miðvikudagur, 9. maí 2007
Ég á lítinn, skrítinn skugga
... í vændum í byrjun nóvembermánaðar. Vil reyndar meina að ég eigi örlítinn hlut í stjúpbarnabarninu Benjamín en af því sá myndarmaður á svo margar góðar alvöruömmur – og afa - hef ég meira setið í aftursætinu í uppeldinu. Þar sem þessi skuggi er væntanlegur í gegnum beinan móðurlegg vonast ég til að fá að sitja frammí og helst auðvitað í bílstjórasætinu - svona stundum.
Ætla samt að reyna allt sem ég get til að verða ekki ein af þessum óþolandi póstmódernískum ömmum sem verða svo æstar í ömmuhlutverkinu að allt hitt sem þær eru gufar hreinlega upp. Ég ætla aldrei að senda neinar myndir, aldrei að tala um hvað þetta barn sé betra en önnur, aldrei að þvinga upp á aðra ævintýrum um aldeilis ómerkilega viðburði í lífi þess (eins og að taka tennur), aldrei að hlaupa kvakandi guðminngóðurhvaðþettaersætt um í barnafatadeildum í útlöndum, aldrei að gefa barninu neinn óþarfa, aldrei að skrópa í vinnunni til að fá að passa smá. Nei ÉG ætla í mesta lagi að leyfa þessu barni að borða súkkulaði eftir að það er búið að bursta.
Krossa putta og vona af öllu hjarta að allt gangi vel og svo ætla ég að halda kúlinu og aldrei segja neinum hvað ég hlakka mikið til.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
10 ummæli:
ég er svo ekki að fara að sjá þig reyna að halda þessu kúli þínu... á ég nokkuð að segja frá því þegar þú fórst í gap og ég aðeins á 9 viku! og þegar þú dróst mig inn í búð að skoða vagna! nei mamma mín þú átt sko eftir að vera óð og engu skárri en hinar ömmurnar!
Ég er...(víst)... kúl!
Já hérna, til hamingju amma Guðrún og auðvitað líka mamman. Kúlið helst ekki, ég get alveg frætt ykkur um það. Er búin að ganga í gengum þennan pakka, nú eru árin að verða þrjú og ég er alveg jafnupptekin af bjarta barninu mínu, finnst hann alger guðsgjöf, fallegur, ótrúlega klár, blíður og yndislegur. Skemmtilegasta hlutverk sem ég hef fengið í hendur - að vera amma!
Grunar einhverveginn að þetta barn verði jafnmerkilegt og mitt!
Gangi þér sem best Ranka mín, það verður gaman að fylgjast með þessu.
Kveðja,
Svala
Heyrðu er þetta ekki fimmtugsafmælisgjöfin? Óvenjuflott gjöf.
Svala
Vá vá vá aldeilis, aldeilis frábært að heyra, ekki samt gera ráð fyrir því að ég fari að prjóna af mikilli samviskusemi eins og þú gerðir þegar mitt barnabarn kom í heiminn.Og ég er búin að henda saumavélinni svo að það er ekki von á saumum heldur. :-)
Innilega til hamingju kæra vinkona og til hamingju Ragnheiður mín. Þetta er náttúrlega upplifun æfinnar. Og já ég er viss um að mamma þín verður verst af öllum ömmunum sem komnar eru.
Mér þótti voðalega gaman að fá hann Reginn minn í heimsókn hérna út til mín þótt hann gerði nú sitt ítrasta til þess að trufla námshestinn sem var að reyna að skrifa eitthvað. Og ótrúlegt en satt tíminn æðir áfram og hann orðinn 7 mánaða svo ég hlýt að vera kona með reynslu orðið.
Knús til ykkar,
Þurý
Til hamingju báðar!
Ömmur eru alveg skelfilega fyndin fyrirbæri. Hefði ekki trúað því að töffarinn hún mamma mín gæti orðið svona meyr og mjúk, og sett allt sitt líf úr skorðum fyrir tæpan metra af hávaða. En hún nýtur þess í botn - og það mundu hiklaust gera líka Guðrún.
Kv. Eygló Svöludóttir
Takk:) ég vona svo innilega að hann komi ekki í afmælisgjöf til hennar mömmu, þá þyrfti ég að fara að fæða einhverja hlussu:)
Þetta er alveg æðislegt og mjög gaman, bara vont að hafa ekki mömmu sína heima:)
Ég er alveg að koma heim - reyndar með næstum allt garnið sem ég fór með út óprjónað! Og það er gott að geta leitað í smiðju svona reyndar ömmukerlinga sem vita hvernig á að taka á þessu!
Ertu að verða amma? Æði! Þú mátt sko alveg vera montin, barnabörn eru víst miklu æðislegri en manns eigin börn ... svona næstum því. Ég skal skoða myndir og kommenta á fegurð barnsins og njóta þess með þér.
Takk fyrir komuna á síðuna mína, alltaf velkomin. Nú þarf ég bara að passa að týna þér ekki. (vertu dugleg að kommenta hjá mér ...) Það er svo flókið að setja hlekki á Moggasíðurnar, finnst mér.
Innilega til hamingju stelpur. Gleymi því ekki þegar Ragnheiður og Þórdís komu í heimsókn til mín fyrir bráðum 9 árum með gjafir handa frumburðinum. Svo sætar.
Bestu kveðjur,
Harpa
Skrifa ummæli