þriðjudagur, 22. maí 2007

Síðasta blogg

Hef ekki verið nógu duglega að blogga þessa síðustu daga. Hef verið svo upptekin af því að kveðja og búin að faðma svo mikið og kyssa að ég endaði með áblástur – sem er ekki akkúrat það sem mig langaði að flytja með mér heim. En hvað gerir maður ekki fyrir gott málefni.

Kvaddi félaga og vini með pulsum á föstudagskvöldið og skemmti mér konunglega þó ekki heyrðist mannsins mál fyrir hávaðasömum hópi á næsta borði. Kvaddi Patrek leigusala með kvöldverði á laugardaginn, kvaddi Ingrid og Julian dómara með kvöldverði á sveitakrá í þorpinu Brill (on the hill), kvaddi hina ítölsku Möru með pastarétti á mánudag, kvaddi staffið í staffaherberginu með kexi sama dag og svo sátum við stöllur Winifred og Michele meirar ásamt hinni rússnesu Natstösju yfr andabringum og súkkulaðiköku í gærkvöldi, skiptumst á gjöfum og vorum til skiptist leiðar og glaðar. Natasja ætlar að taka við herberginu mínu. Rakel í leikfiminni er eiginlega sú eina sem ég kvaddi án þess að bresta í át (þ.e. við borðuðum ekkert á okkar kveðjustund).

Búin að pakka niður í tvær þungar töskur og á síðustu dögum hafa streymt frá mér pakkar með bókum og blöðum á okurverði í gegnum póstinn. Winifred ætlar að keyra mig upp á strætóstöð og Michele fylgir með til að veifa.

Vaknaði samt fyrir allar aldir við fuglana fyrir utan kvistgluggann minn (og eina söngglaða fyllibyttu) og sólin skein svo ég varð bara að skjótast í stuttbuxurnar og hlaupa einn hring og kveðja Isisána. Og hún var að vanda falleg, ræðarar að reyna að vera samtaka í átakinu, gæsirnar og endurnar ennþá sofandi við bakkann svo ég þurfti næstum að hoppa yfir þær sumar. Christ Church skólinn glóði eins og á ljósmynd í sólinni og á bláum himninum sveif hvítur loftbelgur. Ef ég hefði verið í bíómynd hefði verið spiluð hástemmd músik undir – þeir hefðu að minnsta kosti retúserað út mæðina í mér. Þakkaði í huganum Oxford fyrir tímann hérna og lofaði að koma aftur. Og ég er farin heim til minna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er búin að vera að lesa þessa daga sem þú hefur skrifað og ég missti af. Alltaf jafnskemmtilegur lestur og takk kærlega fyrir allt bloggið mín kæra.

Verðum í sambandi hið fyrsta úr því að við erum nú báðar komnar á klakann okkar.

Það á að byrja að vinna á morgun og svo fara í bústaðinn eftir það. Kannski verður þú í þínum bústað og jafnvel Svala í sínum.

Knús, Þurý

Nafnlaus sagði...

Æ og getur þú ekki haldið áfram að blogga þótt þú sért komin heim skvísa mín.

Ég á eftir að sakna þess svo að lesa þetta að þú verður eiginlega að halda áfram þótt það væri nú ekki nema einu sinni í viku eða svo. Knús Þurý