búð er við hliðina á eau de vie en samkvæmt skiltinu er það flot(a)stöð eða floating center.

Mín uppáhaldsbúð er Taylors of Oxford – Robemakers sem selja hempur og fínerí fyrir presta (veit ekki af hverju ég varð svona hissa að sjá hana - hef bara aldrei hugsað út í hvar prestar keyptu sér vinnugallann). Við götuna er líka að finna venjulegar búðir eins og Boots (sem er Lyfjan þeirra hérna) og svo matvörubúðina Tesco (leigusalar mínir versla þar aldrei af pólitískum ástæðum en þau eiga líka bíl sem þau geta brunað á í pólitísk rétttrúnaðarinnkaup. Ég er hins vegar bæði bíllaus og ekki alveg klár á þessari pólitísku óáran að baki Tesco svo ég geri bara öll mín stórinnkaup þar). Þeir sem eru fátækir eða meðvitaðir (eða hvoru tveggja) geta verslað sér föt í Oxfam búðinni eða annarri sem einnig selur notuð föt til góðagerðamála. Það er hins vegar ekkert góðgerðalegt við Unikki en þar selur finnsk listakona hönnunarfötin sín.

Nú fari hungur að sverfa að götubúum og gestum er af nógu að taka því í margmenningargötunni minni er að finna veitingahús af öllu hugsanlegu tagi. Auk alþjóðlegra auðhringja eins og Centucy Fried Chicken og Subway úir allt og grúir af menningarbundnum smástöðum. Þarna er að finna nokkra ítalska staði (m.a. þennan sem við Ragnheiður Lára og Michele létum okkur hafa að bíða í klukkutíma eftir borði forðum), nokkra austurlenska (og nú kemst upp um mína lélegur landafræðikunnáttu) eins og Núðluhúsið. Þar er líka að finna spænskan stað og annar portúgalskan, staðinn The Kebab Kid (sem ég kann ekki alveg að staðfæra en er með mynd af karate kid í auglýsingunni) og sérlega undarlegan pólskan stað sem ber nafnið Majduczek (og ég myndi gjarnan vilja prófa ef ég væri bara aðeins hugrakkari). Þeir sem vilja borða matinn sinn heima geta svo keypt sér eitt og annað í ítölsku gourmetbúðinni, nú eða í litlu grísku búðinni Méli en þar er líka hægt að sækja grískutíma eftir samkomulagi.

Við Cowley Road standa að sjálfsögður nokkrir barir m.a. einn kinky hér á næsta horni sem heitir baby en er samt bannaður fyrir börn. Þar er að finna a.m.k. þrjár kirkjur og á móti einni er búð sem ég hef lengi undrað mig á. Búðin heitir Private Shop og þar er ekki að finna neina glugga en daglegur opnunartími auglýstur vel og vandlega. Spurði Michele hvers konar búð þetta gæti eiginlega verið og hún leit á mig kankvís og sagði mér svo að þarna væru seld klámblöð! Mér fannst ótrúlega laumulega farið myndir af berrössuðu fólki á klámöld. Við götuna er líka að finna skemmtistaðinn the Zodiac en um helgar má sjá risastórar hljómsveitarútur parkeraðar fyrir framan og svo langar biðraðir af unglinum þegar líður að kveldi. The Zodiac er við hliðina á baðtækjabúðinni.

Mannlífið við Cowley Road er álíka litríkt og verslunarflóran. Hérna vafra um háskólanemarnir fyrrnefndu í bland við litlar indverskar litlar stúlkur í síðkjólum og háum hælum. Pakistanskir töffarar ganga um í hópum og tala mikið í farsíma og þreyttar mömmur eiga það til að æpa hvasst að mínu mati á óstýrláta unga. Fyrir utan Tesco reyna heimilislausir að selja blaðið sitt The Big Issue, sumir biðja um aur og í morgun sátu saman á bekk kollegar þeirra Spaugstofufélaga og supu saman úr flösku í bróðerni. Þetta er líka besti staðurinn í bænum til að sjá lítil börn og gamalmenni á vappi.

Innan um er svo auðvitað ósköp venjulegt fólk – svona eins og ég.

mánudagur, 12. febrúar 2007

Í sjálfhverfu reiðileysi


Enn ein helgin mín hér í reiðileysi sem er ástand sem ég kann orðið alveg óskaplega vel við. Kannski af því ég veit að það er ekki viðvarandi og fyrr en varir verð ég komin aftur í mína venjubundnu hringiðu af skyldum og verkefnum. En þangað til nýt ég þess út í ystu æsar að hverfast í kringum sjálfa mig.

Fór í hlaup á laugardagsmorgun í Suðurhliðagarðinn. Það hafði ég reynt áður en þá mætti enginn nema ég svo æfingin var þá frekar í rólegri kantinum. Nú voru hins vegar mættur galvaskur hópur hlaupara og þjálfari sem stakk veifum um allan garð og lét okkur svo spæna upp og niður brekkurnar. Síðasti kaflinn var svo hlaupahringur um garðinn sem er ekki svo stór en hins vegar eitt drullusvað þar sem var afar erfitt að fóta sig og ég kom heim forug upp að enni en harla kát yfir æfingunni.

Sat yfir ritgerðinni minni það sem eftir var laugardagsins og nennti ekki einu sinni út í búð að kaupa í matinn. Var svo boðið í kvöldmat af húsfreyjunni sem eldaði þennan líka góða lax fyrir mig og dóttur sína og tengdason sem voru í helgarheimsókn frá London. Ég splæsti Síríus súkkulaðinu mínu í eftirrétt til að jafna upp ballansinn.

Sunnudagurinn var svo mildur og fallegur og eftir að hafa setið yfir tölvunni meira og minna allan daginn reyndi ég að draga Michele í hjólatúr. Hún er loksin búin að láta hjólalækni háskólans laga hjólið en var samt ekki hnikað upp úr stólnum þar sem hún sat eins og miðaldar hefðarmey og saumaði út í stramma. Hún er að keppast við að klára stærðar útsaumsverk áður en hún fer að heimsækja vini sína í Rotterdam í næsta mánuði en þeir eiga að fá verkið. Fór því bara ein með sjálfri mér rólegan hlaupahring niður með á og aftur upp eftir henni. Talaði við sjálfa mig (í huganum) en fannst ég ekkert sérstaklega skemmtilegur félagsskapur enda fátt nýtt eða óvænt sem bar á góma.

Í gærkvöldi fór ég svo í bíó með Michele og hennar vinkonum að sjá Hugh Grant gera hosur sínar grænar fyrir Drew eitthvað, plöntuvökvunarkonunni sinni sem reynist vera þessi líka drjúgi lagatextahöfundur. Myndin var svo þunnur þrettándi að ég gat ekki einu sinni borðað poppkornið mitt með henni. Prófaði samt að loka stundum öðru auganu og gá hvort ég gæti ekki þannig fókuserað bara á Huga án þess að sjá stelpugæsina um leið en það dugði ekki til.

Fór snemma í rúmið með stórsálfræðingnum Jerome Bruner. Var að frétta að það er von á honum í deildina þann 13. mars þar sem hann á að afhjúpa málverk af sjálfum sér í bygginunni minni sem mun eftir það heita Jerome Bruner House og svo ætlar hann að halda erindi. Vegna komunnar er verið að endurnýja samkomuherbergið, mála hurðir, setja nýtt teppi og rauða Ikea leðursófa og starfsmenn upprifnir yfir framkvæmdum. Ég ákvað að leggja mitt af mörkum og láta loks verða af því að lesa bókina hans Culture of Education sem ég er búin að eiga nær ólesna heima í hillu í yfir þrjú ár. Bruner er kannski ekki eins áferðarfallegur og Hugh Grant – og þó - eiginlega svolítið líkur Derrik- en hann er óneitanlegri innihaldsríkari.

Átti mitt akademíska stefnumót við Chris Trevitt í hádeginu í dag og við bárum saman bækur okkar um það hvernig háskólakennarar skipuleggja kennslu sína og ærðumst alveg af kæti og spenningi yfir viðfangsefninu. Það þarf ekki mikið til að gleðja einfaldar sálir.

laugardagur, 10. febrúar 2007

Lítill heimur



Núna bara verð ég að segja að heimurinn er sannarlega lítill. Þannig var að fyrir mörgum, mörgum árum var haldin kennslumálráðstefna í Háskólanum og á hana sóttur útlenskur fyrirlesari, David Wilkinson. Hann var hinn ágætasti og hélt erindi um markmið og kennsluaðferðir (sem ég hefði sem best getað haldið nema þá hefði enginn hlustað því ég er náttúrlega ekki útlendingur heima). Þannig stóð svo á að sama kvöld var árshátíð Háskólans haldin og þótti því við hæfi að bjóða aðalfyrirlesaranum á skrallið. Árshátíðin var þá óttalega mikið hjónadæmi svo það var erfitt að finna pláss fyrir staka karla þar til einhverjum datt í hug að við Rannveig Trausta gætum sem best tekið að okkur einhverja slíka. Ég góðviljuð og Rannveig sérfræðingur í jaðarhópum. Á þessum tíma vorum við Hannes svona nýbyrjuð saman og hann reyndar á annarri árshátíð á sama stað í öðrum sal. Ég hafði eitthvað ýja að því að fá að fara yfir til hans en hann tekið því fálega enda ekki alveg viss um hvort hann vildi eiga mig (eða eitthvað!). Nú en David var sem sagt settur á borð með okkur einhleypu rauðhausunum og að auki var viðkvæmum gestakennara frá Kaliforníu plantað í hópinn. Til að hlaupa hratt yfir sögu skemmtum við okkur þremenningarnir svo vel að ljúfi kennarinn varð hræddur og flúði á annað borð. Líklega hafa vínflöskurnar í boði Kennslumálanefndar haft eitthvað að segja en þetta kvöld dansaði ég mig móða í fanginu á David sem var eitthvað öryggislaus í nýju landi og fannst því tryggara að halda fast um botninn á mér. Eitthvað er svo farið að gruggast yfir minningum (kannski var það vínið) en ég man samt að ég kvaddi David og fór heim með Hannesi en veit ekki hvað varð af Rannveigu. Hef svo ekkert heyrt af honum síðar.

Jæja þá kemur seinni hlutinn. Þannig er að hún Michele, samleigjandi minn, er á kennslufræðinámskeiði sem haldið er á vegum Oxford háskóla. Hér ytra þykir ungu háskólafólki það vænlegt til frama að hafa tekið slík námskeið enda fær enginn háskólakennari fastráðningu né framgang nema að hafa slíka þekkingu í farteskinu. Það er erfitt að komast inn á slík námskeið og þeir sem þangað ná telja sig heppna (ætli það sé einhver leið að fá rektor til að lesa bloggið mitt?). Þetta er með talvert öðrum hætti heima þar sem kennslufræðinámskeið er talin fremur fánýt og í mesta lagi fyrir konur og (aðra) kverúlanta. En af því við erum nú að spá í að koma á laggirnar slíku námskeiði heima í haust (ef vindátt er hagstæð) þá er ég afar forvitin um lærdóminn hennar Michele og hún þarf greyið að segja mér nákvæmlega frá öllu sem fer fram á námskeiðinu. Hún var í tíma í gær og þegar ég kom heim rauk ég að venju til að heyra hvernig hefði verið. Hún var alsæl, kunni allt um markmið og fjölgreindakenningar og lét vel af kennaranum. Og hver er hann spurði ég svona að íslenskum sið – og hún hló að þessari spurningu frá konu sem engan þekkir hér en svaraði...nema hvað...David Wilkinson. Og ég gat svarað eins og sannur Íslendingur: Já hann! Já ég hef vangað við hann. Og þá varð Michele kjaftstopp.

fimmtudagur, 8. febrúar 2007

Einn kemur þá annar fer



Hápunktar dagsins voru snjórinn og deitið. Snjórinn var fyrirsjáanlegur enda búið að vara við honum í bak og fyrir í sjónvarpinu í gær. Ég var við öllu búin nema þeirri kátínu sem ríkti hér í Oxford í morgunsárið. Michele, samleigjandi varð svo hoppandi glöð að hún ákvað að fara með mér áleiðis í skólann til að skoða bæinn í vetrarham. Ég þorði ekki að hjóla í skólann – finnst það snautlegur dauðdagi að lenda í hjólaslysi á gamalsaldri. Bærinn reyndist alveg gönguferðarinnar virði en okkur sóttist ferðin seint því Michele þurfti að taka myndir víða. Ég smitaðist líka og lét eins og ég hefði aldrei áður séð snjó og tók myndir í gríð og erg. Í Háskólagarðinum höfðu árrisulir búið til snjókarla og ég svo dottin í stemninguna að ég stakk upp á að við byggjum til einn líka. Michele var til í það en vildi samt ekki hafa hann eins stórfenglegan og ég hafði hugsað mér. Svo skildust leiðir og ég skreið í kjallarann minn (dúa) að skrifa.
Síðdegis ákvað ég svo að skella mér á seminar hjá Kennslumiðstöðinni (Institute for Learning). Hafði lengi ætlað þangað í heimsókn og þegar ég sá að Graham Gibbs var með erindi fannst mér rétti tíminn kominn. Graham er bæði bráðskarpur og svona líka mikill sjarmur (reyndar sláandi líkur Rúnari Sigþórs – ég treysti því bara að hann lesi ekki bloggið mitt). Var ekki búin að melda mig en settist í sæti við hliðina á næsta manni sem tók mér ljúflega og við tókum saman tal. Hann reyndist vera í ársleyfi frá Ástralíu þar sem hann sér um Kennslumiðstöðina í Canberra og varð kátur að hitta konu frá Kennslumiðstöð á Íslandi. Lét mig strax fá nafnspjaldið sitt og ég dró í skyndi upp mitt. Hann las vendilega á það og varð eitthvað hissa svo ég kíkti sjálf og sá þá að ég var Jón Bragi Bjarnason (Ph.D.) professor of Biochemistry. Mér varð svolítið um þetta og reif aftur af honum spjaldið og náði í nýtt en allt kom fyrir ekkert. Í veskinu mínu var ég með bunka af nafnspjöldum Jóns Braga. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þau eru þangað komin en verst er að ég er búin að dreifa þeim hingað og þangað. Ég veit að það er enn ólíklegra að Jón Bjarni lesi bloggið mitt en Rúnar Sigþórs en ef alls konar fólk fer að hafa samband við hann til að fá að koma í heimsókn þá er ég (eða alla vegana hann) í vondum málum. Nú en erindið var gott og í lok fundar kvaddi ég Chris sem bauð mér í snatri að koma og fá mér vín og flögur með Kennslumiðstöðvarfólkinu. Þáði það og spjallaði um stund en ákvað svo að fara að koma mér heim samferða konu og Chris fylgdi okkur fram á gang. Þar spurði ég hann hvað hann væri að gera í leyfinu sínu og hann sagðist vera að skrifa bók. Um hvað spurði ég. Nú um acadmics’ curriculum desicion making sagði minn maður si svona. Og fyrir þá sem ekki vita þá er það jafnframt titillinn á doktorsverkefninu mínu. Og þar með féllumst við innilega í akademíska faðma (nei Hannes það er sko ekki venjulegur faðmur heldur svona bökkuðum við aðeins frá hvort öðru, ég lyfti höndum að munni og sagði NÓÓÓÓ!!!! og hann teygði út faðminn og sagði VÁÁÁÁÁÁ! Og hin konan sagði: Nú já, ég held ég fari bara og skilji ykkur tvö eftir). Og ég á sem sagt akademískt deit við Chris í hádeginu á mánudag.
Þegar ég gekk heim var snjórinn næstum horfinn og ekkert eftir af litla snjókarlinum fyrir framan minnismerkið á Bamburystreet nema spjaldið sem hann hélt á áður og á stóð: Endangered specis.

þriðjudagur, 6. febrúar 2007

Með söknuð í hjarta


Komnar á fætur fyrir dögun heldur súrar í augum og búnar að narta í morgunbrauð fyrir hálfníu. Nágrannarnir, unglingarnar, sváfu vært og við stilltum okkur um að æpa inn um skráargötin hjá þeim. Kvaddi Ragnheiði og sá á eftir barninu mínu hverfa inn í Stanstedlestina aleitt og fór sjálf að leita uppi hraðrútuna til Oxford. Á miðri leið þangað skiptumst við mæðgur á smsum og kom í ljós að Ránka fannst hvergi á farþegaskrá þrátt fyrir að hafa í höndunum útprentaðan flugmiða til staðfestingar á sinni tilveru. Eftir mikið japl og jarm og fuður (hvað þýðir þetta eiginlega - fuður?) kom í ljós að hún var skráð sem Auðunardóttir heim. Ég kannast ekkert við þann kauða en það tókst sem betur fer að leiðrétta faðernið og hún náði að henda sér í vélina fyrir flugtak. Heyrði síðast af henni í rútunni á leið til Reykjavíkur.

Ég náði hins vegar til Oxford áfallalaus en heldur hnípin og ein. Fann mér hárgreiðslustofu á leiðinni heim þar sem hárið var meira og minna tekið af mér sem gerði mig enn undarlegri - nú að utan líka.

Varð að fara í bókabúð og kauupa mér 3 fyrir 2 til að lyfta mér ögn upp.

Í London


Stórborgardagur. Fórum snemma til Londo á mánudaginn með hraðrútunni og vorum komnar á hótel upp úr kl. 11 – eftir dálítið labb. Við mæðgur höfum heldur ekki sama viðmið um lengdareiningar þannig að stundum spyr Ragheiður: Er þetta stutt í þinni merkingu eða miðað við venjulegt fólk?


Það var svolítið dimmt yfir í stórborginni og rakt og við borðuðum hádegismatinn inni á stað við Covent Garden. Risahamborgara sem gáfu orku í örstutta sturlun í Hennes og Maurits. Þar sem ferðataskan hennar dóttlu var löngu orðin full ákváðum við að forða okkur annað og skoðuðum múmínur á British Museeum eftir að hafa villst þar um stund.


Einhver búinn að snúa við allri London frá því ég var þar síðast sem gerði ferðir okkar stundum heldur ómarkvissar. Létum líka mæla hvort við værum stressaðar en skildum ekki alveg niðurstöðuna. Fundum hótelið og hvíldum okkur smá innan um heilan árganga af skrýtnum unglingum sem voru ekki mættir á staðinn til að hvíla sig mikið.


Tókum lest niður á West End og sáum þar söngleikinn Mary Poppins. Stúlkan sú er kannski meira tengd minni æsku en Ragnheiðar. Ég á til dæmis dásamlegar minningar um Mary Poppins dúkku með rósahatt, regnhlíf og tösku sem að yngri systkini mín hljóta að hafa séð um að útrýma. Höfðum hins vegar báðar afar gaman af sýningunni og horfðum með opinn munninn á Maríu svífa af sviðinu og upp í loft á leikhúsinu þar sem hún hvarf í buskann. Unglingarnir á hótelinu farnir að öskra þegar við komum heim.

Að finna sinn garð


Vorum latar á sunnudaginn, röltum í bæinn að kaupa pínulítið meira en tókum svo rúnt upp í skóla til mín að prenta út hótelmiða. Sýndi Ragnheiði garðana hér sem mér finnast frábærir. Það vekur alveg sérstaka fagnaðar- og gleðitilfinningu hjá mér að fara þar um og sjá krókusa stinga upp kollinum og íkorna skoppa upp og niður trjáboli. Fæ glampa í augun og hita í hjartað en sé að hún dóttir mín deildir þessum tilfinningum ekki með mér. Hennar glampi og hjartahiti brýst út þegar að hún stendur í sínum Hennes og Mauriz garði og horfir yfir blómstandi vortískuna á Oxford Street. En tilfinningin er svipuð.


Í lok sunnudagsins hittum við Margréti og Varða og fórum með þeim að skoða Christ Church College en þar er Margrét doktorsnemi. Fengum meira að segja að máta skikkjuna hennar sem hún þarf m.a. að klæðast í kvöldmatnum.

Með rojalistum


Það var augsýnilegt að til að ná gestinum úr verslunum og í menninguna þyrfti að beita sérstökum ráðum og því varð úr að nota laugardaginn í ferðalag til Windsor kastala undir leiðsögn Michele. Okkur tókst þó aðeins að versla á leiðinni út á lestarstöð og þar fengum við að kynnast einni hlið enskar samtímamenningar sem eru óstundvísar lestir. Bretar staðhæfa að eftir að lestirnar komust í hendur einkafyritækja hafi allt farið norður og niður. Verðið hækkar en lestarferðum fækkar og við máttum bíða í klukkustund eftir okkar. Kastalinn var hins vegar biðinnar virði þó að við höfum ekki rekist á neinn úr konungsfjölskyldunni að þessu sinni. Fengum okkur kaffi í skakka húsinu á eftir og náðum að kaupa okkur skó áður en við tókum lestina aftur heim. Ákváðum að fara á ítalskan veitingastað hér í nágrenninu og þurftum aftur að bíða í klukkutíma – nú eftir borði. Hins vegar var ólíkt meira gaman að sitja þar, sötra rauðvín og fylgast með sætum, ítölskum strákum búa til pizzur heldur en að híma á brautarpallinum.

Mest um bækur


Föstudagur svo sólríkur og fallegur og í dag skömmuðumst við mægður okkar fyrir verslunarmaníu gærdagsins og hófum því daginn menningarlega.

Brugðum okkur upp í turn á kirkju St. Maríu og sáum bæinn ofanfrá. Þaðan á Bodleian bókasafnið sem ku vera afar frægt. Þar gat ég vísað skólaskírteininu mínu og okkur Rönku boðið að stíga inn í galtómt herbergi með steingólfi og bekkjum. Vissum ekkert hvað við áttum að skoða þarna svo við settumst á bekk og biðum um stund áður en við fórum aftur út. Ef þetta var bókasafnið þá er það líklega frægt fyrir að þar er ekki eina einustu bók að finna? Sem eflaust auðveldar bókavörðum lífið.


Hins vegar var heldur betur nóg af bókum á næsta viðkomustað, Stonewell bókabúðinni á Breiðstræti. Hún er undursamleg töfrabúð og ef ég væri Bónusbarn myndi ég kaupa hana og búa í henni það sem eftir væri. Að utan er hún smá en þegar inn er komið opnast endalausir salir og hæðir stútfullir af bókum. Við leituðum uppi íslensku deildina og fundum þá félaga Snorra og Egil og vöktum aðdáun tveggja bókanörda sem voru að skoða Íslendingasögur og hvísluðust á að við værum að tala íslensku. Skoðuðum Lokaða markaðinn áður en Ragnheiður fann verslunina Primark og átti ekki þaðan afturkvæmt fyrr en leið á daginn. Skjögruðum heim með pokana og urðum að leggja okkur eftir bæjarferðina.

Rewind


Jæja þá er Ragnheiður Lára flogin heim á ný og skilur eftir mömmu með mikinn söknuð í hjarta. Aldrei náðum við mæðgur að blogga saman svo það lendir á mér að segja frá síðustu dögum. Geri það í köflum svo að ég geti sett fleiri myndir með.

Ránka mætti sem sagt til Oxford svolítið svefnlaus og föl á vangann á fimmtudaginn en ekki kraftminni en svo að hún tók vel í skoðunarferð um miðbæinn. Gekk þar sínu fyrstu kílómetra sem áttu eftir að verða margir næstu daga. Við vorum snöggar að vippa okkur framhjá sögufrægum húsum og svoleiðis leiðindum enda mikið af munaðarlausum flíkum í bænum sem þráðu fátt eins heitt og að eignast nýjan eiganda. Við gátum bjargað mörgum slíkum enda opið lengur á fimmtudögum en aðra daga. Bárum heim poka og komum við á núðluhúsinu á Cowley Road. Ragnheiður uppgötvaði að íslenska sjónvarpið er síður en svo það versta í heimi.