föstudagur, 18. febrúar 2011
Gatan mín, Kennoway Drive, er bara venjuleg smágata en hún liggur svo út á alvörugötu, Dumbarton Road og hana labba ég oft á dag. Dubarton er á margan hátt lík þeim götum sem ég hef búið í nágrenni við í fyrri rannsóknarleyfum (Caledonian í London og Cowley í Oxford). Dumbarton er bráðlifandi og skemmtileg verslunargata þó hún yrði seint talin flott. Þar er að finna nokkrar konubúðir (svona Verðlista), fullt af smábúðum sem selja alls konar smáhluti og verkfæri, nokkur bakarí, eina brennivínsbúð, tvær hreinlætistækjabúðir, þrjár teppabúðir, eina arinbúð, pósthús, nokkur kaffihús, fullt af skyndibitastöðum, nokkrar krár, óteljandi hárgreiðslustofur, apótek, tanngómabúð (ég er ekki að ljúga), spilakassabúllur, mjög margar naglaásetningasjoppur og brúnkustaði - já og svo heilan helling af búðum sem selja föt og annað til styrktar öllu mögulegu. Þarna eru búðir reknar til styrktar Rauða krossinum, smáfuglum, sykursjúkum, fátækum, einfættum, leiðinlegum og guð má vita hvað. Ég hef lítil viðskipti stundað hér á Dumbarton fram til þess utan að fara með pakka í pósthúsið og svo keypti ég einu sinni kveikjara og klósetpappír í einni smávörubúðinni.
EN stuttu eftir ég kom var ég si svona að þramma heim eftir Dumbarton og rak þá augun í gínu úti í glugga í einni gömlufatastyrktarbúðinni. Hún stóð þarna hauslaus í svona líka fallegri svartri peysu með grænu munsti framan á (og reyndar líka með grænt hálsmen og græna hliðartösku - en það kemur þessari sögu ekkert við) og ég vissi ekki fyrr til en ég var orðin svona líka bráðskotin í þessari peysu. Mínar daglegu ferðir fóru nú í að athuga hvort peysan væri enn á sínum stað á þeirri hauslausu. Þegar ég fór að nálgast búðin byrjaði hjartað að slá aðeins hraðar og ég átti það til að andvarpa af feginleik þegar ég sá að hún var þarna ennþá. Hér loka búðir snemma og á götiunni minni setja búðareigendur stálgrindur fyrir alla glugga. Ég fann samt smá glufu á grindinni utan á minni búð og gat þannig fylgst með peysunni eftir lokunartíma.
Á leiðinni í skólann í dag gekk ég enn einu sinni fram hjá búðinni og kinkaði kolli til þeirrar hauslausu, snerist svo hugur, herti upp hugann og fór inn. Í búðinni var skrítin lykt og allt fullt af gömlum fötum, gömlum bókum og gömlu drasli. Búðarkonan var samt frekar ný og óörugg. Ég klifraði yfir haug af pappakössum, náði taki á peysuerminni og spurði: Má ég máta þessa peysu? Búðarkonan varð vandræðaleg en sagðist þurfa að ræða við yfirmann sinn. Ég hékk áfram á peysuerminni en hún hvarf á bak við tjald og kom svo aftur til baka enn vandræðalegri og spurði: Ætlarðu örugglega að kaupa hana? Ég varð þurr í munninum. Ég er ekki sterk í áhættufjárfestingum. Líklega er ég ein af fáum Íslendingum sem tók enga áhættu í góðærinu, keypti engan jeppa, fékk mér aldrei nýtt eldhús, tók aldrei myntkörfulán. Ég andaði rólega, kyngdi óttanum og sagði já. Búðarkonun hvarf aftur fyrir tjaldið að tala við yfirmanninn sem kom svo að vörmu spori og saman smelltu þær handleggjunum af þeirri hauslausu og fyrr en varði stóð ég með peysuna í höndunum. Þrátt fyrir fyrri skuldbindingar fór ég með peysuna í mátunarklefann og þar kom auðvitað í ljós að hún er dálítið ljót, eiginlega of stór, líklega úr akríl og ég lít mjög undarlega út í henni. Ég er kona sem stend við mitt svo ég borgaði þegjandi og hljóðalaust fyrir hana (næstum 800 krónur, fékk ókeypsi poka, þakkaði búðarkonunni fyrir og kvaddi. Þegar ég kom út var sú hauslausa komin í mosagræna vaffhálsmálspeysu. Mér fannst hún ótrúlega flott.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Æi Guðrún, þetta er svo hrikalega fyndið. Eru bara grænar peysur þarna? Eins gott að þú ert ekki af Reynistaðabræðakyninu.
Skrifa ummæli