Mæjó, mæjó, komið sunnudagskvöld og ég þar með búin að vera rúma viku í Glasgow. Og tíminn? Já hann hefur vissuleg flogið en samt er líka langt síðan ég staulaðist hér upp töppurnar á Kennoway Drive í fyrsta sinn. En ég er búin að læra margt og mikið á þessari viku ef maður telur vel.
Ég rata orðið næstum blindandi héðan úr vestrinu niður í bæ og til baka. Ég kanna að taka subbinn fram og til baka ef fæturnir eru þreyttir. Ég veit að það er ódýrast að versla í matinn í Morrisons, næst í Sainsbury og langdýrast hjá þeim félögum Marks og Spencer. Ég veit núna að þó að Glasgow sé ekki beint þannig að maður falli í stafi yfir fegurð hennar (fyrirgefðu Glasgow) þá tekur ekki nema 10 mínútur að keyra út í sveit sem er jafnfalleg ef ekki fallegri en íslensk sveit (fyrirgefðu Ísland) og þar eru meira að segja fjöll sem ég gjörþekki að heiman.
Ég veit núna að bæjarbúar hér eru með eindæmum hjálpsamir. Opni ég kortabókina mína niður í bæ eru þeir óðar komnir mér til aðstoðar og það stoppar þá ekkert að hafa ekki hugmynd um hvar þeir sjálfir eru staddir (sumir hafa snúið kortinu á hvolf á meðan þeir eru að leita). Ég veit líka að hitaelementið í mér er einhvern vegin öðru vísi stillt heldur en annrra í bænum. Á meðan ég skelf af kulda í rakanum og rokinu ganga fram hjá mér strákar á þunnum skyrtum og vottar ekki fyrir bláma á vörunum á þeim. Ég veit núna að þessum götum sem ég geng í dag skoppuðu sem börn sjálf Lúlú (to sir with love), Mark Knopler og Alex Ferguson (kannski ekki hönd í hönd þó ég sjái þau þannig fyrir mér).
Og ég veit núna að hún Rugby Love sem stakk handskrifuðum miða inn um bréfalúguna í gær sem á stóð að hún hefi þvegið gluggana hjá mér og að það kostaði 5 pund - er ekki brjáluð - heldur indæl gömul kona sem býr á hæðinni fyrir ofan mig. Hún tók á móti mér í gömlum greiðsluslopp, varð himinlifandi að hitta mig (Íslendinginn) og skrifaði nafnið mitt niður á miða til að geta lært það. Ég þorði hvorki að spyrja hana af hverju hún væri að þvo gluggana mína né hversu oft hún ætlar að þvo þá.
2 ummæli:
Æi, hvað það eru alltaf skemmtilegar færslurnar þínar Guðrún mín. Ylja sálartetrinu.
Þóra
Elsku Guðrún mín, mér finnst yndislegt að lesa skrifin þín, svo lýsandi og myndræn. Ekki skemmir "myndin af" Mrs. Love við gluggaþvottinn. Hlakka til framhaldsins. Gangi þér vel ljúfan mín! Bestu kveðjur frá mér og mínum, Sirrý
Skrifa ummæli