þriðjudagur, 8. maí 2007
Fátt í fréttum
Það tekur því varla að senda út örlítinn helgarpistil frá óeðlilega langri helgi en látum vaða. Er búin að vera svolítið eins og maur um helgina – eitthvað að baslast fram og aftur með byrgðar en koma samt litlu sem engu í verk.
Fór að lesa á Bodleian bókasafninu eftir hádegi á föstudag og fannst það gaman. Nú fann ég bækurnar sem við dóttla fundum ekki forðum. Var búin að biðja um fullt af þeim í lestrarlán og þær biðu þarna allar eftir mér í alvarlegum hátimbruðum sal sem ég hafði sjálf valið til lesturs. Sat svo fram eftir degi í mjúkum lestrarklið, einstaka hnerri og smá skurk í stólfótum, annars dásamlega andleg þögn yfir stórum lesendahópi. Fékk stórt rautt spjald sem leyfði mér að fara á milli hæða með eina góða og ljósrita og kom hálfpíreygð út í dagsbirtuna aftur í dagslok.
Fór á fyrstu leiksýninguna hér: The Wonderful World of Disscocia og hafði afar gaman af. Hann var ekki eins ánægður feiti kallinn fyrir aftan mig sem rauk út í hlé æpandi: This is absalutely the worst theater I have ever seen! Hélt fyrst hann væri að æpa á mig sem hafði ekkert með þetta að gera en svo sneri hann sér í hringi og æpti þetta á okkur öll áður en hann hvarf rösklega á braut. Kíkti eftir honum eftir hlé en sá ekki. Sat við hliðina á góðlegum, gömlum manni á bekk G en þar sem það voru ekki margir fleiri á okkar bekk færði ég mig kurteislega aðeins frá honum eftir hlé.
Tók því svo rólega á laugardag, hljóp litla hring, fór í bæinn að leita að afmælisgjöf handa Hannesi og kom heim með tvennar sumarbuxur...á mig. Kannski gef ég honum aðrar þeirra. Eldaði lax fyrir okkur Winifred og við opnuðum hvítvínsflösku og dóluðum okkur yfir fiskinum langt fram á kvöld. Michele var með hina þýsku Karen í helgarheimsókn svo ég fékk tækifæri til að rifja upp stúdentsþýskuna – Ich bin Anton Brega geworden sein – og sem betur fer var Gulli þýskukennari fjarri góðu gamni. Hann var viðkvæmur maður og hefði grátið.
Á sunnudaginn fór að þykkna upp og ég hélt að það væri vont veður og sat sem fastast í kvistherberginu og las. Þegar allir voru stokknir úr húsi notaði ég tækifærið og fór í alvörubað með baðolíu og bók og alles. Þetta er munaður sem ég sakna að heiman en hef sjaldan tækifæri til að láta eftir mér hér. Hugsað að ég hafi verið rómversk í fyrra lífi - eða kannski bara froskur. Var boðið í kvölmat til Ingridar og Julians og bakaði því íslenskar pönnukökur og fór með bæði sparirjómadæmið og upprúllaðar. Ljúfasta kvöld með nágrönnum þeirra, skemmtilegum eldri hjónum sem bæði voru komin á eftirlaun. Höfðu bæði verið hjónabandsráðgjafar og þegar ég spurði hvort að þau hefðu unnið saman í þeirri ráðgjöf sagði Jó: Já eftir að ég skildi við manninn minn. Og ég skellihló og hélt að þetta væri brandari en engum öðrum stökk bros á vör.
Í gær tóku Bretar svo út sinn 1. maí. Ætlaði út að hlaupa upp úr átta en þá var þvílík úrhellisrigning að ég ákvað að hinkra við. Sat enn í náttfötunum uppi í kvistherbergi klukkan fimm þegar að Michele kom að reka mig niður í hádegismat svo hún gæti farið að huga að kvöldmat. Var þá búin að lesa nokkrar ritgerðir, skrifa ákkúrat 10 línur í kaflanum mínum en lesa 400 blaðsíður í nýjustu bók Lionel Shriver,The Post-Birthday World. Fannst ekki taka því að fara á fætur þá svo ég sat áfram í náttfötunum til miðnættis og eyddi restinni af deginum í löng skæptöl við mömmu, Hannes og Áslaugu. Af því að samtalstíminn á skæpinu er svo sýnilegur sást að ég hafði eytt tæpum hálfum vinnudegi í spjallað – og naut hverrar mínútu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Hæ hæ
Uxafuðuútlegðin senn á enda... á eftir að sakna bloggsins, nema að þú haldir því áfram hér heima. Þú slærð alveg Ellý við. :)
Kærar kveðjur úr HÍ
Harpa
Neiiiiii - er hún ekki alltaf að blogga um kynlíf vinkvenna sinna - það hlýtur nú að vera meira djúsí í dagraunir mínar. Farin að hlakka til að hitta þig og ykkur hin á miðstöðinni.
kær kveðja
Skrifa ummæli