mánudagur, 14. mars 2011

Að tilheyra hópi


Þegar ég hef brugðið mér af bæ til lengri dvala hefur það verið mitt fyrsta verk að finna mér hlaupaklúbb. Þannig hef ég hlaupið með lókalliði í Álaborg, London og Oxford og náð á hlaupum að kynnast bæði innfæddra siðum og rata á nýjum slóðum. Hér í Glasgow gekk þetta ekki eins auðveldlega fyrir sig. Ég var talsvert að leita fyrst eftir að ég mætti og gúgglaði alls konar möguleg leitarorð en án mikils árangurs. Fann vissulega nokkra klúbba og skoðaði. Einn er upp í háskóla en þar er meðalaldurinn 12 ára og ég kann ekki við að vera byrði á erlendum börnum. Annar var til styrktar samkynhneigðum og þó ég hafi ekkert á móti því að hlaupa með hýrum þá reyndust þau líka öll 12 ára. Svo voru nokkrir hér og þar en allir langt í burtu og ég löt að finna út hvernig ég ætti að komast í úthverfi að hlaupa. Hef því látið nægja að hlaupa ein með sjálfri mér litla hringi hér í nágrenninu. Þó að slík einmenningshlaup séu ekki beint leiðinleg þá þrýtur umræðuefnin fljótt og ég neyðist til að hlaupa í þögninni með sjálfri mér.

Þegar ég var eiginlega farin að hætta að nenna að hlaupa með mér ákvað ég að fara aftur á netið og leita betur. Rekin áfram af örvæntingu gekk þetta betur og ég fann ekki bara klúbb heldur heilt hlaupanetverk Glasgowborgar sem hleypur frá ólíkum bæjarhlutum eftir dögum. Það sem reyndist næst mér er eins og systurfélag trimmklúbbsins míns heima að því leyti að hlaupið er á sömu dögum. Það er líka hægt að verða ársmeðlinur eins og heima en ólíkt því sem ég þekki þarf hér að borga fyrir hvert einstakt hlaup.

Ég ákvað að núna á laugardaginn myndi ég mæta. Var búin að undirbúa mig vel. Hljóp t.d. í íþróttahúsið í vikunni til að athuga hvað ég væri lengi að koma mér á áfangastað og fá frekari upplýsingar um stað og stund. Þvoði líka hlaupaskóna mína og þurrkaði á miðstöðvarofninum. Sá þetta alltaf fyrir mér að ég kæmi hlaupandi léttilega úr Viktoíugarðinum með sólina í bakið og á stéttinni við badmintonhöllina stæði hlaupahópurinn allur, brygði hönd fyrir augun og segði: Nei hver er nú þetta sem kemur þarna svona létt á fæti?

Vaknaði átta á laugardagsmorgni í hörmulegu slydduveðri. Velti fyrir mér að fara bara aftur upp í en gaf ekkert eftir, fór í nýþveginn hlaupagallann, setti pening í vasann og hljóp af stað. Ég var orðin rennandi blaut á vesturhliðinni áður en ég komst út götuna mína. Í Viktóríugarðinum hafði ísköld slyddan læðst niður hálsmálið og meðfram öllum saumum og ég orðin köld inn að beini. Það var enginn fyrir utan badmintonhöllina þegar ég mætti þangað og ég stóð þar heillengi alein og blakaði slyddunni úr augunum (eða voru það tár?)og bölvaði veðrinu og heiminum öllum. Þegar ég var um það bil að fara aftur heim vonsvikin og leið kom kerla á mínum aldri á harðakani út úr höllinni og náði í mig. Upp á stigapalli stóðu fjórir hlauparar og tveir þjálfarar, miðaldra konur. Þær reyndust hinar elskulegu, voru glaðar að fá mig í hópinn og það óð á þeim. Ég skildi fyrst ekki orð af því sem þær sögðu en áttaði mig svo á því að þær voru að útskýra fyrir mér að af health og saftí ríson gætum við ekki farið út að hlaupa í dag. Nú sagði ég. Já það er of hálkt úti til að hlaupa. Ég sagði þeim að ég væri búin að hlaupa rúma 2 km til þeirra og að færið væri fínt. Þær sögðust afar leiðar en útskýrðu að við óbreyttu hlaupararnir skildum ekki nógu vel health og saftí dæmið. Ég varð hugsað til minna þjálfara heima. Ætli þær viti ekkert um health og saftí. Þar er engin miskunn hjá Magnúsi og okkur félögum í trimmklúbbnum er miskunnarlaust þvælt um allan bæ í hvaða veðri og aðstæðum sem er. Þær kalla manndrápsbyli hressandi og biðja okkur í mesta lagi að setja á okkur brodda þegar að allir aðrir eru á slysó fótbrotnir. Þær hefðu kallað þessa slyddu sumarblíðu!

Við óbreyttu kinkuðum kolli, horfðumst í augu og gerðum uppreisn. Kvöddum health og saftí kellingarnar og hlupum sjálf út í slydduna. Ókeypis og eftirlitslaus. Og það var sko gaman. Við möluðum út í eitt og þó það væri á skosku (hjá þeim) eru hlaup nokkuð alþjóðlegt dæmi og orð eins og marthon, injury, asics, 21 k, training og PB gat ég skilið á útlensku. Við hlupum í slyddunni leiðir sem ég hefði aldrei vogað mér, meðfram síkjum, niður stíga, innum húsasund og enduðum kát fyrir framan badmintonhöllina. Þar reyndu þau að læra nafnið mitt og ákváðu að það væri Good Run og hlógu dátt að eigin fyndni. Ég fór heim með 16 km að baki og loforð um að mæta næst með föt til skiptanna svo ég geti farið með þeim í kantínuna að borða eftir hlaup. Sem ég segi, enn og aftur: hlauparar eru bara einstakt fólk!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

I like....

Svala

Nafnlaus sagði...

I like....