miðvikudagur, 2. mars 2011

Danstími


Ég fór í dans í gær eftir að hafa hlaupið 10 km léttileg fyrr um daginn. Ég reyni alltaf þegar ég get að telja öllum trú um að ég sé bara assgoti góð að dansa og guð einn má vita hvað ég væri að gera í dag hefðu foreldarar mínir staðið sína plikt og sett mig í dansskóla. Ég fór einu sinni í Ceroc (sem er svona komdu að dansa) með Michele í Oxford. Þar var dansað í bæjarráðssalnum og á milli dansa tylltum við okkur í rauða plussstóla. Nú vildi Anna endilega fá mig með í skoskt Creoc. Ég lét til leiðast og átti að mæta á Jumpin Jack tuttugu mínútur yfir sjö.

Af því að lífshlaupið var í gangi þegar ég kom hingað út fyrst (og hvert skref talið) hef ég ekki enn tamið mér að fara neitt nema fótgangandi. Þetta er agalegt vesen og ég er hreint út sagt að verða bæði úr mér gengin og illa gengin á göflum. Ég sem sagt strunsaði í bæinn á maraþonhraða sem tók 45 mínútur og mætti á barinn sem var nú dálítið annað umhverfi ég er vön frá Oxford. Þar beið Anna og svo hímdu hér og þar nokkrar sálir sem virtust týndar. Eftir smá stund kom svo Heather á sviðið og reyndi að hressa við mannskapinn sem tókst bærilega og allt í einu fylltist gólfið af pörum.

Það voru – að sjálfsögðu – mun fleiri konur en karlar svo þeir stóðu kyrrir á milli laga en við færðumst reglulega á milli og urðum inn á milli að standa í stiganum og bíða eftir að kæmi að okkur. Þetta var byrjendatími og ég náði að dansanokkur spor í slómósjón við fullt af herrum. Við náðum á hálftíma sporunum fram og aftur, fram og aftur, fram og aftur en sleppa hönd og sveiflast fram hjá herra, eitt skref aftur, eitt skref til hægri, út með hendina, hraður hringur, eitt skref aftur, hönd á öxl á herra (sem allt í einu snýr baki í þig) og láta höndina renna yfir öxlina á honumog sveifla sér aftur fyrir hann, hönd endar í lófa, aukahringur og svo aftur fram og aftur (sko og þetta þurfti ég að borga 7 pund fyrir en þið fáið alveg ókeypis! – reyndar er þetta bara það sem dömurnar gera).

Eftir byrjendatímann mátti æfa sig og þá snaraðist að mér leiguliði (taxi danser) og einhenti mér á dansgólið og sveiflaði mér eins og óður fram og aftur. Ég var skelfingu lostin og alveg eins og þegar ég vangaði í fyrsta sinn í gaggó var lagið sem spilað var undir dansinum gjörsamlega endalaust. Brosti í danslok vandræðalega til mannsins sem fór strax að leita að annri konu að hrella, skjögraði aftur í sætið til Önnu sem var nú komin í stuð og stakk upp á við héldum bara á fram í tímanum sem nú var fyrir meðaljóna. Kláraði vatnið mitt, sá á eftir henni út á gólfið, veifaði bless og labbaði aftur í 45 mínútur heim.

Farin út á flugvöll að sækja Hannes. Í þetta sinn ætla ég samt ekki að ganga.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hefði þurft þó nokkra tíma til að ná þessum sveiflum og hringjum - þér að segja. Hafðu það gott með Hannesi í útlandinu.

Svala