Var að sápa mig hér í sturtunni í morgun sem er ekki í frásögur færandi nema að ég rak allt í einu augun í það að sápan sem ég keypti í Boots um daginn er undrasápa sem samkvæmt framleiðendum getur strekkt á mér húðina (firm your skin). Þegar ég hélt svo áfram með morgunverkin kom í ljós að boddílósjónið mitt gerir slíkt hið sama og ekki nóg með það heldur er andlitskremið mitt bæði revitalising og firming. Setti svo í hárið froðu sem auk þess að ýta undir volume sér um að hausinn á mér sé firm. Þannig að meðan ég var að blása á mér hárið var ég að pæla hvað myndi gerast ef ég hætti bara cold turkey í snyrtivörunum. Sá fyrir mér hvernig ég myndi missa allt líkamlegt ytra kontról og breytast í bleikan barbapappamassa sem rúllað sér niður stigann í morgunmat. En þá mundi ég eftir beinunum.
Aðalslúðrið í staffherberginu í dag snerti komu hins heimfræga sálfræðings Bruners sem ég hef bloggað um hér áður. Karlinn sem kominn er vel yfir nírætt ætlar nefnilega að mæta með kærustu eða það sem þau kalla hér kurteislega ‘ladyfriend’. Skipuleggjendur hér töldu að þetta væri einhvers konar hjálparkona fyrir gamla manninn og pöntuðu fyrir þau sitt hvort herbergið á hóteli. En nú er Bruner blessaður búinn að senda skeyti og láta breyta pöntuninni í tveggja manna herbergi. Heyrist þeim konum hér ekki finnast þetta alveg við hæfi en mér finnst þetta frábært. Vona að ég verði virk og kát á þessum vígstöðvum þegar ég verð 92. Veit ekki hvernig mun ganga að koma Hannesi - þá 99 - til. Den tid - den sorg.
Við stöllur á Divinity Road vorum búnar að plana í kvöld mikinn kvöldverð og bjóða í hann leigsölunum okkar. Liggja yfir matreiðslubókum því hjónin vildu endilega eitthvað ekta íslenskt. Ég lenti í smá vanda með þá ósk. Hvað er eiginlega ekta íslenskur matur á tímum alheimsvæðingar? Ekki gat ég farið að súrsa eða slátra svo við fundum nokkurs konar helgidagsútgáfu af fiski í raspi og ég fór í vinnuna í dag með meterslangan innkaupaseðil sem ég ætlaði að nota í Covered Market. Einhver luðra var nú í Michele í morgun sem hélt helst að hún hefði borðað of mikið í gær en hún þurfti svo að koma lasin heim úr vinnunni í dag þannig að við ákváðum að slaufa boðinu að sinni. Við þurfum því að setjast öll niður aftur með dagbækurnar og leita að öðrum hentugum degi á milli Rússlandsferða bóndans, Londonarömmuferða húsfreyju og vísindaerinda Michele. Mín bók er nokkuð eyðileg - sem betur fer.