mánudagur, 28. mars 2011

Framboð og eftirspurn


Afar fín helgi að baki. Fékk í heimsókn hana Michele vinkonu mína frá Oxfordárum og lagðist í túrisma í Glasgowborg. Þessi 11 pund sem ég borgaði fyrir sægtsíing túrinn eru farin að margborga sig og ég gat þulið upp fróðleik við hvert horn Michele til mikillar aðdáunar.

Á Buchanangötu (sem er aðalverslunargatan) gengum við óvart inn í langa röð af fólki. Þetta var alvöruröð með köðlum og hlykkjum. Hvað er þetta? spurði Michele. Ég varð að játa vankunnáttu mína en taldi þó sýnt að svona margt fólk færi aldrei í röð nema að það væri eitthvað verulega spennandi að bíða eftir. Ég stakk upp á við Michele að við færum líka því það væri örugglega hægt að fá eitthvað ókeypis við hinn endann. Við stúderuðum þessa röð og fannst verulega erfitt að greina hana. Þarna voru gamlir kallar og kellingar innan um unglinga og foreldra með börn. Það ríkti ákveðin spenna en líka svona gleði þarna. Er þetta ekki bara sósíalinn? spurði Michele. Ég gat nú staðfest eftir allar mínar skattaferðir að sósíalinn í Glasgow er ekki þarna á verslunargötunni. Við ákváðum að geyma röðina og kaupa okkur skó.

Þegar að við komum út úr skóbúðinni var röðin enn jafnlöng en spennan hafði aukist. Á tröppunum fyrir framan röðina stóð maður umkringdur öryggisvörðum og hélt uppi einhverju spjaldi sem margir í röðinni reyndu ákafir að taka mynd af á símana sína. Spjaldið reyndist ipad 2 og allt þetta fólk sem iðaði þarna í langri röð á Buchanangötu var að reyna að kaupa sér einn slíkan. Hvað var bara búinn til einn? spurði ég Michele sem hélt að það væru til fleiri en vissulega ekki nógu margir til að allur heimurinn gæti nálgast sinn ákkúrat á þessum föstudegi. Við Michele ypptum öxlum og héldum áfram að skoða skó.

Þetta leiddi samt hugann að framboði og eftirspurn. Fram til þessa hefur verið miklu meira framboð af mér en eftirspurn í kennslumiðstöðinni við Glasgowháskóla. Nú virðast hins vegar allir vera að átta sig á að ég er á leiðinni heim og hér slást menn blóðugt um síðasta tækifærið til að eiga við mig gefandi samskipti. Fólk veltist um gólfin og rífur í hárið hvert á öðru æpandi: Nú má ÉG fara með henni í mat! Á meðan þau slást sit ég bara sallaróleg og les skoskar greinar um háskólakennslu og segi svo letilega: Ókey hver vann! Í dag var það Jane og hún bauð mér í mat á kampus þar sem kom í ljós að í aðalbyggingunni er bæði þetta huggulega mötuneyti og hátimbruð kapella. Skítt þó ég hafi aldrei fundið mötuneytið og ekkert fengið að borða í tvo mánuði en það hefði nú verið gott að komast í eins og eina messu á dvalartímanum.

Á morgun fer ég svo til Aberdeen að hitta hann Darren sem þar rekur kennslumiðstöðina. Ég fékk veður af því prófessor Martin Oosthuizen frá Nelson Mandela Metropolitian háskólanum (sem ég held að sé í Afríku) ætlaði að mæta í Aberdeen háskólann að ræða um námskrárbreytingar í háskólum. Mér fannst gráupplagt að kíkja á það og skrifaði Darren og bað um að fá að koma í heimsókn á þriðjudegi. Hann tók vel í það en taldi ekki líklegt að ég fengi að vera með í námskrárdæminu. Ég varð hvumsa – af hverju ekki hafa mig með? Og kíkti betur á auglýsinguna. Þar kom í ljós að í stað þess að vera með fyrirlestur þar sem ég hefði getað setið aftarlega og lakkað á mér neglurnar og teiknað eplatré í glósubókina mína vill prófessorinn bara tala við 10 manns og það þurfti að sækja forlega um að komast í þennan útvalda hóp. Og þá kom náttúrulega upp þetta dæmi um framboð og eftirspurn og mér fannst allt í einu afar mikilvægt að fá pláss. Ég sendi bréf á yfirkonu gæðamála sem sá um valið og reyndi að benda henni á mikilvægi þess að hafa með í umræðunum skarpgreindan námskrárfræðing sem væri auk þess kona (kynjakvóti), gömul (aldurskvóti), rauðhærð (minnihlutakvóti) og íslensk (alþjóðavídd, aumingjagæska og guð má vita hvað). Hún féll fyrir þessu og ég var samstundis tekin með í liðið. Var ótrúlega montin þar til ég fékk þátttakendalistann. Ég er þátttakandi númer sjö og og sá síðasti í röðinni. Eftirspurnin var ekki meiri en þetta ... og getur þetta þá verið nokkuð merkilegt?

Farin að hlakka til að komast heim og knúsa köttinn, kallinn og krakkana – ekkert endilega í þessari röð.

fimmtudagur, 24. mars 2011

Sex bleikjur


Ég hef áður skrifað um tilraunir mínar til að tengjast hlaupaklúbbum hér í Glasgow. Á mánudaginn ákvað ég að fara í þriðja sinn hér út í Scotstoun að hitta hlaupanettworkið. Þar hef ég áður hlaupið með skemmtilegum hóp á laugardegi og bondað smá við Alison þjálfara á miðvikudegi. Á mánujdaginn var allt annað fólk en hina dagana tvo. Bara konur. Blíðlegar á svipinn og brostu til mín þegar ég mætti sveitt eftir mína 2 km að heiman. Alison var þarna líka en meira svona í bakgrunninum og mjög skosk kona stýrði æfingunni. Hún horfði alvarleg á okkur og sagði eitthvað í þessa áttina: Jeer gonna do fríííí mæl bút wee pínkís ill dú fooooor. Mér skildist að þetta yrði þriggja mílna hlaup en fjögurra ef ég gerði pínkís. Sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var. Alison sá á mér vandræðasvipinn og spurði: Jeer dún pínkís? Datt í hug að það væri skoska heitið yfir íslenska heitið fartlek sem við hlauparar notum heima til að gera okkur breiða þegar við við leika okkur smá með hraðabreytingar. Svo ég sló til.

Við konurnar hlupum rólega upp Krákugötu (sjá síðasta blogg) og allar nema ég hlupu eins og stelpur.Að hlaupa eins og stelpa er alveg ákveðinn hlaupastíll sem ég er reyndar ekki mjög góð í. Þá hleypur maður svona sætt og pent eins og maður vilji ekki skíta mikið út skóna sína. Kallar geta líka hlaupið eins og stelpur. Eftir um það bil mílu komum við að gatnamótum og þar á horninu var hárgreiðslustofan PINKS. Og þá skildi ég loksins þetta með pínkin. Þau fólust í því að hlaupa svona 200 metra rólega að Pinks, snarbeygja til hægri á hárgreiðsluhorninu og taka á sprett um litla en afar bratta brekku, ganga svo rólega niður skuggsund að Krákugötinni (for health og saftí rísons af því þar er smá möl). Sex sinnum. Mér fannst ótrúlega gaman að gera bleikjur og hefði gjarnan viljað gera fleiri. En sætu konunum fannst þetta meira en nóg og þökkuðu guði fyrir að geta hlaupið jafnsléttu aftur heim í hús. Eins og stelpur.

mánudagur, 21. mars 2011

Kallinn með hattinn


stendur upp við staur
borgar ekki skattinn
því hann á ekki aur!

Það á reyndar ekki við mig að ég eigi ekki aurinn fyrir skattinum en mér hefur gengið bölvanlega að finna skattstofuna til að gjalda keisaranum það sem keisarnas er. Þegar ég mætti á Kennoway Drive með vöðlana af pundum til að borga Bræan landlordi sagði hann mér að ég ætti líka að borga fasteignaskatttinn. Ég var dálítið hissa (og spæld) yfir því en lét ekki á neinu bera. Hann lét svo skattstofuna vita af minni tilvist og þeir sendu mér fallegt bréf þar sem þeir rukkuðu mig um rúm 180 pund fyrir tvo mánuði en buðu mér jafnframt um að sækja um skattalækkun.

Skattalækkunina var hægt að fá af ólíklegustu ástæðum og eftir að hafa lesið mig í gegnum langan lista af alls kyns ógæfu sá ég að ég félli líklega undir það að vera einstæðingur. Það veitti mér 25% afslátt sem ég sótti um í snatri. Heyrði ekki meir frá skattstofunni svo ég ákvað að gera mér ferð í síðustu viku til að gera upp skuldir mínar. Skrifaði blogg um þá árangurslausu leit þar sem ekkert fannst starfsfólkið til að taka við aurunum mínum því allir voru á námskeiði.

Eftir að hafa skoðað reikninginn einu sinni enn sá ég að mitt heimaútibú er ekkert niðrí bæ heldur á Krákugötu og það er gata sem ég geng framhjá á hverjum degi á leiðinni í skólann. Ég ákvað í morgun að nú væri kominn tími til að gera upp. Hékk heima til rúmlega 9 til að gefa staffinu tækifæri til að opna en lagði svo í hann. Gekk sem leið lá hálfa leið upp í háskóla og fann þar Krákugötuna. Hélt af stað upp hana en ákvað að kíkja betur á heimilisfangið til að vera viss um að þetta væri rétta gatan. Jú, jú mikið rétt. Skattstofan var á Krákugötu – númer 841. Ég stóð þá fyrir utan númer 3. Hvað getur ein gata svo sem verið löng hugsaði ég með mér um leið og ég snaraði mér af stað upp á móti hækkandi númerum. Hún getur verið mjööööööög löng. Um 10 leytið var ég komin upp í 133. Við 248 datt mér í hug að banka upp á og biðja um vatn. Um miðjan morgun náði ég upp í 700 og sá að kannski tækist mér að ná á leiðarenda fyrir dagslok. Við 836 endaði gatan. Komst yfir Great Western Road og með aðstoð öskukarla og vegavinnumanna tókst mér að finna smástubb af Krákugötu og þar á milli stillansa var skattstofan. Ef ég hefði tekið tilboði skókaupmannsins á föstudaginn um ísítón skóna (sem toga upp á manni botninn í hverju skrefi) hefði ég verið komin með rasskinnarnar aftan á hálsinn.

Á skattstofunni fór allt í kerfi þegar ég mætti með reikninginn og það þurfti að selflytja mig úr almenningnum í búr númer 7 til að greiða úr mínum málum. Ég fékk vissulega einstæðingsafsláttinn enda sást á mér langar leiðir hvað ég var ein og týnd eftir þessa löngu göngu. Hins vegar reyndist ég ekki nægilega rótgróin hér í Glasgow til að fá að borga skattinn sjálf og hefði þurft að afplána minnst fjóra mánuði í viðbót til að axla þá miklu ábyrgð. Bræan landlord þarf því að sjá um sinn skatt sjálfur en ég er í það minnsta komin með stimplaðan afslátt til að sýna honum þegar hann rukkar mig.

Kvaddi skattstofufólkið með kossum og tók í fyrsta sinn strætó í skólann.

Í fréttum er þetta helst


Það er eitthvað lítið bloggstuð á mér núna. Notalegasta helgi að baki nema hvað mér varð minna úr vinnu en ég hafði áætlað. Það varð líka minna úr hlaupum en til stóð. Sat heima á föstudag að vinna og var svona að hugsa um að fara út að hlaupa síðdegis en ákvað að fara frekar í labbitúr í bæinn og kaupa mér nýja hlaupaskó. Ég er með eina hér ytra sem gegna alhliða hlutverki. Ég nota þá til hlaupa, fer á þeim á fjöll og vappa um þeim í bænum um helgar. En svo nota ég þá líka innanhúss í leikfimi. Þvæ þá yfirleitt á milli tíma en á föstudag gleymdi ég því og dró þá molduga upp úr poka í íþróttahúsinu. Reyndi í laumi að berja af þeim mykjuna inn á klói og hélt það hefði tekist. Fór svo í tótal boddí vorkát og fyrr en varði stóð ég í moldarbing við dýnuna mína. Reyndi laumulega að ýta mestu haugunum undir dýnuna en það varð áberandi.

En nú á ég sem sagt nýja skó og get nýtt hina meira innandyra. Á laugardag fór ég svo í nýju hlaupaskóna mína og nýju hlaupapeysuna mína með pakka á pósthúsið og í matarbúð. Hafði vissulega ætlað að hlaupa á milli þessara tveggja viðvika en það eina sem hljóp var tíminn og hann hljóp frá mér að venju. En ég var ótrúlega flott í nýju fötunum, bæði á pósthúsinu og í Morrisons.

Ég bætti hlaupaleysið upp með ´fjallgöngu´enda að æfa fyrir ægilega ferð heim í maí. Við Anna klifruðum því upp á fjallið Dumpling sem Brian landlord hafði mælt með til æfinga. Hann sagði reyndar að fjallið væri ekki hátt og að það tæki ekki nema klukkutíma að ganga það. Við Anna vorum 10 mínútur upp þessa 146 metra. En útsýnið var ótrúlegt. Þetta er oft frekar spurning um staðstetningu en hæð. Og við horfðum bæði yfir Loch Lomond og allar skosku sveitirnar í hinar áttirnar.

Í gær fannst mér ég stirð og stíf og ákvað að taka 5 km mínihring í Viktoríugarðinn. Þar hef ég oft hlaupið en í þetta sinna ákvað ég að fara heim aðra götu en ég fer vanalega. Sú ákvörðun reyndist 7 km löng því mér tókst eina ferðina enn að snarvillast. Hljóp upp og niður götur, norður og suður hverfi og varð svo glöð að sjá ítalska veitingahúsið Italia við Greit Vestern götuna að ég næstum kyssti það. Þaðan komst ég loksins heim.

Ég keypti hins vegar The Times á laugardaginn og það tekur lungan úr helginni að lesa það ágæta blað. Þessa helgina var svona smá skandínavíuþema í gangi. Hér er verið að sýna Forbrydelsen á BBC sem heitir eitthvað allt annað og enginn heldur vatni yfir Sopie Graaböl sem þykir hafa náð að skapa algjörlega nýja kvennalöggutýpu. Sara Lund löggukona er mærð af því að vera einhverf og ómannblendin, áhugalaus ástkona með lítið sexapíl, slök móðir og frámuna kærulaus og léleg húsmóðir. Hún er eiginlega dáð fyrir að vera dæmigerð ekkikona (karl?). En svo smitar þetta á allt danskt og í blaðinu er bæði talað um færeysku peysuna hennar, Arne Jakobssen stóla og aðra hönnun og viðtal við danska sendiherrann í London um hvers vegna allt er svona gott og flott í danaveldi. Þar vísar sendiherrann í danska húmorinn, danska matinn, danska tryggingakerfið, danskt jafnræði og jafnrétti kynjanna.

Á öðrum stað rak ég svo augun í orðið Ísland og las áfram áköf. Þar var verið að fjalla um einhverja breska skítabræður, fjársvikara og loddara sem eru nú í rannsókn hjá Alvarlegu Fjársvikanefndinni vegna tengsla sinna við Kaupþing og Heiðar Már. Þar var sagt frá sukki og svínaríi og ótrúleg óhófsömu líferni um boð í glæsisnekkjum á suðureyjum. Á myndunum brostu þeir glaðbeittir, rauðir í framan og sveittir með armana utan um litlar, barmmiklarm ljóskur sem þeir hafa örugglega bara verið að passa.
Danmörk – Ísland 14-2.

föstudagur, 18. mars 2011

Á verkfallsdegi


Stundum sit ég hérna heima á Kennoway Drive og vinn en aðra daga sækir að mér einmanaleiki og þá dríf ég mig ´í vinnuna´- fer upp í skóla þar sem ég hef vinnuaðstöðu og hitti ´vinnufélaga´. Í gær var þannig dagur svo ég axlaði leikfimisdótið og hlaupaskóna, ferðatölvuna, bókasafnsbækurnar og nestið og fór í skólann. Fyrir utan aðalbygginguna stóð fullorðið fólk með kröfuspjald. Þetta reyndust vera háskólakennarar í dagsverkfalli. Stoppaði hjá þeim, fékk dreifibréf og spurði út í málin. Háskólar hér eru eins og víðar að bregðast við niðurskurði og ein aðgerðanna er að ráðast á eftirlaunasjóði háskólakennara og þeir ósáttir við það. Ég kvaddi og fór á Kennslumiðstöðina.

Í kennslumiðstöðinni voru allir í verkfalli nema öryggisvörðurinn í andyrinu og svo Vigga yfirkona. Kíkti til hennar til að athuga hvort hún gæti eitthvað aðstoðað mig varðandi bókasafnskortiðð mitt sem er runnið út. Vigga er sérstök, svo einstök að hún kemur mér alltaf á óvart. Og ég sem hélt ég þekkti allar tegundir af fólki. Hún er full af andstæðum og undarlegu drama. Þegar ég bað hana um húsaskjól fyrir löngu sendi hún mér afar hlýlegt bréf og hlakkaði þessi ósköp til að fá mig í hús. Þegar ég mætti sagði hún mér að koma eftir mánuð. Þegar ég þrjóskaðist við lét hún mig fá besta herbergið í húsinu en sagðist jafnframt ekki hafa neitt pláss fyrir mig og þurfa fljótlega að henda mér út því hér væri mikið um að vera og þyrfti að nýta hverja smugu. Síðan þá hef ég ekki séð nokkurn mann á hrakhólum.
Í gær fórnaði hún höndum þegar ég mætti, stökk upp og spurði hvort ég vissi ekki að það væri verkfall. Jú ég sagðist hafa stoppað hjá aðgerðarsinnum en sjálf væri ég ekki í verkfalli hér enda gestur.Ég þorði ekki að spyrja hana hvað hún væri að gera í vinnunni. Ég bað hana um hjálp við að framlengja bókasafnskortið. Hún taldi það vonlaust mál. Hún yrði að hafa samaband við Júlían og gæti ekki verið að biðja hann um að forgangsraða svona smáræði nú þegar hann væri orðinn næsti yfirmaður háskólans. Ég skildi það vel að vararektor hefur annað við tímann að gera en útbúa bókasafnskort fyrir kerlingar að norðan. Ég sagðist þurfa að skila bókasafnsbóknum mínum. Hún bað mig í guðanna bænum að fara ekki á bókasafnið á þessum verkfallsdegi. Eru þau á bókasafninu í verkfalli spurði ég. Nei en Vigga taldi eins víst að háskólakennararnir myndu setja upp víggirðingar og jafnvel slást. Mér varð hugsað til þessara fimm sem stóðu með spjaldið við aðalbygginguna. Þau virtust frekar hættulaus en kannski höfðu þau sent ofbeldisfullu kennarana á bókasafnið. Kvaddi Viggu og kinkaði aftur kolli til öryggismannsins sem passaði okkur tvær fram eftir degi.

Fór i dagslok á bókasafnið að skila bókunum. Kíkti laumulega fyrir horn til að forðast gúttóslaginn en allt virtist með kyrrum kjörum og jafnvel komið smá vorlykt í loftið. Annað hvort voru hættulegu háskólakennararnir í kaffi eða bara farnir heim. Á bókasafninu talaði ég við elskulega stelpu í þjónustugatinu. Sagði henni að aðstoðarrektor væri víst of upptekinn til að búa til nýtt kort handa mér. Hún hló og framlengdi kortið án nokkurra vandræða. Vonandi verður hún einhvern tíma rektor Glasgowháskóla

miðvikudagur, 16. mars 2011

Hómalón


Dóttlan mín farin aftur heim og skilur eftir sig einmana móður, þúsund tóma plastpoka og undarlega hitakremslykt í stofunni. Við erum búnar að hafa það afar gott saman síðustu daga og dagskráin hefur verið nokkuð einföld. Eftir léttan morgunverð höfum við axlað regnhlífarnar og ætt í gegnum regn eða slyddu í miðbæinn þar sem við höfum að mestu haldið til HM og Primark. Stundum höfum við gert stutt stopp til að setjast á kaffihús eða jafnvel bar til að safna orku en svo haldið áfram þar til okkur hefur verið hent út úr búðum í dagslok. Ég tuða aðeins í dóttlu um nægjusemi og sjálfbæra veröld, hún kaffærir mig í einhverjum óskiljanlegum rökum. Eitt kvöldið var sérstök frétt í BBC Skotland um að hagur landsins væri a vænkast. Við töldum okkur eiga þátt í þeirri upprisu. Á kvöldin höfum við eldað eitthvað í pínulitla eldhúsinu mínu og borið á hitakrem á þreytta fætur og axlir. Í gær bættum við um betur og fengum okkur feisliftmaska og lituðum á okkur hárið.

Og svo voru þessir dagar farnir og enn á ný kominn tími til að strekkja á naflastrengnum sem dóttla hefur lýst sem ofursterkri gúmmíteygju: það má teygja hana dável en að endanum skreppur hún alltaf saman. Ég fylltist svo miklum aðskilnaðarkvíða að ég fylgdi henni í strætó alla leið út á völl. Hún hofði ásökunaraugun á mig þegar að hún setti töskuna sína í tjékkið og í ljós kom að hún vóg aðeins 16 kg. Það þýðir að enn lágu 4 kg ókeypt í Primark.

Tók strætó aftur til Glasgow ein og lítil. Til að nota daginn ákvað ég að fara í bæjarskrifstofuna og borga skattinn minn og láta svo klippa mig sem mér finnst alltaf erfitt dæmi í útlöndum. Gekk illa að finna skattinn en eftir að hafa þvælst hús úr húsi náði ég sambandi við opinberan starfsmann í gegnum dyrasíma sem sagði mig á næstum réttums tað en að það væri allt lokað. Akkuru spurði ég og fékk að vita að í dag eru allt skattafólkið í stafftreining. Nú jæja, prófa aftur síðar í vikunni og fæ þá vonandi vel þjálfað lið til að tala við.
Næsta verkefni var þá klippingin. Þurfti reyndar að kaupa mér skæri um daginn og var lengi vel að velta því fyrir mér hvort ég gæti ekki tekið smá klippingu sjálf. Hætti við það og ákvað að fara til þeirra félaga Tony og Guy sem klipptu mig einu sinni í Oxford þannig að ég þorði ekki út úr húsi í viku ...en varð svo ánægð þegar á leið. Gekk illa að finna þá en þegar það tókst kom í ljós að einföld klipping kostaði rúmar 12 þúsund krónur. Mér fannst það dýrt og kvaddi. Fór heim á mína Dumbartongötu og fékk þar klippingu fyrir helmingi minna fé – en það getur líka verið að ég hafi borgað miðað við gæði.

Ég skil ekki alveg þessar hárgreiðslustofur í útlöndum. Þarna var enginn inni nema ég og fjórar starfsstúlkur. Fyrst kom neminn og klæddi mig úr kápunni og spurði hvort ég væri með hreint hár. Ég sagði já. Hún þríþvoði á mér hárið. Setti mig í stólinn til Carmen sem tók lint í höndina á mér og kynnti sig. Hún spurði svo hvernig hárið á mér væri þegar það væri þurrt. Ég reyndi að lýsa því hvernig hárið á mér var þegar ég gekk inn á stofuna hennar nokkrum mínútum fyrr. Hún spurði hvort það væri liðað. Já sagði ég nokkuð stolt. Við ákváðum saman að halda stílnum en stytta það vel. Hún mundaði skærin og klippti ein fjögur hár af hausnum á mér. Náði svo í hárþurrkuna og byrjað að blása og stílesera með pínulitlum hárbursta. Ég fylltist örvæntingu. Hún náði í alls konar efni og sturtaði í hársvörðinn og hélt áfram að blása. Þetta tók óratíma og mig fór að gruna að Carmen héldi að ég væri komin í greiðslu en ekki klippingu. Sagði því gráti nær: Ætlarðu ekki að klippa mig meira? Hún horfði ströng á mi g og sagðist þurfa að ná í fleiri efni til að textúlæsa hárið. Þannig væri fyrst hægt að klippa það. Svo setti hún fleiri efni í hárið, hitaði sléttujárnið og mundaði af leikni. Eftir mikla textúlæsingu klippti hún aðeins meira, náði í spegil og brosti glöð. Ég sagði meira, hún varð súr, klippti smá meira og náði svo í lakk og lakkaði vel yfir allt. Brosti aftur eins og sól, skrifaði nafið sitt á kort og vonaðist til að ég nyti þess sem eftir væri ferðarinnar. Fór heim með næstum hárið og 6 tegundir af hárpródúkti í því. Jæja ég á þó altént skærin ennþá.

Það er þögn í íbúðinni á Kennoway Drive og ég næ mér í dagatal til að telja dagana þar til ég flýg aftur heim til minna. Þeir eru sem betur fer ekki margir.

mánudagur, 14. mars 2011

Öskubuska


Dóttlan mín er komin í helgarheimsókn. Hún lenti um hádegisbil á laugardag og ég tók strætó út á völl að sækja hana. Eftir að hafa knúsast smá og borðað skoskt brauð var okkur ekkert að vanbúnaði. Við settum undir okkur hausinn og héldum út í slyddu og slagveður og örkuðum blautar í fæturna alla leið oní bæ. Dóttlan baugótt og ósofin ljómaði eins og sól þegar í gegnum mugguna fór að grilla í langþráð kennileiti: HM og Primark. Hún var komin heim. Þetta var samt fyrst og fremst könnunarferð fyrir frekari víking. Hún rétt svona skimaði hillur og rekka haukfráum æfðum augum, greip örsnöggt í flíkur og kannaði kostnað og gæði. Umreiknaði úr pundum í aura og áætlaði hagnað. Bætti við vísitölum og áhættukosnaði og kinkaði kolli þokkalega sátt.

Yfirlýst markmið ferðar í dag voru skór. Og skó fann hún. En bara einn. Sá var reyndar á mjög góðu verði. Og flottur. En stakur. Öldruð móðirin skreið örvæntingafull á maganum á milli hillurekka í leit að hinum. Dóttlan talaði við örþreytta og frekar kærulausa starfsmenn. Fyrir þeim var týndur skór ekki endir alheimsins. Þeir söguðu að vísu yes, yes en héldu svo bara áfram að raða í hillur og undirbúa næsta dag. Við hugleiddum ampúteringu. Móðirin skreið áfram um gólfin. Við mægður játuðum okkur sigraðar þegar ljósin í kauphöllinni voru slökkt og öflugir öryggisverðir mættu upp rúllustigana til að henda okkur út.

Fórum heim og borðuðum pasta til að hlaða fyrir næsta dag. Vöknuðum eiturhressar þrátt fyrir skóleysið og hófum daginn á flóamarkaði. Borðuðum líka í fyrrum teppaverksmiðju sem nú hýsir frægt brugghús. Ákváðum að þá væri komið nóg af hámenningu og réðust aftur í innkaup. Dóttlan sem fyrr örugg og ákveðin í fasi, ég alltaf að leita að henni. Það var ekki auðvelt, sérstaklega ekki eftir að hún fór að klæða sig í nýkaupin jafnóður.Var ýmist að leita að stúlku í svartri kápu eða brúnni.

Held að uppskera dagsins hafi verið þokkaleg. Við sátum í það minnsta saman í sófa í gær í nýju náttkjölunum okkar og borðuðum alíslenskt ostapopp.

Það er runninn nýr dagur. Dóttla sefur enn. Hér á stofuborðið sé ég að hún hefur lagt lista yfir það sem enn vantar. Það er strangur dagur framundan.

Að tilheyra hópi


Þegar ég hef brugðið mér af bæ til lengri dvala hefur það verið mitt fyrsta verk að finna mér hlaupaklúbb. Þannig hef ég hlaupið með lókalliði í Álaborg, London og Oxford og náð á hlaupum að kynnast bæði innfæddra siðum og rata á nýjum slóðum. Hér í Glasgow gekk þetta ekki eins auðveldlega fyrir sig. Ég var talsvert að leita fyrst eftir að ég mætti og gúgglaði alls konar möguleg leitarorð en án mikils árangurs. Fann vissulega nokkra klúbba og skoðaði. Einn er upp í háskóla en þar er meðalaldurinn 12 ára og ég kann ekki við að vera byrði á erlendum börnum. Annar var til styrktar samkynhneigðum og þó ég hafi ekkert á móti því að hlaupa með hýrum þá reyndust þau líka öll 12 ára. Svo voru nokkrir hér og þar en allir langt í burtu og ég löt að finna út hvernig ég ætti að komast í úthverfi að hlaupa. Hef því látið nægja að hlaupa ein með sjálfri mér litla hringi hér í nágrenninu. Þó að slík einmenningshlaup séu ekki beint leiðinleg þá þrýtur umræðuefnin fljótt og ég neyðist til að hlaupa í þögninni með sjálfri mér.

Þegar ég var eiginlega farin að hætta að nenna að hlaupa með mér ákvað ég að fara aftur á netið og leita betur. Rekin áfram af örvæntingu gekk þetta betur og ég fann ekki bara klúbb heldur heilt hlaupanetverk Glasgowborgar sem hleypur frá ólíkum bæjarhlutum eftir dögum. Það sem reyndist næst mér er eins og systurfélag trimmklúbbsins míns heima að því leyti að hlaupið er á sömu dögum. Það er líka hægt að verða ársmeðlinur eins og heima en ólíkt því sem ég þekki þarf hér að borga fyrir hvert einstakt hlaup.

Ég ákvað að núna á laugardaginn myndi ég mæta. Var búin að undirbúa mig vel. Hljóp t.d. í íþróttahúsið í vikunni til að athuga hvað ég væri lengi að koma mér á áfangastað og fá frekari upplýsingar um stað og stund. Þvoði líka hlaupaskóna mína og þurrkaði á miðstöðvarofninum. Sá þetta alltaf fyrir mér að ég kæmi hlaupandi léttilega úr Viktoíugarðinum með sólina í bakið og á stéttinni við badmintonhöllina stæði hlaupahópurinn allur, brygði hönd fyrir augun og segði: Nei hver er nú þetta sem kemur þarna svona létt á fæti?

Vaknaði átta á laugardagsmorgni í hörmulegu slydduveðri. Velti fyrir mér að fara bara aftur upp í en gaf ekkert eftir, fór í nýþveginn hlaupagallann, setti pening í vasann og hljóp af stað. Ég var orðin rennandi blaut á vesturhliðinni áður en ég komst út götuna mína. Í Viktóríugarðinum hafði ísköld slyddan læðst niður hálsmálið og meðfram öllum saumum og ég orðin köld inn að beini. Það var enginn fyrir utan badmintonhöllina þegar ég mætti þangað og ég stóð þar heillengi alein og blakaði slyddunni úr augunum (eða voru það tár?)og bölvaði veðrinu og heiminum öllum. Þegar ég var um það bil að fara aftur heim vonsvikin og leið kom kerla á mínum aldri á harðakani út úr höllinni og náði í mig. Upp á stigapalli stóðu fjórir hlauparar og tveir þjálfarar, miðaldra konur. Þær reyndust hinar elskulegu, voru glaðar að fá mig í hópinn og það óð á þeim. Ég skildi fyrst ekki orð af því sem þær sögðu en áttaði mig svo á því að þær voru að útskýra fyrir mér að af health og saftí ríson gætum við ekki farið út að hlaupa í dag. Nú sagði ég. Já það er of hálkt úti til að hlaupa. Ég sagði þeim að ég væri búin að hlaupa rúma 2 km til þeirra og að færið væri fínt. Þær sögðust afar leiðar en útskýrðu að við óbreyttu hlaupararnir skildum ekki nógu vel health og saftí dæmið. Ég varð hugsað til minna þjálfara heima. Ætli þær viti ekkert um health og saftí. Þar er engin miskunn hjá Magnúsi og okkur félögum í trimmklúbbnum er miskunnarlaust þvælt um allan bæ í hvaða veðri og aðstæðum sem er. Þær kalla manndrápsbyli hressandi og biðja okkur í mesta lagi að setja á okkur brodda þegar að allir aðrir eru á slysó fótbrotnir. Þær hefðu kallað þessa slyddu sumarblíðu!

Við óbreyttu kinkuðum kolli, horfðumst í augu og gerðum uppreisn. Kvöddum health og saftí kellingarnar og hlupum sjálf út í slydduna. Ókeypis og eftirlitslaus. Og það var sko gaman. Við möluðum út í eitt og þó það væri á skosku (hjá þeim) eru hlaup nokkuð alþjóðlegt dæmi og orð eins og marthon, injury, asics, 21 k, training og PB gat ég skilið á útlensku. Við hlupum í slyddunni leiðir sem ég hefði aldrei vogað mér, meðfram síkjum, niður stíga, innum húsasund og enduðum kát fyrir framan badmintonhöllina. Þar reyndu þau að læra nafnið mitt og ákváðu að það væri Good Run og hlógu dátt að eigin fyndni. Ég fór heim með 16 km að baki og loforð um að mæta næst með föt til skiptanna svo ég geti farið með þeim í kantínuna að borða eftir hlaup. Sem ég segi, enn og aftur: hlauparar eru bara einstakt fólk!

fimmtudagur, 10. mars 2011

Þvottadagur


Það var stórþvottadagur hjá mér í fyrradag eftir að Hannes kvaddi. Hann sagði mér reyndar að frá því að síðan hann losnaði við mig að heiman hefði hann þvegið eina vél. Ég þefaði varlega að honum og hann virtist í lagi og engin kvörtun hefur enn borist til mín frá heilbrigðiseftirlitinu. En ein vél á mánuði! Þegar ég stýri búinu gengur þvottavélin daginn inn og út og Hannes sem hefur það hlutverk að brjóta saman þurran þvott er alltaf gáttaður yfir magninu. Hann flokkar þvottinn okkar í tvennt. Minn stafli er himinhár en hans yfirleitt sokkarpar og nærur. Ójafnvægið skýrist að hluta til af öllum þessum íþróttafötum og handklæðum sem fylgja mínu sprikli en svo hef ég tendens til að ´fylla vélina´- spara með því að troða í hana næstum hreinum fötum – svona frekar en að hengja þau aftur upp í skáp. Það er ekki beint hægt að kalla mitt starf erfiðisvinnu, þetta er mestan part svona þokkalega hreinlegt skrifstofstarf. Þannig að það má alveg fara tvisvar í sumar flíkur þó ég hafi setið í þeim á stól í 8 tíma í vinnunni. Laga það!

Hér ytra hef ég ekki mikið til skiptanna og því eru þvottar dálítið vandamál – og þetta prinsipp með að fylla vélina gengur bara ekki upp. Þvottavélin er hins vegar rúmgóð og prógrömmin löng og það tekur mig sárt að sjá nokkur sokkapör veltast um klukkutímun saman í tóminu. Svo er vélin svo öflug að það heyrist í henni ekki bara um allt hús, heldur alla Glasgow og eflaust á kyrrum dögum til Edinborgar. Það var því sérstök hamingja að geta tekið af rúmun og fyllt vélina af rúmfötum og handklæðum, hlaupafötum, nærbuxum og sokkum og ég setti meira að segja einu náttfötin mín með í púkkið. Vandinn er hins vegar að þurkka þetta allt.

Daginn sem ég kom á Kennoway Drive fór Bræan landlord með mig út í bakgarð og sýndi mér þar stoltur þvottasnúrur. Allar þessar átt þú sagði hann eins og konungur við gjafvaxta dóttur og benti yfir garðinn og hér máttu hengja þinn þvott. Næstu tvo daga var ég svo með stanslausar áhyggjur af því að eiga ekki klemmur og velti því mikið fyrir mér hvar ég ætti að kaupa þær. Það er skemmst frá því að segja að frá því að Bræan sýndi mér snúrurnar hefur ekki stytt upp að nokkru gagni. Það væri fullt starf fyrir marga að rífa þvottinn inn um leið og það skellur á með skúrum. Klemmurnar eru því enn ókeyptar. Ég nota hins vegar bara gamla trixið. Skrúfa miðstöðina í botn, sett plöggin á sjóðheita ofna og sit sjálf bersössuð í hugglega heitu stímbaði inni í stofu og skrifa.

mánudagur, 7. mars 2011

Söknuður


Hef ekki komist í að blogga upp á síðkastið því Hannes kom í heimsókn og truflaði mig. Sótti hann með strætó út á flugvöll á miðvikudaginn og var alsæl að sjá hann aftur eftir mánaðar viðskilnað. Reyndar ekki sælli en svo að ég skildi hann eftir einan í Glasgow daginn eftir á meðan að ég þvældist eftir krókaleiðum til Edinborgar á ráðstefnu. Mér til málsbóta fannst mér ráðstefnan leiðinleg og var eftir fyrsta fyrirlestur komin aftur til hans í huganum.

Þó ég teljist íbúi þá var Hannes auðvitað Íslendingur í útlöndum svo við lögðumst í ferðamennsku og ólifnað. Drukkum gin og tónik á undan hverri máltíð og ég sem var ekki búin að borða sykur í mánuð gúffaði í mig tveimur íslenskum kókosbollum, útlensku Malteser, risaskammti af klísturkaramellubúðingi og ítölskum ís. Hannes tók að sér að kynna mig fyrir hverfisbörunum. Ég er hálfgerð raggeit þegar kemur að því að vappa ein inn á bari en hér á næsta horni eru einir þrír afar lofandi sem ég gjóa alltaf augunum inná þegar ég rölti framhjá á föstudagskvöldum með bókasafnspokann. Við prófuðum þá alla og eignuðumst meira að segja vini á einum sem vildu gefa okkur hund. Þetta var mjög stórmannleg gjöf því hundurinn, af Nýfundnalandskyni, var á stærð við kvígu. Við ákváðum að afþakka gjöfina. Af því að þetta verkefni gekk svo vel prófuðum við fleiri bari. Nú og við horfðum líka á síðustu mínúturnar í nokkrum fótboltaleikjum, borðuðum snilldarmáltíð á Tveimur feitum konum, skoðuðum háskólann, garða, byggingar, gengum göt á sólana, keyptum föt á barnabörnin, fórum á þrjú söfn, nokkur kaffihús og bari og í skoðanatúr með rauða strætónum. Vitum orðið allt um Mackintosh sem er arktiekt en ekki karamella. Í morgun var Hannes tilbúinn í flug aftur heim og ég sendi hann meira að segja með fyrra fallinu á flugvöllin svo ég gæti fundað með kollegum á skæpinu.

Það varð fjarska tómlegt eftir að hann fór. Fimm dagar eru fljótir að líða og líklega hæfilegur tími fyrir par eins og okkur. Mér fannst hann enn bera af öðrum mönnum þegar hann kvaddi og tíminn reyndist bæði of naumur til að taka upp gamlar værur (eins og þegar hann sofnaði í leikhúsinu og nennti ekki að taka sameignina – þetta eru reyndar tvö óskyld tilvik)og plana eitthvað um framtíðina (held að Hannesi þyki værurnar skárri en framtíðarhjal). Hannes náði reynar aldrei að smakka haggis og við gleymdum að drekka víský!

Fór sem betur fer í ferðalag í kennslumiðtöðina í Stirling með Stuart um hádegisbil. Gatt frætt hann um ótalmargt eftir kynnisferðina um helgina (hann sem fer á hverjum degi um M8 brúna hafði ekki hugmynd um að auk hans færu 119.999 aðrir bílar þar um á dag!). En það sló lítið á söknuðinn að sitja og hlusta á einhverjar skoskar kellingar mala um mikilvægi góðrar kennsluhátta svo þegar ég kom aftur til Glasgow leitaði ég uppi flottu hlaupabúðina sem við fórum í á föstudaginn en fundum hvergi á sunnudeginum. Fann hana í dag og þar biðu mín enn hlaupaskórnir sem ég hafði látið taka frá og af því ég var svo sorgmædd bætti ég við hlaupapeysu og toppi. Arkaði með stóran innkaupapoka heim og fann að ég var jú pínulítið glaðari. Hefði samt örugglega þurft í það minnsta buxur og stakk í viðbót til að hætta að sakna.

miðvikudagur, 2. mars 2011

Danstími


Ég fór í dans í gær eftir að hafa hlaupið 10 km léttileg fyrr um daginn. Ég reyni alltaf þegar ég get að telja öllum trú um að ég sé bara assgoti góð að dansa og guð einn má vita hvað ég væri að gera í dag hefðu foreldarar mínir staðið sína plikt og sett mig í dansskóla. Ég fór einu sinni í Ceroc (sem er svona komdu að dansa) með Michele í Oxford. Þar var dansað í bæjarráðssalnum og á milli dansa tylltum við okkur í rauða plussstóla. Nú vildi Anna endilega fá mig með í skoskt Creoc. Ég lét til leiðast og átti að mæta á Jumpin Jack tuttugu mínútur yfir sjö.

Af því að lífshlaupið var í gangi þegar ég kom hingað út fyrst (og hvert skref talið) hef ég ekki enn tamið mér að fara neitt nema fótgangandi. Þetta er agalegt vesen og ég er hreint út sagt að verða bæði úr mér gengin og illa gengin á göflum. Ég sem sagt strunsaði í bæinn á maraþonhraða sem tók 45 mínútur og mætti á barinn sem var nú dálítið annað umhverfi ég er vön frá Oxford. Þar beið Anna og svo hímdu hér og þar nokkrar sálir sem virtust týndar. Eftir smá stund kom svo Heather á sviðið og reyndi að hressa við mannskapinn sem tókst bærilega og allt í einu fylltist gólfið af pörum.

Það voru – að sjálfsögðu – mun fleiri konur en karlar svo þeir stóðu kyrrir á milli laga en við færðumst reglulega á milli og urðum inn á milli að standa í stiganum og bíða eftir að kæmi að okkur. Þetta var byrjendatími og ég náði að dansanokkur spor í slómósjón við fullt af herrum. Við náðum á hálftíma sporunum fram og aftur, fram og aftur, fram og aftur en sleppa hönd og sveiflast fram hjá herra, eitt skref aftur, eitt skref til hægri, út með hendina, hraður hringur, eitt skref aftur, hönd á öxl á herra (sem allt í einu snýr baki í þig) og láta höndina renna yfir öxlina á honumog sveifla sér aftur fyrir hann, hönd endar í lófa, aukahringur og svo aftur fram og aftur (sko og þetta þurfti ég að borga 7 pund fyrir en þið fáið alveg ókeypis! – reyndar er þetta bara það sem dömurnar gera).

Eftir byrjendatímann mátti æfa sig og þá snaraðist að mér leiguliði (taxi danser) og einhenti mér á dansgólið og sveiflaði mér eins og óður fram og aftur. Ég var skelfingu lostin og alveg eins og þegar ég vangaði í fyrsta sinn í gaggó var lagið sem spilað var undir dansinum gjörsamlega endalaust. Brosti í danslok vandræðalega til mannsins sem fór strax að leita að annri konu að hrella, skjögraði aftur í sætið til Önnu sem var nú komin í stuð og stakk upp á við héldum bara á fram í tímanum sem nú var fyrir meðaljóna. Kláraði vatnið mitt, sá á eftir henni út á gólfið, veifaði bless og labbaði aftur í 45 mínútur heim.

Farin út á flugvöll að sækja Hannes. Í þetta sinn ætla ég samt ekki að ganga.

þriðjudagur, 1. mars 2011

Mæling heimsins


Ég hef þurft að líða fyrir það í gegnum tíðina að vera félagsvísindakona. Það þýðir að ég hef stundum átt í basli með stærðfræðina (féll í landsprófi og svona). Ég var samt stundum látin kenna börnum á Akranesi stærðfræði en það er nú bara enn eitt dæmið um hvernig farið er með landsbyggðina. En nú er þetta held ég allt að breytast og ég farin að sýna slíka raunvísindatakta að þeir fá Einstein til að roðna í gröfinni.

Ég sat sem sagt heima í dag á náttfötunum að vinna og um og eftir kaffitíma ákvað ég að nú væri lag að fara út að hlaupa. Ég vildi ekki fara langt því í kvöld er meiningin að labba niður í bæ á klúbbinn Jumping Jack og æfa Ceroc dansa. Það hef ég áður reynt í fyrri rannsóknarleyfum. Ákvað þess vegna að 10 km væru alveg hæfilegt. En þá versnaði í því. Mig langaði að prófa nýja leið og á risakort af Glasgow og öllum hennar úthverfum - en ekkert til að mæla það með. Sumir (kannski þeir sem eru greindari en ég) hefðu líklega fundiði gúgglemapp á netinu en ég er ekkert fyrir einfaldar lausnir. Ég breiddi fyrst úr risastóra kortinu mínu yfir allt borðið og ákvað að fara í norður – austur – suður og vestur. Ég fann strax mælikvarðann á kortinu en hann var í mílum. Umreiknaði það í snarhasti í kílómetra (ég er orðin dálítið góð í því)og fékk út að hver slíkur væri um 5 sentimetrar á kortinu. Enn vandaðist málið því enn átti ég ekkrt til að mæla með. Gúgglaði reglustiku og viti menn hana er að finna í raunstærð á netinu. Reyndi að mæla kortið fyrst beint með þessari rafrænu reglustiku í tölvunni en það gekk ekki vel og allt var komið í verulega flækju og kuðl. Leit í kring um mig í örvæntingu. Á borðinu fyrir framan mig voru alls konar bækur (flottar af bókasafninu) dagatal, kaffibollinn minn og svo Vasa hrökkbrauð úr Ikea - með osti. Plokkaði ostinn af – og nagaði hrökkbrauðið niður í nákvæmlega 5 sentimetra samkvæmt gúgglureglustikunni og mældi leiðina. Sýndist hún 10 km.

Lagði á minnið helstu götur og hljóp sem leið lá upp götuna mína í norður. Komst svona eins og einn og hálfan kílómetra áður en ég fór að villast. Samkvæmt kortinu átti ég að hlaupa meðfram risastórri sjúkrahúslóð en var allt í einu komin inn á miðja lestrarstöð. Stökk þar í gegnum síðdegisösina og út á götu hinum megin teinanna og ákvað að fá ekki neitt örvæntingakast. Sikksakkaði norður og austur til skiptis, lenti ínn á lóð hjá ókunnu fólki, vinkaði til þeirra og tók strauið aftur út á götu. Rambaði út á hraðbraut og fann þar stuttu síðar leið meðfram á sem ég ákvað að gæti hugsanlega verið Kelvin áin. Eftir um tvo – þrjá kílómetra í viðbót var ég farin að kannast við mig og síðasta spölinn hljóp ég hamingjusöm á áður könnuðum slóðum. Tók smá krók til að forðast umferðarfnykinn á Dumbartongötunni minni og stökk léttilega upp síðustu brekkuna upp að Kennoway 6. Leit á garminn - hann sagði 9:98! Mæling heimsins – pís of keik með Íkea!