þriðjudagur, 15. febrúar 2011

Á rauðu ljósi


Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blogga tvær færslur á dag - en það er bara smávegis tengt umferðinni hér í Glasgow sem er að gera mig gráhærða og ég verð að fá að skrifa um. Nei - það er hefur ekkert með það að gera að fólk hér skuli keyra röngu megin á götunni. Maður hefur nú svo sem lent í þeim ósköpum áður og mesta furða að ég skuli enn vera á lífi. Þegar ég þarf að fara yfir götu stend ég iðulega hálf út á akreininni og kíki eftir bílum til vinstri á meðan þeir koma æðandi upp að hægri hliðinni á mér. Í þessi þrjú skipti sem mér hefur verið boðið upp í bíl í vikunni hef ég hiklaust sest inn hægra megin og ekkert skilið í þessu stýri sem tekur allt plássið þar.
Nei, nei það sem er að trufla mig er ótrúlegt seinlæti gangbrautaljósa. Hér tekur svo langan tíma að koma grænt að bíðandi ungabörn nálgast unglingsárin, ungar konur verða miðaldra og gamlir eru bornir til grafar- og rauða ljósið logar enn. Ég hefði sem best getað lesið allar hrunskýrslunar á þeim tíma sem ég notað í að bíða eftir grænu ljósi þessa rúmu viku mína hér ytra. Ekki það að ég sé neitt rosalega að flýta mér eitt eða annað. Vandinn er hins vegar að ég er í Lífshlaupinu og tek nákvæmar mælingar á allri minni hreyfingu sem ég skrái samviskusamlega fyrir liðið mitt á bókasafninu í Stakkhlíð. Og þá stressar mig óneitanlega þessi endalausa bið eftir græna ljósinu þegar ég vappa daginn langan um þvera og endilanga Glasgowborg. Stundum stekk ég aðra leið þegar ég sé hvað verða vill. Í önnur skipti reyni ég að ganga hraustlega í sömu sporum (sbr. morgunleikfimina í útvarpinu) þó það veki furðu sambíðenda minna. Í nokkur skipti hef ég hreinlega áætlað biðtímann og dregið frá heildarhreyfingatímanum. Lokaúrræðið er svo að gefa skít í biðina á grænu og taka lífshlaupið í eiginlegri merkingu - yfir á rauðu.

2 ummæli:

Þóra Björk Hjartardóttir sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Þóra Björk Hjartardóttir sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.